Íslendingar hafna forsetaframbjóðanda sem þykist vera »sameiningartákn«

  
 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

 

Íslendingar hafna forsetaframbjóðanda sem þykist vera »sameiningartákn«.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 24. júní 2016.



Loftur Altice Þorsteinsson.

Sameiningartákn þjóða geta verið margvísleg, en þau eiga það sameiginlegt að vera bara tákn og ekkert annað. Flestir viðurkenna, að þjóðfáninn og þjóðsöngurinn eru gagnleg sameiningartákn. Hins vegar verður að gjalda varhug við einstaklingum, sem þykjast vera sameiningartákn. Sagan kennir okkur, að slíkt er fyrst og fremst stundað af fólki, sem haldið er yfirþyrmandi mikilmennsku-sturlun.

Ekki kann ég mörg dæmi um fólk, sem reynt hefur að þykjast vera »sameiningartákn«. Þetta er ógeðfeld hegðun, sem venjulega verður ekki dulinn. Oftar en ekki, er þessi orðleppur notaður til að fela vanhæfni og falskan tilgang. Í aðdraganda forsetakosninga er vert að líta til baka, í þeim tilgangi að læra af okkar eigin sögu og forðast augljósa forar-pytti sem munu verða á vegi þjóðarinnar.

Deilan um Evrópska efnahagssvæðið.

Alþingiskosningar fóru fram 20.03.1991 og í kjölfarið var mynduð svonefnd Viðeyjarstjórn - Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks. Alþýðuflokkur (forveri Samfylkingar) undir formennsku Jóns Baldvins Hannibalssonar, krafðist innlimunar Íslands í ESB (Evrópusambandið). Sjálfstæðisflokkur, undir formennsku Davíðs Oddssonar, var andvígur innlimun og málamiðlun flokkanna varð aðild að EES (Evrópska efnahagssvæðinu).

Alþýðuflokkur túlkaði inngönguna í EES sem áfangasigur og hatursmenn Lýðveldisins stefndu áfram að innlimun í ESB. Sjálfstæðisflokkur hafnar þessum hugmyndum og fullyrða má, að meirihluti landsmanna hefur engan áhuga á að lúta ólýðræðislegu og yfirþjóðlegu Brussel-valdi. Varla þekkjast þó sterkari rök gegn þessari óþjóðhollu stefnu Samfylkingar, en fengust 07.03.2016, þegar sjálfur Jón Baldvin lýsti yfir andstöðu við innlimun í ESB, með orðunum: »Við göngum ekki inn í brennandi hús«.

Undirskriftasöfnun átti að virkja frumburðarrétt þjóðarinnar.

Víkjum sögunni til ársins 1993, þegar tekist var á um löggjöf um aðild Íslands að EES. Á meðal landsmanna var mikil andstaða við inngöngu í EES og fram fór undirskriftasöfnun. Skorað var á forseta Lýðveldisins að hann neitaði að undirrita lögin. Afleiðingin hefði orðið þjóðaratkvæði, þjóðin hefði notað þann frumburðarrétt sem hún hefur sem fullveldishafi. Forsetinn hefði jafnframt staðfest að hann var trausts verður, sem gætslumaður Stjórnarskrárinnar. Alls skrifuðu undir áskorunina yfir 34.000 manns, sem miðað við núverandi mannfjölda samsvarar 43.000.

Forseti Lýðveldisins á þessum tíma hét Vigdís Finnbogadóttir og sat hún sitt fjórða kjörtímabil 1992-1996. Reikna má með, að fyrirfram hafi verið fengið loforð hjá Vigdísi, að hún myndi virða vilja stórs hluta þjóðarinnar. Sár voru því vonbrigðin, þegar fréttist að Vigdís hafði verið fljót að undirrita lögin. Á ríkisráðsfundi 13.01.1993, aðeins degi eftir samþykkt Alþingis, innsiglaði hún sigur Evrópusinna. Í tilraun til að blekkja almenning, gaf hún út langa og þvælingslega yfirlýsingu, þar sem megin-afsökun hennar var að hún væri »sameiningartákn«.

Með þessari afstöðu, gerði Vigdís orðið »sameiningartákn« að skammaryrði. Reynt var að breiða yfir þjóðsvikin með orðleppi, sem ávallt síðan vísar til svika og undirferla ráðamanna. Sá verknaður að svipta þjóðina frumburðarréttinum, gat auðvitað ekki verið tákn um sameiningu og ömurleg er umsögnin, að með svikunum væri verið að »efna drengskaparheit forseta við þjóðina«. Eftir þessa framgöngu var Vigdís rúin trausti og bauð hún sig ekki fram í forsetakosningum 1996. Þá var kosinn í embættið maður allt annarar gerðar.

Fólk sem segist vera »sameiningartákn« er varhugavert.

Að svikin 1993 voru ekki óviljandi mistök Vigdísar, kom í ljós mörgum árum síðar. Þá var tekist á um Icesave-kúgun nýlenduveldanna, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lág flöt fyrir. Greiða átti atkvæði um Icesave-III-lögin 09.04.2011 og daginn fyrir þjóðaratkvæðið lét Vigdís Finnbogadóttir frá sér fara aðra yfirlýsingu, sem brennd er í minni þjóðarinnar. Hún viðurkenndi að hún hafði greitt atkvæði með svika-samningunum.

Nú er í framboði til forseta maður að nafni Guðni Thorlacius og hans megin kosningaloforð er að verða »sameiningartákn« og vísar hann sérstaklega til fyrrverandi forseta Vigdísar Finnbogadóttur. Ekki er hægt annað en gjalda varhug við þessum manni, því að komið hefur fram að hann var ákafur stuðningsmaður Icesave-stjórnar Jóhönnu, studdi Svavars-samningana og innlimun Íslands í ESB. Ekki er hægt að taka mark á síðbúnu og torfengnu loforði um að hann hafi skipt um skoðun.

Auk þess verður að benda á, að skrif þessa manns um Íslendinga eru ótrúleg og ærumeiðandi. Þau koma algerlega í veg fyrir að hann geti orðið gæfuríkur forseti. Að flytja útlendar lygasögur um græðgi Íslendinga (Græðgi þeirra [Íslendinga] á sér engin takmörk) og halda því fram að Þorskastríðin hafi hvorki verið stríð né haft nokkra þýðingu, eru ummæli sem varla geta verið sett fram af góðum huga. Ábyrg þeirra kjósenda er mikil, sem þrátt fyrir aðvaranir ætla að kjósa Guðna Thorlacius Jóhannesson.

Báðar yfirlýsingar Vigdísar: Vigdís Finnbogadóttir - glórulaus glókollur á forsetastóli.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband