Stjórnarskrá Bardenfleth (1851) ==> stjórnarskrá Jóhönnu (2012)

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.
 
 

  

   
Stjórnarskrá Bardenfleth (1851)  ==>  stjórnarskrá Jóhönnu (2012).

Fyrst birt í Morgunblaðinu 26. október 2012.

 

Gústaf Adolf Skúlason.

Fyrir þjóðfund 1851 sendi Danakonungur frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir Íslendinga, sem fyrrum stiftamtmaður á Íslandi, Bardenfleth, þá ráðherra og mikill vinur Friðriks VII., hafði samið fyrir Íslendinga. Var frumvarpið flutt með herskipi og herafla til Íslands, því Bardenfleth óttaðist að til átaka kynni að koma við sjálfstæðisglaða Íslendinga.

»Danir töldu Ísland að réttum lögum hluta af danska ríkinu og því hlyti grundvallarlög danska ríkisins að gilda hér á landi. Samkvæmt því áttu Íslendingar að eiga fulltrúa í danska ríkisþinginu. Landið sjálft átti að vera svo sem amt í Danmörku og alþingi hafa álíka starfssvið sem amtráð.« (Þorkell Jóhannesson, Lesbók Mbl. 22. júlí 1951).

Frumvarpinu að nýrri stjórnarskrá var haldið leyndu fyrir landsmönnum fram á síðustu stundu og ætlaði J.D. Trampe greifi, nýorðinn stiftamtmaður á Íslandi, að keyra frumvarpið í gegnum þjóðfundinn án verulegrar aðkomu landsmanna, því frumvarp hans tók mið af því »sem hollast var fyrir ríkisheildina án alls tillits til óska landsmanna«.

Ýmislegt hafði áður kvisast út um innihald frumvarpsins og áttu menn ekki von á neinu góðu, en þó var það, sem upp kom, öllu verra en menn bjuggust við. Eftirmálin þekkja landsmenn, er Trampe vildi slíta þjóðfundi, að Jón Sigurðsson og þingmenn risu upp og sögðu í einum hljómi: »Vér mótmælum allir!«

Stjórnarskrá Jóhönnu Sigurðardóttur (2012).

Frumvarp til laga um stöðu Íslands í fyrirkomulagi ríkisins og um ríksþingskosningar á Íslandi árið 1851 hefur á ný verið endurreist árið 2012 með »frumvarpi« Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Það er álíka mikill sannleikur að segja, að stjórnarskrárfrumvarp Bardenfleths hafi byggst á sjálfstæðishugmyndum Íslendinga og að tillögur Stjórnlagaráðs byggist á niðurstöðum þjóðþings 2010 eins og forsætisráðherra Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir, sagði í ræðu á Alþingi 23. október 2012.

Sannleikurinn er, þótt ríkisstjórnin neiti því af hræðslu við skoðun landsmanna um Evrópusambandið, að það frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem ríkisstjórnin nú ætlar að keyra í gegnum þingið, er sniðið til að gera Ísland að amti í ESB. Það sem ríkisstjórnin segir ekki frá, er að niðurstöðum þjóðfundar 2010 hefur verið breytt og í staðinn lagðar inn breytingar á núverandi stjórnarskrá, sem gera þá nýju að grundvelli aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Þjóðfundurinn 2010 krafðist EKKI nýrrar stjórnarskrár.

T.d. felur engin af 3.306 setningum þjóðfundar í sér fyrirmæli eða ósk um að búa til nýja stjórnarskrá í stað núverandi. Flestallar setningar um stjórnarskrá fela í sér kröfu um sjálfstæði fullvalda þjóðar, þar sem þjóðinni er tryggð aðkoma að breytingum. Engin setning felur í sér takmörkun þjóðaratkvæðis eða brottfellingu greinar um lög um eignir útlendinga á Íslandi. Þvert á móti voru skýrar kröfur um verndun eignarréttar og skilgreiningu hugtaka á borð við einkaeign, almenningseign, ríkiseign og þjóðareign. Þá eru kröfur um aukið lýðræði með aðkomu landsmanna að beinum ákvörðunum í þjóðaratkvæðagreiðslum. Má segja að það mesta, sem þjóðfundur lagði fram byggist á og styrkir grundvöll núverandi stjórnarskrár með viðbótum, sem tryggja aukið lýðræði landsmanna í stjórnskipun landsins.

Að forsætisráðherrann reynir að klína stjórnlagapakka sínum á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga hér áður fyrr er mikill misskilningur. Miklu nær væri fyrir hana og Evrópusambandssinna að segja sannleikann og hætta þessum skrípaleik og lygum.

Eina opinbera frumvarpið til nýrrar stjórnarskrár, sem lá fyrir þjóðfundi 1851, var frumvarp Danakonungs. Það segir Jóhanna Sigurðardóttir að sé afleiðing af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og vill þakka Jóni Sigurðssyni fyrir. Hún hefur rétt fyrir sér að engu skeikar í innihaldi þess frumvarps og þess frumvarps, sem ríkisstjórnin nú leggur fram fyrir Alþingi Íslendinga, þótt 161 ár skilji að og sambandsríki ESB komið í stað Danaveldis með landsvæði, sem Friðrik Danakonungur gat aldrei látið sig dreyma um.

Að framselja fullveldi Íslands í hendur búrókrata í Brussel er engin sjálfstæðisbarátta í anda Jóns Sigurðssonar. Forsætisráðherrann leikur þess í stað hlutverk J.D. Trampe, sem reynir að fá landsmenn til að samþykkja uppgjöf ríkisins til »ríkisheildarinnar«.

Jóhanna Sigurðardóttir leikur hlutverk Trampe greifa

og reynir að fá landsmenn

að samþykkja uppgjöf Íslands fyrir Evrópusambandinu. 


>>>><<<<


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband