| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Ofbeldisfól glugga í trúarrit.Fyrst birt í Morgunblaðinu 10. janúar 2016.
Kristján Jónsson.
Liðsmenn Ríkis íslams, IS, eru alræmdir fyrir hrottaskap. Í könnun Pew-stofnunarinnar frá nóvember sl. kemur fram að þorri fólks í arabalöndum er mjög andvígur samtökunum en allt að 20% múslíma í Pakistan og Nígeríu styðja þau. Fjöldi vestrænna frammámanna hefur fullyrt að IS tengist ekkert íslam. En ímamar og leiðtogar múslímaríkja segja þó aldrei að IS-menn séu guðleysingjar, segja engan hafa vald til þess að kveða þann dóm yfir múslímum. Er heimur íslams þjakaður af ofbeldi vegna þess að trúarbrögðin sjálf ýti undir slíka hegðun? Eða eru það sérstakar, sögulegar kringumstæður, t.d. kúgun vestrænna stórvelda á sumum þjóðum íslams, sem hafa valdið ofbeldi, stöðnun, þröngsýni og miðaldahugsunarhætti sem engin leið er að laga að vestrænum samfélögum? Nóg er um heift og viðbjóðslegar morðhótanir í trúarritunum, að ekki sé minnst á stefnuskrá Hamas og annarra hryðjuverkasamtaka. Og Freedom House-stofnunin bandaríska hefur lýst því í skýrslu hvernig boðað er hatur á öllum öðrum en múslímum í opinberum trúfræðsluritum fyrir börn í Sádi-Arabíu en þar eru ofsatrúarmenn Wahhabi-múslíma við völd. Múslímum er skipað að hata kristna, gyðinga, fjölgyðistrúarmenn og aðra guðleysingja, þar á meðal múslíma sem ekki eru wahhabítar þó að, svo furðulega sem það hljómar, þeim sé sagt að sýna þeim ekki óréttlæti, segir í skýrslunni. Víða í Kóraninum og svonefndum hadítum (mörg þúsund frásögnum af Múhameð spámanni og lífi hans) er farið hörðum orðum um þá sem svíkja trúna, að ekki sé minnst á villutrúarmenn. Þeir eigi ekkert gott skilið. En í Kóraninum er einnig lögð þung áhersla á mildi Allah og miskunnsemi [gagnvart Múslimum], hvatt til friðar. Kóraninn er því, eins og Biblían og fleiri trúarrit, fullur af mótsögnum. Stóri vandinn er að verulegur hluti þeirra 1600 milljóna manna um allan heim sem aðhyllast íslam hampar fyrst og fremst herskáu ummælunum, hatri og hroka. Milljónir þeirra vilja stríð og hermdarverk. Baráttukona í hættu. Ayan Hirsi Ali er sómölsk að uppruna og alin upp í íslamstrú en hefur kastað trúnni. Fjöldi múslíma álítur að það sé dauðasök. Hún býr nú í Bandaríkjunum og nýtur stöðugt verndar öryggisvarða vegna þess að ofstækismenn hóta að myrða hana vegna harðrar gagnrýni hennar á íslam og kvennakúgun meðal múslíma. Menn eigi að taka það alvarlega, segir Hirsi Ali, þegar hryðjuverkamenn vitna orðrétt í Kóraninn. Ekki má líta svo á að þeir séu bara að nota þessar trúarlegu tilvitnanir sem eins konar reykjarslæðu til að fela raunverulegu ástæðurnar fyrir hatri sínu. Fátækt og eymd í heimi múslíma séu auðvitað heppilegur jarðvegur fyrir ofstæki en hryðjuverkamennirnir séu sjaldnast að berjast gegn félagslegu eða efnahagslegu óréttlæti. Þeir vilji bara framfylgja boðum spámannsins frá sjöundu öld, ná heimsyfirráðum. Oft er talað um pólitískt íslam [Sunni-Islam] og það réttilega, trú og stjórnmál fléttast mjög saman í fræðunum. Trúin á að ráða, ekki fólkið. Og ofstæki íslamista sem gera sjálfsmorðsárásir minnir helst á æði margra veraldlegra trúmanna, kommúnista og nasista um miðja síðustu öld. Samkennd með trúsystkinum. Þegar forseti Írans, klerkurinn Hassan Rouhani, gagnrýndi nýlega framferði Ríkis íslams, IS, sagði hann að múslímar væru vanir því að aðrir trúarhópar sýndu þeim grimmd en ekki að það væru aðrir múslímar sem stæðu fyrir þannig aðgerðum. Athyglisvert er að hann, sjálfur klerkurinn, hikaði ekki við að bendla IS við íslam! Og talsmenn hinnar frægu Al-Azhar mosku og samnefnds háskóla í Kaíró treysta sér ekki til að útskúfa IS-mönnum, segjast ekki hafa vald til þess. Þeir láta nægja að fordæma grimmd IS-böðlanna. Trúin er því ekki saklaus. Breski sagnfræðingurinn Robert Skidelsky og fleiri fræðimenn hafa bent á að flestir vesturlandamenn séu sjálfir orðnir mjög veraldlega þenkjandi. Þeir skilji því alls ekki hvað trúin sé öflugur þáttur í hugarheimi mikils meirihluta múslíma, einnig þeirra sem ekki séu endilega mjög trúræknir. Þeir síðarnefndu haldi fast í hefðir hennar og finni flestir til mikillar samkenndar með öðrum múslímum, hvar sem er í heiminum. Áðurnefnd Hirsi Ali segir að eina leiðin út úr þessum sögulegu ógöngum sé að íslam þróist, Verði mildari og breytist eins og kristindómurinn gerði síðustu aldirnar. Vestrænar þjóðir verði að skilja að rætur ofbeldisins séu í sjálfri trúnni. Íslam verði að segja skilið við miðaldir. Hófsamir múslímar verði að rísa upp, menn verði að einbeita sér að því í trúnni sem ekki sé ósamrýmanlegt annarri menningu og nútímanum og ali á tortryggni. Þeir geti beðið fimm sinnum á dag, gefið fátækum ölmusur, farið í pílagrímsferðir til Mekka. En þeir verði að hætta að hóta öðrum og drepa þá. Hætta að krefjast þess að öll veröldin hlýði boðum íslams. Stjórnvöld í London hafa reynt að fá leiðtoga múslímasafnaða til að taka þátt í því að reyna að hemja útbreiðslu trúaröfga meðal breskra múslíma. Þótt netið sé orðið áhrifamesta verkfærið til slíkra hluta geta herskáir ímamar líka notað madrassakerfið, skóla fyrir múslímabörn, til að innræta þeim ofstæki. Stjórnvöld vilja því hafa eftirlit með skólunum sem gjarnan tengjast moskum, einkum óskráðum. En samtök um 400 moska segja nei. Eftirlit væri skerðing á trúfrelsi, segja þau. |