Stjórnarskráin verður bara túlkuð á einn veg – bókstaflega

  
 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

 

Stjórnarskráin verður bara túlkuð á einn veg – bókstaflega.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 27. maí 2016.



Loftur Altice Þorsteinsson.

Það er ekki sjálfgefið að lýðveldi verði áfram stjórnarform Íslands. Þetta stjórnarform dregur nafn af því að »fullveldi stjórnkerfisins«, það er að segja endanlegt vald um bæði stjórnarform og stjórnarfar, er í höndum almennings – lýðsins. Menn taki eftir að »fullveldi stjórnkerfis« er alls óskylt hugtakinu »sjálfstæði ríkis«. Í opinberri umræðu er þessum tveimur hugtökum oft blandað saman, af vanþekkingu eða af yfirlögðu ráði til að villa um fyrir almenningi.

Í upphafi byggðar í landinu, á árabilinu 930-1262 var í landinu stjórnarform sem nefnist höfðingjaveldi. Alþingi var þá skipað þeim höfðingjum sem áttu megnið af jarðeignum landsins og fóru með svo nefnd goðorð (góð-jörð). Til að villa um fyrir almenningi hefur höfðingjaveldið hið forna verið nefnt þjóðveldi, en auðvitað kom almenningur (þjóðin) hvergi nærri stjórn landsins.

Frá 1262 til 1944 var stjórnarform landsins einveldi og breytir engu þótt Alþingi hafi starfað megnið af tímabilinu. »Fullveldi stjórnkerfisins« var í höndum ríkjandi einvalds. Raunar hélt Jón Guðmundsson ritstjóri (1807-1875) því fram að Alþingi (höfðingjarnir) hafi aldreigi afsalað fullveldinu í hendur erlends einvalds og gerði þess vegna grín að Christian IX, sem þóttist »gefa« Íslandi stjórnarskrá 1874. Auk þess er styttan af Christian IX sögufölsun, því að hann kom ekki með stjórnarskrána, þegar hann var hér í heimsókn 1874.

Sjálfskipaður aðall sækir alltaf hart að lýðveldum.

Fyrsta lýðveldi heimsins var stofnað í Spörtu fyrir um 2800 árum og entist í um 500 ár. Lýðveldi á Íslandi er því ungbarn í þessum samanburði og ef marka má ólund margra með stjórnarform okkar, er alls ekki öruggt að það komist til fullorðins aldurs. Að lýðveldinu er sótt úr ýmsum áttum, en hættulegastar eru líklega árásir sjálfskipaðs aðals, sem hefur að markmiði að breyta stjórnarfari landsins í átt að höfðingjaveldi. Málflutningur þessa fólks þekkist af tali um »þingræði« og »ráðherraræði«.

Annar hópur sem andstæður er lýðveldinu eru stjórnleysingar (Piratar), sem fyrst tóku þátt í Alþingiskosningum 2013. Andstaða þeirra byggist líklega á þekkingarleysi. Þriðji hópurinn sem vert er að nefna eru »alþjóðasinnar« sem hatast við þjóðríki, hvert sem stjórnarform þeirra er. Þetta fólk er einkum að finna í Samfylkingu og VG. Áður fyrr sótti þessi hópur hugmyndir til Kommúnismans, en eftir fall Ráðstjórnarríkjanna horfir þetta fólk með velþóknun til hins ólýðræðislega og yfirþjóðlega valds sem stjórnar Evrópusambandinu.

Stjórnarskrá Íslands undirstrikar vald forseta í lýðveldum.

Embætti forsetans er einn heldsti skotspónn þeirra sem hata lýðveldið. Því er haldið fram að forsetinn sé óþarfur og forsætisráðherra eða forseti Alþingis geti bætt við sig skyldum forsetans. Þessi málflutningur er fráleitur, því að forsetinn er persónugervingur lýðveldisins. Heldsta verkefni hans er að standa vörð um stjórnarskrána, í beinu umboði almennings. Þess vegna er hann kosinn beinni kosningu, af öllum landsmönnum. Mikilvægi forsetans birtist skýrt í Stjórnarskránni, þar sem 1/3 allra ákvæða fjalla um verkefni forsetans.

Vald forsetans er umfangsmikið og bæði framkvæmdavald og lagasetningarvald er undir hann sett. Dómsvaldið ætti að vera það líka, þannig að dómarar Hæstaréttar væru skipaðir af forsetanum, en til staðfestingar þyrfti samþykki Alþingis. Núgildandi fyrirkomulag, að ráðherra skipi dómara er óásættanlegt, enda lákúrulegt fyrirkomulag höfðingjaveldis. Önnur mikilvæg leiðrétting er upptaka tvískipts Alþingis, sem andstæðingum lýðveldisins tókst að fella niður 1991.

Lýðveldinu skal stjórnað í samræmi við Stjórnarskrána.

Í tíð núverandi forseta Ólafs Ragnars Grímssonar hafa lýðveldissinnar náð vopnum sínum og það hefur skapað megna ólund hjá þeim sem vilja lýðveldið feigt. Einkum má nefna notkun forsetans á 26. grein Stjórnarskrárinnar, um rétt (og skyldu) forsetans að skjóta umdeildum lagafrumvörpum í dóm fullveldishafans – þjóðarinnar. Með hliðsjón af lyktum Icesave-deilunnar, getur varla nokkrum dulist lengur að Stjórnarskrána ber að túlka samkvæmt orðanna hljóðan – bókstaflega. Ákvæði stjórnarskrár falla aldreigi niður, vegna notkunarleysis.

Duglitlir forsetar fyrri tíma, létu draga þingrofsvaldið úr höndum sér, auk annara mistaka sem þessir forsetar gerðu. Núverandi forseti hefur hins vegar hafnað því að þingrofsvaldið sé hjá forsætisráðherra eða mannsöfnuði á Austurvelli. Hér kemur til sögunnar 24. grein Stjórnarskrárinnar:

»Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið, enda komi Alþingi saman eigi síðar en tíu vikum, eftir, að það var rofið. Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.«

Samkvæmt Stjórnarskránni er starfstími Alþingis fjögur ár (31. grein) og ekki kemur til álita að frá því sé vikið, nema forseti meti svo að neyðarástand ríki. Ekkert kallar núna á þingrof og kosningar, heldur krefst Stjórnarskráin þess að nærst verði kosið til Alþingis 22. apríl 2017.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband