| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Af hverju sviku þau þjóð sína í tryggðum ?Fyrst birt í Morgunblaðinu 14. júní 2016.
Víglundur Þorsteinsson.
Fyrir nokkrum vikum voru lagðar fram í fjárlaganefnd [Alþingis] fundargerðir svokallaðrar samræmingarnefndar sem sett var á fót í desember 2008 til að hafa yfirumsjón og eftirlit með endurreisn bankakerfisins. Nefndin var til að greiða fyrir öllum þáttum og úrvinnslu mála á grundvelli neyðarlaganna sem sett voru vegna stærsta forsendubrests sem nokkurn tíma hefur orðið í okkar viðskiptaumhverfi. Neyðarlögin og ákvarðanir FME (Fjármálaeftirlitið) á grundvelli þeirra í október 2008 lögðu grundvöllinn að því að leysa úr málum með því að horfast í augu við allsherjar forsendubrest, nýir bankar voru stofnaðir af FME í samræmi við neyðarlögin og útlán voru flutt niðurfærð í samræmi við forsendubrestinn í hina nýju banka. Við þá niðurfærslu útlána var miðað við að öll útlán væru í Íslendskum krónum miðað við gengi gjaldmiðla 30.09.2008 og þannig færð niður um allt að 50% með almennri ákvörðun FME. Átti þetta við um einstaklinga og fyrirtæki sem grundvölluðu sína afkomu á tekjum í Íslendskum krónum. Útflutningsfyrirtæki og þjónustufyrirtæki með yfirgnæfandi tekjur erlendis frá nutu minni niðurfærslu, en þó að jafnaði a.m.k. 10%. Þegar fundargerðir þessarar nefndar eru skoðaðar sést, að allt er með felldu fram í miðjan janúar 2009 en þá byrjar að votta fyrir þeim breytingum sem í hönd fóru. Í lok janúar lét þáverandi forstjóri FME af störfum og kvaddi nefndina. Fljótt eftir að vinstri velferðarstjórnin tók til starfa verða ráðuneytisstjóraskipti í forsætis- og fjármálaráðuneyti með tilheyrandi breytingum á nefndinni. Straumhvörfin verða 11. febrúar 2009 þegar Indriði H. Þorláksson er mættur á vettvang sem sérlegur sendimaður Steingríms J., þá má ráða að eitthvað nýtt stóð til. Eitt var þó enn ógert til að klára að plægja jarðveginn fyrir hina nýju stefnu, en það var að reka þrjá seðlabankastjóra með sérstakri lagabreytingu svo þeir yrðu ekki í vegi hinnar nýju vinstri velferðarstjórnar sem kenndi sig síðar við að hafa slegið »skjaldborg um heimilin«. Í fundargerðunum gefur að lesa að 15.04.2009 var Deloitte LLP búið að ljúka endurmati á niðurfærslum FME frá haustinu 2008 sem það var ráðið til að vinna. En nú fóru kosningar í hönd nokkrum dögum síðar og var það mál því látið liggja í þagnargildi (eins og síðar varð alsiða hjá þeirri ríkisstjórn). Hinn 05.05.2009 tilkynnir Ragnar Hafliðason, settur forstjóri FME, nefndinni að fjármálaeftirlitið sé tilbúið til að ljúka frágangi á stofnun nýju bankanna sem stofnsettir voru í október 2008. Ekkert varð hins vegar af því eins og alþjóð veit því ríkisstjórnin sem kenndi sig við velferð og skjaldborg á tyllidögum var að íhuga að fara aðra leið. Leið sem átti með að hundsa neyðarlögin og ákvarðanir FME með því að hefja nýtt ferli sem grundvallaðist á að semja við kröfuhafa fyrst vegna Icesave en síðar hinna bankanna tveggja jafnframt. Þá er komið að því að reyna að svara spurningunni sem gefur að lesa í fyrirsögninni hér að ofan. Af hverju? Undangengin fjögur ár hef ég leitað og aflað gagna um allt þetta ferli og miðað með ýmsum hætti, oft vegna skipulegra tafa og blekkinga stjórnsýslunnar í landinu þrátt fyrir þær skyldur sem á henni hvíla í stjórnsýslulögum og upplýsingalögum. Af hverju var gripið til þess að ganga gegn neyðarlögunum? Mitt svar er eftirfarandi: Samfylkingin var með það sem sitt aðalstefnumál og nánast eina að ganga í ESB og taka upp evru. VG var strax reiðubúið eftir langa eyðimerkurgöngu utan ríkisstjórna að kokgleypa andstöðuna við ESB og láta hvað eina yfir sig ganga valdanna vegna. Strax eftir kosningar var Guðmundur Árni sendiherra látinn afhenda Carli Bildt aðildarumsókn í Stokkhólmi. Þá var komið að Bretum og Hollendingum. Nú sáu þeir sér leik á borði til að ná tökum á sínum málum vegna Icesave og stöðvuðu allt ferlið hjá ESB og reyndar hjá AGS einnig. Til þessa nutu þeir dyggrar aðstoðar hinna norrænu vinaþjóða okkar, einkum þó Norðmanna, Svía og Dana, sem höfðu tekið að sér það hlutverk við stjórnarbreytinguna í janúar 2009 að verða handrukkarar Breta og Hollendinga. Í því skyni lögðu Norðmenn fram seðlabankastjóra að láni til að annast allt eftirlitið. [Brutu með því Stjórnarskrána.] Svarið mitt er einfalt og skýrt. Til að komast inn í ESB var ákveðið að semja við Breta og Hollendinga og brjóta gegn neyðarlögunum. Þessar einbeittu ákvarðanir Samfylkingarinnar voru mótaðar strax haustið 2008 og leiddu m.a. til þess að Sjálfstæðisflokkurinn féllst á að boða Landsfund í febrúar 2009 til að leggja tillögu um það til ákvörðunar. Atburðarásin varð hinsvegar önnur, VG og vinstri armur Samfylkingarinnar ásamt tækifærissinnanum Össuri náðu saman í búsáhaldabyltingunni. Ný stjórn komst til valda. Þau ein tíðindi urðu á Landsfundi að nýr formaður tók við hjá Sjálfstæðisflokknum. Atburðarásin varð hröð í framhaldinu. Fjarlægja þurfti seðlabankastjórana þrjá því þeir voru ekki nægjanlega auðsveipir, höfðu meðal annars lækkað vexti stórlega að höfðu samráði við vinnumarkaðinn haustið 2008 gegn vilja AGS. Þeir voru ekki taldir líklegir til að sitja undir því að neyðarlögin væru strikuð út. Vextir voru síðan snarlega hækkaðir aftur í þágu erlendu kröfuhafanna eftir að »norski Sven« kom í bankann. Fram til kosninga í apríl 2009 var þjóðin leynd öllum veigamestu þáttum svo ekki þyrfti að taka þá áhættu að hún gripi fram fyrir hendur flokkanna í kosningum. Þeim blekkingarleik var reyndar haldið áfram allan starfstíma þessarar vinstri velferðarstjórnar - meðal annars með hjálp erlendu kröfuhafanna. Í maí var Icesave I [Svavars-samningarnir] komið á koppinn. Þann 17. júlí var búið að skrifa undir »Head of Terms« við Kaupþing og Glitni um að gefa kröfuhöfunum nýju bankana Arion og Íslandsbanka. 22.07.2009 fór Össur á fund Carls Bildt og afhenti ESB umsókn aftur. En áfram héldu samt blekkingarnar og lygarnar svo sem um Icesave og skjaldborgina og fleira og fleira. Ekki má þar gleyma einni höfuðlyginni, að við gætum samið um varanlegar undanþágur við ESB í sjávarútvegsmálum. Þegar allir þessir hlutir eru virtir úr fjarlægð er ljóst af hverju svikin voru framin. ESB-glýjan villti mönnum alla skynsamlega sýn. Brugguð voru launráð í því skyni sem eru stærri en nokkuð það sem ég kann að greina úr Íslendskri stjórnmálasögu. VG kyngdi grundvallarstefnu sinni, lög voru brotin á þjóðinni með afdrifaríkum hætti, gripið var til sérstakrar lagasetningar til að reka seðlabankastjórana þrjá. Landsdómsleikritið var sett á fót til að »skemmta lýðnum« að Rómverskum sið. Fundargerðir samræmingarhópsins sýna jafnframt að þessi stjórn fundaði með ákæruvaldinu »hinum sérstaka saksóknara«. Vonandi væri að Ögmundur, Brynjar og umboðsmaður Alþingis litu til þess meðal »annarra þýðingarmikilla starfa« sinna. Einu hef ég þó ekki svar við enn sem komið er. Það er, af hverju Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Bjarna Benediktssonar greiddi götu Icesave og hjálpaði til við að smeygja umræðulaust í gegnum þingið því fólskuverki að brjóta neyðarlögin og ákvarðanir FME með því að afhenda kröfuhöfum bankana. Þeirri gagnaöflun hlýt ég að halda áfram. |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:34 | Facebook
«
Síðasta færsla
|
Næsta færsla
»