Aftökusveitir lýðræðisins - að störfum í Evrópu og á Íslandi

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.
 
 

  

   
Aftökusveitir lýðræðisins - að störfum í Evrópu og á Íslandi.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 07. janúar 2013.

 

Gústaf Adolf Skúlason.

Þrátt fyrir góða vitneskju um andstöðu íbúa ríkja ESB við auknum völdum til handa sambandsins halda forráðamenn þess áfram uppbyggingu alræðisríkisins og láta ekkert trufla sig. Friðarverðlaun Noregskrata í nafni Nóbels mun ýta undir þessa andlýðræðislegu þróun. Anders Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, lýsti því í viðtali við sænska sjónvarpið, að ef Svíar gengju með í hið nýja fjármálasamband ESB, þýddi það, að völdin yfir fjárlögum Svíþjóðar flyttust til Brussel. Þannig gæti framkvæmdastjórnin með einfaldri ákvörðun notað tekjur sænska ríkisins til að borga bönkum Evrulandanna fyrir misheppnuð viðskipti þeirra. Svíþjóð tilheyrir þeim ríkjahópi Evrópusambandsins, sem reynir að spyrna gegn auknu valdaafnámi réttkjörinna embættismanna sinna til búrókratanna í Brussel.

Evrópusambandið veldur efnahagsþrengingum.

Ásetningur ESB að »bjarga Evrunni« hefur breytt Evrópusambandinu í innheimtudeild fyrir Alþjóðastofnun fjármálafyrirtækja, IIF (Institute of International Finance). Þannig var framkvæmdastjóri stofnunarinnar Charles Dallara hafður með á fundum ESB, þegar fyrsti Grikkneski »björgunar« pakkinn var ákveðinn og línurnar lagðar upp fyrir kreppuaðgerðir Evrópusambandsins. Hið skelfilega efnahagsástand Grikklands er afleiðing af Eurosave-samningi ESB við IIF, en með honum var ákveðið að hleypa ekki Grikklandi í gjaldþrot, sem hefði valdið lánadrottnum landsins tapi á yfir 100 milljörðum Evra.

Í kjölfarið kom útbreitt atvinnuleysi og hungursneyð, sem neytt hefur Rauða kross Grikklands að senda út SOS til umheimsins. Á eftir fylgdi einnig uppgangur Gylltrar dögunar (Nýnazista) með skipulögðu ofbeldi og morðum á innflytjendum. Það sama gildir um önnur Evruríki, sem sækja þurfa um neyðarlán, að þar eru skilmálarnir fyrst og fremst gerðir til að bjarga bönkum og fjármálastofnunum, en framtíð komandi kynslóða tekin í gíslingu með tilheyrandi atvinnuleysi og hungursneyð.

Á Spáni myndi mannfjöldi sem samsvarar allri Íslendsku þjóðinni deyja úr hungri, ef ekki væri vegna matargjafa Rauða krossins. Yfirmaður Alþjóða Rauða krossins hefur sent frá sér viðvörun til ráðamanna ESB, um að búast megi við þjóðfélagslegum óeirðum í Suður-Evrópu í stíl við Arabíska vorið.

Evrópusambandið veldur þjóðfélagslegri upplausn.

Stefna ESB að »bjarga Evrunni« og að bankar mega ekki fara í gjaldþrot hefur eyðilagt ríki Suður-Evrópu og splundrað sambandinu. Búið er að flytja skuldir fjármálafyrirtækja í eigu einkaaðila yfir á aðildarríkin í svo stórum stíl, að ýmsir telja það samsvara kostnaði ESB við eina heimsstyrjöld. Samt sem áður hafa vopnuð átök ekki átt sér stað, a.m.k. ekki ennþá. »Friðarsambandinu« í rukkunarhlutverki fyrir alþjóðlega fjárglæframenn hefur þegar tekist að valda aðildarríkjunum öllu þessu tjóni með Evruna og lýðræðishallann að vopni. Þessi efnahagsstyrjöld, sem hlotið hefur friðarverðlaun Nóbels, skapar í raun forsendur þjóðfélagslegra óeirða og vopnaðra átaka.

Danski Evrópuþingmaðurinn Morten Messerschmidt sagði við áramót að ESB tæmdi Danmörku af lýðræðiskrafti sínum: »Ekki síðan á tímum Rómarríkis hafa jafn mikil völd verið í höndum jafn fárra eins og málum er nú háttað í Brussel... Við erum undirlögð því, sem ég vil kalla »borgaralegt valdarán«. Ekki árás með ofbeldi og ofurveldi eins og sagan hefur áður sýnt okkur. Heldur valdarán, sem framkvæmt er með sáttmálum undirskrifuðum með pennum kjörinna fulltrúa okkar.«

Evrópusambandið sækir hart að sjálfstæði Íslands.

Íslendingar, sem vörðu þjóðarhag með tilstuðlan forseta Íslands í Icesave-deilunni, verða enn og aftur fyrir sífelldum árásum sem stjórnað er af ESB-aðildarsinnum á Íslandi. Ríkisstjórn Íslands ætlar að kollvarpa stjórnarskrá lýðveldisins frá 1944 og innleiða nýja skipan, sem að mati forseta Íslands »þekkist ekki annars staðar á Vesturlöndum«. Krafan um afnám núverandi stjórnarskrár kemur ekki frá þjóðinni en hins vegar krefst ESB breytinga til að sambandið geti tekið yfir sjálfstæði landsins.

Nýársorð forsetans eru sem viðvörunarbjöllur lýðræðisins á Íslandi, sem hljóma munu þar til þessari árás hefur verið hrundið. Forsetinn skal hafa sérstakar þakkir fyrir að gera það svo sýnilegt og skýrt, að ætlunin er að umbylta stjórnskipun Lýðveldisins, til dæmis með afnámi Ríkisráðs og með að færa forsætisráðherra einræðisrétt yfir störfum ráðherra.

ESB-aðildarsinnar á Íslandi fylgja í fótspor lærimeistaranna, sem slátrað hafa lýðræðinu á meginlandinu. Ætlunin er að fórna Íslendsku þjóðinni fyrir draum þeirra að komast í klíku búrókratanna í Brussel. Ríkisstjórnin sniðgekk eldstu lýðræðisstofnun okkar heimsluta - Alþingi - með skipun »ráðs« gegn úrskurði Hæstaréttar. Stjórnlagaráðsmenn verða seint ásakaðir um auðmýkt eða tillitssemi en blindur hroki þeirra hefur leitt þá í þær ógöngur að halda, að þeir séu þýðingarmeiri en bæði Alþingi og forseti landsins.

Það skiptir engu máli hversu marga fína titla Þorvaldur Gylfason getur sett við nafnið sitt, það gefur honum ekki lögskipað vald til þess að banna forseta Íslands eða alþingismönnum að hafa skoðanir á málum eða taka til máls. Þjóðin þarf að standa saman við bakið á lýðræðissinnuðum alþingismönnum í þessu máli og hrinda árásinni á Stjórnarskrá lýðveldisins.
 

 Forsetinn skal hafa sérstakar þakkir fyrir að gera það svo sýnilegt og skýrt,

að ætlunin er að umbylta stjórnskipun Lýðveldisins,

til dæmis með afnámi Ríkisráðs

og með að færa forsætisráðherra einræðisrétt yfir störfum ráðherra.

 
>>>><<<<


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband