Icesave og traust Alþingis - Steingrím J. Sigfússon fyrir Landsdóm

 

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi

   og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 
 
     

    

Icesave og traust Alþingis - Steingrím J. Sigfússon fyrir Landsdóm

  

  

Fyrst birt í Morgunblaðinu 14. marz 2012.


     
   

Sveinn Valfells.  
  

Föstudaginn 09. marz 2012 birti utanríkisráðuneytið greinargerð um Icesave. Greinargerðin útskýrir á hve veikum grunni kröfur um ríkisábyrgð á innistæðutryggingum vegna Icesave-innlánsreikinga Landsbankans eru byggðar. Greinargerðin var fyrst birt á Íslendsku, degi síðar á Ensku eftir kvörtun til utanríkisráðherra. Enginn blaðamannafundur eða önnur kynning á efni greinargerðarinnar hefur farið fram.

  

Núverandi ríkisstjórn festi í tvígang í lög samninga um ábyrgð ríkissjóðs á innistæðutryggingum vegna Icesave. Málið var á forræði þáverandi fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar. Fyrri samningurinn var öllu verri en sá seinni. Eftir þrýsting frá almenningi og grasrótarhreyfingum vísaði forseti Íslands í bæði skiptin lögunum til þjóðar. Báðum samningum var hafnað með miklum meiri hluta greiddra atkvæða.

  

Greinargerðin frá 09. mars leggur fram rök sem strax í upphafi hefðu átt að vera tíunduð vel og rækilega, ekki bara gagnvart Bretum og Hollendingum heldur einnig á alþjóðavettvangi. Málstaður Íslands hafði þar og hefur enn mikla samúð þrátt fyrir litla sem enga kynningu Íslendskra stjórnvalda.

  

Skýrt er tekið fram í tilskipun Evrópusambandsins (ESB) um innistæðutryggingar að þjóðríki skuli ekki bera ábyrgð gagnvart innistæðueigendum hafi þau innleitt tryggingakerfi. Fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis að innistæðutryggingakerfi á Íslandi var með svipuðum hætti og í mörgum öðrum Evrópulöndum, jafnvel betra en í sumum. Rannsóknarnefndin bendir á að markmið þágildandi tilskipunar ESB um innistæðutryggingar hafi verið mótsagnakennd og engar athugasemdir hafi verið gerðar við Íslendska fyrirkomulagið fyrir bankahrun. Rannsóknarnefndin er þeirrar skoðunar að Ísland hafi framfylgt tilskipun ESB um innistæðutryggingar.

  

Þegar bankar féllu höfðu neyðarlög verið sett til frekari verndar innistæðueigendum og ríkissjóði. Brezk og Hollendsk stjórnvöld ákváðu einhliða að greiða út innistæðutryggingar jafnharðan í eigin löndum og gera kröfu á ríkissjóð Íslands en ekki Tryggingasjóð eða þrotabú Landsbanka. Í stað þess að reyna að verja hagsmuni ríkissjóðs af krafti skipaði þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, samherja í pólitík til forystu sendinefndar sem semja átti við Bretland og Holland. Svavar Gestsson var fenginn til að semja um ólögmætar kröfur upp á mörg hundruð milljarða, liðlega þriðjung þjóðarframleiðslu, en hafði enga reynslu eða menntun til starfans. Niðurstaðan var stórkostlegt klúður.

  

Í seinna skiptið var skipaður erlendur lögfræðingur með haldbæra reynslu, Lee Buchheit. En sá hafði erfitt verk að vinna. Málið var komið í vondan farveg vegna samninganna sem flokksbróðir Steingríms hafði áður gert og Steingrímur lagt fyrir þing og fengið lögfesta.

   

Ef ráðherra skipar vanhæfan mann ótengdan sér að semja í þýðingarmiklu máli, eru það stórkostleg afglöp. Að útvega flokksfélaga bitling hjá ríkinu er þjófnaður af almannafé. En Steingrímur J. Sigfússon skipaði mann sem var bæði vanhæfur til starfans og einnig samherji til margra ára í pólitík til að leiða eitt þýðingarmesta milliríkjamál í sögu lýðveldisins, hundruð milljarða voru í húfi. Vinnubrögðin eru ólýsanleg.

  

Í lögum um ráðherraábyrgð segir skýrt að krefja megi ábyrgðar ráðherra sem »af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi [hafi] stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.« Það gerði Steingrímur J. Sigfússon þegar hann lagði ríkissjóð að veði vegna Icesave. Ennfremur segir í 91. grein Íslendskra hegningarlaga:

  

Fangelsi allt að 16 árum skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslendska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslendska ríkisins í þeim erindrekstri.

  

Ekki verður annað séð en að Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon hafi báðir brotið þessa grein, Svavar með frammistöðu sinni í samningum við Breta og Hollendinga og Steingrímur með því að leggja klúður Svavars fyrir þingið.

  

Greinilegt er af því sem opinberlega er vitað um þetta eina mál, Icesave, að Steingrímur J. Sigfússon verðskuldar að vera ákærður fyrir Landsdóm. Hverju skyldi þá gegna um aðrar embættisfærslur hans?

  

Nýleg skoðanakönnun sýnir að Alþingi Íslendinga nýtur einskis trausts lengur. Það er uppskeran af störfum núverandi ríkisstjórnar og nokkurra undangenginna stjórna. Einkavinavæðing Landsbanka er gott dæmi, bankinn var afhentur »óreiðumönnum« í málamyndarútboði, þeir voru lægstbjóðendur og fengu fjármögnun. Afleiðingin var Icesave.

  

Steingrímur J. Sigfússon gerði illt ennþá verra og fékk vanhæfan pólitískan samherja til að semja um löglausar kröfur erlendra þjóðríkja vegna Icesave. Kröfur upp á hundruð milljarða vegna skulda sem stofnað var til af einkabanka sem rekinn var af »óreiðumönnum«. Samherji Steingríms samdi um einhliða uppgjöf ríkissjóðs. Steingrímur lagði samt ónýtan samning fyrir þingið. Samningnum var vísað til þjóðar og þjóðin hafnaði honum afdráttarlaust. Stórfé var varið til að laga samninginn, skárri útgáfu var samt líka hafnað.

  

Ef Alþingi vill reyna vinna inn traust og virðingu þjóðar verður einhvers staðar að byrja. Augljóst skref er að draga Steingrím J. Sigfússon til ábyrgðar vegna Icesave.

 

     

Steingrímur J. Sigfússon verðskuldar að vera ákærður

fyrir Landsdóm vegna Icesave.

Hverju skyldi þá gegna um aðrar embættisfærslur hans?

  

  

  

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband