Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Sigurður Líndal: Úr þrasheimi stjórnmálamanns

 

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi

   og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 
 
  
   

    

Sigurður Líndal: Úr þrasheimi stjórnmálamanns


Fyrst birt í Pressunni 27. ágúst 2009.

 
 


Sigurður Líndal.

                                 
1. Inngangur – Lesandinn undirbúinn.
 
Í Pressuna 15. ágúst skrifar Jón Baldvin Hannibalsson langa grein sem á að vera svar við athugasemdum sem ég festi á blað og birti í Fréttablaðinu 13. júlí 2009 með beiðni um að hann fyndi stað tveimur fullyrðingum.

Hin fyrri var á þessa leið:

Evróputilskipunin sem leidd var í lög 1999, í forsætisráðherratíð Davíðs kveður á um tvennt: Að útibú banka, hvar sem er á evrópska efnahagssvæðinu, starfi á ábyrgð heimalandsins. Það á við um bankaleyfi, eftirlit og lágmarkstryggingu á sparifjárinnistæðum. Þessi lágmarksinnistæðutrygging skal nema 20.887 evrum.

Hér mun Jón Baldvin hafa átt við lög nr. 98/1999 sem sett voru á grundvelli tilskipana 94/19EB og 97/9EB. Í þessum ummælum felst fullyrðing um ábyrgð ríkissjóðs Íslands á Icesave skuldum sem tilteknir einstaklingar stofnuðu til að eigin frumkvæði og ábyrgð.

Hin síðari var á þessa leið:

Sá galli er á heimatilbúinni (eftirá) lögskýringu nokkurra íslenzkra lögfræðinga, nefnilega að sparifjártryggingin takmarkist við tóman tryggingarsjóð, að sá lögfræðingur fyrirfinnst ekki utan landsteinanna, sem tekur mark á lögskýringunni.

Jón Baldvin byrjar á að búa lesandann undir það sem fylgir á eftir: að efasemdir um skuldbindingar vegna Icesave séu merkingarlítið stagl um aukaatriði og leiðrétting á grófum ósannindum beri vitni um tilefnislausa vanstillingu sem sé kannski ómissandi ívaf í lagaþras og stagl sem hann kallar þjóðaríþrótt Íslendinga. Hér er byrjað á að hlaða undir fordóma lesenda og draga athyglina frá rökum málsins. Þetta er algeng aðferð þegar röksemdir láta á sér standa.

Upphaf þessa máls eru framangreindar tvær fyrirspurnir. Þau orð fylgdu að það myndi bæta umræðuna ef Jón Baldvin vildi vísa nákvæmlega í ákvæði laganna fyrri fullyrðingu sinni til stuðnings. Jafnframt benti ég á að síðari fullyrðingin stæðist ekki. Þegar mánuður hafði liðið án svars nefndi ég hlutina réttum nöfnum – þetta var nú öll vanstillingin og lagaþrasið.

2. Skilmálar í tilskipunum innistæðutryggingar 94/19EB.

Jón Baldvin byrjar á að rekja málsatvik með þessum orðum:

Árið 1999 leiddi Alþingi í lög tilskipun Evrópusambandsins um lágmarkstryggingu sparifjárinnistæðna hjá fjármálastofnunum á EES-svæðinu. Í tilskipuninni segir m.a., að stjórnvöldum sé skylt að „tryggja að innistæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun".

Og hverjir eru nú skilmálarnir? Þá getur að finna í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19 EB um innlánatryggingakerfi:

Þar segir í 24. lið aðfararorða:

Það er ekki bráðnauðsynlegt í þessari tilskipun að samræma leiðirnar við fjármögnun kerfa sem tryggja innlánin eða lánastofnanirnar sjálfar, meðal annars vegna þess að lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa og einnig vegna þess að fjárhagsleg geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingaskuldbindingarnar. Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu.

Og síðan segir í 25. lið:

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við þessa tilskipun.

Er þetta ekki alveg skýrt? Tryggingarsjóði var komið á fót eftir réttum reglum án athugasemda, t.d. frá Eftirlitsstofnun EFTA.

Og Jón Baldvin heldur áfram:

Hér fer ekkert milli mála. Tilgangurinn er skýr. Túlkun þessarar tilskipunar er alls staðar talin tryggja sparifjáreigendum að lágmarki 20.887.- evrur á hverjum innistæðureikningi – nema á Íslandi, að sögn nokkurra íslenzkra lögfræðinga. Þeir segja að það standi hvergi skýrum stöfum, að tryggingin sé með ríkisábyrgð. Skuldbindingin ríkisins sé eingöngu í því fólgin að mynda sjóð, burtséð frá því hvort sjóðurinn geti staðið undir yfirlýstum skuldbindingum eða ekki.

Á þessari lagatúlkun fáeinna lögfræðinga byggja menn síðan þá ályktun, að íslenzkum stjórnvöldum sé ekki skylt að standa við ákvæðin um lágmarkstryggingu. Við getum einfaldlega sagt: Nei takk, við borgum ekki. Gleymið þið þessu. – Þegar tveir deila getur það orðið til góðs að setja sig í spor deiluaðilans. Hefðum við tekið því þegjandi og hljóðalaust, ef erlendur banki hefði boðið okkur upp á svona trakteringar? Vísað á tóman sjóð og langsóttar lögskýringar til að réttlæta ránið?

Samkvæmt upphafsorðum 25. liðar var skuldbatt íslenzka ríkið sig til að koma á fót tryggingarsjóði svo sem nánar er greint í tilskipuninni. Hvergi í tilskipun 94/19EB er mælt fyrir um sérstaka ábyrgð aðildarríkja á skuldbindingum tryggingarsjóðs. Reyndar segir allt annað í aðfararorðum tilskipunarinnar sem Jóni virðist fyrirmunað að skilja eða vill ekki skilja. Í tilskipun 94/19EB eru engin fyrirmæli um fjármögnun innistæðutryggingarsjóðanna og því er einstökum ríkjum látið það eftir, enda er henni hagað með ólíkum hætti. Eftirlitsstofnanir, eins og Eftirlitsstofnun EFTA hefur engar athugasemdir gert við það, hvernig staðið hefur verið að verki hér á landi, enda ekkert sem bendir til annars en innistæðutryggingarsjóðurinn hefði getað staðið við allar skuldbindingar við einstaka banka, þótt honum væri það um megn við allsherjar kerfishrun.

Jón Baldvin segir að við ættum að reyna að setja okkur í spor deiluaðilans og spyr hvort við hefðum „tekið því þegjandi og hljóðalaust, ef erlendur banki hefði boðið okkur upp á svona trakteringar? Vísað á tóman sjóð og langsóttar lögskýringar til að réttlæta ránið.“ Og síðan heldur hann áfram:

Málið er ekki svona einfalt. Hin heimatilbúna lögskýring er í bezta falli misskilningur, en í versta falli útúrsnúningur á tilskipuninni. Skuldbinding ríkisins er ekki bara sú að mynda sjóð. Skuldbinding ríkisins er sú að hér sé starfræktur tryggingarsjóður, sem getur staðið við skuldbindingar sínar um lágmarkstryggingu sparisjóðsinnistæðna. Það er það sem ríkisstjórnir á EES-svæðinu hafa skuldbundið sig til að sjá um, í nafni neytendaverndar.

Hann ræðir um langsóttar lögskýringar þegar skýr texti tilskipunar 94/19EB og þá sérstaklega 24.-25. liður aðfararorða hennar blasir við. Hann lætur hjá líða að taka á því að ekki er mælt fyrir um fjármögnun tryggingarsjóða í tilskipuninni. Ekki skýrir hann heldur hvers vegna Eftirlitsstofnun EFTA gerði ekki athugasemdir fyrr en allt stefndi í óefni. Loks lætur hann að því liggja að íslenzk stjórnvöld eigi að annast neytendavernd í Hollandi og Bretlandi. Hvað sem líður reglum ESB/EES þá verður að ætla að það leysi ekki einstök ríki undan að verja neytendur sína. Hefði ekki verið eðlilegt að þarlend yfirvöld hefðu brugðizt við þegar lítt kunnur aðvífandi erlendur banki lék lausum hala í skjóli framangreinds regluverks ESB í stað þess að fela slíkt eftirlit fjarlægu smáríki?

Í stað þess að fara í saumana á tilskipun 94/19EB og lögum nr. 98/1999 slær Jón Baldvin fram órökstuddum fullyrðingum um langsóttar lögskýringar og ræðir í einni bendu lagalega ábyrgð og siðferðilega, þannig að texti hans verður einn allsherjar hrærigrautur. Að þessu verður nánar komið síðar.

3. Allsherjar kerfishrun.

Eins og að framan greinir er ekkert sem bendir til annars en sjálfseignarstofnunin Tryggingarsjóður innistæðueigenda hefði getað staðið við skuldbindingar sínar við öll áföll sem vænta mætti við eðlilegar aðstæður í hagkerfinu. Þess er ekki að vænta að gert hafi verið ráð fyrir að tryggingarsjóðirnir réðu við alþjóðlega bankakreppu eða allsherjar kerfishrun. Þá hefði án efa verið reynt að taka á því. Þó verður að hafa í huga að illgerlegt er að móta fyrirfram skilmerkilegar reglur þegar ófyrirsjáanlegir atburðir gerast svo sem styrjaldir, uppreisnir, náttúruhamfarir eða efnahagsöngþveiti, þannig að grunnforsendur löggjafarinnar bresta. Þá eru mál leyst á grundvelli neyðarréttarsjónarmiða og hvert tilfelli metið sérstaklega.

Fordæmi hefur verið mótað sem síðan má hafa til hliðsjónar og leiðsagnar. Nærtæk fordæmi eru til í réttarsögu Noregs og Íslands.


4. Regluverk ESB neyddi ekki landsbankamenn til fjáröflunarstarfsemi í Bretlandi og Hollandi í formi útibús.

Enn heldur Jón Baldvin áfram og segir að regluverk ESB hafi ekki neytt bankastjóra og bankaráð Landsbankans til að reka fjáröflunarstarfsemi í Bretlandi og Hollandi í formi útibús. Regluverkið neyddi engann. Það bauð upp á þessa tilhögun undir merki fjórfrelsisins án þess að tryggja aðhald sem virkaði. Sá er tilgangur lagareglna að fella samskipti manna í ákveðinn farveg. Í stað aðhalds gaf regluverkið mönnum nánast lausan tauminn.

Ef hætta hefði talizt stafa af starfsemi útibúa Landsbankans í Bretlandi og Hollandi sem stjórnvöldum þar í landi virðist hafa verið ljós þegar haustið 2008, jafnvel fyrr, er með ólíkindum að þau hafi ekki haft heimildir í eigin landslögum til að vernda þegna sína og stöðva starfsemi Landsbankans. En skýringin er væntanlega sú að slíkar aðgerðir hefðu líklega valdið áhlaupi á bankakerfið og riðlað því. Sýnir þetta enn einn galla á regluverki ESB/EES og slælegt eftirlit og aðhald.

Jón Baldvin kennir vanrækslu íslenzkra stjórnvalda um að starfsemi Landsbankans var ekki flutt í brezk og hollenzk dótturfélög, en íslenzk stjórnvöld hafi hafnað allri aðstoð Breta og Hollendinga til að koma því í kring. Seðlabanki Hollands og fjármálaeftirlit Bretlands hafi boðizt til að yfirtaka hvort tveggja eftirlitið og sparifjártrygginguna – en íslenzk stjórnvöld hafnað því. Og niðurstaðan er þessi:

Með því að fallast á tilboð yfirvalda í Bretlandi og Hollandi og með því að knýja forráðamenn Landsbankans til þess að færa starfsemina í dótturfyrirtæki, var íslenzkum stjórnvöldum í lófa lagið að firra íslenzka skattgreiðendur allri ábyrgð á Icesave. Þeim stóð þetta til boða. Þau höfðu úrræði sem dugðu. En þau sváfu á verðinum. Því fór sem fór.

Önnur lýsing er í athugasemdum við frumvarp ríkisstjórnarinnar um ábyrgð á Icesave-reikningunum, sbr. þskj. 209, þar sem segir meðal annars:

Fyrir hrun bankanna höfðu  brezk stjórnvöld unnið að því um nokkurt skeið ásamt íslenzkum stjórnvöldum að fá Landsbankann til að flytja innstæður svokallaðra Icesave-reikninga úr útibúinu í brezkt dótturfélag. Brezk stjórnvöld gerðu mjög stífar kröfur um flutning eigna Landsbankans til Bretlands og um tímamörk fyrir eignaflutninginn. Íslenzk stjórnvöld unnu að því að Landsbankanum yrði heimilað að flytja innstæður í brezkt dótturfélag strax, en að Landsbankanum yrði jafnframt gefinn eðlilegur frestur til skipulegs flutnings á eignum á móti innstæðum þannig að fjármögnunarsamningar bankans röskuðust sem minnst.

Fulltrúar stjórnvalda beggja landa áttu fund í London 2. september 2008 þar sem málið var rætt. Ekki náðist að ljúka flutningnum fyrir hrun bankanna. Hollendingar áttu fund með forstjóra FME haustið 2008 vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af stöðu Landsbankans. Einnig höfðu hollenzk yfirvöld samband við yfirmenn Landsbankans og lýstu áhyggjum af stöðu mála.“ (kap. 3.4).


Um þetta segir Jón Baldvin að fjármálaeftirlitið hafi gert hálfkaraðar tilraunir til að knýja Landsbankann til að breyta rekstrarforminu í dótturfyrirtæki – og stjórnvöld sofið á verðinum. Athygli vekur að hann gerir ekki sérstakar athugasemdir við framangreinda útlistun; hann tekur ekki á þeim skýringum að reynt hafi verið að færa reksturinn í Bretlandi og Hollandi í dótturfyrirtæki. Hvort rétt sé að kalla þessar tilraunir hálfkaraðar er háð huglægu mati og fullyrðing um að stjórnvöld hafi sofið á verðinum er röng. En hvað sem þessu líður bar Jóni Baldvin að rökstyðja fullyrðingar sínar, taka efnislega á framangreindum skýringum og eftir atvikum hrekja þær. Í stað þess viðhefur hann innihaldslausa orðræðu sem verður eins og vindhögg út í loftið.

5. Löglega bindandi yfirlýsingar.

"Hvað með »löglega bindandi yfirlýsingar forystumanna« á lagmarks-tryggingarverndinni sem Sigurður lýsir eftir?" spyr Jón Baldvin. Áður en lengra er haldið verður að leiðrétta fyrirspyrjanda: Ég lýsti ekki eftir lágmarks-tryggingarverndinni – hún liggur ljós fyrir eins og þegar hefur verið greint. Ég lýsti eftir »löglega bindandi yfirlýsingar forystumanna« þjóðarinnar um ábyrgð íslenzka ríkisins og þar með þjóðarinnar á skuldum sem tilteknir einstaklingar hefðu stofnað til, án þess að íslenzk stjórnvöld og því síður íslenzkur almenningur hefði haft þar forgöngu. Spurningunni er sem sé ekki svarað, svo sem nánar verður vikið að hér á eftir.

Jón Baldvin segist hafa mýmörg dæmi, en ætlar að láta nægja að nefna tvö. Hið fyrra útlistar hann þannig:

Þann 14. nóv. samþykkti þáverandi ríkisstjórn svokölluð umsamin viðmið („agreed guidelines“) fyrir samningaviðræður við stofnanir ESB og fulltrúa hollenzkra og brezkra stjórnvalda. Í hinum umsömdu viðmiðum segir m.a. að „tilskipunin um innistæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um evrópska efnahagssvæðið ... og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.“ – Þar með var hin séríslenzka lögskýring um, að innistæðutryggingin gilti ekki á Íslandi endanlega gefin upp á bátinn.

Allur mætti texti þessi vera skilmerkilegri, en hér mun átt við svokölluð Brüssel-viðmið frá 14. nóvember 2008 og með tilskipuninni um innstæðutryggingar er þá átt við tilskipun 94/19EB.

Síðan heldur hann áfram og kemur að hinu síðara dæmi. Það er á þessa leið:

Hafi eitthvað leikið á tveim tungum um skuldbindingar íslenzkra stjórnvalda um þessi efni, þá tók Davíð Oddsson þáverandi seðlabankastjóri, af öll tvímæli um slíkt með yfirlýsingu til framkvæmdastjórnar IMF daginn eftir, þann 15. nóv. 2008, sem hann undirritaði ásamt þáverandi fjármálaráðherra, Árna Mathiesen. Þar segir m.a.: „Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innistæðukerfisins gagnvart öllum innlánshöfum.

Jón Baldvin gætir þess vandlega þegar hann vitnar til heimilda máli sínu til stuðnings, að staðnæmast áður en komið er að kjarna málsins. Í fyrra dæminu segir hann að tilskipunin um innistæðutryggingar gildi á Íslandi með sama hætti og hún gildi í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Í hinu síðara að Ísland hafi heitið að virða skuldbindingar á grundvelli innistæðutryggingarkefisins gagnvart öllum innlánshöfum.

Virðing fyrir því að standa við skuldbindingar snýst hér ekki um ríkisábyrgð, heldur að koma á fót innistæðutryggingarkerfi  sem felur í sér að stofna tryggingarsjóð svo sem mælt er í tilskipun 94/19/EB og nánar er gerð grein fyrir í 2. kafla hér að framan. Ef sú trygging nægir ekki og ekki tekst að útvega tryggingarsjóði lán birtist enn einn gallinn á regluverki ESB/EES nema því sé játað að regluverkið sé ekki í stakk búið til að taka á lítt fyrirsjáanlegum atburðum eins og kerfishruni. Við því verður þá að bregðast með öðrum hætti en innan regluverks ESB/EES. En hvað sem þessu líður er ljóst að Íslendingar gengust undir  regluverk ESB/EES undir forystu Jóns Baldvins með kostum þess og göllum. Viðbrögð hans sýna að hann sér ekki gallana eða afneitar þeim og sökudólgarnir eru íslenzk stjórnvöld.

Með þessum hætti víkur Jón Baldvin sér undan að svara því sem ég lýsti eftir. Hann kýs að ræða almennt um skuldbindingar Íslands, en forðast eins og heitan eldinn að gera grein fyrir því, hvað þær feli í sér. Hann talar eins og í tilskipun 94/19/EB sé mælt fyrir um ríkisábyrgð þótt það eigi þar enga stoð.

Í athugasemdum við frumvarpið um ábyrgð ríkisins á Icesave reikningunum (þskj.204) er þess hvergi getið að hinum umsömdu viðmiðum fylgi ríkisábyrgð (sbr. kafla 9.3). Reyndar var allt annað uppi á teningnum þegar Alþingi ályktaði 5. desember að leiða til lykta samninga um innistæður í útibúum íslenzkra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli hinna sameiginlegu viðmiða. Vitnað er til álits meirihluta utanríkismálanefndar þar sem tekið er fram að skýra lagaskyldu skorti um ábyrgð íslenzka ríkisins umfram það sem Tryggingarsjóður innistæðueigenda gæti staðið undir (sbr. kafla 9.5).

Ef Ísland hefði tekið á sig ábyrgð með hinum umsömdu viðmiðum hefði þá þurft að gera sérstakan samning um  ríkisábyrgð 5. júní 2009 sem undanfarið hefur legið fyrir Alþingi?

Nú liggja fyrir fjölmargar yfirlýsingar forvígismanna Íslendinga um stuðning við tryggingarsjóð, nánar tiltekið að aðstoða sjóðinn við að afla nauðsynlegs fjár – meðal annars með lántökum – svo að hann geti staðið við skuldbindingar um lágmarkstryggingu innistæðna. Ef orð kynnu að hafa fallið á annan veg, geta þau ekki fellt ábyrgð á ríkissjóð, þar sem slík ábyrgð verður að hljóta samþykki Alþingis. Í mikilvægum milliríkjaviðskiptum er gengið úr skugga um umboð og réttarstöðu viðsemjenda, þannig að þetta hefur bæði Hollendingum og Bretum verið ljóst. Reyndar skiptir grandleysi ekki máli – slíkt loforð er ekki bindandi.

En ef Jóni Baldvini er annt um sjálfsvirðingu sína, ætti hann að gefa orðum sínum gaum. Með ummælum um bindandi yfirlýsingar íslenzkra ráðamanna um ríkisábyrgð – þótt hann hafi ekki fundið þeim stað – er hann að saka þá um að virða ekki stjórnarskrána. Ríkisábyrgð hlýtur að fylgja lántaka og fyrir henni verður væntanlega setja tryggingu og til þess þarf samþykki Alþingis, sbr. 40.-41. gr. stjórnarskrárinnar, sbr einnig 21. gr. Ráðherra sem hefði gefið yfirlýsingu um stórfelldar fjárhagsskuldbindingar með ábyrgð íslenzka ríkisins án fyrirvara um samþykki þingsins kynni að baka sér ábyrgð samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð og verða stefnt fyrir Landsdóm. Jón Baldvin er með orðum sínum að saka forystumenn Íslendinga, þar á meðal ráðherra um stórfelld lögbrot. Þrátt fyrir það að vera ekki bindandi er augljóst að slíkar yfirlýsingar hefðu skaðað íslenzka ríkið.

6. Dómsmeðferð hafnað.

Nú hafa bæði Bretar og Hollendingar hafnað allri dómsmeðferð hverju nafni sem hún nefnist. Þetta skýrir Jón Baldvin með þeirri spurningu „hvort nokkur ríkisstjórn í fullvalda ríki mundi sjálfviljug fallast á aðild að dómsmáli, sem – burtséð frá niðurstöðu dómstólsins – gæti hrundið af stað áhlaupi á gervallt bankakerfi viðkomandi lands.“

Hér er nú komið að kjarna málsins. Þótt enginn lögfræðingur utan landsteinanna fallist á „heimatilbúnar“ skýringar fáeinna íslenzkra lögfræðinga sem Jón Baldvin ítrekar hvað eftir annað – hvað er þá að óttast? Hann svarar: Hinar „heimatilbúnu“ skýringar gætu hrundið af stað áhlaupi á gervallt bankakerfi hlutaðeigandi lands, eða með öðrum orðum Íslandi er neitað um sjálfsagðan rétt vegna hættu á hruni bankakerfis ef látið er reyna á hinar „heimatilbúnu“ skýringar sem enginn tekur mark á. Þær höfðu með öðrum orðum þó það vægi að ekki þótti hættandi á að leggja þær fyrir hlutlausan dóm eða bera þær undir hóp valinkunnra lögfræðinga sem gefið væri hæfilegt svigrúm og ynnu eftir skilmerkilegum málsmeðferðarreglum.

Að tillögu þáverandi fjármálaráðherra á fundi fjármálaráðherra ESB og EFTA í byrjun nóvember 2008 féllust Bretar og Hollendingar reyndar á að leggja málið í gerðardóm, en fulltrúi Íslendingar „skrópaði“ að sögn Jóns Baldvins.

Það tók hina aðeins sólahring að komast að þeirri niðurstöðu, að íslenzka ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslu lágmarkstrygginga skv. tilskipuninni, dygðu eignir tryggingarsjóðsins ekki til (sama heimild, bls 242, þ.e. Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson)

segir Jón Baldvin með sýnilegri velþóknun og spyr síðan:

Hvers vegna ætli ríkisstjórn Íslands hafi runnið af hólmi? Ástæðurnar voru tvær: Annars vegar fluttu íslenzkir embættismenn ráðherrum þau boð, að enginn – bókstaflega enginn – tæki mark á hinni íslenzku lögskýringu, eins og rækilega hefur komið á daginn. Hin ástæðan er sú, að ríkisstjórnin þorði ekki, réttilega, að taka þá áhættu, að niðurstaðan yrði íslenzkum skattgreiðendum miklu dýrari en unnt væri að ná með samningum.

Eins og fyrr segir féllust Bretar og Hollendingar á að leggja málið fyrir gerðardóm. Aðdragandinn var sá að á fundi í ráðherraráði ESB 4. nóvember 2008 var gerð tilraun til að ná samkomulagi um að leggja málið í gerðardóm, þannig að dómurinn yrði skipaður fulltrúum tilnefndum af ráðherraráði ESB, framkvæmdastjórn ESB, eftirlitsstofnun EFTA og EFTA, en þann fulltrúa áttu íslenzk stjórnvöld að tilnefna.

Auk þess skipaði Seðlabanki Evrópu oddamann. Þremur dögum síðar – 7. nóvember – sögðu íslenzk stjórnvöld sig frá gerðardóminum og voru tilgreindar ástæður þær, að umboð dómsins væri of víðtækt, dóminum væri gefinn of skammur tími, að niðurstaðan væri bindandi og málsmeðferðarreglur ófullnægjandi. Fulltrúar gerðardómsins komu eigi að síður saman og gáfu samdóma álit eftir rúmlega sólahrings skoðun að íslenzka ríkinu bæri að ábyrgjast lágmarkstryggingu samkvæmt tilskipuninni um innistæðutryggingu, ef eignir Tryggingarsjóðs innistæðueigenda og fjárfesta dygðu ekki til. (Nefndarálit meirihluta fjárlaganefndar, þskj. 335, bls. 4).

Athygli vekur hversu skamman tíma það tók fyrir gerðardóminn að komast að niðurstöðu og vekur það grunsemdir að hann hafi fyrirfram myndað sér ákveðna skoðun. Að vísu má ætla að gerðardómurinn hafi dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði Breta og Hollendinga að því leyti sem samrýmanlegt hafi verið framkomnum gögnum, úr því að Íslendingar höfnuðu dóminum. En ekki eyðir það fyrrnefndum grunsemdum, enda fer þar lítið fyrir rökstuðningi.

Hér hefur Jón Baldvin lítt rökstudda niðurstöðu gerðardóms sem fengin er á rúmum sólahring sem sönnun þess að enginn taki mark á lagalegum rökum Íslendinga. Og hann er svo fyrirfram sannfærður að hann sér ekki ástæðu til að huga að röksemdum Íslendinga fyrir því að hafna þessari málsmeðferð, leggja mat á þær og  gagnrýna ef hann hefði talið rök standa til. Í þess stað beinir hann orðaflaumi sínum framhjá málsefninu og afgreiðir málið með innihaldslausum upphrópunum um markleysi röksemda Íslendinga. – Og þá er komið að því að ræða nánar hina heimatilbúnu séríslenzku lögskýringu sem Jóni Baldvini verður svo tíðrætt um.

7. Heimatilbúin séríslenzk lögskýring.

Í grein sinni í Morgunblaðinu 7. júlí sl. fullyrti Jóni Baldvin að ekki fyndist neinn lögfræðingur utan landsteinanna sem taki mark á „heimatilbúinni“ skýringu nokkurra íslenzkra lögfræðinga um að ábyrgð væri takmörkuð við „tóman“ tryggingarsjóð.

Ég benti honum á, að undir þessa „heimatilbúnu“ skýringu nokkurra íslenzkra lögfræðinga hefðu tekið þrjár erlendar lögmannsstofur – tvær brezkar, Miscon de Reya og Lowells í London og ein belgísk Schiödt í Brüssel. Raunar hafa nú fleiri bætzt við og má þar nefna Lee Bucheit, lögmann í New York og kennara við Harvard og Yale Háskóla. Og hvernig brást nú Jón Baldvin við?

Sigurður segir það ranghermi, að ekki sé tekið mark á hinni „heimatilbúnu“ lögskýringu utan landsteinanna og nefnir í því tilviki þrjár erlendar lögmannsstofur, sem voru tilbúnar að reka málið fyrir Íslands hönd, ef stjórnvöld hefðu þorað að taka þá áhættu. Nú hef ég að vísu aldrei haldið því fram, að ekki sé unnt að leigja lögmenn til þess að þjóna hvaða málstað sem vera skal – fyrir hæfilega þóknun að þeirra mati.

Er þetta svar við leiðréttingu minni á þeirri fullyrðingu Jóns Baldvins að enginn lögfræðingur utan landsteinanna taki mark á hinni heimatilbúnu lögskýringu? Nú taka erlendir lögfræðingar undir hana, að sögn Jóns Baldvins, gegn hæfilegri þóknun, þ.e.a.s. ef þeir fá borgað fyrir – m.ö.o. framangreindir lögmenn ganga svo langt í peningahyggju að þeir selja sig fyrir hvaða málstað sem er. Hvað á að kalla slíka iðju? En Jón Baldvin gætir ekki að einu: Slík þjónusta getur komið í koll þeim sem tekur hana að sér. Líklegast væri að dómstóll vísaði máli frá sem enginn fótur væri fyrir og lögmenn sem að slíku máli stæðu yrðu víttir og hugsanlega sektaðir fyrir tilefnislausa málsýfingu, auk þess sem þeir glötuðu hvorutveggja viðskiptum og virðingu.
Hér má minna á að sjálfstæð lögmannastétt sem lýtur ströngum siðareglum er ein meginstoð réttarríkisins, en í þá átt hefur þróunin stefnt í meginatriðum á vesturlöndum þótt ekki hafi hún verið snurðulaus með öllu. Auk lagasetningar hefur lögskipan vesturlanda mótazt í rökræðum lögmanna og dómum dómstóla, jafnhliða því sem réttarríkið hefur styrkzt og stjórnmálastarfsemin fengið aukið aðhald. Hún hefur síðan orðið undirstaða hagkerfis og loks tæknikerfis landanna. Þetta er meðal þess sem skipað hefur vesturlöndum í forystu. Margar þjóði utan Evrópu hafa síðan tekið réttarkerfi vesturlanda til fyrirmyndar.

Þegar hann hefur gefið framangreindum lögmönnum þá einkunn að þeir séu falir til hvaða verka sem er, heldur hann áfram:

„Ísland er einangrað í Icesave-deilunni“. Þetta er upphafið á minnisblaði embættismanna utanríkisráðuneytisins, dag. 13. nóv. 2008, um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi í Icesave-deilunni. Síðan er því lýst: "að enginn hafi tekið undir lagarök íslenzkra stjórnvalda, ekki einu sinni frændþjóðir á Norðurlöndum, [og ríki Evrópusambandsins hefðu þverneitað að hefja samningaviðræður eða leggja málið í dóm, „enda myndi það við núverandi aðstæður hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir bankakerfi í öllum aðildarríkjum bandalagsins“. Í ofanálag kom enginn dómstóll sterklega til greina; Ísland var ekki aðili að Evrópudómstól ESB og hvorki Bretland né Holland áttu aðild að EFTA-dómstólnum.

Í minnisblaðinu var þess einnig getið að síðustu daga hefði Íslendingum verið sagt að þeir yrðu að átta sig á að þeir væru ekki einir í vanda: „Samstarfsríki Íslands hafa bent á að skuldaaukning annarra ríkja vegna björgunaraðgerða eigin bankakerfa er sízt minni en væntanleg skuldaaukning´Íslands vegna Icesave, og Ísland muni ekki standa verst þegar upp er staðið.“ Þá væri augljóst að deilan um Icesave réði því að beiðni um aðstoð Alþjóða-gjaldeyrissjóðsins hefði ekki enn verið svarað í Washington og fullreynt væri að engu yrði breytt í Brüssel.
]..
(sjá Guðni Th.: Hrunið, bls. 251)-261).

Síðan heldur Jón Baldvin áfram að vitna í minnisblaðið:

Að mati framkvæmdastjórnar ESB og aðildarríkja þess ... er tími lögfræðilegra útlistana liðinn. Búið er að fara yfir Icesave-málið út frá lagalegum forsendum og niðurstaðan er ljós: Ísland er einangrað í þeirri afstöðu sinni, að lagaleg óvissa ríki um málið og hefur lagalegum sjónarmiðum íslenzkra stjórnvalda þar að lútandi verið hafnað alfarið. Fulltrúi ESB-ríkis orðaði þetta svo: „You have to face it ... nobody agrees with you that there is legal uncertainty ... not even your closest friends support you  your credibility has suffered“.
Þetta var staðan að mati utanríkisráðuneytisins, þegar þann 13. nóvember 2008.

Hér verður að gefa því sérstaklega gaum að Jón Baldvin sleppir úr minnisblaðinu textanum sem er feitletraður (rauður) og gert er lesanda til glöggvunar. Og þar er skýringin á því hvers vegna enginn hafi tekið undir lagarök íslenzkra stjórnvalda og tími lögfræðilegra útlistana sé liðinn: það voru ekki lagarök, heldur myndi það hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir bankakerfi í öllum aðildarríkjum bandalagsins ef hlustað væri á hin „heimatilbúnu“ rök. Svo þung hafa þau þó verið á metunum. Valdi var teflt gegn lögum og lög víkja fyrir valdi.

8. Hver ber ábyrgð?

Jón Baldvin er ekki í neinum vafa um það hver beri ábyrgð á því hvernig komið er. Hann segir:

Þeir sem bera ábyrgð á Icesave-klúðrinu eru margir: Bankastjórar og bankaráðsmenn Landsbankans, eftirlitsstofnanir íslenzka ríkisins, svo sem seðlabanki og fjármálaeftirlit, og síðast en ekki sízt oddvitar stjórnarflokka og ráðherrar í ríkisstjórn um Íslands, a.m.k. á tímabilinu 2006-2008. Fórnarlömbin í málinu eru brezkir og hollenzkir sparifjáreigendur og að lokum íslenzkir skattgreiðendur. Þeir sitja uppi með skuldina vegna ábyrgðarleysis og mistaka íslenzkra stjórnvalda sem sannarlega hefðu getað forðað þessu slysi, eins og hér hefur verið sýnt fram á.

Hann bætir síðan við að ég gangi fram fyrir skjöldu og mæli því bót að forráðamenn Íslands komi óorði á land og þjóð með því að hlaupast frá skuldbindingum sínum. Síðan fylgir eftirfarandi tilvitnun í grein mína Að standa við alþjóðlegar skuldbindingar:

Nú mega það kallast firn mikil, ef heil þjóð – og þá einnig komandi kynslóðir – eigi að ábyrgjast himinháar greiðslur, sem einstaklingar hafa með umsvifum sínum stofnað til, án þess að íslenzk stjórnvöld (leturbreyting JBH) og íslenzkur almenningur hafi haft þar forgöngu. Ef íslenzka ríkið, og þar með þjóðin, ætti að bera slíka ábyrgð, yrði hún að styðjast við skýr fyrirmæli í lögum, fjölþjóðlegum samningum, eða löglega bindandi yfirlýsingar forystumanna þjóðarinnar.

Og allt er þetta til staðar að mati Jóns Baldvins.

1. Lagafyrirmæli. Þetta er rangt, sbr. 2. kafla.

2. Fjölþjóðlegir samningar. Þetta er rangt, sbr. sama kafla.

3. Löglega bindandi yfirlýsingar forystumanna. Þetta er rangt, sbr. 5. kafla.

4. Loks segir:

Fráleitt er að halda því fram, að íslenzk stjórnvöld hafi ekki haft forgöngu um málið. Alþingi lögleiddi skuldbindinguna og samþykkti 5. des. 2008 að ganga til samninga á grundvelli tilskipunarinnar. Ríkisstjórn landsins samdi um það við málsaðila með hinum svokölluðu „agreed guidelines“ að fara samningaleiðina og viðurkenndi ótvírætt, að lágmarkstrygging sparifjárinnistæðna gilti á Íslandi með sama hætti og í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Textinn mætti vera skilmerkilegri. Jón Baldvin segir fráleitt að halda því fram að íslenzk stjórnvöld hafi ekki haft forgöngu um málið. Hvaða mál? Ég segi að íslenzk stjórnvöld og almenningur hafi ekki haft forgöngu um umsvif íslenzkra fjármálamanna í útlöndum, en Jón Baldvin sveigir athugasemdina frá orðum mínum og ræðir í þess stað um hin svonefndu umsömdu viðmið og segir að með þeim hafi íslenzka ríkið tekið á sig ábyrgð á skuldum vegna Icesavereikninga. Þetta er rangt, sbr. 5. kafla, og að auki ekki í neinu samhengi við orð mín. Forganga stjórnvalda var fólgin í að Ísland gekkst undir EES-samninginn með kostum hans og einnig göllum eins og tekið er fram í 5. kafla,

Í umræðu beitir Jón Baldvin gjarnan þeirri aðferð að taka ekki á rökum fyrir niðurstöðu sem honum eru ekki þóknanleg. Í stað gagnraka beinir hann máli sínu í aðra átt framhjá rökum viðmælanda síns svo að úr verður eintal, iðulega kryddað stóryrðum. Þannig bregzt hann t.d. við skýringum á því hvers vegna innistæður Landsbankans höfðu ekki verið færðar í brezk dótturfélög, sbr. 4. kafla hér að framan og að Íslendingar höfnuðu gerðardómsmeðferð þeirri sem ákveðin hafði verið 4. nóvember 2008 og Íslendingar sögðu sig frá 7. nóvember, sbr. 6. kafla.

9. Nánar um lagarök.

Þegar lagarök Jóns Baldvins bresta vísar hann til greinar Hróbjarts Jónatanssonar í Morgunblaðinu 11. ágúst 2009. Í greininni er raunar tekið skýrt fram að í tilskipuninni (þ.e. tsk. 94/19EB) sé ekki mælt berum orðum fyrir um ríkisábyrgð eins og Jón Baldvin hefur eindregið látið liggja að. Síðan veltir Hróbjartur því upp hvort íslenzk stjórnvöld hafi staðið rétt að verki við að lögleiða tilskipun 94/19EB og hvort eftirlit með bönkum hafi verið fullnægjandi. Eftirlitið hafi verið ófullnægjandi og hann er vantrúaður á að viðbáran um kerfishrun sé á nægilega traustum grunni. Þetta kunni að leiða til skaðabótaskyldu íslenzka ríkisins. Síðan tekur hann fyrir siðferðileg rök sem rædd verða síðar. Niðurstaðan er sú að af tvennu illu sé heppilegra að semja en leggja ágreining undir dómstóla. Hér er á engan hátt tekið undir málflutning Jóns Baldvins og flest sagt með fyrirvörum.

Ekkert er við það að athuga þótt menn velti lagarökum fyrir sér og gefi öllum röksemdum gegn málstað Íslendinga fyllsta gaum. Þetta gera lögmennirnir á hinum erlendu lögmannsstofum sem nefndar hafa verið til þessarar sögu. Þeir hafa reifað röksemdir með og móti því sem íslenzk stjórnvöld hafa haldið fram, en niðurstaða þeirra verið sú að Íslendingar hafi teflt fram fyllilega frambærilegum rökum.

Hróbjartur leggur megináherzlu á að eftirliti hér hafi verið áfátt og hefur þar sitt hvað til síns máls. En eftirlit hefur víðar brugðizt en á Íslandi, bæði í Hollandi og Bretlandi, sbr. 2. kafla hér að framan, og árum saman gerði Eftirlitsstofnun EFTA engar athugasemdir. Verður ekki dregin af því önnur ályktun en sú að stofnunin hafi talið tryggingarsjóð geta staðið undir skuldbindingum við allar eðlilegar aðstæður og það sem á kynni að vanta mætti jafna með lántökum. Síðast en ekki sízt bauð regluverk EES upp á svigrúm án nægilegs aðhalds. Og svo brothætt var kerfið að hætta var talin á að það hryndi ef látið yrði reyna á lagarök. Loks má spyrja hvort erlendir eigendur innlána hafi sýnt eðlilega aðgæzlu með því að moka peningum í lítt þekktan banka úr fjarlægu landi. Þegar nú þetta er haft í huga er þá ekki eðlilegt að skipta ábyrgðinni milli þeirra ríkja sem helzt eiga hlut að máli, Íslands, Bretlands og Hollands – og jafnvel Evrópusambandið tæki sinn skerf, en þetta er sérstakt athugunarefni. (Sjá Stefán Má Stefánss0n og Lárus Blöndal: Er Evrópusambandið bótaábyrgt? Morgunblaðið 14. desember 2008).

Engu af þessu gefur Jón Baldvin minnsta gaum í ákefð sinni að velta allri ábyrgð yfir á íslenzka ríkið og allan almenning í landinu eins og sjá má í textanum sem vitnað var til í upphafi 8. kafla. Og þetta sækir hann af slíku kappi að hann sinnir hvorki augljósum sannindum né réttum rökum eins og hér hefur verið sýnt fram á.

Og málstaður Íslands er nú ekki verri en svo, að þær raddir heyrast æ oftar í brezkum fjölmiðlum, meðal annars í ritstjórnargrein Financial Times að fleira hafi brugðizt en íslenzk stjórnvöld – hvorki brezk né hollenzk stjórnvöld hafi haldið vöku sinni og í því samhengi hefur blaðið hvatt til þess að þjóðirnar deili byrðum sínum jafnar en gert sé með Icesave-samningunum. Svipaðar raddir heyrast frá Hollandi, meðal annars í ritstjórnargrein blaðsins Volkskrant. Reyndar þyrfti að greina meira frá skrifum erlendra blaða um þessi efni en gert er.

En Jón Baldvin hefur kosið að taka sér stöðu með harsvíruðustu öflum í Bretlandi, með Brown forsætisráðherra og Darling fjármálaráðherra í fremstu röð, sem láta einskis ófreistað að knésetja íslenzku þjóðina. Og þetta gerir hann af slíkum ákafa að hann skirrist ekki við að styðja mál sitt við uppspuna og ósannindi málstað þeirra til stuðnings. Hér verður að hafa í huga að maðurinn er fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands og sendiherra sem hafði þá æðstu starfsskyldu að gæta hagsmuna Íslands.

10. Siðferðileg ábyrgð.

Í undanfarandi köflum hefur áherzla verið lögð á lagarök og niðurstaðan sú að hvorki í ákvæðum laga né fjölþjóðasamningum sé að finna skýra heimild fyrir ábyrgð ríkissjóðs á Icesave-reikningunum. Tilraunir til að velta slíkri ábyrgð yfir á Íslendinga eru bundnar við óljósa túlkun einkum með skírskotun til anda og tilgangs ESB/EES-réttar og ónógt eftirlit. Þetta er hins vegar ófullnægjandi að mínum dómi til að leggja ofurbyrðar á eina þjóð og næstu kynslóðir. Það væri efni í sérstaka ritgerð að fara yfir þennan þátt málsins.

Til viðbótar langsóttri túlkun er gripið til siðferðilegra röksemda. Þessa gætir í málflutningi Jóns Baldvins, en framsetning hans er ekki nægilega skýr, þannig að skil milli lagaröksemda og siðferðisröksemda verða óglögg. Vissulega er virðing fyrir lögum siðferðileg skylda og flestar lagareglur í réttarríkjum eiga beina eða óbeina stoð í siðferðisreglum, þannig að lög og siðferði sameinast. En lagareglurnar eru nauðsynlegar til að skerpa á siðferðisreglunum og afmarka þær í tengslum við raunhæf álitaefni þar sem það er unnt. Þegar þangað er komið er skýrara að láta það koma í ljós hvort lagaregla sé í forgrunni eða siðaregla þegar menn menn styðja mál sitt. Í 2. kafla hér að framan er vitnað til ummæla Jóns Baldvins þess efnis hvort við hefðum tekið því þegjandi og hljóðalaust ef erlendur banki hefði boðið upp á að vísa á tóman sjóð og langsóttar lögskýringar til að réttlæta ránið eins og hann orðar það og í 7. kafla sakar hann mig um að mæla því bót að forráðamenn Íslands komi óorði á land og þjóð með því að hlaupast frá skuldbindingu sínum. Hér eru tvö dæmi um að óljóst er hvort er í forgrunni lagaskyldan eða eða siðferðisskyldan.

Þá er þeirri spurningu ekki svarað nægilega skýrt með hvaða rökum íslenzkur almenningur og komandi kynslóðir eigi að bera siðferðilega ábyrgð á umsvifum tiltekinna einstaklinga erlendis. Tók allur almenningur þátt í þessum leik með beinum eða óbeinum hætti? Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar er tæpt á því (þskj 335, kafli VIII, iv), en þessu álitaefni þarf að gera frekari skil.

Að sjálfsögðu ber að gefa siðferðilegum viðhorfum fyllsta gaum í tengslum við Icesave-málið, en áður en siðferðileg ábyrgð er viðurkennd er æskilegt að réttarstaðan liggi ljós fyrir, en sú leið hefur reynzt ófær. En að svo miklu leyti sem íslenzka ríkið og þá jafnframt þjóðin ber siðferðilega ábyrgð þá leysir það hvorki Breta né Hollendinga undan slíkri ábyrgð, né heldur Evrópusambandið.

11. Að semja.

Nú mælir margt með samningum umfram dómsúrlausnir. En hér á við það sem þegar er tekið fram, að nauðsynlegt er að réttarstaða samningsaðila sé sem skýrust, þótt ekki liggi bindandi dómur til grundvallar. Þegar því hefur verið hafnað bitnar það með vissum hætti á samningsferlinu þannig að jafnvægi er raskað og aflsmunur ræður niðurstöðu. En hvað sem þessu líður væri eðlilegt að takmarka og dreifa ábyrgð, en það er varla gert sem skyldi í Icesave-samningnum sem undirritaður var 5. júní sl. Svo á eftir að koma í ljós hvernig breytingum Alþingis verður tekið.

12. Lokaorð.

Aldrei var það ætlun mín að blanda mér í umræður um Icesave-málið, enda aðrir betur fallnir til þess, en mér ofbuðu svo skrif Jóns Baldvins í Morgunblaðinu 7. júlí 2009 – og raunar fleira sem hann hefur skrifað um málið – að ég gat ekki orða bundizt.

Ýmislegt hefur verið sagt um orsakir efnahagshrunsins á Íslandi og þar eru áreiðanlega ekki öll kurl komin til grafar. Meðal sökudólga hafa fjölmiðlar verið nefndir og látið að því liggja að auðmenn og útrásarvíkingar hafi haft helzt til mikil áhrif á gagnrýnislaus skrif þeirra. Þetta mætti vissulega kanna nánar en gert hefur verið, en jafnframt ætti að skoða þá stjórnmálaumræðu sem fram fer í landinu.

Hver skyldi vera þáttur hennar? Hér að framan hefur verið brugðið upp mynd af því hvernig fyrrverandi flokksformaður, utanríkisráðherra og síðast sendiherra stendur að verki. Er líklegt að almenningur í landinu nái áttum og auðsynlegt aðhald verði tryggt, þegar umræða af þessu tagi dynur í eyrum manna alla tíð?

                                 

  

>>><<<
 

  
     
  
 

Tómas Haukur Heiðar: álit 28. nóvember 2008 - þvinganir Bretlands

 

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi

   og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 
 
  
   

    

Tómas Haukur Heiðar: álit 28. nóvember 2008 - þvinganir Bretlands


29. marz 2012.

 
 


Loftur Altice Þorsteinsson.

                                 
Þær fréttir hafa borist að Tómas Haukur Heiðar, þjóðréttarfræðingur í starfi hjá Utanríkisráðuneyti, hafi verið leystur frá því verkefni að semja við Evrópusambandið um makrílveiðar. Utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson segist hafa tekið aðalsamningamann Íslands úr viðræðum um makríl, þar sem hans sé þörf til annara verka. Þeir sem þekkja eitthvað til Össurar Skarphéðinsonar hljóta að fyllast grunsemdum um ráðagerðir hans. Samskipti Össurar við Evrópusambandið eru mörkuð lagabrotum og landráðum.
  

Um störf Tómasar Hauks Heiðar (THH) hef ég takmarkaða þekkingu, en nærri áramótum 2008/2009 barst mér í hendur greinargerð sem THH hafði samið um hugsanlega málssókn gegn Bretlandi, vegna reglugerðar sem fjármálaráðherra Bretlands Alistair Darling hafði sett á grundvelli hryðjuverkalaga. Greinargerðin vakti mér furðu, því að mitt mat á stöðu málsins var allt annað en Tómasar Hauks Heiðar. Hér birti ég greinargerð THH og ræði lauslega nokkur atriði hennar. Tómas Haukur Heiðar kemst að þeirra niðurstöðu að raunhæfast sé:

  

...að ná fram afturköllun frystingarinnar í samningaviðræðum milli Íslendinga og Breta um heildarlausn Icesave-málsins.

  

Þarna lagði þjóðréttarfræðingurinn til að blandað yrði saman þjóðréttarlegum kröfum Íslands gegn Bretlandi (gegn Hollandi einnig) og hins vegar forsendulausum Icesave-kröfum. Kröfur nýlenduveldanna hefðu átt að beinast gegn innistæðu-trygginga-sjóðum Bretlands, Hollands og Íslands, en endanlega að þrotabúi Landsbankans. Eins og flestir vita voru Icesave-innistæðurnar tryggðar tvöfaldri tryggingu fyrir EEA-lágmarkið. Þetta var raunar sú leið sem Icesave-málið fór á endanum og er það hægt að þakka 26. grein Stjórnarskrárinnar og vilja forsetans að beita henni. Öll rök benda því til að THH hafi haft rangt fyrir sér.

  

Þjóðréttarfræðingurinn rökstuddi niðurstöðu sína og fjallaði um aðra möguleika til að mæta kúgun nýlenduveldanna. Hann nefnir það álit sem fengið var hjá Bretsku lögfræðiskrifstofunni Lovells. Þetta álit Lovells, sem THH byggði svo mikið á, er ennþá leyniskjal ríkisstjórnarinnar. Öllum beiðnum um að Lovells álitið verði birt er hafnað af Forsætisráðherra. Lovells taldi mikla vankanta á að sækja mál Íslands fyrir dómstólum í Bretlandi. Þetta var auðvitað augljóst og þeim hundruðum milljóna sem varið var til málssóknar Kaupþings í Bretlandi var kastað á glæ.

   

Þjóðréttarfræðingurinn bendir á að Lovells hugleiddi ekki þann möguleika að ákæra fyrir alþjóðlegum dómstólum. Marga hefur grunað að aldreigi hafi verið ætlun ríkisstjórnarinnar að sækja neinar bætur á hendur nýlenduveldunum. Þess vegna var leitað álits hjá lögfræðistofu í Bretlandi. THH varpar fram þeirri spurningu, hvort ekki komi til álita »að höfða mál fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag eða Mannréttindadómstól Evrópu.« Svar þjóðréttarfræðingsins er neikvætt, enda ekki spurt þeirrar eðlilegu og réttu spurningar, hvort ætti að »kæra til« Framkvæmdastjórnar ESB og »ákæra fyrir« Evrópudómstólnum.

  

Furðu vekur að þjóðréttarfræðingurinn bendir á að »ef talið væri rétt að skoða nánar möguleika á málsókn gegn Bretlandi fyrir alþjóðlegum dómstólum myndi þjóðréttarfræðingur (THH) telja rétt að kanna hvort Sir Michael Wood, lögmaður og fyrrverandi þjóðréttarfræðingur breska utanríkis-ráðuneytisins, væri fáanlegur til þess.« Bara þessi tillaga, vekur grunsemdir um heilindi mannsins. Varla kom honum til hugar, að fyrrverandi þjóðréttarfræðingur Bretska utanríkis-ráðuneytisins, væri hæfur til málsóknar gegn Bretlandi. Vondum hugleiðingum sínum lýkur þjóðréttarfræðingurinn á eftirfarandi setningu:

  

Hann (THH) telur einnig rétt að bíða átekta með nánari skoðun á hugsanlegri málsókn gegn Bretlandi fyrir alþjóðlegum dómstólum þar til niðurstöður viðræðna íslendskra og breskra stjórnvalda liggja fyrir.

  

Leiðsögn þjóðréttarfræðingsins var því lítils virði varðandi deilurnar við Bretland og Holland. Hann kann að hafa staðið sig vel í makríl-deilunni, en miðað við frammistöðu hans sem birtist í álitinu um viðbrögð Íslands við yfirgangi nýlenduveldanna, er varla mikil eftirsjá að honum. Mín vegna má Össur taka hann með til faðmlaga við valdamenn Evrópusambandsins.

  
>>><<<
   

                                 

Trúnaðarmál


 
Memo um hugsanlega málsókn gegn Bretlandi vegna frystingar fjármuna Landsbankans.


28. nóvember 2008.
    
                                 
  
Tómas Haukur Heiðar (THH).
                                 

1. Þjóðréttarfræðingur hefur undanfarna daga átt fundi með og samtöl við forsætisráðuneytið og lögfræðiskrifstofuna LOGOS vegna skoðunar á hugsanlegri málsókn gegn Bretlandi vegna frystingar breskra stjórnvalda á fjármunum Landsbankans 8. október sl. Ýmsar leiðir eru taldar koma til greina í því sambandi en eins og fram kemur hér að neðan telur þjóðréttarfræðingur (THH) raunhæfast að ná fram afturköllun frystingarinnar í samningaviðræðum milli Íslendinga og Breta um heildarlausn Icesave-málsins.       

2. Sú málsóknarleið, sem rækilegast hefur verið könnuð, er málshöfðun fyrir breskum dómstólum þar sem sú krafa yrði gerð að ákvörðuninni um frystingu yrði hnekkt á þeim grundvelli að hún eigi sér ekki lagastoð í svonefndum hryðjuverkalögum frá 2001 (Anti-terrorism, Crime and Security Act 2001). Jafnframt yrði þess freistað að fá dæmdar skaðabætur vegna tjóns sem frystingin hefur haft í för með sér. Breska lögfræði-skrifstofan Lovells hefur fyrir milligöngu LOGOS tekið saman ítarleg minnisblöð um þessa leið fyrir forsætisráðuneytið sem þjóðréttarfræðingur (T.H.H.) hefur yfirfarið.
  

3. Í framangreindum minnisblöðum kemur fram það mat, sem þjóðréttarfræðingur (THH) er sammála, að á brattan yrði að sækja í slíku dómsmáli, ólíklegt væri að breskur dómstóll tæki kröfu um að frystingunni yrði hnekkt til greina og enn ólíklegra að dæmdar yrðu skaðabætur. Mat þetta byggist á mörgum atriðum en að mati þjóðréttarfræðings (T.H.H.) er það mikilvægasta að hryðjuverkalögin svonefndu eru víðtæk og ná til mun fleiri þátta en hryðjuverka. Sú röksemd fái þar af leiðandi væntanlega ekki staðist að þar sem ákvörðunin um frystingu beinist ekki gegn hryðjuverkum geti hún ekki átt stoð í umræddum lögum.

  

4. Fram kemur í minnisblöðum Lovells að ekki megi bíða lengi með að fara þessa málsóknarleið þar sem ella sé hætt við að dómstóll myndi ekki taka málið fyrir og vísa því frá. Helst mætti því ekki bíða marga daga með að senda breskum stjórnvöldum svonefnt “pre-action letter” sem er undanfari hinnar eiginlegu málsóknar.

  

5. Lovells hefur ekki kannað þá leið að höfða mál gegn Bretlandi fyrir alþjóðlegum dómstólum en í fljótu bragði virðist koma til greina að höfða mál fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag eða Mannréttindadómstól Evrópu. Lögsaga Haag-dómstólsins myndi byggjast á samningi milli Danmerkur og Bretlands frá 1905 sem breytt var að því er Ísland varðar með orðsendinga-skiptum milli Danmerkur og Bretlands árið 1937. Samningurinn er enn á skrá um samninga Íslands við önnur ríki en leita yrði staðfestingar Bretlands á gildi hans til þess að fá fullvissu um það. Ólíkt dómsmáli fyrir breskum dómstól myndi mál fyrir alþjóðlegum dómstól ekki snúast um hvort ákvörðunin um frystingu hefði lagastoð í hryðjuverkalögunum svonefndu, heldur hvort hún samræmdist reglum þjóðaréttar, m.a. mannréttindareglum um vernd eignarréttar o.fl.  

6. Að mati þjóðréttarfræðings (THH) er sú leið að höfða mál gegn Bretlandi fyrir alþjóðlegum dómstólum, sé hún gerleg á annað borð, vænlegri en sú að höfða mál fyrir breskum dómstólum. Kemur þar ekki aðeins til að væntanlega mætti treysta hlutleysi alþjóðadómstóls betur en bresks dómstóls, heldur ekki síður hitt að sjálft úrlausnarefnið er annað og líkur á hagstæðri niðurstöðu virðast meiri. Hafa ber í huga að a.m.k. í einhverjum tilvikum þyrfti að tæma innlend dómstólaúrræði áður en mál yrði höfðað fyrir alþjóðlegum dómstól. Einnig ber að hafa í huga að málsókn fyrir alþjóðlegum dómstól er ekki bundin sömu tímatakmörkunum og málsókn fyrir breskum dómstól. Ef talið væri rétt að skoða nánar möguleika á málsókn gegn Bretlandi fyrir alþjóðlegum dómstólum myndi þjóðréttarfræðingur (THH) telja rétt að kanna hvort Sir Michael Wood, lögmaður og fyrrverandi þjóðréttarfræðingur breska utanríkis-ráðuneytisins, væri fáanlegur til þess.
                                 
7. Í næstu viku munu fara fram viðræður milli Íslands og Bretlands um lánafyrirgreiðslu af Bretlands hálfu og fleiri þætti Icesave-málsins. Að mati þjóðréttarfræðings (THH) er vænlegast að ná fram afturköllun frystingar breskra stjórnvalda á fjármunum Landsbankans í þeim viðræðum, enda virðist einsýnt að þegar ábyrgð Íslands á greiðslu lágmarkstryggingar vegna Icesave-innlánsreikninganna liggur fyrir séu engir hagsmunir lengur af því að viðhalda hinni umdeildu frystingu. Samkvæmt upplýsingum sviðsstjóra viðskiptasviðs ræddu hann og ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins m.a. þennan þátt málsins á fundi sínum í morgun og á þessum sömu nótum.Ljóst er að fallist bresk stjórnvöld á að afturkalla ákvörðun sína um frystingu verður væntanlega það skilyrði sett að engir eftirmálar verði milli aðila. Af hálfu íslenska ríkisins væri þá ekki unnt að höfða mál síðar til heimtu skaðabóta en væntanlega væri ekki unnt að binda hendur einkaaðila (fyrrverandi eigenda bankanna) að þessu leyti.
                                 
8. Þjóðréttarfræðingur (THH) telur að sending á “pre-trial letter” til breskra stjórnvalda fyrir áðurnefndar viðræður væri til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á viðræðurnar og efast raunar almennt um þá leið að höfða mál fyrir breskum dómstólum, sbr. það sem að framan segir. Hann telur einnig rétt að bíða átekta með nánari skoðun á hugsanlegri málsókn gegn Bretlandi fyrir alþjóðlegum dómstólum þar til niðurstöður viðræðna íslenskra og breskra stjórnvalda liggja fyrir.

 

                                 

  

>>><<<
 

  
     
  
 

Örvænting Samfylkingar vegna forsetakosninga - er landsmönnum gleðiefni

 

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi

   og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 
 
  
   

    

Örvænting Samfylkingar vegna forsetakosninga - er landsmönnum gleðiefni


25. marz 2012.

 
 


Loftur Altice Þorsteinsson.

                                 
Kjölturakkar Evrópusambandsins eru fullir örvæntingar vegna framboðs Ólafs Ragnars Grímssonar til áframhaldandi setu á forsetastóli. Þessa borðbera framandi hugmyndafræði og varðhunda erlends valds, er einkum að finna í Samfylkingunni. Á neyðarstundu hefur Ólafur Ragnar Grímsson gegnt kalli þjóðarinnar og samþykkt að gefa kost á sér, að gegna áfram starfi forseta Lýðveldisins. Leit Samfylkingar að frambjóðana gegn Ólafi Ragnari tekur á sig hinar aumkunarverðustu myndir.

                                 

Forustumenn Samfylkinginar gera sér ljóst, að með Ólaf Ragnar sem forseta að Bessastöðum mun þeim ekki takast að koma þrælshlekkjum Evrópusambandsins á Íslendinga. Ólafur Ragnar sýndi í tvennum Icesave-kosningum að hann virðir Stjórnarskrána og er tilbúinn að taka slaginn með þjóðinni. Í Nýársávarpi 2012 gerði Ólafur Ragnar skýra grein fyrir afstöðu sinni til Icesave-kúgunar nýlenduveldanna:

                                 

Þjóðin kvað í annað sinn upp dóm í deilum um skuldir banka í öðrum löndum og víst er að atkvæðagreiðslurnar báðar færðu fólkinu í landinu sjálfstraust, vísuðu veginn í átt að auknu lýðræði, vöktu athygli og jafnvel aðdáun í öðrum löndum.
   
Forseti Íslands er eini kjörni fulltrúinn sem valinn er af þjóðinni allri, hvorki háður flokkum né öðrum hagsmunum. Fólkið treystir því að hann bregðist ekki á örlagastundum. Það er einn helsti hornsteinn íslendskrar stjórnskipunar, lýðræðis í landinu.
   
Að dómi margra eru tímarnir hins vegar markaðir verulegri óvissu og er þá einkum vísað til stöðu stofnana og samtaka á vettvangi þjóðmálanna, að stjórnarskráin hafi verið sett í deiglu breytinga, fullveldi Íslands orðið dagskrárefni vegna viðræðna við Evrópuríki og áríðandi sé að málstaður þjóðarinnar birtist skýrt í alþjóðlegri umfjöllun.
                                 
    

Tími Samfylkingar í ríkisstjórn er að renna út. Samstaða þjóðar mælir þann tíma á táknrænan hátt með einkennismerki sínu. Örvænting Samfylkingar birtist í tilraunum til að finna frambjóðanda sem á forsetastóli yrði tilbúinn að taka þátt í að afsala sjálfstæði Íslendska ríkisins í hendur hinum austræna dreka.

Tákn Samstöðu þjóðar 

Tími Samfylkingar er að renna út.

                                 

Afnám fullveldisréttinda almennings úr Stjórnarskránni er eitt af þeim forgangsefnum sem Samfylkingin ætlar nýgjum forseta að fullkomna. Lýðveldi yrði breytt í höfðingaveldi, undir nafninu þingræði. Í komandi forsetakosningum mun valda-aðall landsins fylkja liði til andstöðu við Ólaf Ragnar, en þjóðin mun sýna steinharðan vilja og fara með sigur í baráttunni fyrir ævarandi hugsjónum þeirra fóstbræðra: Jóns Sigurðssonar forseta og Jóns Guðmundssonar ritstjóra.

  

>>><<<
 
Höfnum höfðingjaveldi í formi þingræðis.
Fullveldisréttindi ríkisins í höndum almennings.
Steinhörð barátta fyrir sjálfstæðu lýðveldi á Íslandi.

  
>>><<<
     
  
 

Ben Bernanke Says Paper Money is Better than Gold !!!

 

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi

   og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 
 
  
   

    

Ben Bernanke Says Paper Money is Better than Gold

to Solve Our Financial Problems !!!


Fyrst birt í Godfather Politics 22. marz 2012.

 
 


Gary DeMar.

                                 
In a series of lectures at George Washington University, Federal Reserve Chairman Ben Bernanke attacked the gold standard again. It’s rather ironic that he made his attack at a University named after George Washington who was present at the drafting of the United States Constitution and was unanimously elected president of the Convention. The Constitution includes the following about gold and silver:

“No State shall enter into any Treaty, Alliance, or Confederation; grant Letters of Marque and Reprisal; coin Money; emit Bills of Credit; make any Thing but gold and silver Coin a Tender in Payment of Debts; pass any Bill of Attainder, ex post facto Law, or Law impairing the Obligation of Contracts, or grant any Title of Nobility.”

Paper money was issued as “gold” and “silver” certificates that could be redeemed for physical gold and silver. These were later replaced with “Federal Reserve Notes.” There is nothing backing these pieces of paper (actually, currency “paper” is composed of 25 percent linen and 75 percent cotton) other than the confidence that people have that other people view the money as valuable. Once that confidence goes, people start hoarding things of value – gold and silver being the most popular. Loss of confidence in un-backed paper money has a long history.
Gull traustur gjaldmiðill 
Gull - Aurum - Xrysos

The U.S. Department of the Treasury first issued paper U.S. currency in 1862 to make up for the shortage of coins and to finance the Civil War. There was a shortage of coins because people had started hoarding them; the uncertainty caused by the war had made the value of items fluctuate drastically. Because coins were made of gold and silver their value didn’t change much, so people wanted to hang onto them rather than buy items that might lose their value. 
                                 
In his lectures, Bernanke tried to argue that “the gold standard did not work well.” Of course it didn’t if you were a politician who was using worthless paper dollars to give the impression of economic prosperity.
                                 
In a slide presentation, Bernanke outlined what he contends is gold’s greatest weakness. You might have to read this at least three times because you’ll think you’ve read it wrong:

The strength of a gold standard is its greatest weakness too: Because the money supply is determined by the supply of gold, it cannot be adjusted in response to changing economic conditions.
That’s the point, Mr. Bernanke. The gold standard is designed to keep politicians from turning our money into worthless scraps like the discarded leftovers of cotton and linen our money is made from.

>>><<<
 
Vísdómsorð frá Ben Bernanke:
The strength of a gold standard is its greatest weakness too:
Because the money supply is determined by the supply of gold,
it cannot be adjusted in response to changing economic conditions.
! ! !

  
>>><<<
     
  
 

Afstýrum öðru hruni og tökum upp alvöru fastgengi

 

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi

   og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 
 
  
   

    

Afstýrum öðru hruni og tökum upp alvöru fastgengi

 


Fyrst birt í Fréttablaðinu 15. febrúar 2012.

 
 


Heiðar Már Guðjónsson.

                                 
Í grein minni Hrunið 2016 sem birtist þann 11. febrúar hér í Fréttablaðinu fór ég yfir sviðsmynd sem lýsir því hvernig gjaldeyrishöft, eignabóla og röng stefna ríkisstjórnar og Seðlabanka getur leitt til annars efnahagshruns. Mín skoðun er að hver dagur sem líður á meðan ekki er snúið frá rangri stefnu sé þjóðinni afar dýr.

Nú eru meira en þrjú ár liðin frá hruni og atvinnuleysi er enn alltof mikið og fjárfesting í sögulegu lágmarki. Verðbólga er mikil, sem og skuldsetning, vextir háir en það heggur enn mjög í ráðstöfunartekjur heimilanna og ekki bætir stöðugt aukin skattheimta ríkisins stöðuna. Gjaldeyrishöft lama atvinnulífið og brengla verðmyndun þannig að fjármagn leitar ekki í hagkvæmustu not heldur frekar í froðuna sem byggist upp í kringum eignabólur á fastafjármunum, ekki síst húsnæði. Það er nauðsynlegt að bregðast hratt við og rjúfa þennan vítahring. Það verður best gert með því að ráðast gegn höfuðmeinsemdinni, það er gjaldeyrishöftunum.

Margir kaflar hafa verið skrifaðir í hagfræði um hvernig sé best að afnema gjaldeyrishöft, eftir gengisfall og fjármálakrísu. Seðlabankinn er með „áætlun" sem því miður er meingölluð og gengur út á það helst að leysa úr snörunni óábyrga erlenda lánardrottna sem áttu stóran þátt í hruninu. Til þess ætlar Seðlabankinn, fyrir hönd okkar Íslendinga, að eyða miklum tíma og fjármunum þar sem þjóðin endar með reikninginn, skattpínd innan gjaldeyrishafta eins og lýst var í sviðsmyndinni í minni fyrri grein.

Áætlun og framkvæmd afnáms gjaldeyrishafta er ein mikilvægasta efnahagsaðgerð Íslandssögunnar, þar verðum við að hafa hraðar hendur og hafa skynsemi og þor í að velja einföldustu og bestu leiðina. Hún er að afnema gjaldeyrishöft með því að taka upp alþjóðlega mynt, einhliða. Með því vinnst margt:
                                 
  • Afnám gjaldeyrishafta hefur alltaf leitt af sér innstreymi fjármagns, ekki útstreymi þar sem þessi leið hefur verið farin.
  • Hagvöxtur tekur strax við sér því fjárfesting í hagkerfinu eykst mjög hratt.
  • Alþjóðleg fyrirtæki setja upp útibú eða kaupa innlenda starfsemi á sviði banka, trygginga, olíudreifingar, á matvörumarkaði og víðar, sem eykur samkeppni og bætir hag neytenda.
  • Verðtrygging fellur niður, því hennar er ekki þörf þegar alþjóðleg mynt er annars vegar.
  • Vextir lækka mjög hratt, á nokkrum misserum, ekki árum, að því sem gerist í viðkomandi mynt á alþjóðlegum markaði.
  • Afkoma ríkis batnar, bæði vegna lægri vaxta og aukinna tekna með hagvexti, og forsendur eru til þess að lækka skatta.


Allt þetta eykur strax ráðstöfunartekjur heimilanna. Verðtrygging hverfur, vextir lækka, atvinna eykst, skattar lækka og samkeppni á markaði skilar lægra verði. En það sem mestu skiptir er að ónýtri peningastjórn er skipt út fyrir alþjóðlega viðurkennda mynt. Það hefur í för með sér að Ísland er aftur opið land, þar sem ekki þarf að sækja um leyfi til þess að eiga alþjóðleg viðskipti eða t.d. fyrir farareyri erlendis. Með því er tryggt að íslendska krónan getur ekki vaxtapínt almenning né búið til þær eignabólur og kreppur sem fylgt hafa henni um árabil.

Í hagfræði er alkunna að ekkert fæst ókeypis. Kostnaðurinn við að afsala sér sjálfstæðri peningastjórn er sá að ekki er hægt að prenta peninga í eigin mynt og þar með verðfella þá t.d. til að bjarga bönkum. Miðað við nýafstaðna reynslu heimsins af slíku myndu líklega margir segja að þetta væri kostur, en ekki galli á því að skipta út mynt. Bankar þurfa þá að standa undir sjálfum sér og geta ekki velt reikningnum yfir á almenning. Eins er það svo að gengisfelling eða verðbólga getur á stundum létt undir hjá einhverjum atvinnugreinum eða hópum, en skaðar yfirleitt meginþorra almennings. Ríkið þarf þá líka að sýna meiri ráðdeild og getur ekki rekið sig með fjárlagahalla. Fjárlagahalli í dag er skattar á morgun, þannig að slík ráðdeild ætti að auka hagsæld til lengri tíma, það er þá ekki verið að ganga á hag framtíðarkynslóða.

Að skipta út myntinni tekur innan við 3 mánuði. Ísland getur þess vegna valið hvaða dagsetningu sem er, t.d. 30. júní 2012. Hægt er að taka upp Bandaríkjadal, Rúblu eða Kanadadollar, en við vitum að Kanada er mjög jákvætt fyrir því að við tökum upp mynt þeirra. Sú mynt er talin einhver sú traustasta í heiminum í dag, því náttúruauðlindir landsins eru gríðarlegar og framleiðsla þess mjög svipuð því sem gerist á Íslandi.

Áhætta af einhliða upptöku er lítil þar sem hægt er að hafa tímabundin höft á fjármagnsflutningum þar til bankar eru farnir að geta fjármagnað sig erlendis í sinni nýju heimamynt. Dæmin sýna að endurhverf viðskipti og sértryggð fjármögnun íslendskra banka yrðu strax auðveldari ef eignir þeirra væru í viðurkenndri mynt í stað íslendsku krónunnar undir gjaldeyrishöftum. Þetta, auk þess trúverðugleika sem ný mynt gefur landinu og atvinnulífinu, mun gera aðlögun að afnámi allra hafta skjótvirka.

Andstæðingar einhliða upptöku segja oft að sú leið sé of dýr og láta þar með að því liggja að aðrar leiðir séu ódýrari. Í því felst sú ranga forsenda að það sé til dæmis ókeypis að vera með gríðarlegan gjaldeyrisforða að láni til þess að styðja stefnu um afnám gjaldeyrishafta sem á endanum er dæmd til að mistakast með miklum skaða fyrir íslenska atvinnuvegi og á endanum allt hagkerfið. Einnig er það í besta falli óskhyggja að halda því fram að aflétting gjaldeyrishafta í gegnum þátttöku í Efnahags- og myntbandalaginu (EMU) verði ókeypis.

Í fyrsta lagi munum við þurfa að bíða í yfir áratug eftir þeirri lausn með tilheyrandi skaða af óbreyttu ástandi og í öðru lagi munum við án efa þurfa að fórna umtalsverðum auðlindahagsmunum þjóðarinnar í samningum til þess að komast inn í Evrópusambandið, verði það samstarf og sú mynt ennþá til staðar þegar á hólminn verður komið. Það er hins vegar skiljanlegt að Seðlabankinn vilji ekki skoða einhliða upptöku þar sem sú leið felur í sér að Seðlabankinn er lagður niður. Afnám gjaldeyrishafta með einhliða upptöku er hins vegar ódýrasta leiðin fyrir aðra Íslendinga vegna þess hversu dýr gjaldeyrishöft eru íslenskum þegnum og atvinnulífi.

Í fyrri grein minni, Hrunið 2016, færði ég fyrir því rök að ef ekkert er að gert í peningastjórn þjóðarinnar er líklega annað hrun í uppsiglingu. Ég rita þessar greinar vegna þess að ég lærði af reynslunni frá fyrra hruni að það verður að tala um svona hluti í almennri umræðu á Íslandi. Fyrir hrun byrjaði ég að vara við ójafnvægi og erfiðleikum á Íslandi allt frá árinu 2003 og þá spáði ég því að haustið 2007 myndu eignamarkaðir og krónan gefa mikið eftir við lok stórframkvæmda fyrir austan og þegar alþjóðlegt áhættuálag myndi aukast.

Þær viðvaranir mínar náðu þá því miður einungis til bankastjóra, ráðherra, starfsmanna Seðlabankans og annarra innan fjármála- og embættismanna-kerfisins. Ég vil því skrifa þessar greinar núna opinberlega fyrir almenning til að auka meðvitund um hætturnar af rangri stefnu og benda á að hægt sé að bregðast við þeim. Við Íslendingar höfum ekki efni á öðru en að bregðast hratt við, afnema gjaldeyrishöft og skipta út ónýtri peningastjórn á þessu ári.


>>><<<
 
Seðlabankinn er með „áætlun" sem því miður er meingölluð
og gengur út á það helst að leysa úr snörunni
óábyrga erlenda lánardrottna sem áttu stóran þátt í hruninu.

  
>>><<<
     
  
 

Five reasons why Iceland should adopt the Canadian dollar

 

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi

   og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 
 
  
   

    

Five reasons why Iceland should adopt the Canadian dollar



Fyrst birt í Globe and Mail 05. marz 2012.

 
 


Michael Babad.

                                   bulls-bears
The idea of Iceland adopting the Canadian dollar isn’t as nutsy as it might seem to some.

Indeed, says Justin Wolfers, a prominent U.S. economist, if Iceland really wants to do it, Canada should go for it. And if we don’t, maybe the Aussies
will.

It also appears there’s nothing to stop the Icelanders from doing it on their own, by the way.

The suggestion, which has been tossed around in some quarters in Iceland over the past several months, picked up steam late last week when Canada’s ambassador to the tiny nation, Alan Bones, said Ottawa is open to talking about it if Iceland makes the request.

“What we know the nature of the final agreement is will depend very much on the expectations of both countries,” Mr. Bones told a broadcast interviewer in Iceland. “But in a straightforward unilateral adoption of the Canadian dollar by Iceland, where it is clear that there’s no input into monetary policy, then we’d be certainly open to discussing the issue.”

Mr. Bones had actually prepared to take it further, and was planning to deliver a similar message Saturday to a conference on Iceland’s currency, the krona.

But, as The Globe and Mail’s Barrie McKenna reported, Canada’s Foreign Affairs and International Trade Department pulled the plug at the last minute. Coincidentally, that happened just a few hours after my colleague’s story was published online, picked up by other media and flashed around the world via Twitter.

Canadian officials said Ottawa won’t talk about the currencies of other countries (though that didn’t seem to be an issue when the G7 intervened to stem a surge in the yen a year ago) and that it wouldn’t have been right to make such comments at a political event, in this case one held by Iceland’s opposition Progressive Party.

I agree it wasn’t the venue for it, particularly given that Iceland’s government is officially preparing to join the 17-member euro zone, but it does seem clear that someone somewhere has been talking about this. It’s highly unlikely that Mr. Bones went rogue.

Iceland, of course, was the original poster child of the meltdown, suffering a banking collapse, an economic mess and capital controls.

“An independent currency for a country with the population of the size of a decently sized Canadian city was always going to be a problem,” said Sebastien Galy, senior currency strategist at Société Générale.

“Having that country run a financial bubble while offering very high yield was a recipe for a very rapid rise of a financial empire followed by a catastrophic collapse, with the currency ceasing to have a market at one point. The past few years have been of picking up the broken pieces, and a move to a new currency would help to bring credibility while forcing adjustments in internal prices.”

Should that new currency be the loonie, as it’s known in Canada?

“While both currencies share some commonality with their exposures to energy and commodities, it is a reaction to the government negotiating and preparing for the eventual introduction of the [euro],” Mr. Galy said of the weekend discussion in the opposition camp.

“Neither currency is optimal for this country and it is a tug of war between Iceland’s European and more independent Nordic roots.”

Mr. Wolfers thinks the Australian dollar would be a better fit for Iceland. But from Canada’s perspective, it would be a “no-brainer,” the associate professor of business and public policy at the Wharton School of the University of Pennsylvania told me.

“Honestly, other countries should compete with Canada for Iceland’s business,” said Mr. Wolfers, also a visiting fellow at Princeton, citing Australia in particular.

This followed his comments Friday on Twitter, to which Australian MP Andrew Leigh, a former economics professor, responded that, indeed, Iceland would be better off adopting the Aussie dollar. So maybe we can get a competition going.

Mr. Wolfers was referring to what is known as seigniorage, which is how Canada could benefit should Iceland actually ever ditch the krona for the loonie.

I’m not talking about a currency union here, just Iceland using the loonie. Here are five things to consider:

1. Seigniorage.

This is the biggie, if a bit complex.

Seigniorage is the difference between the cost of printing a currency and its value. As the Bank of Canada explains it, it’s the difference between the interest the central bank reaps on a portfolio of government securities, in turn basically the same amount as the value of outstanding bank notes, and what it costs to issue, distribute and replace the bills.

On its website, the central bank uses the example of a $20 bill, which has an average lifespan of three years and is the most commonly used. If it invests the proceeds of issuing that note in a government security that yields interest of 5 per cent, the bill yields $1 a year. Producing that bill costs 9 cents. Given the three-year lifespan, it costs an average of 3 cents a year to produce the note. Add 2 cents a year to distribute it, and the annual cost is 5 cents, which means revenue for the central bank of about 95 cents a year for each $20 bill that’s out there.

More than $50-billion has been circulating at any given time, though that can and does change. Generally, the central bank says, it reaps about $2-billion a year. Some is used for general expenses - $366-million in 2009 – and the rest goes to government coffers.

Given Iceland’s small size – its population is just 320,000 – and the fact that its people have embraced electronic banking, we’re not talking about a seigniorage windfall here. But Canada’s Finance Minister Jim Flaherty is looking to get his hands on whatever he can.

“Printing money is a good thing for Canada,” Mr. Wolfers said. “Every dollar in circulation is on the debit side of the central bank’s balance sheet, and they’re effectively borrowing from the Icelanders at a zero-per-cent interest rate.”

So if there are no strings attached, why not? Or, as Mr. Wolfers put it, referring to Iceland, “as long as you’re a bastard, it’s all profit”

2. A stable currency.

Iceland could of course benefit from a devalued currency. Instead it would get a strong, stable currency that has been something of a haven during this post-crisis period of uncertainty. While strong, exporters at least know what to expect.

Consider, too, that the Canadian dollar is liquid. The krona was "blasted through smithereens and very few banks can trade [it] in anything else than very small amounts," Mr. Galy noted.

The dollar (CAD/USD-I1.01-0.007-0.69%)has been hovering around par with its U.S. counterpart and is expected to remain there, at least through the end of this year.

I’m not sure Ontario Premier Dalton McGuinty would agree, but Mr. Galy believes that the Bank of Canada has held interest rates below where they should be to hold the loonie down and give exporters more time to adjust to the currency’s strength. So that’s at least something for Iceland if you take that view.

“This soft approach means that capital may be increasingly misallocated at too low a rate (e.g. potentially housing),” he said.

“The more German approach, familiar to many German communities in Canada, is to get down and fix the productivity issue, irrespective of any short-term pain. There is a fine balance between the easy and hard way, we must all tackle whether in Iceland, Europe or Canada.”

3. Respected central bank.

Iceland would of course have no say in monetary policy, but it would have a currency overseen by a very strong central bank and governor, who led Canada out of the recession admirably.

Mark Carney is also respected on the global stage, having recently been named to head up the Financial Stability Board.

"Dear Canada: If Iceland wants you rather than their own inept central bank to earn their seigniorage, accept the deal," Mr. Wolfers said on Twitter.

4. Fiscal, economic stability.

Iceland has no reputation in the wake of its banking collapse.

Who would you prefer at that point, a euro zone crippled by recession and a two-year-old debt crisis, or Canada?

With Canada, you get a stable, if lukewarm, economic outlook, a government that’s still rated triple-A, and a fiscal standing to die for (if you’re Greece or Portugal).

And, we can count.

5. Our glowing hearts.

For Iceland, do not underestimate friendship in this post-crisis era of currency manipulation and mounting trade tensions.

We’re a wonderful people, they’re a wonderful people. We’ve got a beautiful country, they’ve got a beautiful country. True, it gets cold in Canada in the winter, but remember we’re talking about Iceland.

 


>>><<<
     
     
  
 

Why Argentina did not have a currency board (myntráð)

 

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi

   og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 
 
  
   

    

Why Argentina did not have a currency board (myntráð)



Fyrst birt í tímaritinu Central Banking Journal febrúar 2008.

 
 


Steve H. Hanke.

                                 
Argentina introduced its “convertibility” system, which linked the Argentine peso to the dollar at a fixed rate, on 1 April 1991. The convertibility system ended in a spectacular economic crash and currency devaluation in January 2002. Most economists asserted that Argentina’s convertibility system was a currency board, with little room for discretionary monetary policy. Armed with that premise, other economists and the financial journalists who followed their lead have concluded that currency boards are inherently dangerous and bound to end in Argentine-like upheavals.

                                 

Loose charges.
In an extensive survey of the works of 100 leading economists who commented on Argentina’s travails, Schuler (2005) found that of the 94 who mentioned convertibility, 91 christened Argentina’s system a currency board. The assertions and policy pronouncements made by these economists were based on loose charges, vague notions and indiscernible facts. In short, they were wrong. Unfortunately, now the standard textbook treatment of the Argentine episode is flawed and the currency board idea is tainted.
                                 
Just what is a currency board ? It is a monetary authority that issues notes and coins convertible on demand into a foreign anchor currency at a fixed rate of exchange. As reserves it holds low-risk, interest-bearing bonds denominated in the anchor currency and typically some gold. The reserve levels are set by law and are equal to 100%, or slightly more, of its monetary liabilities (notes, coins, and if permitted, deposits).
                                 
By design, a currency board has no discretionary monetary powers and can not engage in the fiduciary issue of money. Its operations are passive and automatic. The sole function of a currency board is to exchange the domestic currency it issues for an anchor currency at a fixed rate. Consequently, the quantity of domestic currency in circulation is determined solely by market forces, namely the demand for domestic currency.

                                 

Like a central bank.
Argentina’s convertibility system operated more like a central bank than a currency board in many important respects (see Hanke, 2002). That said, it did mimic some currency board features and could be termed a currency-board-like system. Currency-board-like systems differ most importantly from currency boards with respect to their reserve ratios and their power to act as lenders of last resort. Currency-board-like systems do not have a maximum reserve ratio. In contrast, if a currency board is allowed to accumulate foreign reserves exceeding 100% of the monetary base, the amount of the surplus has a definite upper limit, which historically has been 10%.

  
A currency board is not allowed to use its surplus in a discretionary manner and all profits beyond those necessary to maintain the small surplus must be transferred to the government. Most currency-board-like systems, in contrast, are permitted to accumulate profits (surplus reserves) unchecked (though, in practice, there is political pressure to contribute some reserves to the general government budget). Currency-board-like systems are also allowed to use their surplus reserves in a discretionary manner to act as lenders of last resort to commercial banks. In some cases, they can also use their main reserves in the same manner.

                                 

Mischief in bad times.
These deviations from currency board orthodoxy can be fairly harmless in good economic times, but cause great mischief in bad times. Argentina’s convertibility system is a classic example. There is a straightforward way to determine, with publicly available data, whether a monetary authority is a currency board or a currency-board-like system. For a currency board, net foreign reserves (foreign assets minus foreign liabilities) should be close to 100% of the monetary base (also called reserve money). Moreover, “reservepass-though” (the change in the monetary base divided by the change in net foreign reserves over the period in question) should also be close to 100%.
                                 

      
Argentine orthodox Hanke
                    
Source: International Monetary Fund, International Financial Statistics database, August 2007.
   

The reserve pass-through is the extent to which changes in net foreign reserves are reflected in the monetary base. Argentina fixed its exchange rate at one Argentine peso per dollar. A reserve pass-through of 100% means that if net foreign reserves rise (or fall) by, say, $100m, the Argentine peso monetary base should also rise (or fall) by 100m pesos.

                                 
As Figure 1 shows, Argentina’s convertibility system was not a currency board. It dramatically deviated from currency board orthodoxy. In Figure 1, reserve pass-through above 100% means that the monetary base and net foreign reserves changed in the same direction, but the monetary base changed more than net foreign reserves. One might call this the “zone of magnified foreign reserve effects.” Reserve pass-through between 0% and 100% means that the monetary base and net foreign reserves changed in the same direction, but the monetary base changed less than net foreign reserves. One might call this the “zone of ordinary sterilisation”. Reserve pass-through below 0% means that the monetary base and net foreign reserves changed in opposite directions. One might call this the “zone of super sterilisation”.
                                
Both at 100% and at 0% no sterilisation occurs. A currency board with a fixed exchange rate has reserve pass-through close to 100%, because the monetary base changes passively in response to changes in the public’s desired holdings of base money, which occur through exchanging the notes, coins, or deposits of the currency board for the anchor currency and viceversa at the fixed exchanged rate the board maintains. A central bank witha clean floating exchange rate has a reserve pass-through often close to 0%, because it rarely has reason to buy or sell its currency for foreign reserves. However, if the central bank also holds foreign reserves for government accounts that are active but not related to monetary policy, reserve pass-through may often be far from 0%.

 

More than hair splitting.
Over 70 countries have employed currency boards and none has ended with the type of economic chaos that accompanied the demise of Argentina’s convertibility system. But, contrary to the conclusions that most economists and economic textbooks present, Argentina’s convertibility system was not acurrency board. This distinction is more important than a mere splitting of academic hairs. The authorities in several countries, including Georgia, are considering the establishment of currency boards. Unfortunately, discussions of the pros and cons are difficult because the opponents of currency boards drag in fruit from Argentina’s poisonous tree.

                                 

References.
Hanke, Steve H. 2002. On Dollarization and Currency Boards: Error and Deception, The Journal of Policy Reform, 5 (4).

Schuler, Kurt. (2005). Ignorance and Influence: US Economists on Argentina’s Depression of 1998–2002, Econ Journal Watch, 2 (2).

                                 

Notes.

The author would like to thank Kurt Schuler for his comments.

  

(1) Reserve pass-through is the change in the monetary base divided by the change in net foreign reserves. Here, the period is one year, using data of monthly frequency. Argentina’s convertibility system began in April 1991, so the first month of the reserve pass-through line is April 1992. The source of the data is the International Financial Statistics database. The term the database uses for the monetary base is “reserve money”. Net foreign reserves are the foreign assets minus the foreign liabilities of the monetary authority.

  
Sjóðstreymi-hlutfall er breyting peningamagns í hagkerfinu deilt með hreinni breytingu á gjaldmiðla-eign hjá myntráðinu/seðlabankanum. Reiknaðar eru breytingar á þessu hlutfalli yfir hvert ár.
  


>>><<<
     
 
Steve H. Hanke er prófessor í hagnýtri hagfræði
við John Hopkins háskólann í Baltimore
og heiðursfélagi við Cato stofnunina í Washington borg.

  
>>><<<
     
  
 

Svartsýnn og Dauðadómur spá Lettnesku spilaborginni falli !

 

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi

   og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 
 
  
   

    

Svartsýnn og Dauðadómur spá Lettnesku spilaborginni falli !


Fyrst birt í tímaritinu Globe Asia, ágúst-hefti 2009.

 
 


Steve H. Hanke.

                                 
Paul Krugman (Svartsýnn) og Nouriel Roubini (Dauðadómur) þykjast sjá fyrir, að nærsta efnahagslega spilaborg til að falla verði smáríkið Lettland. Þeir halda því fram, að Lettland sé núna í sömu stöðu og Argentína var síðla árs 2001. Samkvæmt þeim félögum hljóta afleiðingarnar að verða þær, að Lettland neyðist til að fella gjaldmiðil sinn og verða ófært um að standa í skilum með afborganir af lánum, á sama hátt og henti Argentínu snemma árs 2002. Þeir félagar láta ekki þar með staðar numið, heldur færa rök fyrir að Eistland og Lithaugaland muni neyðast til að fylgja sömu leið. Í kjölfar þessara atburða muni skaðvænleg bylgja gengisfellinga og greiðslufalla brotna á mið og austur Evrópu. Þessum atburðum mun fylgja ennþá meiri alþjóðleg Svartsýni og fleirri Dauðadómar.                                                               

                                                            

  Paul Krugman  

    Nouriel Roubini 

Paul Krugman (Dr.Gloom) er dálkahöfundur hjá The New York Times og handhafi verðlauna Nóbels.

Nouriel Roubini (Dr.Doom) er prófessor við NY University og öðlaðist frægð fyrir að vera einn af þeim fyrstu sem greindu húsnæðisbóluna í USA.

 

Spurningin er þá, hvað hefur Lettland dagsins í dag sameiginlegt með Argentínu árið 2001 ? Við fyrstu sýn, virðist Lettland vera með sömu tegund af gjaldmiðils-kerfi og var í notkun í Argentínu. Gjaldmiðli Lettlands er leyft að sveiflast á þröngu svæði gagnvart Evru, sem markast af 1% plús eða mínus fráviki, frá tyllingunni 0,7028 Lat/Evru. Árið 2001 var Argentínski Pesóinn með tyllingu við Bandaríkjadal, í hlutfallinu einn á móti einum. Þar með er upptalið, það sem þessar aðstæður eiga sameiginlegt.

  

Lettland og nágrannar þessi við Eystrasaltið hafa verið til fyrirmyndar um hógsemi í ríkisfjármálum (sjá Table 1 og Table 2). Fram að síðasta ári, þegar efnahagssamdrátturinn hófst, höfðu öll þessi lönd lágan fjárlagahalla eða jafnvel afgang af fjárlögum ríkisins. Þau hafa sýnt vilja til að skera niður eyðslu ríkisins, þótt slíkt sé erfitt. Í alþjóðlegu samhengi hafa þau einnig litlar skuldir, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF). Hins vegar átti Argentína í stöðugum vandræðum með að skera niður eyðslu ríkisins og hafði miklu hærra skulda-hlutfall miðað við VLF.
 
 Hanke 1
 Hanke 2

                      
Á sviði peninga-fræða er til einföld aðferð að meta hvort útgefandi gjaldmiðils, sem tengir gjaldmiðil sinn öðrum gjaldmiðli, er á hættusvæði með tenginguna: að bera peninga-kerfið saman við "sjálfstýrt" peninga-kerfi (raunverulegt markaðs-kerfi). Sjálfstýrðasta kerfið er Myndtráð, sem gefur út gjaldmiðil sem ávallt er hægt að skipta yfir í erlenda stoðmynt, á föstu fyrirfram-ákveðnu gengi. Í varasjóði sínum varðveitir Myntráð erlenda fjármuni sem nema 100% eða rétt rúmlega útgefnu grunnfé kerfisins (seðlar og mynt í umferð).

  

Þessar takmarkanir tryggja að magn innlenda gjaldmiðilsins í umferð ákveðst eingöngu af eftirspurn markaðsins fyrir gjaldmiðilinn (markaðs-kerfi). Af þeim leiðir að fyrir Myntráð ætti hrein eign varasjóðsins (erlendir fjármunir að frádregnum erlendum skuldbindingum) að liggja nærri 100% af grunnfénu. Ennfremur ætti "varasjóðs-útflæðið" (breyting grunnfjár sem hlutfall af breytingu hreinnar gjaldeyris-eignar, yfir ákveðið tímabil) að vera einnig nærri 100%.

  

Gjaldmiðils-kreppa Argentínu stóð frá desember 2001 til janúar 2002. Á þriggja ára tímabili fyrir upphaf kreppunnar, starfaði peninga-kerfi landsins EKKI sem "sjálfstýrt" peninga-kerfi. Það er því rangt að nefna peninga-kerfið Myntráð, þótt svo sé oft gert. "Varasjóðs-útflæðið" var ekki nálægt því að vera 100% og upp úr miðju ári 2001 féll hrein gjaldeyris-eign langt niður fyrir 100% af grunnfénu (sjá Chart 1).
Hanke 3

 
Til samanburðar sjáum við, að þrátt fyrir að peninga-kerfi Lettlands er ekki formlega undir stjórn Myntráðs, er því samt í stórum dráttum stjórnað með þeim hætti. Af þessu leiðir, að Lettland gæti skipt öllu grunnfé sínu yfir í Evrur, á núverandi gengi. Sama staðreynd blasir við hvað varðar Eistland og Lithaugaland. Bæði þessi lönd tóku formlega í gagnið sín eigin afbrigði af Myntráði (myntráð-nefna), á árunum 1992 og 1994.

  

Hin tölfræðilegu gögn segja alla söguna. Lettland og nágrannar þess við Eystrasaltið eru ekki endurtekning af Argentínu. Efnahagskerfi þessara landa hafa gengið í gegnum miklar þrengingar, vegna skyndilegrar stöðvunar erlendra fjárfestinga og vegna efnahags-samdráttar í Vestur-Evrópu, en þau hafa ekki gengið á gjaldeyris-eign sína.

  

Fyrir þessi lönd er ráðlegra, að taka opinberlega upp Evruna, en að gengisfella gjaldmiðla sína, jafnvel þótt það fáist ekki gert með blessun Seðlabanka Evrópu.  


>>><<<
     
 
Steve H. Hanke er prófessor í hagnýtri hagfræði
við John Hopkins háskólann í Baltimore
og heiðursfélagi við Cato stofnunina í Washington borg.

  
>>><<<
           
    Fyrir þessi lönd er ráðlegra, að taka opinberlega upp Evruna,
en að gengisfella gjaldmiðla sína,
jafnvel þótt það fáist ekki gert með blessun Seðlabanka Evrópu. 


>>><<<
     
  
 

Umræða um fyrirhugaða upptöku Kanadadals er lífleg og uppbyggileg

 

 

  

  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi

   og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

  
 
  
 
   

    

Umræða um fyrirhugaða upptöku Kanadadals er lífleg og uppbyggileg.

 


Fyrsta skráning 20. marz 2012.


 
 


Loftur Altice Þorsteinsson.

  
Ekki verður annað sagt en að hugmyndin um upptöku Kanadadals hafi fengið góðar móttökur. Annar góður möguleiki er að koma á fót myntráði með Kanadadal sem stoðmynt. Þótt báðir þessir kostir séu nær eins í framkvæmd og raunverulega sama hugmyndin, kemur samt í ljós við nánari skoðun að ýmislegt aðskilur þá. Hvort tveggja fyrirkomulagið tryggir fastgengi og reglubundna peningastefnu (Rule-bound Monitary Policy).

 

  

Einn af kostum þessarar peningastefnu er að auðvelt er að breyta úr Kanadadollar og yfir í innlendan gjaldmiðil undir stjórn myntráðs og öfugt. Einnig er mikill ávinningur að losna við Seðlabankann og þau mistök sem alltaf fylgja torgreindri peningastefnu (Discretionary Monetary Policy). Ábyrgð almennings í formi “lánveitanda til þrautavara” fyrir bankana hverfur, ásamt verðbólgu, eignabruna og lánavísitölu. Gjaldeyrisbraskarar verða að leita sér að annari atvinnu.

 

  

Hér verða vistaðar slóðir á greinar um upptöku Kanadadals og um þá hugmynd að koma á fót myntráði fyrir Ísland. Fastgengi undir stjórn myntráðs er ekki háð ákveðinni stoðmynt. Hægt er að nota Kanadadal sem stoðmynt, ekki síður en aðra erlenda gjaldmiðla.

 

 

 

Himbrimi 

 

Himbrimi (Loon)

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 
 
 
  
 
 

 

   
  

 

     

 

 
 

 

    
      
    Burt með "torgreinda peningastefnu" !
Burt með Seðlabankann !
Burt með verðbólgu !
Burt með eignabruna !
Burt með lánavísitölu !
Burt með gjaldeyrishöft !
Burt með gjaldeyrisbrask !
Burt með ríkisábyrgð á bönkunum !
Burt með "lánveitanda-til-þrautavara" !
 

>>><<<
     
  
 
 

 


Landsdóms-leikurinn í Þjóðmenningarhúsinu

 

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi

   og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 
 
  
   

    

Landsdóms-leikurinn í Þjóðmenningarhúsinu


 
Fyrst birt í Morgunblaðinu 19. marz 2012.

 
 


Hafsteinn Sigurbjörnsson.

 

Það er grátbroslegt að sjá það sem fram fer í Þjóðmenningarhúsinu.
  

Þessi skrípaleikur sem þar er leikinn er svo viðbjóðslegur að öllu sómakæru fólki er orðið flökurt. Sakborningurinn gengur um salinn skælbrosandi, heilsar öllum vitnum með handabandi, vitnin brosa og taka í hönd hans og þakka fyrir síðast.
  

Önnur vitni sem á að yfirheyra síðar fá að vera í salnum og punkta hjá sér það sem fyrri vitni segja svo að öllu beri saman sem segja má. Ekkert skal segja um annan, svo ég sjálfur fái ekki gúmorinn. Sem sagt, samtryggingin alger.

  

Saksóknari biður vitnin að segja frá aðdraganda hrunsins og þeir segja allir það sem allir vita og allir fjölmiðlar hafa sagt frá hundrað sinnum. Og ef saksóknari gerist svo djarfur að spyrja vitnið einhvers frekar, þá svara allir á sama veg:

  

Það var ekkert hægt að gera, ég vissi ekkert, ég man það ekki og hrunið var ekki mér að kenna.

  

Og saksóknari er svo hógvær að hún vogar sér ekki að láta sakborning eða vitni sverja eið að sannleiksgildi frásagna sinna eða spyrja hvort enginn þerra beri neina ábyrgð á því hvernig komið sé fyrir þessari þjóð.

  

Nei það má ekki spyrja elítu landsins óþægilegra spurninga. Það er ekki minnsti neisti þess að nokkur af þessum svokölluðu framámönnum þjóðarinnar hafi kjark eða sjái sóma sinn í því að viðurkenna að þeim hafi orðið á í verkum sínum, þótt allir viti að öllum verður einhvern tíma eitthvað á í verkum sínum.

  

Nei þessar gungur eru svo fullkomnar að það er af og frá að þeim hafi orðið á. Þetta er aðeins þróaðra en sandkassaleikur smábarna, þar sem hver kennir öðrum um óknyttina. Hér er landsdóms-leikurinn kominn á það lágkúrustig að enginn segir neitt.

  

Í grein minni um ábyrgð manna á gjörðum sínum bendi ég á að allir bera ábyrgð í einhverri mynd á gjörðum sínum brjóti þeir landslög. Dómar um fébætur, missi atvinnuréttinda og fangelsisvist vegna ábyrgðarleysis í athöfnum eru öllum kunnir, jafnvel 17 ára unglingur, sem í gáleysi brýtur umferðarlög, er dæmdur.

  

Í lögum um ráðherraábyrgð er heill lagabálkur sem útlistar nákvæmlega að það sem hér gerðist í hruninu sé á ábyrgð ráðherra.

  

En hér er um framámenn þjóðarinnar að ræða og þeir skulu vera stikkfrí í störfum sínum en alþýðan ein má byrðarnar bera. Í öllu því stóði sem stefnt hefur verið til þessa landsdóms-leiks er einn sem ægishjálm ber yfir alla aðra í siðferðisþroska, trúverðugleika og heiðarleika og hann er fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri, mesti skaðvaldur sem Ísland hefur alið.

  

Ef hætt er öllu háði þá er hryggilegt að sjá hvernig komið er fyrir þessum hópi.

  

Siðferði hans er komið niður fyrir 0-flokk, trúverðugleiki hans í mínusflokk og heiðarleiki hans niður í það neðsta. Þetta er dómur 80 ára alþýðumanns og eflaust ótal margra annarra.

  

Og það er hámark hneykslunar að þessi skrípaleikur skuli háður í húsinu sem kennt er við þjóðmenningu. Er það nú þjóð-menning!

  

     

    
      
   Og það er hámark hneykslunar
 að þessi skrípaleikur skuli háður í húsinu
sem kennt er við þjóðmenningu.
Er það nú þjóð-menning!


>>><<<
     
  
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband