Sigurður Líndal: Úr þrasheimi stjórnmálamanns

 

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi

   og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 
 
  
   

    

Sigurður Líndal: Úr þrasheimi stjórnmálamanns


Fyrst birt í Pressunni 27. ágúst 2009.

 
 


Sigurður Líndal.

                                 
1. Inngangur – Lesandinn undirbúinn.
 
Í Pressuna 15. ágúst skrifar Jón Baldvin Hannibalsson langa grein sem á að vera svar við athugasemdum sem ég festi á blað og birti í Fréttablaðinu 13. júlí 2009 með beiðni um að hann fyndi stað tveimur fullyrðingum.

Hin fyrri var á þessa leið:

Evróputilskipunin sem leidd var í lög 1999, í forsætisráðherratíð Davíðs kveður á um tvennt: Að útibú banka, hvar sem er á evrópska efnahagssvæðinu, starfi á ábyrgð heimalandsins. Það á við um bankaleyfi, eftirlit og lágmarkstryggingu á sparifjárinnistæðum. Þessi lágmarksinnistæðutrygging skal nema 20.887 evrum.

Hér mun Jón Baldvin hafa átt við lög nr. 98/1999 sem sett voru á grundvelli tilskipana 94/19EB og 97/9EB. Í þessum ummælum felst fullyrðing um ábyrgð ríkissjóðs Íslands á Icesave skuldum sem tilteknir einstaklingar stofnuðu til að eigin frumkvæði og ábyrgð.

Hin síðari var á þessa leið:

Sá galli er á heimatilbúinni (eftirá) lögskýringu nokkurra íslenzkra lögfræðinga, nefnilega að sparifjártryggingin takmarkist við tóman tryggingarsjóð, að sá lögfræðingur fyrirfinnst ekki utan landsteinanna, sem tekur mark á lögskýringunni.

Jón Baldvin byrjar á að búa lesandann undir það sem fylgir á eftir: að efasemdir um skuldbindingar vegna Icesave séu merkingarlítið stagl um aukaatriði og leiðrétting á grófum ósannindum beri vitni um tilefnislausa vanstillingu sem sé kannski ómissandi ívaf í lagaþras og stagl sem hann kallar þjóðaríþrótt Íslendinga. Hér er byrjað á að hlaða undir fordóma lesenda og draga athyglina frá rökum málsins. Þetta er algeng aðferð þegar röksemdir láta á sér standa.

Upphaf þessa máls eru framangreindar tvær fyrirspurnir. Þau orð fylgdu að það myndi bæta umræðuna ef Jón Baldvin vildi vísa nákvæmlega í ákvæði laganna fyrri fullyrðingu sinni til stuðnings. Jafnframt benti ég á að síðari fullyrðingin stæðist ekki. Þegar mánuður hafði liðið án svars nefndi ég hlutina réttum nöfnum – þetta var nú öll vanstillingin og lagaþrasið.

2. Skilmálar í tilskipunum innistæðutryggingar 94/19EB.

Jón Baldvin byrjar á að rekja málsatvik með þessum orðum:

Árið 1999 leiddi Alþingi í lög tilskipun Evrópusambandsins um lágmarkstryggingu sparifjárinnistæðna hjá fjármálastofnunum á EES-svæðinu. Í tilskipuninni segir m.a., að stjórnvöldum sé skylt að „tryggja að innistæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun".

Og hverjir eru nú skilmálarnir? Þá getur að finna í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19 EB um innlánatryggingakerfi:

Þar segir í 24. lið aðfararorða:

Það er ekki bráðnauðsynlegt í þessari tilskipun að samræma leiðirnar við fjármögnun kerfa sem tryggja innlánin eða lánastofnanirnar sjálfar, meðal annars vegna þess að lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa og einnig vegna þess að fjárhagsleg geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingaskuldbindingarnar. Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu.

Og síðan segir í 25. lið:

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við þessa tilskipun.

Er þetta ekki alveg skýrt? Tryggingarsjóði var komið á fót eftir réttum reglum án athugasemda, t.d. frá Eftirlitsstofnun EFTA.

Og Jón Baldvin heldur áfram:

Hér fer ekkert milli mála. Tilgangurinn er skýr. Túlkun þessarar tilskipunar er alls staðar talin tryggja sparifjáreigendum að lágmarki 20.887.- evrur á hverjum innistæðureikningi – nema á Íslandi, að sögn nokkurra íslenzkra lögfræðinga. Þeir segja að það standi hvergi skýrum stöfum, að tryggingin sé með ríkisábyrgð. Skuldbindingin ríkisins sé eingöngu í því fólgin að mynda sjóð, burtséð frá því hvort sjóðurinn geti staðið undir yfirlýstum skuldbindingum eða ekki.

Á þessari lagatúlkun fáeinna lögfræðinga byggja menn síðan þá ályktun, að íslenzkum stjórnvöldum sé ekki skylt að standa við ákvæðin um lágmarkstryggingu. Við getum einfaldlega sagt: Nei takk, við borgum ekki. Gleymið þið þessu. – Þegar tveir deila getur það orðið til góðs að setja sig í spor deiluaðilans. Hefðum við tekið því þegjandi og hljóðalaust, ef erlendur banki hefði boðið okkur upp á svona trakteringar? Vísað á tóman sjóð og langsóttar lögskýringar til að réttlæta ránið?

Samkvæmt upphafsorðum 25. liðar var skuldbatt íslenzka ríkið sig til að koma á fót tryggingarsjóði svo sem nánar er greint í tilskipuninni. Hvergi í tilskipun 94/19EB er mælt fyrir um sérstaka ábyrgð aðildarríkja á skuldbindingum tryggingarsjóðs. Reyndar segir allt annað í aðfararorðum tilskipunarinnar sem Jóni virðist fyrirmunað að skilja eða vill ekki skilja. Í tilskipun 94/19EB eru engin fyrirmæli um fjármögnun innistæðutryggingarsjóðanna og því er einstökum ríkjum látið það eftir, enda er henni hagað með ólíkum hætti. Eftirlitsstofnanir, eins og Eftirlitsstofnun EFTA hefur engar athugasemdir gert við það, hvernig staðið hefur verið að verki hér á landi, enda ekkert sem bendir til annars en innistæðutryggingarsjóðurinn hefði getað staðið við allar skuldbindingar við einstaka banka, þótt honum væri það um megn við allsherjar kerfishrun.

Jón Baldvin segir að við ættum að reyna að setja okkur í spor deiluaðilans og spyr hvort við hefðum „tekið því þegjandi og hljóðalaust, ef erlendur banki hefði boðið okkur upp á svona trakteringar? Vísað á tóman sjóð og langsóttar lögskýringar til að réttlæta ránið.“ Og síðan heldur hann áfram:

Málið er ekki svona einfalt. Hin heimatilbúna lögskýring er í bezta falli misskilningur, en í versta falli útúrsnúningur á tilskipuninni. Skuldbinding ríkisins er ekki bara sú að mynda sjóð. Skuldbinding ríkisins er sú að hér sé starfræktur tryggingarsjóður, sem getur staðið við skuldbindingar sínar um lágmarkstryggingu sparisjóðsinnistæðna. Það er það sem ríkisstjórnir á EES-svæðinu hafa skuldbundið sig til að sjá um, í nafni neytendaverndar.

Hann ræðir um langsóttar lögskýringar þegar skýr texti tilskipunar 94/19EB og þá sérstaklega 24.-25. liður aðfararorða hennar blasir við. Hann lætur hjá líða að taka á því að ekki er mælt fyrir um fjármögnun tryggingarsjóða í tilskipuninni. Ekki skýrir hann heldur hvers vegna Eftirlitsstofnun EFTA gerði ekki athugasemdir fyrr en allt stefndi í óefni. Loks lætur hann að því liggja að íslenzk stjórnvöld eigi að annast neytendavernd í Hollandi og Bretlandi. Hvað sem líður reglum ESB/EES þá verður að ætla að það leysi ekki einstök ríki undan að verja neytendur sína. Hefði ekki verið eðlilegt að þarlend yfirvöld hefðu brugðizt við þegar lítt kunnur aðvífandi erlendur banki lék lausum hala í skjóli framangreinds regluverks ESB í stað þess að fela slíkt eftirlit fjarlægu smáríki?

Í stað þess að fara í saumana á tilskipun 94/19EB og lögum nr. 98/1999 slær Jón Baldvin fram órökstuddum fullyrðingum um langsóttar lögskýringar og ræðir í einni bendu lagalega ábyrgð og siðferðilega, þannig að texti hans verður einn allsherjar hrærigrautur. Að þessu verður nánar komið síðar.

3. Allsherjar kerfishrun.

Eins og að framan greinir er ekkert sem bendir til annars en sjálfseignarstofnunin Tryggingarsjóður innistæðueigenda hefði getað staðið við skuldbindingar sínar við öll áföll sem vænta mætti við eðlilegar aðstæður í hagkerfinu. Þess er ekki að vænta að gert hafi verið ráð fyrir að tryggingarsjóðirnir réðu við alþjóðlega bankakreppu eða allsherjar kerfishrun. Þá hefði án efa verið reynt að taka á því. Þó verður að hafa í huga að illgerlegt er að móta fyrirfram skilmerkilegar reglur þegar ófyrirsjáanlegir atburðir gerast svo sem styrjaldir, uppreisnir, náttúruhamfarir eða efnahagsöngþveiti, þannig að grunnforsendur löggjafarinnar bresta. Þá eru mál leyst á grundvelli neyðarréttarsjónarmiða og hvert tilfelli metið sérstaklega.

Fordæmi hefur verið mótað sem síðan má hafa til hliðsjónar og leiðsagnar. Nærtæk fordæmi eru til í réttarsögu Noregs og Íslands.


4. Regluverk ESB neyddi ekki landsbankamenn til fjáröflunarstarfsemi í Bretlandi og Hollandi í formi útibús.

Enn heldur Jón Baldvin áfram og segir að regluverk ESB hafi ekki neytt bankastjóra og bankaráð Landsbankans til að reka fjáröflunarstarfsemi í Bretlandi og Hollandi í formi útibús. Regluverkið neyddi engann. Það bauð upp á þessa tilhögun undir merki fjórfrelsisins án þess að tryggja aðhald sem virkaði. Sá er tilgangur lagareglna að fella samskipti manna í ákveðinn farveg. Í stað aðhalds gaf regluverkið mönnum nánast lausan tauminn.

Ef hætta hefði talizt stafa af starfsemi útibúa Landsbankans í Bretlandi og Hollandi sem stjórnvöldum þar í landi virðist hafa verið ljós þegar haustið 2008, jafnvel fyrr, er með ólíkindum að þau hafi ekki haft heimildir í eigin landslögum til að vernda þegna sína og stöðva starfsemi Landsbankans. En skýringin er væntanlega sú að slíkar aðgerðir hefðu líklega valdið áhlaupi á bankakerfið og riðlað því. Sýnir þetta enn einn galla á regluverki ESB/EES og slælegt eftirlit og aðhald.

Jón Baldvin kennir vanrækslu íslenzkra stjórnvalda um að starfsemi Landsbankans var ekki flutt í brezk og hollenzk dótturfélög, en íslenzk stjórnvöld hafi hafnað allri aðstoð Breta og Hollendinga til að koma því í kring. Seðlabanki Hollands og fjármálaeftirlit Bretlands hafi boðizt til að yfirtaka hvort tveggja eftirlitið og sparifjártrygginguna – en íslenzk stjórnvöld hafnað því. Og niðurstaðan er þessi:

Með því að fallast á tilboð yfirvalda í Bretlandi og Hollandi og með því að knýja forráðamenn Landsbankans til þess að færa starfsemina í dótturfyrirtæki, var íslenzkum stjórnvöldum í lófa lagið að firra íslenzka skattgreiðendur allri ábyrgð á Icesave. Þeim stóð þetta til boða. Þau höfðu úrræði sem dugðu. En þau sváfu á verðinum. Því fór sem fór.

Önnur lýsing er í athugasemdum við frumvarp ríkisstjórnarinnar um ábyrgð á Icesave-reikningunum, sbr. þskj. 209, þar sem segir meðal annars:

Fyrir hrun bankanna höfðu  brezk stjórnvöld unnið að því um nokkurt skeið ásamt íslenzkum stjórnvöldum að fá Landsbankann til að flytja innstæður svokallaðra Icesave-reikninga úr útibúinu í brezkt dótturfélag. Brezk stjórnvöld gerðu mjög stífar kröfur um flutning eigna Landsbankans til Bretlands og um tímamörk fyrir eignaflutninginn. Íslenzk stjórnvöld unnu að því að Landsbankanum yrði heimilað að flytja innstæður í brezkt dótturfélag strax, en að Landsbankanum yrði jafnframt gefinn eðlilegur frestur til skipulegs flutnings á eignum á móti innstæðum þannig að fjármögnunarsamningar bankans röskuðust sem minnst.

Fulltrúar stjórnvalda beggja landa áttu fund í London 2. september 2008 þar sem málið var rætt. Ekki náðist að ljúka flutningnum fyrir hrun bankanna. Hollendingar áttu fund með forstjóra FME haustið 2008 vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af stöðu Landsbankans. Einnig höfðu hollenzk yfirvöld samband við yfirmenn Landsbankans og lýstu áhyggjum af stöðu mála.“ (kap. 3.4).


Um þetta segir Jón Baldvin að fjármálaeftirlitið hafi gert hálfkaraðar tilraunir til að knýja Landsbankann til að breyta rekstrarforminu í dótturfyrirtæki – og stjórnvöld sofið á verðinum. Athygli vekur að hann gerir ekki sérstakar athugasemdir við framangreinda útlistun; hann tekur ekki á þeim skýringum að reynt hafi verið að færa reksturinn í Bretlandi og Hollandi í dótturfyrirtæki. Hvort rétt sé að kalla þessar tilraunir hálfkaraðar er háð huglægu mati og fullyrðing um að stjórnvöld hafi sofið á verðinum er röng. En hvað sem þessu líður bar Jóni Baldvin að rökstyðja fullyrðingar sínar, taka efnislega á framangreindum skýringum og eftir atvikum hrekja þær. Í stað þess viðhefur hann innihaldslausa orðræðu sem verður eins og vindhögg út í loftið.

5. Löglega bindandi yfirlýsingar.

"Hvað með »löglega bindandi yfirlýsingar forystumanna« á lagmarks-tryggingarverndinni sem Sigurður lýsir eftir?" spyr Jón Baldvin. Áður en lengra er haldið verður að leiðrétta fyrirspyrjanda: Ég lýsti ekki eftir lágmarks-tryggingarverndinni – hún liggur ljós fyrir eins og þegar hefur verið greint. Ég lýsti eftir »löglega bindandi yfirlýsingar forystumanna« þjóðarinnar um ábyrgð íslenzka ríkisins og þar með þjóðarinnar á skuldum sem tilteknir einstaklingar hefðu stofnað til, án þess að íslenzk stjórnvöld og því síður íslenzkur almenningur hefði haft þar forgöngu. Spurningunni er sem sé ekki svarað, svo sem nánar verður vikið að hér á eftir.

Jón Baldvin segist hafa mýmörg dæmi, en ætlar að láta nægja að nefna tvö. Hið fyrra útlistar hann þannig:

Þann 14. nóv. samþykkti þáverandi ríkisstjórn svokölluð umsamin viðmið („agreed guidelines“) fyrir samningaviðræður við stofnanir ESB og fulltrúa hollenzkra og brezkra stjórnvalda. Í hinum umsömdu viðmiðum segir m.a. að „tilskipunin um innistæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um evrópska efnahagssvæðið ... og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.“ – Þar með var hin séríslenzka lögskýring um, að innistæðutryggingin gilti ekki á Íslandi endanlega gefin upp á bátinn.

Allur mætti texti þessi vera skilmerkilegri, en hér mun átt við svokölluð Brüssel-viðmið frá 14. nóvember 2008 og með tilskipuninni um innstæðutryggingar er þá átt við tilskipun 94/19EB.

Síðan heldur hann áfram og kemur að hinu síðara dæmi. Það er á þessa leið:

Hafi eitthvað leikið á tveim tungum um skuldbindingar íslenzkra stjórnvalda um þessi efni, þá tók Davíð Oddsson þáverandi seðlabankastjóri, af öll tvímæli um slíkt með yfirlýsingu til framkvæmdastjórnar IMF daginn eftir, þann 15. nóv. 2008, sem hann undirritaði ásamt þáverandi fjármálaráðherra, Árna Mathiesen. Þar segir m.a.: „Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innistæðukerfisins gagnvart öllum innlánshöfum.

Jón Baldvin gætir þess vandlega þegar hann vitnar til heimilda máli sínu til stuðnings, að staðnæmast áður en komið er að kjarna málsins. Í fyrra dæminu segir hann að tilskipunin um innistæðutryggingar gildi á Íslandi með sama hætti og hún gildi í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Í hinu síðara að Ísland hafi heitið að virða skuldbindingar á grundvelli innistæðutryggingarkefisins gagnvart öllum innlánshöfum.

Virðing fyrir því að standa við skuldbindingar snýst hér ekki um ríkisábyrgð, heldur að koma á fót innistæðutryggingarkerfi  sem felur í sér að stofna tryggingarsjóð svo sem mælt er í tilskipun 94/19/EB og nánar er gerð grein fyrir í 2. kafla hér að framan. Ef sú trygging nægir ekki og ekki tekst að útvega tryggingarsjóði lán birtist enn einn gallinn á regluverki ESB/EES nema því sé játað að regluverkið sé ekki í stakk búið til að taka á lítt fyrirsjáanlegum atburðum eins og kerfishruni. Við því verður þá að bregðast með öðrum hætti en innan regluverks ESB/EES. En hvað sem þessu líður er ljóst að Íslendingar gengust undir  regluverk ESB/EES undir forystu Jóns Baldvins með kostum þess og göllum. Viðbrögð hans sýna að hann sér ekki gallana eða afneitar þeim og sökudólgarnir eru íslenzk stjórnvöld.

Með þessum hætti víkur Jón Baldvin sér undan að svara því sem ég lýsti eftir. Hann kýs að ræða almennt um skuldbindingar Íslands, en forðast eins og heitan eldinn að gera grein fyrir því, hvað þær feli í sér. Hann talar eins og í tilskipun 94/19/EB sé mælt fyrir um ríkisábyrgð þótt það eigi þar enga stoð.

Í athugasemdum við frumvarpið um ábyrgð ríkisins á Icesave reikningunum (þskj.204) er þess hvergi getið að hinum umsömdu viðmiðum fylgi ríkisábyrgð (sbr. kafla 9.3). Reyndar var allt annað uppi á teningnum þegar Alþingi ályktaði 5. desember að leiða til lykta samninga um innistæður í útibúum íslenzkra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli hinna sameiginlegu viðmiða. Vitnað er til álits meirihluta utanríkismálanefndar þar sem tekið er fram að skýra lagaskyldu skorti um ábyrgð íslenzka ríkisins umfram það sem Tryggingarsjóður innistæðueigenda gæti staðið undir (sbr. kafla 9.5).

Ef Ísland hefði tekið á sig ábyrgð með hinum umsömdu viðmiðum hefði þá þurft að gera sérstakan samning um  ríkisábyrgð 5. júní 2009 sem undanfarið hefur legið fyrir Alþingi?

Nú liggja fyrir fjölmargar yfirlýsingar forvígismanna Íslendinga um stuðning við tryggingarsjóð, nánar tiltekið að aðstoða sjóðinn við að afla nauðsynlegs fjár – meðal annars með lántökum – svo að hann geti staðið við skuldbindingar um lágmarkstryggingu innistæðna. Ef orð kynnu að hafa fallið á annan veg, geta þau ekki fellt ábyrgð á ríkissjóð, þar sem slík ábyrgð verður að hljóta samþykki Alþingis. Í mikilvægum milliríkjaviðskiptum er gengið úr skugga um umboð og réttarstöðu viðsemjenda, þannig að þetta hefur bæði Hollendingum og Bretum verið ljóst. Reyndar skiptir grandleysi ekki máli – slíkt loforð er ekki bindandi.

En ef Jóni Baldvini er annt um sjálfsvirðingu sína, ætti hann að gefa orðum sínum gaum. Með ummælum um bindandi yfirlýsingar íslenzkra ráðamanna um ríkisábyrgð – þótt hann hafi ekki fundið þeim stað – er hann að saka þá um að virða ekki stjórnarskrána. Ríkisábyrgð hlýtur að fylgja lántaka og fyrir henni verður væntanlega setja tryggingu og til þess þarf samþykki Alþingis, sbr. 40.-41. gr. stjórnarskrárinnar, sbr einnig 21. gr. Ráðherra sem hefði gefið yfirlýsingu um stórfelldar fjárhagsskuldbindingar með ábyrgð íslenzka ríkisins án fyrirvara um samþykki þingsins kynni að baka sér ábyrgð samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð og verða stefnt fyrir Landsdóm. Jón Baldvin er með orðum sínum að saka forystumenn Íslendinga, þar á meðal ráðherra um stórfelld lögbrot. Þrátt fyrir það að vera ekki bindandi er augljóst að slíkar yfirlýsingar hefðu skaðað íslenzka ríkið.

6. Dómsmeðferð hafnað.

Nú hafa bæði Bretar og Hollendingar hafnað allri dómsmeðferð hverju nafni sem hún nefnist. Þetta skýrir Jón Baldvin með þeirri spurningu „hvort nokkur ríkisstjórn í fullvalda ríki mundi sjálfviljug fallast á aðild að dómsmáli, sem – burtséð frá niðurstöðu dómstólsins – gæti hrundið af stað áhlaupi á gervallt bankakerfi viðkomandi lands.“

Hér er nú komið að kjarna málsins. Þótt enginn lögfræðingur utan landsteinanna fallist á „heimatilbúnar“ skýringar fáeinna íslenzkra lögfræðinga sem Jón Baldvin ítrekar hvað eftir annað – hvað er þá að óttast? Hann svarar: Hinar „heimatilbúnu“ skýringar gætu hrundið af stað áhlaupi á gervallt bankakerfi hlutaðeigandi lands, eða með öðrum orðum Íslandi er neitað um sjálfsagðan rétt vegna hættu á hruni bankakerfis ef látið er reyna á hinar „heimatilbúnu“ skýringar sem enginn tekur mark á. Þær höfðu með öðrum orðum þó það vægi að ekki þótti hættandi á að leggja þær fyrir hlutlausan dóm eða bera þær undir hóp valinkunnra lögfræðinga sem gefið væri hæfilegt svigrúm og ynnu eftir skilmerkilegum málsmeðferðarreglum.

Að tillögu þáverandi fjármálaráðherra á fundi fjármálaráðherra ESB og EFTA í byrjun nóvember 2008 féllust Bretar og Hollendingar reyndar á að leggja málið í gerðardóm, en fulltrúi Íslendingar „skrópaði“ að sögn Jóns Baldvins.

Það tók hina aðeins sólahring að komast að þeirri niðurstöðu, að íslenzka ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslu lágmarkstrygginga skv. tilskipuninni, dygðu eignir tryggingarsjóðsins ekki til (sama heimild, bls 242, þ.e. Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson)

segir Jón Baldvin með sýnilegri velþóknun og spyr síðan:

Hvers vegna ætli ríkisstjórn Íslands hafi runnið af hólmi? Ástæðurnar voru tvær: Annars vegar fluttu íslenzkir embættismenn ráðherrum þau boð, að enginn – bókstaflega enginn – tæki mark á hinni íslenzku lögskýringu, eins og rækilega hefur komið á daginn. Hin ástæðan er sú, að ríkisstjórnin þorði ekki, réttilega, að taka þá áhættu, að niðurstaðan yrði íslenzkum skattgreiðendum miklu dýrari en unnt væri að ná með samningum.

Eins og fyrr segir féllust Bretar og Hollendingar á að leggja málið fyrir gerðardóm. Aðdragandinn var sá að á fundi í ráðherraráði ESB 4. nóvember 2008 var gerð tilraun til að ná samkomulagi um að leggja málið í gerðardóm, þannig að dómurinn yrði skipaður fulltrúum tilnefndum af ráðherraráði ESB, framkvæmdastjórn ESB, eftirlitsstofnun EFTA og EFTA, en þann fulltrúa áttu íslenzk stjórnvöld að tilnefna.

Auk þess skipaði Seðlabanki Evrópu oddamann. Þremur dögum síðar – 7. nóvember – sögðu íslenzk stjórnvöld sig frá gerðardóminum og voru tilgreindar ástæður þær, að umboð dómsins væri of víðtækt, dóminum væri gefinn of skammur tími, að niðurstaðan væri bindandi og málsmeðferðarreglur ófullnægjandi. Fulltrúar gerðardómsins komu eigi að síður saman og gáfu samdóma álit eftir rúmlega sólahrings skoðun að íslenzka ríkinu bæri að ábyrgjast lágmarkstryggingu samkvæmt tilskipuninni um innistæðutryggingu, ef eignir Tryggingarsjóðs innistæðueigenda og fjárfesta dygðu ekki til. (Nefndarálit meirihluta fjárlaganefndar, þskj. 335, bls. 4).

Athygli vekur hversu skamman tíma það tók fyrir gerðardóminn að komast að niðurstöðu og vekur það grunsemdir að hann hafi fyrirfram myndað sér ákveðna skoðun. Að vísu má ætla að gerðardómurinn hafi dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði Breta og Hollendinga að því leyti sem samrýmanlegt hafi verið framkomnum gögnum, úr því að Íslendingar höfnuðu dóminum. En ekki eyðir það fyrrnefndum grunsemdum, enda fer þar lítið fyrir rökstuðningi.

Hér hefur Jón Baldvin lítt rökstudda niðurstöðu gerðardóms sem fengin er á rúmum sólahring sem sönnun þess að enginn taki mark á lagalegum rökum Íslendinga. Og hann er svo fyrirfram sannfærður að hann sér ekki ástæðu til að huga að röksemdum Íslendinga fyrir því að hafna þessari málsmeðferð, leggja mat á þær og  gagnrýna ef hann hefði talið rök standa til. Í þess stað beinir hann orðaflaumi sínum framhjá málsefninu og afgreiðir málið með innihaldslausum upphrópunum um markleysi röksemda Íslendinga. – Og þá er komið að því að ræða nánar hina heimatilbúnu séríslenzku lögskýringu sem Jóni Baldvini verður svo tíðrætt um.

7. Heimatilbúin séríslenzk lögskýring.

Í grein sinni í Morgunblaðinu 7. júlí sl. fullyrti Jóni Baldvin að ekki fyndist neinn lögfræðingur utan landsteinanna sem taki mark á „heimatilbúinni“ skýringu nokkurra íslenzkra lögfræðinga um að ábyrgð væri takmörkuð við „tóman“ tryggingarsjóð.

Ég benti honum á, að undir þessa „heimatilbúnu“ skýringu nokkurra íslenzkra lögfræðinga hefðu tekið þrjár erlendar lögmannsstofur – tvær brezkar, Miscon de Reya og Lowells í London og ein belgísk Schiödt í Brüssel. Raunar hafa nú fleiri bætzt við og má þar nefna Lee Bucheit, lögmann í New York og kennara við Harvard og Yale Háskóla. Og hvernig brást nú Jón Baldvin við?

Sigurður segir það ranghermi, að ekki sé tekið mark á hinni „heimatilbúnu“ lögskýringu utan landsteinanna og nefnir í því tilviki þrjár erlendar lögmannsstofur, sem voru tilbúnar að reka málið fyrir Íslands hönd, ef stjórnvöld hefðu þorað að taka þá áhættu. Nú hef ég að vísu aldrei haldið því fram, að ekki sé unnt að leigja lögmenn til þess að þjóna hvaða málstað sem vera skal – fyrir hæfilega þóknun að þeirra mati.

Er þetta svar við leiðréttingu minni á þeirri fullyrðingu Jóns Baldvins að enginn lögfræðingur utan landsteinanna taki mark á hinni heimatilbúnu lögskýringu? Nú taka erlendir lögfræðingar undir hana, að sögn Jóns Baldvins, gegn hæfilegri þóknun, þ.e.a.s. ef þeir fá borgað fyrir – m.ö.o. framangreindir lögmenn ganga svo langt í peningahyggju að þeir selja sig fyrir hvaða málstað sem er. Hvað á að kalla slíka iðju? En Jón Baldvin gætir ekki að einu: Slík þjónusta getur komið í koll þeim sem tekur hana að sér. Líklegast væri að dómstóll vísaði máli frá sem enginn fótur væri fyrir og lögmenn sem að slíku máli stæðu yrðu víttir og hugsanlega sektaðir fyrir tilefnislausa málsýfingu, auk þess sem þeir glötuðu hvorutveggja viðskiptum og virðingu.
Hér má minna á að sjálfstæð lögmannastétt sem lýtur ströngum siðareglum er ein meginstoð réttarríkisins, en í þá átt hefur þróunin stefnt í meginatriðum á vesturlöndum þótt ekki hafi hún verið snurðulaus með öllu. Auk lagasetningar hefur lögskipan vesturlanda mótazt í rökræðum lögmanna og dómum dómstóla, jafnhliða því sem réttarríkið hefur styrkzt og stjórnmálastarfsemin fengið aukið aðhald. Hún hefur síðan orðið undirstaða hagkerfis og loks tæknikerfis landanna. Þetta er meðal þess sem skipað hefur vesturlöndum í forystu. Margar þjóði utan Evrópu hafa síðan tekið réttarkerfi vesturlanda til fyrirmyndar.

Þegar hann hefur gefið framangreindum lögmönnum þá einkunn að þeir séu falir til hvaða verka sem er, heldur hann áfram:

„Ísland er einangrað í Icesave-deilunni“. Þetta er upphafið á minnisblaði embættismanna utanríkisráðuneytisins, dag. 13. nóv. 2008, um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi í Icesave-deilunni. Síðan er því lýst: "að enginn hafi tekið undir lagarök íslenzkra stjórnvalda, ekki einu sinni frændþjóðir á Norðurlöndum, [og ríki Evrópusambandsins hefðu þverneitað að hefja samningaviðræður eða leggja málið í dóm, „enda myndi það við núverandi aðstæður hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir bankakerfi í öllum aðildarríkjum bandalagsins“. Í ofanálag kom enginn dómstóll sterklega til greina; Ísland var ekki aðili að Evrópudómstól ESB og hvorki Bretland né Holland áttu aðild að EFTA-dómstólnum.

Í minnisblaðinu var þess einnig getið að síðustu daga hefði Íslendingum verið sagt að þeir yrðu að átta sig á að þeir væru ekki einir í vanda: „Samstarfsríki Íslands hafa bent á að skuldaaukning annarra ríkja vegna björgunaraðgerða eigin bankakerfa er sízt minni en væntanleg skuldaaukning´Íslands vegna Icesave, og Ísland muni ekki standa verst þegar upp er staðið.“ Þá væri augljóst að deilan um Icesave réði því að beiðni um aðstoð Alþjóða-gjaldeyrissjóðsins hefði ekki enn verið svarað í Washington og fullreynt væri að engu yrði breytt í Brüssel.
]..
(sjá Guðni Th.: Hrunið, bls. 251)-261).

Síðan heldur Jón Baldvin áfram að vitna í minnisblaðið:

Að mati framkvæmdastjórnar ESB og aðildarríkja þess ... er tími lögfræðilegra útlistana liðinn. Búið er að fara yfir Icesave-málið út frá lagalegum forsendum og niðurstaðan er ljós: Ísland er einangrað í þeirri afstöðu sinni, að lagaleg óvissa ríki um málið og hefur lagalegum sjónarmiðum íslenzkra stjórnvalda þar að lútandi verið hafnað alfarið. Fulltrúi ESB-ríkis orðaði þetta svo: „You have to face it ... nobody agrees with you that there is legal uncertainty ... not even your closest friends support you  your credibility has suffered“.
Þetta var staðan að mati utanríkisráðuneytisins, þegar þann 13. nóvember 2008.

Hér verður að gefa því sérstaklega gaum að Jón Baldvin sleppir úr minnisblaðinu textanum sem er feitletraður (rauður) og gert er lesanda til glöggvunar. Og þar er skýringin á því hvers vegna enginn hafi tekið undir lagarök íslenzkra stjórnvalda og tími lögfræðilegra útlistana sé liðinn: það voru ekki lagarök, heldur myndi það hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir bankakerfi í öllum aðildarríkjum bandalagsins ef hlustað væri á hin „heimatilbúnu“ rök. Svo þung hafa þau þó verið á metunum. Valdi var teflt gegn lögum og lög víkja fyrir valdi.

8. Hver ber ábyrgð?

Jón Baldvin er ekki í neinum vafa um það hver beri ábyrgð á því hvernig komið er. Hann segir:

Þeir sem bera ábyrgð á Icesave-klúðrinu eru margir: Bankastjórar og bankaráðsmenn Landsbankans, eftirlitsstofnanir íslenzka ríkisins, svo sem seðlabanki og fjármálaeftirlit, og síðast en ekki sízt oddvitar stjórnarflokka og ráðherrar í ríkisstjórn um Íslands, a.m.k. á tímabilinu 2006-2008. Fórnarlömbin í málinu eru brezkir og hollenzkir sparifjáreigendur og að lokum íslenzkir skattgreiðendur. Þeir sitja uppi með skuldina vegna ábyrgðarleysis og mistaka íslenzkra stjórnvalda sem sannarlega hefðu getað forðað þessu slysi, eins og hér hefur verið sýnt fram á.

Hann bætir síðan við að ég gangi fram fyrir skjöldu og mæli því bót að forráðamenn Íslands komi óorði á land og þjóð með því að hlaupast frá skuldbindingum sínum. Síðan fylgir eftirfarandi tilvitnun í grein mína Að standa við alþjóðlegar skuldbindingar:

Nú mega það kallast firn mikil, ef heil þjóð – og þá einnig komandi kynslóðir – eigi að ábyrgjast himinháar greiðslur, sem einstaklingar hafa með umsvifum sínum stofnað til, án þess að íslenzk stjórnvöld (leturbreyting JBH) og íslenzkur almenningur hafi haft þar forgöngu. Ef íslenzka ríkið, og þar með þjóðin, ætti að bera slíka ábyrgð, yrði hún að styðjast við skýr fyrirmæli í lögum, fjölþjóðlegum samningum, eða löglega bindandi yfirlýsingar forystumanna þjóðarinnar.

Og allt er þetta til staðar að mati Jóns Baldvins.

1. Lagafyrirmæli. Þetta er rangt, sbr. 2. kafla.

2. Fjölþjóðlegir samningar. Þetta er rangt, sbr. sama kafla.

3. Löglega bindandi yfirlýsingar forystumanna. Þetta er rangt, sbr. 5. kafla.

4. Loks segir:

Fráleitt er að halda því fram, að íslenzk stjórnvöld hafi ekki haft forgöngu um málið. Alþingi lögleiddi skuldbindinguna og samþykkti 5. des. 2008 að ganga til samninga á grundvelli tilskipunarinnar. Ríkisstjórn landsins samdi um það við málsaðila með hinum svokölluðu „agreed guidelines“ að fara samningaleiðina og viðurkenndi ótvírætt, að lágmarkstrygging sparifjárinnistæðna gilti á Íslandi með sama hætti og í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Textinn mætti vera skilmerkilegri. Jón Baldvin segir fráleitt að halda því fram að íslenzk stjórnvöld hafi ekki haft forgöngu um málið. Hvaða mál? Ég segi að íslenzk stjórnvöld og almenningur hafi ekki haft forgöngu um umsvif íslenzkra fjármálamanna í útlöndum, en Jón Baldvin sveigir athugasemdina frá orðum mínum og ræðir í þess stað um hin svonefndu umsömdu viðmið og segir að með þeim hafi íslenzka ríkið tekið á sig ábyrgð á skuldum vegna Icesavereikninga. Þetta er rangt, sbr. 5. kafla, og að auki ekki í neinu samhengi við orð mín. Forganga stjórnvalda var fólgin í að Ísland gekkst undir EES-samninginn með kostum hans og einnig göllum eins og tekið er fram í 5. kafla,

Í umræðu beitir Jón Baldvin gjarnan þeirri aðferð að taka ekki á rökum fyrir niðurstöðu sem honum eru ekki þóknanleg. Í stað gagnraka beinir hann máli sínu í aðra átt framhjá rökum viðmælanda síns svo að úr verður eintal, iðulega kryddað stóryrðum. Þannig bregzt hann t.d. við skýringum á því hvers vegna innistæður Landsbankans höfðu ekki verið færðar í brezk dótturfélög, sbr. 4. kafla hér að framan og að Íslendingar höfnuðu gerðardómsmeðferð þeirri sem ákveðin hafði verið 4. nóvember 2008 og Íslendingar sögðu sig frá 7. nóvember, sbr. 6. kafla.

9. Nánar um lagarök.

Þegar lagarök Jóns Baldvins bresta vísar hann til greinar Hróbjarts Jónatanssonar í Morgunblaðinu 11. ágúst 2009. Í greininni er raunar tekið skýrt fram að í tilskipuninni (þ.e. tsk. 94/19EB) sé ekki mælt berum orðum fyrir um ríkisábyrgð eins og Jón Baldvin hefur eindregið látið liggja að. Síðan veltir Hróbjartur því upp hvort íslenzk stjórnvöld hafi staðið rétt að verki við að lögleiða tilskipun 94/19EB og hvort eftirlit með bönkum hafi verið fullnægjandi. Eftirlitið hafi verið ófullnægjandi og hann er vantrúaður á að viðbáran um kerfishrun sé á nægilega traustum grunni. Þetta kunni að leiða til skaðabótaskyldu íslenzka ríkisins. Síðan tekur hann fyrir siðferðileg rök sem rædd verða síðar. Niðurstaðan er sú að af tvennu illu sé heppilegra að semja en leggja ágreining undir dómstóla. Hér er á engan hátt tekið undir málflutning Jóns Baldvins og flest sagt með fyrirvörum.

Ekkert er við það að athuga þótt menn velti lagarökum fyrir sér og gefi öllum röksemdum gegn málstað Íslendinga fyllsta gaum. Þetta gera lögmennirnir á hinum erlendu lögmannsstofum sem nefndar hafa verið til þessarar sögu. Þeir hafa reifað röksemdir með og móti því sem íslenzk stjórnvöld hafa haldið fram, en niðurstaða þeirra verið sú að Íslendingar hafi teflt fram fyllilega frambærilegum rökum.

Hróbjartur leggur megináherzlu á að eftirliti hér hafi verið áfátt og hefur þar sitt hvað til síns máls. En eftirlit hefur víðar brugðizt en á Íslandi, bæði í Hollandi og Bretlandi, sbr. 2. kafla hér að framan, og árum saman gerði Eftirlitsstofnun EFTA engar athugasemdir. Verður ekki dregin af því önnur ályktun en sú að stofnunin hafi talið tryggingarsjóð geta staðið undir skuldbindingum við allar eðlilegar aðstæður og það sem á kynni að vanta mætti jafna með lántökum. Síðast en ekki sízt bauð regluverk EES upp á svigrúm án nægilegs aðhalds. Og svo brothætt var kerfið að hætta var talin á að það hryndi ef látið yrði reyna á lagarök. Loks má spyrja hvort erlendir eigendur innlána hafi sýnt eðlilega aðgæzlu með því að moka peningum í lítt þekktan banka úr fjarlægu landi. Þegar nú þetta er haft í huga er þá ekki eðlilegt að skipta ábyrgðinni milli þeirra ríkja sem helzt eiga hlut að máli, Íslands, Bretlands og Hollands – og jafnvel Evrópusambandið tæki sinn skerf, en þetta er sérstakt athugunarefni. (Sjá Stefán Má Stefánss0n og Lárus Blöndal: Er Evrópusambandið bótaábyrgt? Morgunblaðið 14. desember 2008).

Engu af þessu gefur Jón Baldvin minnsta gaum í ákefð sinni að velta allri ábyrgð yfir á íslenzka ríkið og allan almenning í landinu eins og sjá má í textanum sem vitnað var til í upphafi 8. kafla. Og þetta sækir hann af slíku kappi að hann sinnir hvorki augljósum sannindum né réttum rökum eins og hér hefur verið sýnt fram á.

Og málstaður Íslands er nú ekki verri en svo, að þær raddir heyrast æ oftar í brezkum fjölmiðlum, meðal annars í ritstjórnargrein Financial Times að fleira hafi brugðizt en íslenzk stjórnvöld – hvorki brezk né hollenzk stjórnvöld hafi haldið vöku sinni og í því samhengi hefur blaðið hvatt til þess að þjóðirnar deili byrðum sínum jafnar en gert sé með Icesave-samningunum. Svipaðar raddir heyrast frá Hollandi, meðal annars í ritstjórnargrein blaðsins Volkskrant. Reyndar þyrfti að greina meira frá skrifum erlendra blaða um þessi efni en gert er.

En Jón Baldvin hefur kosið að taka sér stöðu með harsvíruðustu öflum í Bretlandi, með Brown forsætisráðherra og Darling fjármálaráðherra í fremstu röð, sem láta einskis ófreistað að knésetja íslenzku þjóðina. Og þetta gerir hann af slíkum ákafa að hann skirrist ekki við að styðja mál sitt við uppspuna og ósannindi málstað þeirra til stuðnings. Hér verður að hafa í huga að maðurinn er fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands og sendiherra sem hafði þá æðstu starfsskyldu að gæta hagsmuna Íslands.

10. Siðferðileg ábyrgð.

Í undanfarandi köflum hefur áherzla verið lögð á lagarök og niðurstaðan sú að hvorki í ákvæðum laga né fjölþjóðasamningum sé að finna skýra heimild fyrir ábyrgð ríkissjóðs á Icesave-reikningunum. Tilraunir til að velta slíkri ábyrgð yfir á Íslendinga eru bundnar við óljósa túlkun einkum með skírskotun til anda og tilgangs ESB/EES-réttar og ónógt eftirlit. Þetta er hins vegar ófullnægjandi að mínum dómi til að leggja ofurbyrðar á eina þjóð og næstu kynslóðir. Það væri efni í sérstaka ritgerð að fara yfir þennan þátt málsins.

Til viðbótar langsóttri túlkun er gripið til siðferðilegra röksemda. Þessa gætir í málflutningi Jóns Baldvins, en framsetning hans er ekki nægilega skýr, þannig að skil milli lagaröksemda og siðferðisröksemda verða óglögg. Vissulega er virðing fyrir lögum siðferðileg skylda og flestar lagareglur í réttarríkjum eiga beina eða óbeina stoð í siðferðisreglum, þannig að lög og siðferði sameinast. En lagareglurnar eru nauðsynlegar til að skerpa á siðferðisreglunum og afmarka þær í tengslum við raunhæf álitaefni þar sem það er unnt. Þegar þangað er komið er skýrara að láta það koma í ljós hvort lagaregla sé í forgrunni eða siðaregla þegar menn menn styðja mál sitt. Í 2. kafla hér að framan er vitnað til ummæla Jóns Baldvins þess efnis hvort við hefðum tekið því þegjandi og hljóðalaust ef erlendur banki hefði boðið upp á að vísa á tóman sjóð og langsóttar lögskýringar til að réttlæta ránið eins og hann orðar það og í 7. kafla sakar hann mig um að mæla því bót að forráðamenn Íslands komi óorði á land og þjóð með því að hlaupast frá skuldbindingu sínum. Hér eru tvö dæmi um að óljóst er hvort er í forgrunni lagaskyldan eða eða siðferðisskyldan.

Þá er þeirri spurningu ekki svarað nægilega skýrt með hvaða rökum íslenzkur almenningur og komandi kynslóðir eigi að bera siðferðilega ábyrgð á umsvifum tiltekinna einstaklinga erlendis. Tók allur almenningur þátt í þessum leik með beinum eða óbeinum hætti? Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar er tæpt á því (þskj 335, kafli VIII, iv), en þessu álitaefni þarf að gera frekari skil.

Að sjálfsögðu ber að gefa siðferðilegum viðhorfum fyllsta gaum í tengslum við Icesave-málið, en áður en siðferðileg ábyrgð er viðurkennd er æskilegt að réttarstaðan liggi ljós fyrir, en sú leið hefur reynzt ófær. En að svo miklu leyti sem íslenzka ríkið og þá jafnframt þjóðin ber siðferðilega ábyrgð þá leysir það hvorki Breta né Hollendinga undan slíkri ábyrgð, né heldur Evrópusambandið.

11. Að semja.

Nú mælir margt með samningum umfram dómsúrlausnir. En hér á við það sem þegar er tekið fram, að nauðsynlegt er að réttarstaða samningsaðila sé sem skýrust, þótt ekki liggi bindandi dómur til grundvallar. Þegar því hefur verið hafnað bitnar það með vissum hætti á samningsferlinu þannig að jafnvægi er raskað og aflsmunur ræður niðurstöðu. En hvað sem þessu líður væri eðlilegt að takmarka og dreifa ábyrgð, en það er varla gert sem skyldi í Icesave-samningnum sem undirritaður var 5. júní sl. Svo á eftir að koma í ljós hvernig breytingum Alþingis verður tekið.

12. Lokaorð.

Aldrei var það ætlun mín að blanda mér í umræður um Icesave-málið, enda aðrir betur fallnir til þess, en mér ofbuðu svo skrif Jóns Baldvins í Morgunblaðinu 7. júlí 2009 – og raunar fleira sem hann hefur skrifað um málið – að ég gat ekki orða bundizt.

Ýmislegt hefur verið sagt um orsakir efnahagshrunsins á Íslandi og þar eru áreiðanlega ekki öll kurl komin til grafar. Meðal sökudólga hafa fjölmiðlar verið nefndir og látið að því liggja að auðmenn og útrásarvíkingar hafi haft helzt til mikil áhrif á gagnrýnislaus skrif þeirra. Þetta mætti vissulega kanna nánar en gert hefur verið, en jafnframt ætti að skoða þá stjórnmálaumræðu sem fram fer í landinu.

Hver skyldi vera þáttur hennar? Hér að framan hefur verið brugðið upp mynd af því hvernig fyrrverandi flokksformaður, utanríkisráðherra og síðast sendiherra stendur að verki. Er líklegt að almenningur í landinu nái áttum og auðsynlegt aðhald verði tryggt, þegar umræða af þessu tagi dynur í eyrum manna alla tíð?

                                 

  

>>><<<
 

  
     
  
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband