Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ísland ættarland Íslendinga - þjóðargjöfin 17. júní er slit viðræðna við ESB

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

Ísland ættland Íslendinga - þjóðargjöfin 17. júní er slit viðræðna við ESB.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 12. júní 2014.




Hafsteinn Hjaltason.

Fullveldis-prangarar, heittrúaðir ESB-trúboðar, hafa fundið aðalóvin Íslendsku þjóðarinnar. Hinn mikli og hættulegi þjóðaróvinur er nær aldar gamalt fullveldi Íslendskrar þjóðar.

Prangarar hafa með sinni víðkunnu greind og vizku skilgreint óvininn sem »fullveldis-gildru« sem heftir þroska alþjóðahyggju þjóðarinnar og hamlar öllum framförum í menningar-, atvinnu- og efnahagslífi á Íslandi. Lausn prangara á vandamálinu er að fullveldinu verði skilað, ekki til kóngsins Köbenhavn, nei til Brussel verði farið með óvininn og honum eytt þar.

Sambandslagasamningurinn (Lög) frá 1918 gilti til 1. des. 1943. Vegna styrjaldarinnar var ekki hægt að fara eftir ákvæðum samningsins um endurskoðun sambandslaga. Alþingi ákvað þá að Ísland yrði lýðveldi, konungssambandi við Danmörk væri lokið. Fámennur, hávær hópur spratt þá fram og krafðist þess að beðið væri með allar ákvarðanir í málinu þar til stríðinu væri lokið, hernámi Danmerkur aflétt og hægt væri að framfylgja endurskoðunarákvæðum samningsins - vildu víst að gömlu herraþjóðinni og kóngi yrði sýnd auðmýkt. Núna snýr auðmýktin að Brussel-bákninu, þar bíði ESB-alsæluríkið villuráfandi þjóðar, þjóðar sem ekki hafi pólitískan þroska til þess að vera fullvalda og þurfi hjálp, handleiðslu og leiðsögn gamalla nýlenduvelda til þess að taka á réttan hátt á móti framtíðinni. Krafa fámenna, háværa hópsins, var vegin og léttvæg fundin. Kjósendur samþykktu með yfirgæfandi meirihluta ákvörðun Alþingis um stofnun Íslendska lýðveldisins.

Ólíklegt má telja að landhelgin væri 200 mílur, ef Danir væru með utanríkismál að endurnýjuðum sambandssamningi, líklega 10-12 mílur. Verði Ísland ESB-land verður fiskveiðilandhelgin á því bili hvað sem líður fölsku þrasta-tísti og svardögum ESB-agenta. Íslandsmið glötuð Íslendingum. Í samningum við Breta og Þjóðverja hefðu »egg og beikon« vísast haft meira vægi en þorskur á Íslandsmiðum.

Kjósendur höfnuðu í Alþingiskosningunum 27. apríl 2013 blekkingarspuna ESB-agenta um lokalausn allra vandamála þjóðarinnar með innlimun Íslands í ESB. Þeir stjórnmálaflokkar sem kjósendur trúðu að mundu ógilda þingsályktun um ESB-aðildarumsókn unnu góðan kosningasigur. Núna virðist vera að koma í ljós að engin alvara fylgdi þeim orðum þingmanna í ræðustól Alþingis, að Íslandi væri betur borgið utan ESB. Ákvarðana- og aðgerðaleysi hefur tekið við af hástemmdum yfirlýsingum. Hefur fámennur, hávær hópur forustumanna ESB-aðildarsinna meiri áhrif á forustu stjórnarflokkanna en tugir þúsunda kjósenda þeirra? Getur verið að þúsundir kjósenda hafi verið að lýsa vantrausti á aðgerðaleysið, með því að nýta ekki atkvæðisréttinn í sveitarstjórnarkosningunum?

Níuhundruð ár eru liðin sumarið 2018 frá þeirri tímamótaákvörðun Alþingis á Þingvöllum að samþykkja og löggilda fyrstu lögbók Íslendinga (Hafliðaskrá). Ákvörðun Alþingis 1117 að lög skuli skrifa á bók, ásamt ákvörðuninni um stofnun Alþingis og síðar um kristnitökuna eru mikilvægustu ákvarðanir þinga þeirrar fullvalda þjóðar, sem byggði Ísland á þjóðveldistímanum.

Vegna aðgerðaleysis og/eða ákvarðanafælni og hiks þingflokka stjórnarflokkanna þokast ESB-agentar nær því markmiði þeirra, að afhenda Brussel-bákninu, ESB-valdhöfum, fullveldi Íslands, auðlindaforræði og lagasetningarvald Alþingis á fyrrnefndu afmælisári og aldarafmæli fullveldis Íslands.

Höfnum öllum stjórnarskrárbreytingum sem eiga að auðvelda alþingismönnum að afsala fullveldi Íslands til ríkja eða ríkjasambanda. Fullvalda ríki nær á jafnréttisgrundvelli þeim samningum við önnur ríki fullvalda, sem vilji er til án þess að því fylgi afsal fullveldis.

Ekkert var því til fyrirstöðu að ESB-skýrsla Hagfræðistofnunar yrði gerð þó að meirihluti Alþingis hefði á sl. haustþingi slitið ESB-aðlögunarferli og ógilt þingsályktun þar um. Hagfræðistofnun hefði átt að fá lengri tíma til verksins, t.d. til hausts 2015, þá verður ár frá því að Lissabon-samningurinn komst í framkvæmd og áhrif hans að skýrast. Þjóðin hefði þá ítarlegri upplýsingar um áhrif ESB-aðildar Íslands á Íslendsk málefni, alþingismenn og frambjóðendur kæmust ekki upp með blekkingar og rangfærslur fyrir þingkosningarnar 2017. Rauðgræn sauðargæra verður tilgangslaus.

Síbyljuáróður ESB-aðildarforingja um eitthvað sem þeir kalla ótta landsmanna við hið óþekkta er ekkert annað en froðusnakk fullyrðingar-vaðals-kjaftaska og lýð-skrumara, sem reyna að leika óttalausar, víðsýnar lýðræðishetjur og réttlætisriddara, en virðast í raun þjakaðir af fordómum og þröngsýni. Þeir þykjast vera útvaldir handhafar sannleikans í öllum þjóðmálum og einu sönnu túlkendur þjóðarviljans.

Lýðveldið Ísland er 70 ára 17. júní. Slit ESB-viðræðna og ógilding þingsályktunar frá 2009 á sumarþingi núna í júní yrði verðug og verðskulduð þjóðargjöf, þakkargjörð til þeirra kynslóða sem um aldir byggðu landið við erfið kjör og endurheimtu að lokum fullveldi og frelsi íslenskrar þjóðar og Íslands. Við sem nú lifum fleytum rjómann af árangursríkri baráttuþrautseigju, framfara- og viðreisnarhug genginna kynslóða forfeðra okkar og -mæðra.

 


Umburðarlyndi gegn umburðarleysi er engin dyggð.

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

Umburðarleysi gegn umburðarleysi er engin dyggð.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 11. júní 2014.



Valdimar H. Jóhannesson.

Skrýtið að maður sem hafði meðal annars það verkefni í áratugi að upplýsa lesendur Morgunblaðsins um kosti vestræns lýðræðis umfram alræðiskerfi kommúnismans og fasismans skuli nú ekki þekkja ókindina þegar hún horfist í augu við hann.

Skrif Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, valda mér vonbrigðum. Ekki endilega vegna þess að hann er ósammála mér um viðbrögð gegn innrás íslam hingað, sem er skipulagt jihad til þess að ná Íslandi undir íslam og sharíalög. Vonbrigði mín stafa af því hvað hann notar billegar klisjur máli sínu til stuðnings og hvað hann lætur yfirþyrmandi upplýsingar um hrylling íslam sér í réttu rúmi liggja. Sönnunargögn gegn íslam hrannast þó upp.

Íslam, kommúnismi og fasismi eru náskyld stjórnmálakerfi. Trúarþáttur íslam er notaður sem dulbúningur, eins konar slæða, hijab eða jafnvel búrka. Styrmir er með skrifum sínum að breyttu breytanda í raun að taka undir hróp þeirra sem ávallt kölluðu »Moggalygi« þegar sagt var frá hörmungum þjóða sem bjuggu við kommúnisma og varað við ásælni hans hér. Nú eru notaðir merkimiðarnir »rasistar«, »útlendingahatarar« og önnur fráleit hugtök til þess að gera hróp að okkur sem vörum við alræðiskerfi sem ætlar sér heimsyfirráð.

Ódýrast af öllu í grein Styrmis er að ræða réttindabaráttu blökkumanna í þessu samhengi. Ég er ekkert síður en hann fylgjandi »litblindum« heimi. Þannig eru flestir réttsýnir menn. Styrmir fer illa með staðreyndir þegar hann vill sanna yfirburði sína gegn okkur lubbunum og nefnir Nelson Mandela. Mandela fékk heiminn með sér fyrir heillavænleg spor til sátta eftir að gæfan snerist honum í vil og hann var kosinn forseti S-Afríku. Helgimyndin Mandela átti sér einnig dökka bakhlið, sem Styrmir gleymir . Hann var enginn Kristur, Gandhi eða Martin Luther King. Hann var ekki aðeins samviskufangi heldur átti hlutdeild í hryðjuverkastarfsemi sem skildi eftir sig dauða og tortímingu. Hann heiðraði skálkana Muammar Gaddafi í Líbíu og Suharto í Indónesíu með æðstu viðurkenningu sem S-Afríka veitir erlendum mönnum og var í nánum samskiptum við Castro.

Styrmir segir okkur sem erum í andófi gegn innrás íslam vilja bakka aftur fyrir 1874 af því að við séum á móti trúfrelsi og jafnvel skoðanafrelsi. Hvaða vitleysa er nú þetta? Íslam er annað og meira en aðeins trúarbrögð. Íslam skilur ekki á milli hins veraldlega og trúarlega. Því eiga trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar ekki við. Engan þekki ég sem vill afnema þessa grein stjórnarskrárinnar frá 1874. Þvert á móti hef ég ítrekað bent á að virða þurfi hana en ekki líta fram hjá henni. Lítum nánar á 63. grein stjórnarskráinnar:

»Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu

Þeir sem þekkja íslam vita að íslam samræmist ekki góðu siðferði eða allsherjarreglu. Flestir sem ekki þekkja íslam ættu að hafa hugboð um þetta sama.

Hvaða boðar íslam sem ekki samræmist allsherjarreglu? Hér koma nokkur atriði:

  • Misrétti milli karlmanna og kvenna.

  • Misrétti milli múslíma og annarra trúarhópa.

  • Dauðarefsingar fyrir að ganga af íslamstrú.

  • Dauðarefsingar fyrir samkynhneigð.

  • Limlestingar fyrir t.d. þjófnað.

  • Dauðarefsingar fyrir að hallmæla íslam.

  • Bann á tjáningarfrelsi um íslam.

  • Dauðarefsingar fyrir að hallmæla Múhammeð.

  • Karlmönnum er leyft að eiga fjórar konur.

  • Margt fleira ljótt má tína til.

Íslam byggist á Kóraninum, Sirah (opinberri ævisögu Múhammeðs) og helstu hadíðum (frásögnum um orð og athafnir Múhammeðs). Kóraninn er orðrétt opinberun Allah til Múhammeðs í gegnum erkiengilinn Gabríel og banvænt guðlast að efast um sannleiksgildi hans! Og þetta eru ekki einu sinni ýkjur! Allt rekst hvert á annars horn í kóraninum og enginn leið að skilja þar upp né niður í neinu nema hafa Sirah og hadíður til hliðsjónar. Dúalismi er helsta einkenni kóransins. Þar má engu breyta að viðlagðri dauðarefsingu. Sama gildir um þá sem segja sannleikann um Múhammeð, hina sönnu fyrirmynd allra múslíma. Hann var samkvæmt lýsingu í Sirah og hadíðum hræðilegur maður í alla staði, barnaníðingur, herskár ræningi, kaldrifjaður fjöldamorðingi og nauðgari. Helst er á Styrmi að skilja að varði við meiðyrðalöggjöfina að segja sannleikann um þetta. Vill Styrmir banna umræður almennt um stjórnmálastefnur og trúarbrögð? Hver er sá sem í raun vill bakka aftur fyrir árið 1874?

Styrmir þarf að átta sig á að engu má breyta í íslam og að lífshættulegt er fyrir múslíma að gagnrýna stýrikerfið sem nær til alls lífs þeirra, jafnt í opinberu- sem einkalífi. Hann þarf einnig að átta sig á að meirihluti múslíma er innrættur frá blautu barnsbeini með hollustu við sharíalög, sem þeir telja lög Allah. Mjög fáir meðal þeirra styðja almennt trúfrelsi. Hann þarf einnig að skilja að þar sem íslam er að nema lönd er þetta rækilega falið og talsmönnum þess kennt að beita taqiyya, kitman og tawriya sem eru ýmis form lyga, sem múslímar ekki aðeins mega beita heldur eiga að beita til að rugla kuffar (allir sem ekki eru múslímar og jafnvel þeir sem ekki eru í sömu trúardeild) í ríminu, því að öll ráð eru leyfileg í stríði og þá ekki síst gegn okkur sem þeir skilgreina sem árásaraðila af því að við erum hindrun í því að allur heimurinn falli undir þeirra íslam og Allah, sem heimurinn tilheyrir í raun.

Umburðarlyndi gagnvart umburðarleysinu, grimmd og kúgun, sem umfram allt einkennir íslam, er engin dyggð. Þvert á móti.


Íslendingar - hafnið nýjum lánssamningi Landsbankans !

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

Íslendingar - hafnið nýjum lánssamningi Landsbankans !

Fyrst birt í Morgunblaðinu 12. maí 2014.

 


Heiðar Guðjónsson.

Fréttir af samningum um lengingu lána Landsbankans vekja upp sárar minningar af IceSave. Framsetning Landsbankans á samningnum er villandi og sannleikanum snúið á haus. Ef breytingar lánssamninga verða samþykktar af Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu þá er það afleikur og gerir afnám hafta erfiðara en ekki auðveldara.

Mistökin gerð haustið 2009.

Að frumkvæði tveggja ráðherra, Gylfa Magnússonar og Steingríms J. Sigfússonar, kláruðu embættismenn fjármálaráðuneytis og Seðlabanka stofnun nýs Landsbanka, með því að færa eignir frá gamla Landsbankanum og borga fyrir með útgáfu skuldabréfs í október 2009. Þar voru gerð tvenn alvarleg mistök:

Í fyrsta lagi voru lán í erlendri mynt færð yfir á fullu verði en það skapaði bankanum tugmilljarða tjón þegar Hæstiréttur dæmdi þau ólögmæt.

Í öðru lagi var skuldabréfið sem greiddi fyrir þessara lélegu eignir í erlendri mynt.

Það segir ýmislegt um hvernig farið er með sannleikann, að við það tilefni var því hampað sem sigri að Landsbankinn hefði skuldsett sig í erlendri mynt, að hann hefði trygga langtímafjármögnun í erlendum myntum sem væri stórt skref í að endurreisa Íslendskan efnahag! Sannleikurinn var sá að það kom ekki króna í erlendum gjaldmiðlum inn í landið við gerð þessa samnings en Íslendskur lögaðili, Landsbankinn, féllst á að greiða kröfur í erlendum myntum. Það var því einungis verið að auka skuldsetningu í erlendum myntum en ekki verið að fjármagna neitt, nema þá helst innihaldslausar yfirlýsingar ráðherranna.

Að senda þjóðinni reikninginn.

Ráðherrum og embættismönnum þótti ekkert óeðlilegt við það að setja alla þá áhættu sem að ofan greinir á almenning. Í dag blasir reikningurinn við. Það eru 250 milljarðar af erlendum skuldum, umfram eignir, í »banka allra landsmanna« og rit Seðlabankans um fjármálastöðugleika hefur lýst því yfir frá hausti 2012 að bankinn sé ógjaldfær, það er eigi ekki fyrir skuldum sínum.

Frá hruni hefur uppsafnaður afgangur af viðskiptum við útlönd numið um 380 milljörðum. Af þeirri fjárhæð hafa hátt í 200 milljarðar farið í að greiða til erlendra kröfuhafa gamla Landsbankans enda stóðu stjórnvöld og embættismenn í þeirri trú að ríkisábyrgð væri á IceSave og alltaf þyrfti að greiða skuldir gamla Landsbankans. Þessir fjármunir hafa farið til erlendra kröfuhafa á kostnað þjóðarinnar.

Þegar embættismenn segja í dag að þjóðin geti staðið undir erlendum skuldum ef raungengi krónunnar lækkar þýðir það ekkert annað en að lífskjör á Íslandi þurfi að rýrna til að hægt sé að standa skil á skuldum sem þjóðin efndi aldrei til. Hver vill slík skipti?

Eitt skal yfir alla ganga.

Það er því ákall til embættismanna Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins, að mörgu leyti þeirra sömu og komu að gerð hinna örlagaríku aðgerða haustið 2009 að bæta fyrir mistök sín þá með því að hafna núverandi samkomulagi.

Það er engin lausn á skuldavanda að framlengja hann á hærri vöxtum, líkt og ætlunin er í nýja lánssamningnum. Það flýtir ekki fyrir afnámi hafta að gefa einum aðila sérmeðferð við að koma gjaldeyri úr landi, líkt og hin nýi lánssamningur kveður á um. Hvort tveggja er gríðarlega áhættusamt og á endanum er það Íslendska þjóðin sem þarf að borga fyrir það sem aflaga fer.

Það þarf að leysa vanda allra slitabúanna í einu. Það er ekki hægt að leysa gjaldeyrishöftin smátt og smátt, heldur þarf að finna heildstæða lausn fyrir alla aðila, og hafa hagsmuni þjóðarinnar í forgangi. Þeir sem njóta sérmeðferðar gera það á kostnað annarra.

 


Þjóðarkönnun um Schengen og Evrópska efnahagssvæðið

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

Þjóðarkönnun um Schengen og Evrópska efnahagssvæðið.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 27. marz 2014.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson.

Undarfarnar vikur hafa landsmenn mátt hlusta á háværar raddir aðildarsinna, sem krefjast þjóðarkönnunar um sjálfsögð og óhjákvæmileg slit á viðræðum um innlimun Íslands í Evrópusambandið. Söngur aðildarsinna hefur falskan og holan hljóm, þar sem sama fólk og núna krefst þjóðarkönnunar neitaði algerlega að almenningur kæmi að upphafi viðræðna á árinu 2009.

Þessi nýlega tilkomni ákafi aðildarsinna í þjóðarkönnun, er þeim mun furðulegri í ljósi þess að upplýst hefur verið að framkvæmd umsóknarinnar um innlimun Íslands var brot á Stjórnarskránni. Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir gerðust sannanlega brotleg við 19. grein Stjórnarskrárinnar og Ríkissaksóknari er að undirbúa málssókn á hendur hinum brotlegu og til ógildingar á umsókninni. Getur verið að einhver sé svo skyni skorpinn, að vilja kostnaðarsama þjóðarkönnun um ógilda umsókn ?

Þjóðarkönnun til skemmtunar eða þjóðaratkvæði til gagns ?

Mörgum finnst skoðanakannar skemmtilegar og auðvitað er fróðlegt að vita hvaða skoðanir samborgararnir hafa. Í einstaka tilviki getur jafnvel verið skynsamlegt að gera þjóðarkönnun, til leiðbeiningar fyrir Alþingismenn og aðra. Hins vegar geta þjóðarkannanir ekki orðið bindandi fyrir Alþingi, því að Stjórnarskráin bannar að Alþingismenn láti utanaðkomandi viðhorf hafa áhrif á ákvarðanir á þingi. Þetta kemur skýrt fram í 48. grein sem segir:

»Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum

Það hefur auðvitað ekki farið fram hjá neinum, að Samfylkingin er ólm í að afnema þetta ákvæði, eins og önnur sem eru nauðsynleg fyrir alvöru lýðveldi. Minna má á, að það var Alþýðuflokkur -forveri Samfylkingarinnar- sem kom því til leiðar að tvískipting Alþingis var afnumin. Þetta skemmdarverk hefur haft þær alvarlegu afleiðingar, að lagasetningu hefur hrakað og vald verið fært frá Alþingi til höfðingjanna í ríkisstjórn. Engum í hinu forna lýðveldi Spörtu, sem varð fyrst lýðvelda í Evrópu, hefði dottið í hug að afnema tvískiptinguna.

Annað sem við getum lært af Spörtu varðar þjóðaratkvæði. Spartverjum datt ekki í hug að beita þjóðarkönnunum. Hins vegar var þjóðaratkvæði beitt um ÖLL lagafrumvörp, en til hagræðingar hjá okkur er forseta Lýðveldisins falið umboð til að velja úr þau lagafrumvörp sem til þjóðaratkvæðis skulu fara. Synjunarvald forsetans samkvæmt 26. grein Stjórnarskrárinnar er auðvitað bjálki í auga Samfylkingar. Þessir áróðursmenn fyrir upptöku höfðingjaveldis á Íslandi, hafa ítrekað sýnt illan hug sinn til Lýðveldisins og til þess sem leiðir af stjórnarformi lýðveldis –fullveldiréttinda almennings-.

Hvers vegna ekki þjóðarkönnun um Schengen og Evrópska efnahagssvæðið ?

Ef landsmenn vilja eyða fjármunum í þjóðarkannanir og ekki notast við úrtaks-kannanir sem eru kostnaðarminni og skila jafn áreiðanlegum niðurstöðum, þá eru mörg viðfangsefni nærtækari en hin ógilda umsókn um innlimun Íslands í Evrópusambandið. Hér skal stungið upp á, að gerð verði þjóðarkönnun um áhuga landsmanna á áframhaldandi aðild Íslands að Schengen og Evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Aðild Íslands að báðum þessum afurðum Evrópusambandsins hefur valdið landsmönnum ómældu tjóni og margir krefjast þess að Ísland losi sig við þetta skaðlega regluverk. Ísland er með gildan fríverzlunarsamning við Evrópusambandið og aðildarsinnar hafa ekki fært fram nein rök fyrir þeirri fullyrðingu, að Ísland sé ófært að þróa fríverslunarsamninginn á sama hátt og Svissland hefur gert. Schengen er sorglegur vitnisburður um botnlausa áfergju aðildarsinna, að þvinga Ísland til samlags við nýlenduveldi Evrópu. Aðildin að EES var bein og sannanleg orsök fyrir efnahagshruninu og Ísland mun um langa hríð verða að glíma við afleiðingar þess.

Þegar ákvarðanir voru teknar um Schengen og EES, gleymdist alveg að spyrja þjóðina álits í þjóðarkönnun. Er það einskær tilviljun að Alþýðuflokkur/Samfylking var ráðandi um aðild landsins að Schengen og EES ? Er ekki kominn tími til að landsmenn setji í skammakrókinn þessa aðdáendur miðstýrða þursans í austri ? Útþenslustefna Evrópusambandsins á eftir að valda tilsvarandi ófriðarbáli og hörmunum og gerðu fyrri tilraunir til að undiroka frjálshuga þjóðir Evrópu. Brussel-valdið hefur við öll tækifæri sýnt Íslandi yfirgang og óvináttu. Að hlaupa í faðm óvinarins ber engu vitni nema heimskunni.

Hér skal stungið upp á, að gerðar verði kannanir um áhuga landsmanna á áframhaldandi aðild Íslands að Schengen og Evrópska efnahagssvæðinu (EES).

 


Tugmilljarða reikningur frá Seðlabankanum

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

Tugmilljarða reikningur frá Seðlabankanum.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 05. marz 2014.

 


Óli Björn Kárason

Með hverjum mánuðinum sem líður verður erfiðara að skilja peningastefnu Seðlabankans. Þegar litið er aftur til síðustu ára minnkar skilningurinn enn frekar enda kemur ósamkvæmnin í vaxtastefnunni í ljós. Fyrirtæki og almenningur fá reikninginn sem nemur tugum milljarða króna á ári.

Í sextán mánuði hefur Seðlabankinn haldið stýrivöxtum óbreyttum í 6,0% en um miðjan nóvember 2012 hækkaði bankinn vextina um 25 punkta (úr 5,75%). Þá var verðbólga 4,5% miðað við 12 mánaða breytingu vísitölu neysluverðs. Mismunur stýrivaxta og verðbólgu var því 1,5%-stig. Í febrúar síðastliðnum var þessi mismunur 3,9%-stig eða 2,6 sinnum meiri en þegar Seðlabankinn taldi síðast rétt að breyta stýrivöxtum.

Mismunur stýrivaxta og vísitölu 

Með öðrum orðum: Seðlabankinn hefur hert peningastefnuna - fylgir aðhaldssamari stefnu en áður. Þetta er þeim mun merkilegra í ljósi þess að meiri agi hefur komist á ríkisfjármálin og kjarasamningar á almennum vinnumarkaði liggja fyrir, þó til skamms tíma sé.

Önnur lögmál gilda.

Stýrivextir eru eitt helsta stjórntæki Seðlabankans í viðleitni bankans til að tryggja verð- og gengisstöðugleika. Því hærri sem vextirnir eru því minni verðbólga og hærra gengi krónunnar og öfugt, að öðru óbreyttu. Stýrivextirnir ráða þeim vaxtakjörum sem lánastofnanir geta veitt sínum viðskiptavinum - fyrirtækjum og einstaklingum. Stýrivextir hafa því bein áhrif á afkomu fyrirtækja og heimila og hafa áhrif á eftirspurn þeirra eftir lánsfé. Það er því neikvætt samhengi á milli fjárfestingar og vaxta.

Aðhaldssöm peningastefna væri skiljanleg í umhverfi mikillar þenslu og lausungar í ríkisfjármálum. Þótt vísbendingar séu um bólgu á eignamarkaði (ekki síst vegna gjaldeyrishaftanna) er fjárfesting enn of lítil og áætluð aðeins 10,6% á þessu ári, sem er langt undir því sem nauðsynlegt er og samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar verður hagvöxtur 2,5% á árinu og 2,6-2,8% árin 2015-2018.

Með krónu í höftum, hógværan hagvöxt og of litla fjárfestingu hefði mátt búast við að Seðlabankinn tæki stór skref í lækkun vaxta. Nei, þvert á móti, hann herðir á peningastefnunni. Þannig virðast gilda önnur lögmál nú en í tíð vinstri ríkisstjórnarinnar þegar stýrivextir voru mánuðum saman langt undir 12 mánaða hækkun vísitölu neysluverðs. Stýrivextir voru neikvæðir frá júlí 2011 til maí 2012. Vegna þessa voru lausatök í peningamálum á sama tíma og ríkissjóður var rekinn með 93 og 58 milljarða króna halla.

Vaxtaskattur Seðlabankans.

Stefna Seðlabankans ræður miklu um fjárhagslega afkomu allra. Séu vextir of háir eru þeir í raun ekki annað en óbeinn, óeðlilegur og ósanngjarn skattur á fyrirtæki og einstaklinga. Hér er því haldið fram að með stefnu sinni sé Seðlabankinn að leggja á tugmilljarða ósanngjarnan skatt.

Í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika (2013/2) kemur fram að í lok júní síðastliðins hafi skuldir heimilanna numið um 108,3% af landsframleiðslu og skuldir fyrirtækja 154%. Miðað við áætlaða landsframleiðslu á liðnu ári má því gera ráð fyrir að skuldir heimilanna séu fast að 2.000 milljörðum króna og að fyrirtæki skuldi yfir 2.800 milljarða króna.

Hávaxtastefna Seðlabankans er dýrkeypt. Ef bankinn slakaði á klónni og stuðlaði að 1% (100 punkta) lækkun vaxta, sem allar forsendur eru fyrir, hefði það gríðarleg áhrif. Heimilin myndu spara nær 20 þúsund milljónir króna. Fjármagnskostnaður fyrirtækja yrði 28 þúsund milljónum lægri. Í heild yrði fjármagnskostnaðurinn því 48 þúsund milljónum lægri. Halda má því fram að hægt sé að lækka vexti jafnvel enn meira.

Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir. Þannig má benda á að álagður tekjuskattur allra fyrirtækja á árinu 2012 nam 44 þúsund milljónum. Ríkisstjórnin hefur heitið því að ríkissjóður leggi fram um 20 þúsund milljónir á ári næstu fjögur árin til skuldaleiðréttingar. Um 1% vaxtalækkun skilar heimilunum því sama.

Í þágu kröfuhafa.

Hávaxtastefna Seðlabankans - skattlagning á heimili og fyrirtæki - þjónar hagsmunum erlendra kröfuhafa með ágætum. Krónueignir þeirra á Íslandi skila betri ávöxtun en annars og það má draga í efa að þeim bjóðist margir kostir betri í öðrum löndum - þrátt fyrir gjaldeyrishöft.

Með öðrum orðum: Stór hluti þess reiknings sem Seðlabankinn sendir fyrirtækjum og heimilum vegna vaxtaskattsins rennur í vasa erlendra kröfuhafa og krónueigenda.

En skaðinn af peningastefnunni er enn meiri. Vegna of hárra vaxta er fjárfesting minni en ella og þar með eru möguleikar til bættra lífskjara í framtíðinni lakari en ella. Lítil fjárfesting í atvinnulífinu dregur úr möguleikunum til að byggja upp arðbær fyrirtæki og skapa þannig grunn til þess að afnema fjármagnshöftin á komandi misserum.

Sá grunur læðist að huganum að með hávaxtastefnunni sé Seðlabankinn að vinna að öðru markmiði en verðstöðugleika: Að viðhalda höftunum!


Össur og Jóhanna verði ákærð fyrir Landsdómi vegna stjórnarskrárbrots.

 
  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

 

 

 

 

Össur og Jóhanna verði ákærð fyrir Landsdómi vegna stjórnarskrárbrots.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 06. marz 2014.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson.

Sú ánægjulega frétt hefur borist landsmönnum, að utanríkisráðherra hefur lagt fram tillögu á Alþingi um að slíta viðræðum um innlimun Íslands í Evrópusambandið. Þeir sem kusu Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk í Alþingis-kosningunum 27. apríl 2013 hafa beðið þessarar tillögu í 10 mánuði!! Hvað hefur tafið stjórnarflokkana svona lengi, að efna kosningaloforð sitt ?

Það vekur einnig undrun og vonbrigði, að við tillöguna um slit viðræðna hefur verið klínt óskyldri tillögu um nánara samstarf við Evrópusambandið !! Tími Jóhönnu Sigurðardóttur er liðinn í aldanna skaut, en á sínum tíma hefði hún líklega nefnt þetta hráskinnaleik. Landsmenn treysta því að þessi boðflenna í tillögu utanríkisráðherra verði gerð útlæg. Varla er víða á Íslandi að finna eftirspurn eftir undirlægju-hætti Icesave-stjórnarinnar fyrir nýlenduveldum Evrópu.

Baráttumál »Samstöðu þjóðar« loks að komast í höfn.

Eins og flestir landsmenn, hefur »Samstaða þjóðar« fylgst með framvindu mála og sent frá sér ályktanir sem flestir fjölmiðlar hafa af samvitskusemi þagað yfir. Fyrsta yfirlýsing félagsins um málið var send út 19. maí 2013 og er hægt að lesa hana hér: (http://samstada-thjodar.blog.is/blog/samstada-thjodar/entry/1298880/). Þess var krafist að viðræðunum við ESB væri tafarlaust slitið og að það væri gert með ályktun Alþingis. Í yfirlýsingunni segir meðal annars:

»Samstaða þjóðar skorar á forustu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að setja skýr ákvæði um formleg slit viðræðna við ESB, í sáttmála þessara flokka um nýja ríkisstjórn. Viðræðunum þarf að slíta með yfirlýsingu frá Alþingi, strax eftir að Alþingi hefur hafið störf. Alþingi hóf viðræður um aðild án samþykkis þjóðarinnar og Alþingi ber skylda til að ljúka þeim strax, án kostnaðarsamrar þjóðarkönnunar

Brot á stjórnarskrá þjóðarinnar leiðir til ákæru fyrir Landsdómi.

Með tilraunum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að innlima Ísland í Evrópusambandið, var ekki bara rofinn trúnaður við almenning heldur var framkvæmd umsóknarinnar brot á stjórnarskrá þjóðarinnar. Umsóknin sem undirrituð var af Össuri Skarphéðinssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur var stjórnarerindi af hæstu gráðu og samkvæmt 19. grein Stjórnarskrárinnar skal forseti landsins undirrita öll stjórnarerindi. Forsetanum var haldið frá að gegna stjórnarskrár-bundnum skyldum og meinað að undirrita umsóknina. Þetta stjórnarskrárbrot kærði »Samstaða þjóðar« til Ríkissaksóknara með bréfum 23. janúar 2014 og 08. febrúar 2014, sjá hér: (http://samstada-thjodar.blog.is/blog/samstada-thjodar/entry/1349610/).

Ríkisstjórn Jóhönnu hlaut maklega refsingu í Alþingiskosningunum 27. apríl 2013 fyrir trúnaðarrofið gegn almenningi, en þjóðin á ennþá eftir að gera upp við þáverandi ráðherra sem brutu 19. grein Stjórnarskárinnar. Kæra »Samstöðu þjóðar« til Ríkissaksóknara varðar kröfu um: rannsókn á kæruefnum, málflutning fyrir Hæstarétti til að fá stjórnarskrárbrotin dæmd ógild og tilmæli til Alþingis um að draga Össur og Jóhönnu fyrir Landsdóm. Ríkissaksóknari er sjálfstætt stjórnvald og er »æðsti handhafi ákæruvalds« í landinu, samkvæmt lögum 88/2008 um meðferð sakamála. Ekki verður því trúað, að Ríkissaksóknari bregðist embættisskyldum sínum með því að skjóta hlífiskildi yfir hina brotlegu.

Auk þess að senda frá sér stjórnarerindi, án stjórnarskrár-bundinnar undirskriftar forsetans er sérkennilegt, að samþykktar Alþingis sem heimilaði umsóknina, var að engu getið. Ástæða er til að kanna hvort ráðherrar í öðrum ríkjum sem sótt hafa um aðild að ESB, hafa sniðgengið venjulegar stjórnskipunar-reglur með hliðstæðum hætti og þau Össur og Jóhanna gerðu.

Þegar kemur að því að draga umsóknina til baka, er eðlilegt að fylgja sömu háttum og þegar sótt var um. Hins vegar má núverandi ríkisstjórn ekki brjóta Stjórnarskrána og ekki gleyma að geta heimildar sinnar til að senda frá sér stjórnarerindið, með tilvísun til ályktunar Alþingis. Nú gildir að fara að lögum svo að viðræðuslitin verði ekki tilefni dómsmála fyrir Landsdómi og Hæstarétti, eins og verður með umsóknina.

Einnig stjórnarskrárbrot í lögum 4/1963 um ráðherraábyrgð.

Það hefur verið notað til varnar þeim Össuri og Jóhönnu, að persónuleg brot þeirra væru fyrnd vegna aðgerðarleysis Alþingis. Í þessu sambandi er vísað til fyrningarákvæðis í lögum 4/1963 um ráðherraábyrgð. Staðreyndin er hins vegar sú, að fyrningarákvæðið sjálft er brot á Stjórnarskránni! Fyrningarákvæðið byggir ekki á neinu ákvæði í Stjórnarskránni og ef Alþingi getur óhindrað sett fyrningarákvæði í lög um ráðherraábyrgð, þá getur Alþingi alveg eins afnumið 19. grein Stjórnarskrárinnar með einni alsherjar fyrningu. Það liggur því fyrir að stjórnarskrárbrot fyrnast ekki, hvorki á löngum tíma né stuttum. Núverandi Ríkissaksóknari og fyrrverandi Saksóknari Alþingis, fær væntalega fljótt að bregða sér aftur í skikkju Saksóknara Alþingis og ákæra fyrir Landsdómi þá sem sannanlega hafa gerst brotlegir gegn Stjórnarskránni.

 

Lög 4/1963 um ráðherraábyrgð innihalda stjórnarskrárbrot,

því að þar er ólöglegt ákvæði um að brot ráðherra fyrnist eftir tiltekinn tíma.


Íslandi bjóðast ævintýraleg tækifæri við að brjótast úr haftakerfi

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

Íslandi bjóðast ævintýraleg tækifæri við að brjótast úr haftakerfi.

Fyrst birt í Fréttablaðinu 04. marz 2014.

