Verkefni forsetans eru vel skilgreind – í Stjórnarskránni

  
 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

 

Verkefni forsetans eru vel skilgreind – í Stjórnarskránni.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 25. júní 2016.



Loftur Altice Þorsteinsson.

Í nýrri könnun á viðhorfi landsmanna til forsetaembættisins, kom fram að um 34% telja embættið skipta litlu máli í Íslendsku stjórnkerfi, þar af vildu 12% leggja embættið niður. Þessi niðurstaða staðfestir, að hatursmenn Lýðveldisins hafa ná miklum árangri, við að ófrægja það stjórnarform sem þjóðin kaus sér 1944 og samþykkt var í þjóðaratkvæði með 98,3% atkvæða.

Því miður var ekki spurt jafnframt um afstöðu fólks til Lýðveldisins og því er ekki öruggt að fullur skilningur sé hjá landsmönnum, á tengslum forseta og lýðveldis. Samanburður á milli afstöðu til stjórnmálaflokka og embættis forseta, gefur þó vísbendingu um að þessi 34% séu raunverulega að lýsa andúð á Lýðveldinu. Því má ætla, að þetta fólk horfi vonaraugum til Evrópusambandsins, hins ólýðræðislega og yfirþjóðlega Brussel-valds.

Staðreyndin er auðvitað sú, að stjórnarform lýðveldis er ekki mögulegt án handleiðslu forseta. Segja má að forsetinn sé persónugervingur Lýðveldisins og varðmaður Stjórnarskrárinnar. Þetta birtist bezt í þeirra staðreynd, að af 81 grein í stjórnarskrá Íslands, fjalla 30 fyrstu greinarnar um forsetann, eða um 37%. Öll lýðveldi eru með hliðstætt stjórnarform og hafa alltaf verið, þótt í ótal tilvikum hafi úrkynjun leitt til hruns lýðveldis-formsins og oft hefur þurft blóðug átök til að endurreisa það.

Frambjóðendur til forseta sem ekkert vita um Stjórnarskrána.

Sú kosningabarátta sem nú stendur yfir vegna forsetakjörs, hefur leitt í ljós að frambjóðendurnir eru flestir ákaflega illa að sér um þau verkefni sem forsetinn hefur með höndum. Kappræðufundirnir fjalla að mestu leyti um áhugamál frambjóðenda, en lítið er minnst á raunveruleg verkefni. Sem undantekningar er þó hægt að nefna Sturlu Jónsson og Davíð Oddsson. Mesta furðu vekur, að sá frambjóðandi sem líklega hefur skrifað mest um embætti forsetans, virðist minnstan skilning hafa á starfinu. Þetta er Guðni Thorlacius Jóhannesson.

Að eigin sögn, byggir Guðni kosningastefnu sína á fjórum drýgindalegum kjörorðum: (öllum óháður-mannasættir-málsvari landsins-sameiningartákn). Ekkert þessara atriða er hægt að sérmerkja forseta Lýðveldisins, eins og verkefni hans eru skilgreind í Stjórnarskránni. Flestum mun ljóst að skreytingar af þessu tagi, eru bara leiktjöld í anda Potemkin (1739-1791). Upp í hugann kemur vísubrotið: »Glott hann ber af gömlum ref, glenntur er hans kjaftur«. Skraut-hænsnin að Bessastöðum eiga sannarlega ekki von á góðu.

Sagnfræði og þjóðníð, greinar á sama meiði ?

Skrif Guðna Thorlacius um núverandi forseta, Ólaf Ragnar Grímsson, hafa oft á tíðum haft yfirbragð hatursfullra árása. Til dæmis hefur Guðni líkt Ólafi Ragnari við foringja Ítalskra glæpasamtaka: »En Ólafur Ragnar á sér fortíð, guðfaðir útrásarinnar.« og hann hefur einnig líkt honum við bragðaref í Bretskum framhaldsþáttum: »Humphrey Appleby í bresku gamanþáttunum “Já, ráðherra” hefði ekki getað orðað það betur«. Eftirfarandi dæmi sýnir hvernig sagnfræðingurinn Guðni Thorlacius snýr sögulegum staðreyndum á hvolf, til að þjóna lyndiseinkun sinni:

»Valdhöfum í Lundúnum og Haag má hann [Ólafur Ragnar] þakka að hafa losnað úr Icesave-snörunni. Þeir neituðu að samþykkja fyrirvara Alþingis og því þurfti að semja upp á nýtt. Í árslok 2009 var það samkomulag samþykkt á þingi með nær minnsta mun. Um sama leyti var forseti hafður að þvílíku háði og spotti í áramótaskaupi að þess voru engin dæmi. Átti hann sér viðreisnar von?«

Ritbragð sem Guðni Thorlacius hefur tileinkað sér, er að hafa hnjóðsyrði sín eftir öðrum, heldst eftir óþekktum útlendingum. Gróa á Leiti sagði gjarnan »ólyginn sagði mér, en blessaður berðu mig ekki fyrir því« og þá var öruggt að lygin kom frá henni sjálfri. Guðni Thorlacius er ekki ennþá orðinn þjóðsagna-persóna, í líkingu við Gróu á Leiti, en sumum finnst eftirfarandi ummæli hans nálgast þjóðníð:

1. dæmi: »“Græðgi þeirra á sér engin takmörk” sagði einn breskur embættismaður eftir stríð þegar hann rifjaði upp afstöðu Íslendinga.«

2. dæmi: »Að sögn bresks sendiherra viðurkenndi einn ráðherrann hér [Íslandi] líka í tveggja manna tali að hann hálfskammaðist sín þegar Íslendingar stærðu sig af frammistöðunni í stríðinu.«

Ég hef eitthvað misskilið inntak sagnfræðinnar, ef svona Gróusögur eru viðurkennd aðferð í Sagnfræðideild Háskóla Íslands. Eru það meðmæli með forsetaframbjóðanda, að hafa látið opinberlega frá sér fara illmælgi um forseta landsins og sína eigin þjóð? Ábyrg þeirra kjósenda er mikil, sem þrátt fyrir aðvaranir ætla að kjósa Guðna Thorlacius Jóhannesson.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband