Stóra bankagjöfin var undirbúin af Fjármálaeftirlitinu.

  
 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

 

Stóra bankagjöfin var undirbúin af Fjármálaeftirlitinu.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 07. apríl 2015.



Loftur Altice Þorsteinsson.

Eins og ég gerði grein fyrir í Morgunblaðinu 12. marz 2015, vann Fjármáleftirlitið gegn tilgangi Neyðarlaganna (lög 125/2008). Strax í upphafi lagði FME (Fjármáleftirlitið) ofurkapp á að hlutur hrægammanna yrði sem stærstur. Fyrirætlan FME var sú, að hrægammarnir hefðu frjálsar hendur við að blóðmjólka heimili og fyrirtæki í landinu. Jafnvel var snúið á haus ákvæði Stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins.

Eignarréttur almennings er varinn í stjórnarskrá Lýðveldisins..

Stjórnarskráin fjallar um eignarréttinn í 72 grein: »Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.« Stjórnarskrár eru samdar til að tryggja réttindi almennings gegn innlendum stjórnvöldum og erlendum hrægömmum. Erlendir aðilar njóta alls ekki sömu verndar.

Með gengisfellingunni í kjölfar bankahrunsins, var framkvæmd stórfelld eignaupptaka hjá almenningi. Réttilega hefur ástandinu verið lýst sem efnahagslegum forsendubresti. Núverandi ríkisstjórn hefur viðurkennt rétt landsmanna, að hljóta leiðréttingu skulda og Hæstiréttur hefur með dómum sínum staðfest að leiðrétting var eðlileg og lögleg í kjölfar forsendubrestsins. Almenningur hafði því réttmætar væntingar um, að FME notaði það tækifæri sem Neyðarlögin gáfu til að leiðrétta útlánin sem nýgju bankarnir færðu til eignar.

FME fann upp hugtakið »gangvirði« til hagsbóta fyrir hrægammana..

Í ársskýrslu FME fyrir tímabilið 01.07.2008-30.06.2009, segir um fyrstu aðgerðir FME, við að verðleggja yfirtekin útlán nýgju bankanna:

»Fjármálaeftirlitið fól Deloitte að byggja mat sitt á hugtakinu „gangvirði“ (e. fair value) miðað við þær forsendur að nýju bankarnir haldi áfram starfsemi sinni sem fullfjármagnaðir íslendskir bankar á innanlandsmarkaði og þurfi hvorki að losa eignir né gera upp skuldbindingar í bráð né með nauðungarsölu. Skilgreiningu þessari var ætlað að stuðla að því að meðalhófs væri gætt milli þeirra neyðarsjónarmiða sem kölluðu á yfirtöku bankanna annars vegar, og hins vegar réttmætra hagsmuna kröfuhafa þeirra. Skilgreiningin leiðir til þess að matið verður hærra en líklegt söluverð viðkomandi eigna við þær aðstæður sem ríktu á mörkuðum þegar til aðgerðanna var gripið og gerir einnig nokkur skil þeim virðisauka sem leiðir af því að flytja eignirnar yfir í starfandi bankastofnanir.«

Sú afstaða FME að meta útlánin til »gangvirðis« leiddi til að afskriftir útlánanna urðu óeðlilega litlar og þar með skorti bankana svigrúm, að leiðrétta forsendubrestinn. Þar sem FME tók einnig þá afstöðu, að yfirfæra yrði sem mest af útlánum var ofurskuldsetning bankanna slík, í erlendum gjaldeyri, að þeir höfðu engan rekstrar-grundvöll. Til að gera eignaraðild ríkisins ennþá ófýsilegri, ákvað FME að tvöfalda eiginfjárkröfu nýgju bankanna, úr 8% í 16%. Þetta var fráleitt í ljósi miklu áhættuminna rekstrarumhverfis nýgju bankanna. Steingrímur J. Sigfússon yfirráðherra hefur því ekki átt í erfiðleikum með að réttlæta stóru bankagjöfina. Raunar er ekki vitað um neina úr stjórnkerfinu, sem höfðu áhyggjur af meðferð stjórnvalda á almenningi í landinu.

FMA laug um fyrirmæli Neyðarlaganna..

Í Ársskýrslu FME fyrir tímabilið 01.07.2009-30.06.2010 gengur FME jafnvel lengra en árið áður, en þar segir:

»Aðgerðir stjórnvalda á grundvelli laga nr. 125/2008 (neyðarlaganna) miðuðu að því að afstýra glundroða í efnahagslífi Íslands sem hlotist gat af hruni fjármálakerfisins. Lögin gerðu ráð fyrir að veitt yrði fé úr ríkissjóði til þess að fjármagna stofnun nýrra banka utan um innlenda starfsemi þriggja stærstu banka landsins. Í lögunum og ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins í framhaldi af setningu þeirra var kveðið á um það að þrotabúum gömlu bankanna skyldi endurgoldinn mismunur á verðmæti eigna og skuldbindinga sem fluttar voru til nýju bankanna við stofnun þeirra

Þarna er sett fram lygi um uppgjör við þrotabúin. Lygar FME stöfuðu varla af vanþekkingu, heldur var um að ræða vísvitandi blekkingar. Fullyrt er, að Neyðarlögin hafi mælt fyrir um skuldsetningu nýgju bankanna, en stofnun þeirra byggði þvert á móti á þeirri forsendu að svo yrði ekki. Ofurskuldsetning nýgju ríkisbankanna var gerð samkvæmt áætlun FME og sú aðgerð leiddi þráðbeint til stóru bankagjafarinnar. Sannleikurinn er sá, að Neyðarlögin gáfu FME frjálsar hendur um mat á útlánunum, skuldsetningu bankanna, eiginfjárhlutfall og önnur atriði, sem vörðuðu möguleika bankanna til að leiðrétta forsendubrestinn og nýta einokunaraðstöðuna til gagns fyrir landsmenn. FME kaus að taka stöðu með hrægömmunum og gegn hagsmunum Íslands.

Stjórnvöld geta ekki vikist undan þeirri réttmætu kröfu, að rannsakað verði hvernig staðið var að stóru bankagjöfinni. Jafnframt þarf strax að undirbúa að ríkisbankarnir verði endurheimtir. Ísland er sjálfstætt ríki og á í fullu tré við hrægammana, þótt þeir séu undir verndarvæng nýlenduveldanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband