| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Vér einir vitum - segir Árni Matthíasson.Fyrst birt í Morgunblaðinu 16. maí 2015.
Jón Magnússon.
Vér einir vitum sögðu einvaldskonungar sem töldu sig hafa þegið vald sitt frá Guði. Almúginn hafði því ekki rétt til að hafa aðra skoðun. Í lýðræðisþjóðfélagi eru gagnstæð viðhorf. Morgunblaðið hefur um áratugaskeið verið opið mismunandi skoðunum og sjónarmiðum. Þess vegna er blaðið og blogg blaðsins lifandi vettvangur skoðanaskipta. Tjáningarfrelsið fer fyrir brjóstið á blaðamanninum Árna Matthíassyni sem talar úr sömu háhæðum og einvaldskonungar til forna. Í pistli á miðvikudaginn bregður hann þeim um greindarskort, sem finnst eitthvað athugavert við framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum þar sem Svisslendingur gerir mosku í kirkju.Hópur miðaldra, hvítra, kristinna karlmanna..Í greininni, sem Árni skrifar á kostnað okkar áskrifenda Morgunblaðsins, sýnir hann helstu einkenni þess sem vinstrimenn mundu kalla tilraun til fasískrar þöggunar. Að mati blaðamannsins eru þeir sem hafa skrifað eitthvað misjafnt um moskubygginguna í kirkju í Feneyjum á kostnað íslendskra skattgreiðenda samkynja hópur vanvita, sem eru auk þess miðaldra hvítir kristnir karlmenn, andstæðingar múslima, á móti hommum, á móti femínistum og á móti listamönnum.Það er huggun harmi gegn, að mati blaðamannsins, að hópurinn er kominn af léttasta skeiði og hann opinberar þá von sína að maðurinn með ljáinn muni fljótlega höggva stór skörð í raðir þeirra sem eru á öðru máli en hann.Ég hef gert athugasemdir við að mörgum tugum milljóna sé varið til að byggja mosku í kirkju í Feneyjum og umstangið í kringum það. Í fyrsta lagi finnst mér það sóun á almannafé. Í öðru lagi sé ég ekki að það sé í samræmi við þann tilgang að kynna íslendska myndlist. Í þriðja lagi er verkið sett upp til ögrunar. Við Íslendingar fengum á okkur bjánastimpil á árinu 2008 og ítrekun á því er óþörf. Blaðamaðurinn ætti að skoða hvað kollegar hans á víðlesnum blöðum eins og t.d. Daily Telegraph og Le Figaro hafa um málið að segja.Íslendsk myndlist eða kynning á islam ?.Umræðan og sjónarmiðin í þessu máli eru aðallega varðandi notkun almannafjár. Það skuli gengið fram hjá íslendskum listamönnum við kynningu á íslendskri list í Feneyjum. Að ekki skuli kynnt íslendsk list. Þessi atriði eiga erindi í þjóðfélagsumræðu í lýðræðislandi. Það hefur ekkert með afstöðu til homma, listamanna, kristni eða femínisma að gera. Blaðamanninum Árna Matthíassyni til upplýsingar þá vill nú þannig til að sá sem þetta skrifar er jákvæður í garð þessara hópa þannig að staðalímynd hans er líka röng.Eftir að ég lét í ljós andúð mína á því að listaelítan skyldi ganga jafn freklega og raun ber vitni gegn íslendskum myndlistamönnum og íslendskri myndlist hafa margir myndlistarmenn haft samband við mig og gert mér grein fyrir hvernig ástandið er í spilltu umhverfi listaelítunnar, þar sem sumir eru í náðinni en öðrum útskúfað eins og í Sovét forðum. Því verður að breyta.Þegar tugum milljóna króna er varið í moskubyggingu sem hefur engin tengsl við Ísland á kynningarhátíð myndlistar í Feneyjum, þá er eðlilegt að spurt sé: Erum við að verja peningum skattgreiðenda á réttan hátt? Getum við ekki gert betur? Sú þöggun sem er varðandi þetta mál í íslendskum fjölmiðlum er ógnvekjandi en eftirtektarverð, lærisveinar Göbbels kunnu það fag út í æsar. Angi af sama meiði er umrædd grein blaðamannsins Árna Matthíassonar. <<<>>><<<<<<<>>>>>>><<<>>>. Fullsetinn bjánabíll.Fyrst birt í Morgunblaðinu 13. maí 2015.
Árni Matthíasson.
Launsögnina um kjánakænuna þekkja væntanlega flestir, táknsöguna um skipið þar sem dárarnir kæra sig kollótta um hvert er stefnt því þeir eru svo uppteknir í sinni forheimskan. Nú má skilja söguna á ýmsa vegu, en gríski heimspekingurinn Platon notaði hana til að lýsa því hve lýðræði væri misheppnað fyrirbæri, enda hafði hann andúð á því.Á sextándu og sautjándu öld notuðu menn fíflafleyið til að lýsa kaþólsku kirkjunni - sjá til að mynda Das Narrenschiff eftir Sebastian Brant sem kom út 1494. (Í Louvre-safninu í París er eftirminnileg (og fræg) mynd af kjánakænu eftir hollenska málarann Hieronymus Bosch, reyndar hluti af altaristöflu sem söguð var niður til að búa til hentugar stærðir fyrir stofuveggi.)Þessa fornu táknsögu má náttúrlega nota til að skoða sitthvað í samfélagi okkar, en í nútímalegri gerð táknsögunnar veit ég ekki hvort maður myndi setja kjánana á kænu, sennilega frekar í rútu sem ekur af stað út í óvissuna, ekur í hringi og út í móa. Ég sé í það minnsta fyrir mér rútu með þá sem farið hafa hamförum á Moggablogginu, og víðar, undanfarna daga vegna frétta af íslendska skálanum á Feneyjatvíæringnum og innsetningu listamannsins Christophs Büchels í afhelgaðri kirkju.Reyndar þyrfti rútan ekki að vera stór, nóg að hafa smárútu, því það vill nefnilega svo til að öfgamennirnir sem æsa sig yfir múslimum, nýjungum í listsköpun, réttindum samkynhneigðra og kynfrelsi kvenna, svo dæmi séu tekin, eru ekki svo ýkja margir. Fljótt á litið sýnist mér þetta vera tíu til tólf manna hópur miðaldra, hvítra, kristinna karlmanna sem keppast við að skrifa vanstilltar bloggfærslur og síðan athugasemdir hver hjá öðrum, klappa hver öðrum á bakið fyrir að hafa nú aldeilis sýnt múslimum / hommum / femínistum / listamönnum í tvo heimana í einskonar haturshópefli.Víst er það ákveðinn léttir þegar maður áttar sig á að þessi háværi hópur er ekki stærri en raun ber vitni, og í ljósi þess að liðsmenn hans eru allir komnir af léttasta skeiði munu félagar hans fljótlega þagna einn af öðrum. En er ekki í lagi að taka umræðuna? spyrðu kannski kæri lesandi, er ekki gagnlegt að sem flestar raddir fái að hljóma?Ég tek reyndar undir það að skoðanaskipti séu hressandi, ekki síst við þá sem eru ósammála manni. Ég fæ aftur á móti ekki séð hversu gagnlegt það er að lesa sífellt sama ruglið um múslima og þeirra illu heimsyfirráðaáform, um það hvernig samkynhneigðir séu að afsiða samfélagið, femínistafrenjur að kúga karlpeninginn og listaelítuafætur að spilla hinu góða orðspori Íslendinga í útlöndum (já, einmitt!). Ég tæki því fagnandi ef þessi kjánaklúbbur myndi koma sér fyrir í bjánabílnum og keyra á brott, hverfa í fjarskann. Þá er kannski hægt að taka raunverulega umræðu.
|