 

Heiðar Már Guðjónsson.

Nú eru liðin rúm tvö ár síðan ég birti greinina hrunið 2016 í Fréttablaðinu. Þar var varað við gríðarlegu magni króna í umferð í haftakerfi, sem myndi leiða af sér eignaverðbólgu og innistæðulausan hagvöxt. Eins var varað við því að erlendir kröfuhafar fengju að komast með sína fjármuni úr landi á kostnað Íslendskra aðila sem enn væru fastir í höftum. Þegar greinin birtist var opinber umræða um þessa áhættuþætti nánast engin, enda vakti hún nokkra athygli.

Seðlabankinn reyndi kerfisbundið að gera minna úr erlendum skuldum en raunin var allt þar til Alþingiskosningar voru yfirstaðnar, í maí 2013. Í vetur hefur svo raunveruleg umræða hafist um það hvort gjaldeyrir dugar fyrir erlendum skuldum.

Undanfarin misseri hafa komið fram greiningar frá Seðlabankanum og greiningardeildum bankanna um að fasteignabóla sé ekki í augsýn og því ekki eignaverðbólga. Það er athyglisvert í dag þegar íbúðir í fjölbýlishúsum eiga að seljast á þriðja hundrað milljóna króna á sama tíma og verið er að reisa fjöldann allan af fjölbýlishúsum. Aðgangur að lánsfé hefur stóraukist í bankakerfinu og nálgast nú það sem var þegar best lét fyrir hrunið 2008. Bankarnir eru allir í tilvistarkreppu og keppast um að halda stærð sinni þrátt fyrir að bankakerfið sé of stórt á Íslandi en enginn bankanna vill verða sá sem minnkar og að lokum verður undir.

Sömu sögu var að segja af þróun á hlutabréfamörkuðum. Greiningaraðilar töldu litlar líkur á að bóla myndi gera vart við sig. Síðan greinin birtist hefur hlutabréfaverð hækkað um helming.

Ekki allt ómögulegt.

Núverandi ríkisstjórn hefur snúið af braut fyrri ríkisstjórnar í samskiptum við kröfuhafa gömlu bankanna, sem þó, ótrúlegt nokk, er ekki enn búið að setja í þrot.

Það jákvæða er að ytri aðstæður þjóðarbúsins til langs tíma eru einstaklega hagstæðar, en um það skrifaði ég bókina Norðurslóðasókn sem kom út í september, til að benda á öfundsverða framtíð Íslands tengda staðsetningu og auðlindum landsins.

Innri þættir eru hins vegar enn í sama sorglega horfi og hefur verið um áratuga skeið. Það eru hins vegar þættir sem eru fullkomlega á okkar valdi og við þurfum að breyta, ef ekki á illa að fara.

Lærum af reynslu annarra.

Við höfum reynslu og þekkingu erlendis frá sem einfalt er að læra af. Af fjölmörgum dæmum má læra að oft liggur brotalömin, sem leiðir til kreppu, í uppbyggingu fjármálakerfisins og gjaldmiðlinum. Margar leiðir eru færar til að ráða bót á þessu. Til dæmis er hægt að leita eftir tvíhliða myntsamstarfi við Kanada eða festa krónuna með myntráði við alþjóðlega mynt. Einfaldasta og fljótvirkasta lausnin við gjaldeyriskreppu og höftum, þar sem minni þjóðir eiga í hlut, er að taka upp einhliða aðra mynt. Það hafa 33 þjóðir gert á síðustu áratugum allar með góðum árangri, þó aðstæður hafi verið eins ólíkar innbyrðis og hugsast getur.

Við þekkjum hvernig haftakerfi þróast, bæði af eigin reynslu og annarra. Þau leiða af sér stöðnun og spillingu þar sem meiru skiptir að komast að kjötkötlunum en að stunda verðmætasköpun. Þetta er þróun sem þarf að koma í veg fyrir.

Aðgerða er þörf.

Bankakerfið sem hrundi var endurreist í óbreyttri mynd eins óskynsamlegt og það er. Síðan var eignarhald bankanna afhent aðilum sem FME metur ekki hæfa til að eiga bankana. Þeim sömu aðilum er í dag leyft að starfa um langan tíma í millibilsástandi nauðasamninga á kjörum sem engum öðrum Íslendskum fyrirtækjum stendur til boða og eru þeir til dæmis undanþegnir skilaskyldu gjaldeyris og voru undanþegnir sköttum þangað til nú nýlega.

Það þarf hins vegar að taka nærsta skref og klára uppgjörið við hrunið. Það er ekki gert nema gömlu bankarnir, Gamli Landsbankinn, Kaupþing og Glitnir, verði settir í gjaldþrot, enda hlýtur að vera fullreynt um nauðasamninga. Síðan þarf að búa til umgjörð um bankakerfið þannig að almenningur standi ekki í ábyrgð fyrir það. Það gerist þegar ríkið er ekki lengur lánveitandi til þrautarvara. Við höfum einstakt tækifæri til þess að taka þetta skref nú þar sem bankarnir hafa aldrei í sögunni verið með eins sterk eiginfjárhlutföll til þess að standa á eigin fótum, án ábyrgðar ríkisins.

Lausnin felst þannig í aukinni dreifstýringu en ekki í aukinni miðstýringu, sem fælist í því að sameina FME og Seðlabanka og gefa þannig embættismönnum meira vald til að hlutast til um útlán og frjáls viðskipti. Lausnin felst í því að hver og einn beri ábyrgð á eigin fjármálum, en geti ekki sent reikninginn á aðra.

Staðreyndin er sú að Íslendingum bjóðast ævintýraleg tækifæri á næstu áratugum. Það væri synd að láta augljósa galla heimatilbúins haftakerfis hindra okkur í að nýta þau.


Svartstakkarnir hennar Þorgerðar K. Gunnarsdóttur

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

Svartstakkarnir hennar Þorgerðar K. Gunnarsdóttur.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 04. marz 2014.

 


Þorsteinn Arnalds.

Í sunnudagsmorgni Gísla Marteins um síðustu helgi var rætt um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fór þar mikinn, en hún tilheyrir háværum og litlum minnihluta sjálfstæðismanna sem vill ganga í Evrópusambandið. Þorgerður kallaði þá sjálfstæðismenn sem fylgja vilja stefnu flokksins »svartstakka«. Einhverjum kann að þykja það vel til fundið að líkja fóki, sem vill framfylgja lýðræðislegri niðurstöðu, við stuðningshóp Mussolinis sem beitti andstæðinga hans ofbeldi og hótunum.

Öllu snúið á haus.

Það er ekkert nýtt að hlutum sé snúið á haus í baráttunni fyrir því að Ísland haldi áfram að vera umsóknarríki í Evrópusambandið þrátt fyrir að meirihluti landsmanna, samkvæmt öllum könnunum í mörg ár, vilji ekki ganga í sambandið. En þarna var samt gengið lengra og af meiri ósvífni en oft áður, enda sló fréttastofa Ríkisútvarpsins furðulegustu ummælunum upp með velþóknun.

Því var haldið fram að hópur »harðlínumanna« og »svartstakka« hertæki stefnu Sjálfstæðisflokksins og kæmi það fram í því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að inngöngubeiðnin í Evrópusambandið verði afturkölluð. Því verður vart trúað að sá sem heldur þessu fram hafi mikinn þátt tekið í starfi Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hefur jafnan verið eindregið mótfallinn því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Landsfundur eftir landsfund hefur áréttað það. Síðast lýsti landsfundur því yfir fyrir kosningar 2013 að Sjálfstæðisflokkurinn vildi slíta aðildarviðræðunum. Kannanir sýna að einungis um 10% sjálfstæðismanna vilja ganga í Evrópusambandið.

Stefna flokksins hertekin.

En því miður má finna dæmi um að stefna Sjálfstæðisflokksins hafi verið hertekin. En hverjir hafa gert það? Landsfundir Sjálfstæðisflokksins, stærstu stjórnmálasamkomur Íslands, hafa alltaf verið eindregnir gegn aðild að Evrópusambandinu. Sama átti við um Icesave-kröfurnar. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins gerði sérstaka samþykkt þar sem hann hafnaði »löglausum kröfum Breta og Hollendinga«. En þeir sem urðu undir á fundinum, Evrópusinnarnir, þessir sem gjarnan lýsa sjálfum sér sem »frjálslyndum« en öðrum sem »svartstökkum«, lágu í forystu flokksins um að fara ekki eftir landsfundarsamþykktum heldur einhverju allt öðru. Og höfðu sitt fram, með þeim afleiðingum að fylgi flokksins hefur ekki borið sitt barr eftir Icesave-dóminn í janúar 2013.

Fyrir kosningarnar 2013 lýsti landsfundur því ákveðið yfir að Sjálfstæðisflokkurinn vildi að ekki yrði gert »hlé« á aðildarviðræðum við Evrópusambandið heldur skyldi þeim »slitið«. Og hvernig brugðust Evrópusinnarnir við? Með hefðbundnum hávaða og stóryrðum og kröfum um að flokkurinn tæki upp einhverja allt aðra stefnu en landsfundur hefði ákveðið. Allt þetta bergmáluðu fjölmiðlar, sem telja margítrekaðar skoðanir þessa fámenna hóps alltaf jafnmikil tíðindi. Eftir nokkra daga af þessum látum gerðist það að einstakir frambjóðendur tóku að tala eins og flokkurinn vildi gera hlé á aðildarviðræðum og halda atkvæðagreiðslu um framhaldið. Þvert gegn því sem landsfundur hafði slegið föstu.

Hámark frekjunnar.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er æðsta vald í málefnum hans. Hafi landsfundur með skýrum hætti tekið ákvörðun um stefnu flokksins í mikilvægu grundvallarmáli, þá verður henni auðvitað ekki breytt með einhverjum ummælum í sjónvarpsþætti. Ef það eru svik að fara ekki eftir öllu því sem sagt er í sjónvarpsþáttum, þá eru það enn meiri svik að fylgja ekki eindregnum samþykktum landsfundar.

Það er ótrúleg frekja þegar þeir, sem aldrei fá stefnu sína samþykkta á landsfundi, reyna að hertaka flokkinn með hávaða og stóryrðum í fjölmiðlum í von um að þingmenn kikni í hnjánum við skyndilegt fjölmiðlafár. Þegar við þetta er svo bætt stóryrðum og ósmekklegum uppnefnum um þá, sem einfaldlega leyfa sér að fara eftir skýrum landsfundarsamþykktum, þá er frekjan komin í annað veldi. Þá er hún farin að nálgast það stig að megi fara að tala um »frekjupungapólitík«, svo notað sé ruddalegt orð sem ekki á heima í Íslendskri stjórnmálaumræðu.

 


Að kíkja í pakkann: tálsýn sem lifir í hugskoti aðildarsinna

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

Að kíkja í pakkann: tálsýn sem lifir í hugskoti aðildarsinna.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 26. febrúar 2014.

 


Ólafur Hannesson.

Frá árinu 2009 höfum við verið í aðildarferli að Evrópusambandinu, allt frá minnisstæðum tímapunkti þar sem Samfylkingunni tókst að koma þessum miðpunkti alheims síns á dagskrá. Þetta ferli hefur verið til umfjöllunar síðan og aðild að ESB raunar rædd löngu fyrir þann tímapunkt. Aldrei sáu Samfylking né VG tilgang í því að spyrja þjóðina, hvort hún ætti að ganga í eða sækja um aðild að ESB. Viljaleysið er algjört þrátt fyrir að aðildarferli feli einnig í sér aðlögun sem þjóðir verða að framkvæma svo regluverk þeirra rími við ESB og þær verði tilbúnar að ganga inn um leið og aðildarferlinu lýkur.

Þrátt fyrir mikla andstöðu við inngöngu Íslands að ESB hefur aðildarsinnum tekist að sannfæra sumt fólk um að við verðum nú samt að sjá samninginn, að öðrum kosti vitum við ekki hvað er í boði. Þetta er dæmi um eina bezt heppnuðu markaðssetningu sem við höfum kynnst, að selja fólki hugmyndina um að »kíkja í pakkann«. Þetta er ein bezta fullyrðing sem aðildarsinnar hafa sett fram, hún er þannig gerð að fólk þarf ekki að kynna sér málið frekar, ákvörðun er slegið á frest og úthýst úr huga fólks fram að þeim tímapunkti að aðildarsamningur liggur fyrir, á þeim tímapunkti verður svo erfiðara að segja nei þar sem við höfum nú gengið svo langt að fá samninginn á borðið og ekki sé fallegt að hafa dregið 28 aðildarríki ESB á asnaeyrunum.

Rjúfum tálsýnina, kynnum okkur ESB.

Fyrir þá sem hafa vilja og áhuga er hægt að kynna sér ESB og hvað það hefur að bjóða, það er enginn falinn pakki sem einungis má sjá við endann á aðlögunarferlinu. Tálsýnin er falleg sem aðildarsinnar hafa sett upp, en vonandi tekst flestu fólki að sjá í gegnum hana. Staðreyndirnar verða alltaf til staðar burt séð frá samningum, hér eru nokkrar:

  1. Lög ESB verða rétthærri okkar lögum, þar með talinni stjórnarskrá, sem þýðir að ef að ESB setur lög sem stangast á við stjórnarskrá eða lög þá verðum við að breyta okkar stjórnarskrá eða lögum.

  2. Við verðum nettógreiðandi þjóð innan ESB, þ.e.a.s. við munum borga meira inn í sambandið en við komum til með að fá út úr því, þetta er staðreynd sem t.d. Þjóðverjar hafa fagnað, þar sem þeim finnst gott að fá þjóðir sem borga til sambandsins í stað þeirra sem taka fé úr því. Rætt er um tölur í kring um sex milljarða sem við munum greiða umfram þá styrki sem við fáum frá sambandinu.

  3. Við munum ekki stjórna því hvaða tollar verða á innfluttum vörum, þessir tollar verða ákveðnir af ESB með hagsmuni voldugustu ríkjanna í huga. Tómaturinn sem keyptur er frá ESB lækkar á sama tíma og raftækið sem keypt er frá Asíu kann að hækka vegna þess að það er utan við þann tollamúr sem ESB er.

  4. ESB er í stanzlausri þróun, það stefnir með auknum hraða í átt að miðstýrðu ríki þar sem aðildarþjóðir hafa minni völd og ESB meiri. Það er draumsýn margra innan kerfis ESB að færa sambandið meira í átt að sambandsríki frekar en ríkjasambandi, samanber orð Viviane Reding sem er dómsmálastjóri ESB og varaforseti framkvæmdastjórnar sambandsins, en hún sagði fyrir stuttu að það væri hennar persónulega skoðun að evrusvæðið ætti að verða að Bandaríkjum Evrópu.

Fyrst komu aðildarsinnar fram með fullyrðingar um að við myndum græða svo mikið á að ganga í sambandið. Þeim var síðar bent á að við myndum greiða meira í sambandið en við fengjum þaðan. Þá breyttu þeir orðum sínum á þann veg að fjármunir skiptu ekki máli heldur hvaða gagn við gerðum í alþjóðlegu samhengi.

Næst fóru þeir svo að tala um, að við fengjum nú varanlegar undanþágur frá reglum sambandsins (gott að sækja um í eitthvað sem þarf þó að breytast svo þú viljir ganga inn). Enn og aftur hefur aðildarsinnum verið bent á að fullyrðingarnar þeirra eru rangar. Það hefur meðal annars verið sagt af stækkunarstjóra ESB að ekki séu í boði varanlegar undanþágur líkt og aðildarsinnar hafa haldið fram, þetta kemur einnig fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Um er að ræða sérlausnir sem í eðli sínu eru ekki varanlegar enda breytilegar eftir vilja sambandsins. Nú stökkva aðildarsinnar fram og segjast hafa haldið því fram allan tímann, það verður að dást að þeim fyrir aðlögunarhæfni sína og hversu auðveldlega þeir geta breytt áróðri sínum til að fá fólk með sér í sambandið.

Ísland já takk ----- ESB nei takk.

Í ljósi alls þessa tel ég viturlegast að slíta þessu ferli og hvet ég stjórnarflokkana til að standa við það sem vilji var fyrir á landsfundum þeirra og draga umsóknina til baka líkt og þeir virðast stefna að. Ef vilji til að ganga í sambandið verður í framtíðinni einhvern tímann til staðar þá er sjálfsagt að greiða atkvæði um hvort við viljum láta reyna á viðræður.

Ísland getur alltaf gert þær breytingar á lögum og reglugerðum sem við teljum til bóta og þurfum ekki að ganga í ESB til þess. Ég treysti Íslendskri þjóð til að halda vel á spilunum inn í framtíðina. Takmörkum erlend samskipti ekki einungis við það litla landsvæði sem Evrópusambandið nær yfir. Horfum á heiminn allan, enda markaðir sífellt að þróast og ekki er heillavænlegt að einskorða sig við ákveðinn stað á Jarðarkringlunni, án þess að geta með góðu móti breytt því. Ég segi: Ísland já takk ----- ESB nei takk.


Lygar Steingríms J. Sigfússonar um Icesave-I eiga erindi fyrir Landsdóm.

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

Lygar Steingríms J. Sigfússonar um Icesave-I eiga erindi fyrir Landsdóm.

Fyrst birt 26. febrúar 2014.

 

Loftur Altice Þorsteinsson.

Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem mynduð var 10. maí 2009 og tók við af minnihlutstjórn sömu flokka sem stofnuð hafði verið 01. febrúar 2009. Steingrímur hafði skipað Svavar Gestsson sem formann samninganefndar Íslands til viðræðna við Bretland og Holland um Icesave-kröfurnar, sem þessi nýlenduveldi höfðu uppi á hendur öllum Íslendingum. Svavar fekk erindisbréf sitt 24. febrúar 2009.

Þrátt fyrir, að Landsbankinn var einkabanki og TIF (Tryggingarsjóður innistæðueigenda og fjárfesta) er sjálfseignarstofnun sem fjármögnuð er með iðgjöldum starfandi banka á landinu, kaus ríkisstjórn Íslands að ganga í ábyrgð fyrir forsendulausar kröfur Bretlands og Hollands. Í erindisbréfi samninganefndarinnar (Svavars-nefndarinnar), getur að líta eftirfarandi þvætting:

»Eftir hrun bankanna í október 2008 gengust Íslendsk stjórnvöld undir þær skuldbindingar að leggja »Tryggingarsjóði innistæðueigenda og fjárfesta« til fé til að tryggja innistæðueigendum í útibúum Íslendsku bankanna erlendis endurgreiðslu innstæðna í samræmi við ákvæði lagaramma EES um lágmarkstryggingu innstæðna

Raunveruleikinn er sá, að eigendur Icesave-reikninganna áttu tryggingakröfu á TIF, en einnig á FSCS í Bretlandi og DNB í Hollandi. Ábyrgð tryggingasjóðanna var sameiginleg og ótökmörkuð hvers fyrir sig, þannig að í Bretlandi stóðu TIF og FSCS til ábyrgðar, en TIF og DNB í Hollandi. Umræðan um »top-up« var því merkingarlaus og einungis haldið fram til að kúga Ísland. Þessa staðreynd er auðvelt að sanna.

Í fyrirspurnartíma á Alþingi miðvikudaginn 03. júní 2009, beindi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eftirfarandi fyrirspurn til Steingríms fjármálaráðherra:

»Frú forseti. Getur hæstvirtur fjármálaráðherra upplýst þingið um stöðu mála í viðræðum við bresk stjórnvöld vegna Icesave-reikninganna og hvort rétt sé að til standi að undirrita einhvers konar samkomulag við bresk stjórnvöld jafnvel á morgun og ef ekki á morgun, hvenær þá og hvað í slíku samkomulagi felist eða hvað ráðherrann gerir ráð fyrir að í því muni felast?«

Þessari spurningu svaraði Steingrímur J. Sigfússon:

»Frú forseti. Eins og þingmönnum er kunnugt var afgreidd ályktun um það á þingi þar sem stjórnvöldum var falið það verkefni að ræða við bresk og hollensk stjórnvöld um lyktir þessarar deilu og síðan hefur með reglubundnum hætti verið skýrt frá því hvað aðhafst hefur verið í þeim efnum og m.a. utanríkismálanefnd verið haldið upplýstri um það. Viðræður eða þreifingar milli aðila hafa gengið hægar en ætlunin var, m.a. vegna þess að Bretar hafa ítrekað óskað eftir frestun á fundum sem fyrirhugaðir voru.

Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hæstvirtan þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi

Á sama tíma og Steingrímur fullyrti, að »það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga« var samninganefndin að leggja síðustu hönd á hina alræmdu Svavars-samninga. Icesave-I-samningarnir voru undirritaðir 05. júní 2009, aðeins tveimur dögum eftir að Steingrímur hafði staðhæft, að ekki væri að búst við samkomulagi á nærstu dögum.

Rík ástæða er til að rannsaka hvort ráðherrann var að ljúga að Alþingi, eða hvort hann raunverulega vissi ekki betur. Fjölmargir landsmenn hafa ásakað Steingrím fyrir lygar, en enginn hefur haft dug til að kæra hinn fyrrverandi yfir-ráðherra. Í heitri umræðu 25. febrúar 2014, um hvort slíta ætti formlega viðræðum við ESB um innlimun Íslands, rifjaði utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra upp meintar lygar Steingríms. Gunnar Bragi mun hafa sagt úr þingsal: »Ég hef þó ekki logið að þinginu eins og þú

Ofsi ESB-vinanna á Alþingi var slíkur, að þeir linntu ekki látum fyrr en Gunnar Bragi sá sig knúinn til að biðjast afsökunar á ummælum sem hann lét falla úr þingsal og sem líklega eru réttmætar ásakanir. Eftir upphlaup ESB-vinanna er ekki hægt að horfa framhjá meintum lygum Steingríms J. Sigfússonar. Rannsaka verður málið og hugsanlega að kæra hann fyrir Landsdómi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband