29.3.2012 | 18:23
Tómas Haukur Heiðar: álit 28. nóvember 2008 - þvinganir Bretlands
forseti Íslands | |||||
forseti Íslands |
Tómas Haukur Heiðar: álit 28. nóvember 2008 - þvinganir Bretlands29. marz 2012.
Þær fréttir hafa borist að Tómas Haukur Heiðar, þjóðréttarfræðingur í starfi hjá Utanríkisráðuneyti, hafi verið leystur frá því verkefni að semja við Evrópusambandið um makrílveiðar. Utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson segist hafa tekið aðalsamningamann Íslands úr viðræðum um makríl, þar sem hans sé þörf til annara verka. Þeir sem þekkja eitthvað til Össurar Skarphéðinsonar hljóta að fyllast grunsemdum um ráðagerðir hans. Samskipti Össurar við Evrópusambandið eru mörkuð lagabrotum og landráðum. Um störf Tómasar Hauks Heiðar (THH) hef ég takmarkaða þekkingu, en nærri áramótum 2008/2009 barst mér í hendur greinargerð sem THH hafði samið um hugsanlega málssókn gegn Bretlandi, vegna reglugerðar sem fjármálaráðherra Bretlands Alistair Darling hafði sett á grundvelli hryðjuverkalaga. Greinargerðin vakti mér furðu, því að mitt mat á stöðu málsins var allt annað en Tómasar Hauks Heiðar. Hér birti ég greinargerð THH og ræði lauslega nokkur atriði hennar. Tómas Haukur Heiðar kemst að þeirra niðurstöðu að raunhæfast sé:
Þarna lagði þjóðréttarfræðingurinn til að blandað yrði saman þjóðréttarlegum kröfum Íslands gegn Bretlandi (gegn Hollandi einnig) og hins vegar forsendulausum Icesave-kröfum. Kröfur nýlenduveldanna hefðu átt að beinast gegn innistæðu-trygginga-sjóðum Bretlands, Hollands og Íslands, en endanlega að þrotabúi Landsbankans. Eins og flestir vita voru Icesave-innistæðurnar tryggðar tvöfaldri tryggingu fyrir EEA-lágmarkið. Þetta var raunar sú leið sem Icesave-málið fór á endanum og er það hægt að þakka 26. grein Stjórnarskrárinnar og vilja forsetans að beita henni. Öll rök benda því til að THH hafi haft rangt fyrir sér. Þjóðréttarfræðingurinn rökstuddi niðurstöðu sína og fjallaði um aðra möguleika til að mæta kúgun nýlenduveldanna. Hann nefnir það álit sem fengið var hjá Bretsku lögfræðiskrifstofunni Lovells. Þetta álit Lovells, sem THH byggði svo mikið á, er ennþá leyniskjal ríkisstjórnarinnar. Öllum beiðnum um að Lovells álitið verði birt er hafnað af Forsætisráðherra. Lovells taldi mikla vankanta á að sækja mál Íslands fyrir dómstólum í Bretlandi. Þetta var auðvitað augljóst og þeim hundruðum milljóna sem varið var til málssóknar Kaupþings í Bretlandi var kastað á glæ. Þjóðréttarfræðingurinn bendir á að Lovells hugleiddi ekki þann möguleika að ákæra fyrir alþjóðlegum dómstólum. Marga hefur grunað að aldreigi hafi verið ætlun ríkisstjórnarinnar að sækja neinar bætur á hendur nýlenduveldunum. Þess vegna var leitað álits hjá lögfræðistofu í Bretlandi. THH varpar fram þeirri spurningu, hvort ekki komi til álita »að höfða mál fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag eða Mannréttindadómstól Evrópu.« Svar þjóðréttarfræðingsins er neikvætt, enda ekki spurt þeirrar eðlilegu og réttu spurningar, hvort ætti að »kæra til« Framkvæmdastjórnar ESB og »ákæra fyrir« Evrópudómstólnum. Furðu vekur að þjóðréttarfræðingurinn bendir á að »ef talið væri rétt að skoða nánar möguleika á málsókn gegn Bretlandi fyrir alþjóðlegum dómstólum myndi þjóðréttarfræðingur (THH) telja rétt að kanna hvort Sir Michael Wood, lögmaður og fyrrverandi þjóðréttarfræðingur breska utanríkis-ráðuneytisins, væri fáanlegur til þess.« Bara þessi tillaga, vekur grunsemdir um heilindi mannsins. Varla kom honum til hugar, að fyrrverandi þjóðréttarfræðingur Bretska utanríkis-ráðuneytisins, væri hæfur til málsóknar gegn Bretlandi. Vondum hugleiðingum sínum lýkur þjóðréttarfræðingurinn á eftirfarandi setningu:
Leiðsögn þjóðréttarfræðingsins var því lítils virði varðandi deilurnar við Bretland og Holland. Hann kann að hafa staðið sig vel í makríl-deilunni, en miðað við frammistöðu hans sem birtist í álitinu um viðbrögð Íslands við yfirgangi nýlenduveldanna, er varla mikil eftirsjá að honum. Mín vegna má Össur taka hann með til faðmlaga við valdamenn Evrópusambandsins. >>><<< Trúnaðarmál Memo um hugsanlega málsókn gegn Bretlandi vegna frystingar fjármuna Landsbankans. 28. nóvember 2008. Tómas Haukur Heiðar (THH). 1. Þjóðréttarfræðingur hefur undanfarna daga átt fundi með og samtöl við forsætisráðuneytið og lögfræðiskrifstofuna LOGOS vegna skoðunar á hugsanlegri málsókn gegn Bretlandi vegna frystingar breskra stjórnvalda á fjármunum Landsbankans 8. október sl. Ýmsar leiðir eru taldar koma til greina í því sambandi en eins og fram kemur hér að neðan telur þjóðréttarfræðingur (THH) raunhæfast að ná fram afturköllun frystingarinnar í samningaviðræðum milli Íslendinga og Breta um heildarlausn Icesave-málsins. 2. Sú málsóknarleið, sem rækilegast hefur verið könnuð, er málshöfðun fyrir breskum dómstólum þar sem sú krafa yrði gerð að ákvörðuninni um frystingu yrði hnekkt á þeim grundvelli að hún eigi sér ekki lagastoð í svonefndum hryðjuverkalögum frá 2001 (Anti-terrorism, Crime and Security Act 2001). Jafnframt yrði þess freistað að fá dæmdar skaðabætur vegna tjóns sem frystingin hefur haft í för með sér. Breska lögfræði-skrifstofan Lovells hefur fyrir milligöngu LOGOS tekið saman ítarleg minnisblöð um þessa leið fyrir forsætisráðuneytið sem þjóðréttarfræðingur (T.H.H.) hefur yfirfarið. 3. Í framangreindum minnisblöðum kemur fram það mat, sem þjóðréttarfræðingur (THH) er sammála, að á brattan yrði að sækja í slíku dómsmáli, ólíklegt væri að breskur dómstóll tæki kröfu um að frystingunni yrði hnekkt til greina og enn ólíklegra að dæmdar yrðu skaðabætur. Mat þetta byggist á mörgum atriðum en að mati þjóðréttarfræðings (T.H.H.) er það mikilvægasta að hryðjuverkalögin svonefndu eru víðtæk og ná til mun fleiri þátta en hryðjuverka. Sú röksemd fái þar af leiðandi væntanlega ekki staðist að þar sem ákvörðunin um frystingu beinist ekki gegn hryðjuverkum geti hún ekki átt stoð í umræddum lögum. 4. Fram kemur í minnisblöðum Lovells að ekki megi bíða lengi með að fara þessa málsóknarleið þar sem ella sé hætt við að dómstóll myndi ekki taka málið fyrir og vísa því frá. Helst mætti því ekki bíða marga daga með að senda breskum stjórnvöldum svonefnt “pre-action letter” sem er undanfari hinnar eiginlegu málsóknar. 5. Lovells hefur ekki kannað þá leið að höfða mál gegn Bretlandi fyrir alþjóðlegum dómstólum en í fljótu bragði virðist koma til greina að höfða mál fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag eða Mannréttindadómstól Evrópu. Lögsaga Haag-dómstólsins myndi byggjast á samningi milli Danmerkur og Bretlands frá 1905 sem breytt var að því er Ísland varðar með orðsendinga-skiptum milli Danmerkur og Bretlands árið 1937. Samningurinn er enn á skrá um samninga Íslands við önnur ríki en leita yrði staðfestingar Bretlands á gildi hans til þess að fá fullvissu um það. Ólíkt dómsmáli fyrir breskum dómstól myndi mál fyrir alþjóðlegum dómstól ekki snúast um hvort ákvörðunin um frystingu hefði lagastoð í hryðjuverkalögunum svonefndu, heldur hvort hún samræmdist reglum þjóðaréttar, m.a. mannréttindareglum um vernd eignarréttar o.fl. 6. Að mati þjóðréttarfræðings (THH) er sú leið að höfða mál gegn Bretlandi fyrir alþjóðlegum dómstólum, sé hún gerleg á annað borð, vænlegri en sú að höfða mál fyrir breskum dómstólum. Kemur þar ekki aðeins til að væntanlega mætti treysta hlutleysi alþjóðadómstóls betur en bresks dómstóls, heldur ekki síður hitt að sjálft úrlausnarefnið er annað og líkur á hagstæðri niðurstöðu virðast meiri. Hafa ber í huga að a.m.k. í einhverjum tilvikum þyrfti að tæma innlend dómstólaúrræði áður en mál yrði höfðað fyrir alþjóðlegum dómstól. Einnig ber að hafa í huga að málsókn fyrir alþjóðlegum dómstól er ekki bundin sömu tímatakmörkunum og málsókn fyrir breskum dómstól. Ef talið væri rétt að skoða nánar möguleika á málsókn gegn Bretlandi fyrir alþjóðlegum dómstólum myndi þjóðréttarfræðingur (THH) telja rétt að kanna hvort Sir Michael Wood, lögmaður og fyrrverandi þjóðréttarfræðingur breska utanríkis-ráðuneytisins, væri fáanlegur til þess. 7. Í næstu viku munu fara fram viðræður milli Íslands og Bretlands um lánafyrirgreiðslu af Bretlands hálfu og fleiri þætti Icesave-málsins. Að mati þjóðréttarfræðings (THH) er vænlegast að ná fram afturköllun frystingar breskra stjórnvalda á fjármunum Landsbankans í þeim viðræðum, enda virðist einsýnt að þegar ábyrgð Íslands á greiðslu lágmarkstryggingar vegna Icesave-innlánsreikninganna liggur fyrir séu engir hagsmunir lengur af því að viðhalda hinni umdeildu frystingu. Samkvæmt upplýsingum sviðsstjóra viðskiptasviðs ræddu hann og ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins m.a. þennan þátt málsins á fundi sínum í morgun og á þessum sömu nótum.Ljóst er að fallist bresk stjórnvöld á að afturkalla ákvörðun sína um frystingu verður væntanlega það skilyrði sett að engir eftirmálar verði milli aðila. Af hálfu íslenska ríkisins væri þá ekki unnt að höfða mál síðar til heimtu skaðabóta en væntanlega væri ekki unnt að binda hendur einkaaðila (fyrrverandi eigenda bankanna) að þessu leyti. 8. Þjóðréttarfræðingur (THH) telur að sending á “pre-trial letter” til breskra stjórnvalda fyrir áðurnefndar viðræður væri til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á viðræðurnar og efast raunar almennt um þá leið að höfða mál fyrir breskum dómstólum, sbr. það sem að framan segir. Hann telur einnig rétt að bíða átekta með nánari skoðun á hugsanlegri málsókn gegn Bretlandi fyrir alþjóðlegum dómstólum þar til niðurstöður viðræðna íslenskra og breskra stjórnvalda liggja fyrir. |