Nú er ég kominn með hjartslátt á ný

  
 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

 

Nú er ég kominn með hjartslátt á ný.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 17. október 2015.



Ragnar Önundarson.

Einhverja rekur e.t.v. minni til að árið 2005 ritaði ég átta greinar í Morgunblaðið til að vara við hagþróun sem mér sýndist vera að fara úr böndunum. Á miðju því ári varð mér ljóst að ég var ekki að ná eyrum fólks, dansinn í kringum gullkálfinn var hafinn. Snemma árs 2008 tók ég aftur til máls, ekki til að vara við, heldur til að reyna að opna augu manna fyrir yfirvofandi áfalli og til að leggja fram hugmyndir um lausnir.

Íslendska leiðin.

Hinn 15. apríl 2008 birti Morgunblaðið grein mína Ósjálfbjarga bankar. Í henni var að finna tillögu um að stofna nýja banka sem dótturfélög við gömlu bankana. Ríkið skyldi lána fyrir hlutafénu og taka um leið veð í því. Þetta væri óriftanlegur gerningur þar sem nýtt lán fylgdi.

Bankastjórn Seðlabankans brást við og boðaði til fundar 22. júlí, þar sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins var viðstaddur. Hugmyndin var rædd efnislega, en mér sagt að ekki væri mögulegt að nýta hana nú þegar, en hún kynni að nýtast síðar. Ástæðan væri sú að ráðherrar teldu vandann ekki jafn alvarlegan og ég, glansandi ársreikningar uppáskrifaðir af alþjóðlegum endurskoðunarfélögum styddu það. Aðeins væri um lausafjárvanda að ræða að þeirra mati sem leysa ætti með lánveitingum Seðlabankans. Sú hugsun leitar á að atburðarásin hefði orðið önnur ef nýir bankar hefðu verið stofnaðir strax og þannig ekki orðið neitt »hrun« nema hjá kröfuhöfunum.

Ég fylgdist áhyggjufullur með falli erlendra banka í september og lyfti brúnum þegar Washington Mutual, einn stærsti sparisjóðurinn í BNA, var meðhöndlaður einmitt með því að stofnaður var nýr sparisjóður. Sparifé almennings var komið þangað í skjól og sá gamli látinn falla í fang kröfuhafa. Seðlabankinn hafði samband við mig eftir að mistekist hafði að bjarga Glitni og bað mig að sitja í »aðgerðahópi«, sem fitja skyldi upp á gagnlegum hugmyndum. Auk mín voru þar bæði einn öflugasti lögmaður landsins og leiðandi endurskoðandi til margra ára. Á þeim vettvangi setti ég fram hugmyndina um að gera innlán að forgangskröfum með afturvirkum hætti, en sem kunnugt er gerði það okkur kleift að greiða höfuðstól Icesave-innlánanna án íþyngingar fyrir ríkissjóð. Fjallað er um þetta í 7. hefti skýrslu RNA, bls. 73-76.

Þessar aðgerðir, stofnun nýrra banka og forgangur innlána, eru nú nefndar »Íslendska leiðin« og hafa vakið athygli. Í henni fólst að ríkissjóður og þar með þjóðin tók ekki að sér að greiða þær skuldir sem fáeinir óreiðumenn höfðu stofnað til, en það hefur einmitt verið reglan, sett af AGS, þótt undarlegt megi virðast. Í þeim fólst einnig að erlendir stórbankar, sem vitandi vits höfðu veitt einkabönkum án ríkisábyrgðar »eitruð lán«, fullkomlega skeytingarlausir um hag okkar Íslendinga, þurftu að horfast í augu við mistök sín og ábyrgðarleysi. Þessi »erfðasynd« hvílir á kröfum í þrotabúin, þær eru enn »eitraðar« og þeir sem þær keyptu vissu það. Undirstrika ber að »Íslendska leiðin« felur í sér óvenjulega einurð smáþjóðar gegn alþjóðlegu fjármálavaldi. AGS er ekki nein lýðræðisleg alþjóðastofnun, heldur í raun eign nokkurra þjóða sem eiga umsvifamestu fjármálamiðstöðvar veraldarinnar. AGS er verkfæri mikilla hagsmuna og því verkfæri er beitt.

Verður hvikað ?

Allar götur síðan Neyðarlögin voru sett hafa sendimenn þessa valds drepið á dyr hjá stjórnvöldum. Má muna hinn æruverðuga Eatwell lávarð, sem við fengum okkur fullsödd af í nóvember 2013. Lávarðurinn lýsti þeirri föðurlegu skoðun sinni »að traust og trúverðugleiki séu þau sjónarmið, sem helst beri að hafa í huga við afléttingu gjaldeyrishafta og lausn snjóhengjunnar«. Til þess taldi hann farsælla að ríkið leitaði samninga í máli sem það á enga aðild að, en að láta hart mæta hörðu fyrir dómstólum. Fullkomlega var óljóst hvað hann átti við með þessu því ríkið er ekki aðili að neinu deilumáli við kröfuhafana og löngu ljóst að deilumál koma fyrir Íslendska dómstóla.

Lávarðurinn komst svo að orði, að Íslendingar hefðu ákveðið árið 2008 að komast hjá greiðslufalli ríkisins og frestað þeim vanda til betri dags, sem enn væri ekki upp runninn! Síðan hefur verið stöðugur straumur álíka sendiboða sem reynt hafa að skjóta stjórnvöldum skelk í bringu. Hafa ber í huga að svonefndir »hrægammasjóðir« hafa keypt kröfurnar á þrotabúin með miklum afföllum, vitandi af erfðasyndinni áðurnefndu. Afnám gjaldeyrishafta er mikilvægt, en ekki má láta undan áróðursmönnum kröfuhafa og gefa eftir sterka stöðu. Stórhættulegt fyrir ráðherra að halda spilunum að sér, aðeins opin upplýsingagjöf skapar traust.

Hættuástand skapast á ný.

Viðskiptajöfnuðurinn er að versna m.v. sama tíma í fyrra. Við höfum af gáleysi skert tekjur af makríl og leyft gengi krónunnar að styrkjast, sem eykur eyðslu og innflutning. Við höfum líka hækkað launin of mikið, einu sinni enn. Verðbólga og vísitala eru á uppleið. Fólkið, kjósendur, er orðið þreytt á sultarólinni og vill fara að hafa það gott, eyða. Komið er fram á seinni hluta kjörtímabils og formenn stjórnarflokkanna hafa áhyggjur af litlu fylgi þeirra. Úrræðin virðast felast í að:

1) auka kaupmátt og halda aftur af vísitölunni með einskiptis tollalækkunum og

2) halda vöxtum háum svo fé kennt við »jöklabréf« streymi inn og

3) láta Seðlabankann ekki kaupa nógu mikið af gjaldeyri til að gengisvísitalan

   haldist óbreytt, þ.e. krónan haldi sömu afstöðu til gjaldmiðla umheimsins.

Allt bendir til að þetta sé ósjálfbært ástand og að skellurinn komi fyrr eða síðar (eftir kosningar) með sárum og vel þekktum afleiðingum.

Ferðabransinn er gróðurreitur svartrar atvinnustarfsemi og ört vaxandi hlutur greinarinnar í þjóðarbúskapnum þýðir að færri munu hlutfallslega standa undir velferðarkerfinu með beinum skattgreiðslum sínum í framtíðinni. Nú eru stjórnvöld á hinn bóginn búin að ákveða að lækka óbeina skatta (tolla). Það er einkennilegt af því að bæði skattsvikarar og ferðamenn verða að greiða þá. Ef við höldum óbeinum sköttum háum munu þessir tveir hópar létta undir með ríkissjóði. Þetta er betri leið til að afla tekna í skóla-, heilbrigðis- og tryggingakerfi. Skattsvikin munu fljótlega valda óleysanlegu misvægi, það er ekki unnt að leysa málið lengur með því að láta þriðjung þjóðarinnar borga beina skatta. Sjálft velferðarkerfið er í húfi.

Óbrennd börn með eld.

Nú er ný kynslóð tekin við forystu stjórnarflokkanna og þeir ungu menn hafa ekki þá erfiðu en þroskandi reynslu sem fyrirrennarar þeirra höfðu. Sá sem fær allt upp í hendurnar og þekkir ekkert andstreymi hefur hana einfaldlega ekki. Nú þegar reiðikast þjóðarinnar er að dvína er við hæfi að þakka þeim embættismönnum sem með óvenjulegu harðfylgi sínu sáu til þess í október 2008 að Neyðarlögin urðu til og þakka jafnframt öllum þeim þingmönnum sem greiddu þeim atkvæði. Kynni að felast í því nokkur »heilun« fyrir þjóð sem tvinnað hefur blótsyrðin árum saman, að horfast í augu við þessa menn og nokkur lærdómur að rifja upp nöfn þeirra sem sátu hjá.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband