Þorsteinn Pálsson vanvirðir Lýðveldið

  
 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

 

Þorsteinn Pálsson vanvirðir Lýðveldið.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 21. marz 2011.



Loftur Altice Þorsteinsson.

Íslendingar eiga ekki bara í efnahagsstyrjöld við nýlenduveldin, heldur sækir að okkur hersveit Evrópusinna. Flest aðhyllist þetta fólk framandi hugmyndafræði kommúnismans. Undantekning er líklega Þorsteinn Pálsson sem hampar einhvers konar frjálshyggju á tyllidögum. Hvað sem líður hugmyndafræði Þorsteins, þá vanvirðir hann lýðveldi Íslands í Fréttablaðinu 26. febrúar 2011.

Þorsteinn sækir að því stjórnarformi sem landsmenn völdu í þjóðaratkvæði árið 1944. Þetta stjórnarform nefnist lýðveldi, sem felur í sér að fullveldi í landinu er hjá lýðnum. Í staðinn er Þorsteinn að berjast fyrir stjórnarformi sem hann nefnir þingræði. Þingræði er ekki skilgreint í stjórnarskránni og raunar ekki nefnt þar á nafn.

Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.

Í fyrstu grein Stjórnarskrárinnar segir: »Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.« Þessi setning merkir að lýðurinn fer með fullveldisréttinn í landinu og að ríkisstjórnin er bundin ákvörðunum Alþingis. Skipun ríkisstjórna er alls ekki í höndum Alþingis, heldur er skipun og lausn ráðherra í höndum forseta Lýðveldisins. Hvernig Þorsteinn Pálsson getur misskilið þessar staðreyndir er eitt af leyndarmálum alheimsins. Í ritgerð sinni segir Þorsteinn:

»Það er rangfærsla að forseti leiki samkvæmt stjórnarskrá einhvers konar hlutlausan ármann þjóðarviljans er vísi málum eftir atvikum til afgreiðslu hjá löggjafarvaldi Alþingis eða löggjafarvaldi fólksins. Það er líka rangfærsla að beint lýðræði sé fullkomnara en fulltrúalýðræði.«

Af 81 grein núgildandi stjórnarskrár fjalla 30 fyrstu greinarnar um verkefni forsetans. Ætlar Þorsteinn Pálson að afskrifa stjórnarfarslega stöðu forsetans með háðsyrðum? Enginn vafi leikur á að forsetinn er umboðsmaður almennings og hann hefur það viðfangsefni að gæta hagsmuna landsmanna gagnvart óþjóðhollum stjórnmálaöflum.

Allir ættu að geta lesið 26. grein stjórnarskrárinnar og séð að forsetinn getur sent lög í þjóðaratkvæði, en hefur ekki neitunarvald. Við vitum að við ákvarðanir sínar hefur Ólafur Ragnar eingöngu vísað til vilja þjóðarinnar. Enda væri tilgangslaust að senda lög í þjóðaratkvæði sem ekki væru líkur til að yrðu felld.

Er einveldi fullkomnara en lýðveldi ?

Til að koma höggi á Lýðveldið leiðist Þorsteinn út í samanburðarfræði og fullyrðir að beint lýðræði sé ekki fullkomnara en fulltrúalýðræði. Það er undarlegt að gefa í skyn að eitt stjórnarform geti verið »fullkomnara« en annað. Öllum einræðisherrum finnst örugglega, að eina fullkomna stjórnarfarið sé einveldi. Hins vegar er lýðveldi á Íslandi og við skulum þakka stofnendum lýðveldisins fyrir það. Annars væri þjóðin núna með 1.000 milljarða Icesave-klyfjar á bakinu og eru þó næg mistök ríkisstjórnar. En að orðum Þorsteins:

»Það sem forseti gerir er að hafna tillögu frá ráðherra um staðfestingu á lögum. Að formi og efni felst í því pólitísk andstaða við lögin og vantraust á dómgreind ráðherrans og þess meirihluta sem að baki honum stendur. Með því að forsetanum var ekki fengið stöðvunarvald er þjóðaratkvæðagreiðslan sjálfvirk afleiðing af synjuninni. Hún er sett í stjórnarskrá til að leysa ágreining forseta og Alþingis.«

Öll þessi málsgrein er viðsnúningur á staðreyndum. Forsetinn hafnaði ekki »tillögu ráðherra«, heldur hafnaði hann lagafrumvarpi staðfestingar sem varð samt samtímis að lögum. Í þeim gerningi fólst engin »pólitísk andstaða við lögin«, heldur vitund um andstöðu fullveldishafans – landsmanna. Álíka gáfuleg er fullyrðing Þorsteins, að þjóðaratkvæði sé í Stjórnarskránni til að leysa ágreining forseta og Alþingis. Forsetinn hefur ekki gert neinn ágreining við Alþingi, hvorki um Icesave né önnur mál.

Næmur skilningur fyrir hagsmunum ESB.

Annars er Þorsteini ekki alls varnað því að hann fjallar af næmum skilningi um þau skilyrði sem Bretar og Hollendingar settu fyrir gerð Icesave-III. Með hönd á hjarta, telur Þorsteinn það sýna mikla ábyrgð hjá sumum þingmönnum Sjálfstæðisflokks að samþykkja Icesave-samningana sem byggjast ekki bara á forsendulausum kröfum heldur eru einnig brot á Stjórnarskránni. Þorsteinn segir:

»Í þessu tilviki verður líka að hafa hugfast að Bretar og Hollendingar settu það sem skilyrði fyrir þriðju samningatilrauninni að fleiri kæmu að málinu en ríkisstjórnin. Stjórnarflokkarnir beygðu sig fyrir þeirri kröfu. Forysta Sjálfstæðisflokksins sýndi að sama skapi mikla ábyrgð með því að taka þátt í þeirri tilraun utan ríkisstjórnar og á endanum að standa að nýjum samningi.«

Við skulum ekki gleyma því að Þorsteinn er í samninganefnd ríkisstjórnarinnar sem hefur það verkefni að innlima Ísland í Evrópusambandið. Hans sýn á Icesave-málið kemur því ekki á óvart. Því hefur raunar verið fleygt að samninganefndin hafi verið hinn eiginlegi gerandi að Icesave III-samningunum. Ef það er rétt verður bægslagangur Þorsteins skiljanlegur því að enginn dregur hollustu hans við Evrópusambandið í efa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband