Þeir sem hafa kjark, að ræða um Islam

  
 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

 

Þeir sem hafa kjark, að ræða um Islam.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 05. desember 2015.



Gústaf Níelsson.

Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París benti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á að hið öfgafulla og róttæka íslam fæli í sér mikla ógn við hið siðmenntaða samfélag. Viðbrögð franskra yfirvalda við hryðjuverkunum í París staðfesta, að forsetinn er ekki einn um þá skoðun. Ljóst er að yfirvöldum mistókst að tryggja öryggi almennings eftir árásirnar á ritstjórnarskrifstofur Charlies Hebdo. Í París og Brussel var mælt fyrir um útgöngubann og landamæraeftirlit tekið upp þar sem það var ekki áður. Lögregla handtók einstaklinga, sem aðhyllast öfgafullt og róttækt íslam og leitaði í húsakynnum þeirra þar sem meðal annars fundust sprengjuvesti og skotvopn.

Hryðjuverk íslamista.

Hin verðskuldaða athygli, sem ábending forsetans fékk, olli gremju stjórnmálamanna á vinstri vængnum, hvort heldur þeirra sem njóta æ minna fylgis eða þeirra sem stunda sín stjórnmál vestur á Melum eða í Grábrókarhrauni undir Baulu uppi í Borgarfirði. Annað hvort heyrðu þessir stjórnmálamenn ekki eða vildu ekki hlusta er forsetinn áréttaði nauðsyn þess að ræða málin »með opnum og heiðarlegum hætti án þess að fara strax að ásaka hvert annað um annarleg sjónarmið eða stimpla viðhorfin«.

Kunnugleg andlit sökuðu forsetann um að ala á sundrungu á meðal »þjóðarinnar« því hryðjuverkin hefðu ekkert með íslam að gera. Þessa stjórnmálamenn skiptir engu, þótt hinir herskáu íslamistar hafi nú í tvígang murkað lífið úr saklausum Parísarbúum í sama mund og þeir ákalla guð sinn. Og tæpast er það tilviljun, að þessir stjórnmálamenn eru margir þeir sömu og studdu núverandi ritstjóra Kastljóss í síðustu forsetakosningum. Staðreyndin er sú að forsetinn sagði eingöngu það sem almælt er, en margir stjórnmálamenn þora ekki að ræða.

Íslamistar seilast til valda.

Í umfjöllun sinni benti forsetinn á að ríki, sem hefði fóstrað öfgakennt íslam hefði ákveðið að hafa afskipti af trúarbrögðum hér á landi. Ætla verður að hér hafi forsetinn átt við Sádi-Arabíu. Forsetinn er ekki sá fyrsti sem varar við. Skemmst er að minnast þess er Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti borgarstjórnarflokks Framsóknar og flugvallarvina, lýsti efasemdum um að ókeypis lóð væri úthlutað undir mosku til Félags múslima á Íslandi.

Í dag gagnrýna sömu stjórnmálamenn forsetann og gagnrýndu Sveinbjörgu Birnu. Þessa stjórnmálamenn skiptir engu þótt sá einstaklingur sem heldur um stjórnartauma hjá félaginu hafi lýst sig bókstafstrúarmann og að nýlega hafi komið fram upplýsingar, þar sem því er lýst að hann hafi sóst eftir fjárstuðningi Sádi-Araba til að reisa moskuna. Má ætla að alþingi bresti kjark til þess að grípa inn í fyrirsjáanlega atburðarás?

Óttast rasistastimpilinn.

Rannsókn franskra yfirvalda hefur leitt í ljós að herskáir íslamistar frá Molenbeek í Belgíu lögðu á ráðin um hryðjuverkin í París. Í erlendum fjölmiðlum þykir fréttnæmt að stærstur hluti íbúa Molenbeek er innflytjendur, sem eru íslamstrúar. Í sömu fjölmiðlum er Molenbeek lýst sem miðstöð herskárra íslamista, en fjölmargir sem berjast fyrir íslamska ríkið koma þaðan.

Í ljós hefur komið að belgísk yfirvöld höfðu einn hryðjuverkamannanna í sigtinu fyrir árásirnar, en brugðust ekki við. Engan skyldi undra, enda hafa borgaryfirvöld verið gagnrýnd fyrir að hafa lengi vitað, að hinu róttæka og öfgafulla íslam yxi fiskur um hrygg. Borgaryfirvöld skorti hins vegar vilja til að grípa til aðgerða, enda féllu þær ekki að áherslum sósíalista, sem voru þar til fyrir skemmstu við stjórnvölinn. Enginn vildi fá rasistastimpilinn.

Því miður skorti Françoise Schepmans, núverandi borgarstjóra Molenbeek, líka kjark. Í síðustu viku var upplýst að borgarstjórinn hafði fengið upplýsingar um nöfn 80 einstaklinga sem taldir voru herskáir íslamistar tæpum mánuði fyrir hryðjuverkin. Á listanum var nafn Salah Abdeslam sem grunaður er um að skipuleggja hryðjuverkin.

Geta ungir íslamistar aðlagast ?

Hvað veldur því að ungt fólk sem er alið upp í íslamstrú velur hina öfgafullu og róttæku útgáfu af íslam? Atvinnuleysi og fátækt verður ekki alltaf kennt um, enda er óheyrt að ungt fólk, sem þannig er komið fyrir fremji hryðjuverk í nafni annarra trúarbragða í evrópskum borgum. Vísbendingar eru um að hinir ungu íslamistar aðlagist ekki evrópskum samfélögum. Gildin, sem þeim eru kennd heima fyrir, samræmast ekki vestrænum gildum á borð við lýðræði, réttarríki, trúfrelsi, tjáningarfrelsi og jafnrétti kynjanna. Þessi togstreita veldur hættu á því, að ungir íslamistar fyrirlíti samfélögin sem þeir alast upp í. Og í verstu tilvikunum eru þeir reiðubúnir að ráðast gegn þeim. Vafalaust koma fleiri ástæður til, en ljóst er að góður ásetningur um aðlögun ungra íslamista að samfélaginu er í sumum tilvikum óskhyggja.

Í umfjöllun Financial Times um hryðjuverkin 15. nóvember sl. bendir David Gardner, hinn þrautreyndi ritstjóri, á að herskáir íslamistar geti meðal annars sótt nýja liðsmenn í tvo hópa; annars vegar örvæntingarfulla flóttamenn við landamæri Sýrlands og hins vegar múslima í Evrópu, sem eru andsnúnir eigin samfélögum. Ég eftirlæt lesendum að svara því hvort þeir treysti betur greiningu Davids Gardner eða þeirra, sem nú fara fremstir gegn forseta vorum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband