| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
»Fatwa« á hendur Salman Rushdie leiðari á fjögurra ára afmæli.Fyrst birt í Alþýðublaðinu 04. marz 1993.
Ingólfur Margeirsson (líklega).
Nú eru rétt fjögur ár liðin frá því öfgamenn úr röðum íranska klerkaveldisins lýstu breska rithöfundinn Salman Rushdie réttdræpan vegna skáldsögunnar Söngvar Satans. írönsku múllarnir bættu um betur; þeir lýstu því yfir að það væri skylda sérhvers múslims að myrða Rushdie ef tök væru á. Síðan hafa samtök og einstaklingar sem tengjast múslimum lagt fé honum til höfuðs, - og rithöfundurinn snjalli hefur verið á stöðugum flótta síðan, hvergi óhultur. Ofsóknirnar hafa raunar ekki beinst að honum einum; forlög sem gáfu bókina út sættu líka ofsóknum og sprengjuhótunum, og víða var ráðist á þýðendur bókarinnar. Japanski þýðandinn var þannig myrtur, og sá ítalski særður illilega. Salman Rushdie er af indversku foreldri; fremstur meðal jafningja í þeirri vösku sveit breskra rithöfunda sem rekja uppruna sinn til hinna gömlu nýlenda heimsveldisins, en þeir bera nú uppi bókmenntasköpun í landinu. Hann vakti fyrst verulega athygli með bók sinni Miðnæturbörnin, sem færði honum hin þekktu Booker verðlaun í Bretlandi; í kjölfar hennar komu nokkrar bækur, uns Söngvar Satans reyttu klerkaveldið í Íran til reiði. Ofsóknir múslima á hendur Rushdie tættu sundur feril hins efnilega höfundar, sem margir spáðu Nóbelsverðlaunum fyrr en seinna, - enda erfitt að skrifa meistaraverk á stöðugum flótta. Söngvar Satans komu út hjá Máli og Menningu fyrir jólin 1989 í snjallri þýðingu Árna Óskarssonar og Sverris Hómarssonar. Bókin er einstakt listaverk, þar sem höfundurinn nýtti sér þekkingu sína og uppeldi í hinni múslímsku veröld, og spann þráð, sem laut hinum hefðbundnu lögmálum skáldsögunnar. I henni er fjallað frjálslega um Spámanninn, en hvergi farið út fyrir þau mörk sem skáldsagan setur sjálfri sér. Hinn látni höfuðklerkur, Ajatolla Kómeini, taldi að sjálfum sér vegið í líkingamáli bókarinnar, en átylla hans fyrir dauðadóminum var meint guðlast Rushdie, þegar hann lætur aðra af aðalpersónum bókarinnar dreyma för Spámannsins á vit gjafmildra kvenna. Ofsóknirnar gegn Rushdie voru líka notaðar í hreinum pólitískum tilgangi í sumum löndum múslima. Stjórnvöld, ekki aðeins í Íran heldur líka löndum á borð við Pakistan, gengu fram fyrir skjöldu og mögnuðu upp gerningaveður á hendur honum til að beina sjónum óánægðs almennings frá lélegum kjörum. Þannig bjuggu þau til ódýrt skotmark úr Salman Rushdie til að lægja öldur heimafyrir; stóðu fyrir miklum mótmælum, og veittu ólgu fólksins í farveg, sem þeim var hagfelldur. Ríkisstjórnir Vesturlanda stóðu hins vegar álengdar hjá, settu lengi vel kíkinn fyrir blinda augað, - og viðskiptahagsmuni sína gagnvart löndum múslima ofar virðingunni fyrir tjáningarfrelsinu. Skáldverk er skáldverk, - og ekkert annað. Sök Rushdie var sú ein, að voga sér að nýta þau mannréttindi, sem í dag liggja til grundvallar vestrænu Iýðræði: tjáningarfrelsið. Fyrir það er hann hundeltur, og fram á síðustu mánuði hefur hann hlotið skammarlega lítinn stuðning þeirra ríkisstjórna Vesturlanda, sem í orði kveðnu líta á frelsi einstaklingsins til að tjá sig innan ramma samþykktra laga, sem helgan rétt. Bresk stjómvöld ættu sérstaklega að skammast sín. Í landi, sem státar af traustasta lýðræðiskerfi heimsins, hefur Rushdie einungis notið þeirrar lágmarksverndar, sem ofsóttum manni ber. Hann fær að vísu lögregluvernd og yfirvöld aðstoða hann við að fara huldu höfði. Að öðru leyti hafa bresk stjórnvöld litið á hann sem þorn í eigin holdi. Rithöfundar um allan heim hafa verið duglegir við að halda máli Rushdies á lofti; í síðasta tímariti Máls og Menningar birtist þannig þýdd grein eftir skáldið Milan Kundera. Þar gagnrýnir Kundera bresku stjórnina harðlega fyrir aðgerðaleysi, og kveður hana í raun hafa gengist inn á forsendur írönsku heittrúarklerkanna, í staðinn fyrir að verja rétt Rushdies - og þar með allra rithöfunda - til að tjá sig innan hefðar skáldsögunnar. Ásakanir klerkaveldisins hafi í raun hlotið hljómgrunn stjórnarinnar, menn greindi einungis á um stig refsingarinnar. Kundera vísar til ummæla þáverandi forsætisráðherra Breta, Margrétar Thatcher, sem lýsti yfir að henni fyndist bók Rushdie verulega hneykslanleg" og minnir á ótrúlegan undirlægjuhátt utanríkisráðherra hennar, Geoffrey Howe. En Howe lét hafa eftir sér: Ríkisstjórninni og hinni bresku þjóð finnst þetta vond bók. Hún er ákaflega gagnrýnin og dónaleg í okkar garð. Hún líkir Stóra Bretlandi við Þýskaland Hitlers. Okkur finnst þetta jafn slæmt og múslimum, sem sárnar að ráðist sé gegn trú þeirra." Þessi ummæli breska utanríkisráðherrans eru rugl, ekkert í bókinni réttlætir þau. Því miður gáfu þau klerkaveldi múslimanna nánast grænt Ijós á að halda áfram tilraunum sínum til að koma rithöfundinum fyrir kattarnef. Nú hafa bresk stjómvöld að vísu lítillega tekið við sér, en alltof seint. Þau hafa vísað máli hans til mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna; Norðurlandaráð hefur samþykkt ályktun honum til stuðnings, Kanadamenn og Þjóðverjar stöðvað lánafyrirgreiðslu til írana, og á þýska þinginu var samþykkt ályktun allra flokka sem lýsti ábyrgð á hendur írönum, ef eitthvað kæmi fyrir Rushdie. Mál Salman Rushdie kemur öllum við. Það snýst ekki um einn mann, heldur um rétt listamanna til sköpunar, - um tjáningarfrelsi. Íslendsk stjórnvöld ættu að láta málið til sín taka, og það væri við hæfi að utanríkisráðherra bókaþjóðarinnar byði Salman Rushdie í heimsókn til Íslands, til að sýna öllum heiminum hvar afstaða okkar liggur. |