Landsvirkjun í uppnámi

  
 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

 

Landsvirkjun í uppnámi.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 23. maí 2015.



Friðrik Daníelsson.

Mesta og bezta fyrirtæki þjóðarinnar er komið í ógöngur. Þær hófust þegar fyrirtækið var klofið í herðar niður (til að herma eftir stórum löndum) og stofnaður nýr óþarfur milliliður (Landsnet) sem gerði íslendska orkukerfið minna samkeppnishæft. Fyrirtækið lenti svo í stjórnmálabrölti þegar Icesave-ríkisstjórnin notaði það við að rukka inn fjárkúgunarkröfur Bretastjórnar.

Skýjaborg og ríkisauðvald..

Næst auglýstu stjórnendurnir að Landsvirkjun skyldi græða svo mikið að hægt væri að stofna ígildi »íslendsks olíusjóðs« og lifa í vellystingum (fjármálaráðherrann lét ekki bjóða sér í skýjaborgina um ríkiskapítalismann en sagðist mundu stofna fullveldissjóð með peningunum). Megna braskvæðingarfýlu lagði frá »olíusjóðs«-hugmyndinni: Markmiðið var augljóslega að gylla reksturinn til þess að koma Landsvirkjun í eigu einkafjáreigenda; »selja« hana. Það var ekki sagt hvaðan ofurgróðinn ætti að koma, en hann getur aðeins komið frá tekjum fyrirtækisins, þær eru allar úr vösum landsmanna, eigenda Landsvirkjunar og frá fyrirtækjum sem veita þeim atvinnu!

Almannaþjónustufyrirtæki græða ekki heldur lækka verð..

Ef almannafyrirtækið Landsvirkjun er farið að sýna ofurgróða er það vegna þess að það er að okra á landsmönnum og þeirra atvinnuveitendum. Fyrirtækið á að lækka orkuverðið ef miklir peningar eru afgangs. Landsvirkjun var ekki stofnuð til að þjóna ríkisauðvaldi heldur til að útvega fyrirtækjum og heimilum landsins hagkvæma orku. Og reyndar líka að fá hingað atvinnu við að nota orkuna, þetta gerði hún með sóma í marga áratugi. Landsvirkjun á eftir að virkja 15 árs-teravatttíma á næstu áratugum og auk þess að þróa djúpborunartæknina sem getur staðið undir lífskjörum í framtíðinni. Kostnaður verður þúsundir milljarða. Gróði Landsvirkjunar er löngu eyrnamerktur í mikilvæg uppbyggingarverkefni: Nýtingu og þróun stóru vannýttu auðlinda landsins, sem munu gefa margfalt meira af sér en »olíusjóður« sem braskar með almannafé.

Vindmyllur..

Næsta gæluverkefni Landsvirkjunar voru vindmyllur eins og hjá riddaranum sjónumhrygga (Don Quijote frá la Mancha). Þær eru dýrar og óhagkvæmar, heilsuspillandi fyrir fólk í nálægð, útsýnislýti á fögru landi, meiða og drepa fugla. Hagkvæmasta orkan er úr jarðvarma og fallvötnum sem Landsvirkjun hefur nægan aðgang að. Tilraunir með vindmyllur eru fyrir hugsjónamenn, en þær eru ekki þjónustufyrirtæki almennings.

Vír til Bretlands..

Glóruminnsta hugmyndin sem stjórnendur Landsvirkjunar hafa fallið fyrir er að flytja orkuna sem eftir er að virkja ónýtta til Bretlands. Þeir hafa reiknað út að árstekjurnar verði líklega af stærðinni 35 milljarðar! Það er ágiskun. Tekjuáætlanirnar eru bjartsýnisspár, stofn- og rekstrarkostnaðaráætlanir mjög óvissar (ekki verið gert áður), ekkert er vitað með vissu um viðhaldskostnað á úthafsbotni, engin áreiðanleg spá til um bilanir, engin leið að spá um afleiðingar afhendingarfalls og enginn hefur efni á að berjast við skaðabóta-lögfræðingamiðstöðina í London. Íslendingar geta ekki treyst Bretastjórn, hún traðkar á hagsmunum Íslands og brýtur samninga þegar henni hentar eins og sagan sýnir (1952, 1958, 1960, 1970, 1972, 1976, 2008). Sæstrengur til Bretlands skapar ekki atvinnu.

Það þarf að virkja bróðurpartinn af bestu orkulindum landsins til að einhver hagkvæmni gæti mögulega náðst. Það er lítil orka á mælikvarða Breta (samsvarar einu litlu kjarnorkuveri) þó að hún skipti sköpum fyrir uppbyggingu atvinnu á Íslandi næstu áratugina. Sæstrengur mundi sprengja upp verð á orku innanlands, lífskjör almennings versna og iðjuverin mundu smám saman flýja úr landi undan orkuverðinu og rykkja þar með grunninum undan efnahag landsins.

Mestur akkur af að nýta orkuna á Íslandi..

Ef þær orkulindir sem hægt er að virkja næstu áratugi (3 GW) verða nýttar til iðnaðaruppbyggingar, munu gjaldeyristekjur þjóðarinnar ekki vaxa um 35 milljarða heldur 350 milljarða og þúsundir landsmanna fá vel launaða atvinnu. En einkavædd Landsvirkjun, sem þarf að borga markaðsvexti af lánum og eigendum sínum arð af mörg hundruð milljarða eign (sem þjóðin á ennþá) getur ekki boðið orku til iðjuvera á hagkvæmu verði. Eigendahópurinn getur orðið hvernig sem er, arðsemiskröfur þeirra hömlulitlar, vextirnir hærri en hjá ríkisfyritæki. Óraunsæi og gróðagrillur fæla góð fyrirtæki frá landinu. Þegar hefur verið hætt við að reisa eitt iðjuver, eitt iðjuver fékk orkuskerðingu, eitt er hálfbyggt. Fiskmjölsverksmiðjur fóru yfir í olíu, gróðurhúsin vantar orku, fyrirtæki og vaxandi þjóð líka. Iðjuverin sem eru fyrir í landinu, og treysta á Landsvirkjun, komast ekki hjá að sjá að framganga fyrirtækisins er að breytast úr uppbyggingarstefnu í gróðabrallsdaður.

Stjórnvöld verða að setja Landsvirkjun stefnu og markmið. Ef fer fram sem horfir verður Landsvirkjun braskvæddur og dýr baggi á landsmönnum, iðjuverin húsarústir og tugþúsundir atvinnulausra landflótta og engin orka eftir til að byggja upp atvinnu í landinu.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband