| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Lýðræðið sætir árásum - frá þeim sem haldnir eru mestri »lýðræðisást«.Fyrst birt í Morgunblaðinu 09. júlí 2016.
Loftur Altice Þorsteinsson.
Þeir sem hafa ánetjast Samfylkingunni trúa því, að fyrrverandi formenn flokksins Jóhanna Sigurðardóttir og Árni Páll Árnason, séu riddarar lýðræðisins. Þetta eru öfugmæli, eins og hér verður sannað. Þessir formenn hafa alla tíð siglt undir fölsku flaggi og sama gildir um Samfylkinguna í heild. Dæmi um »lýðræðisást« Samfylkingar er fundurinn í Efstaleiti þar sem samþykkt var, að hrekja forsætisráðherra frá völdum. Annað dæmi er samkoma Samfylkingar á Austurvelli, þar sem ákveðið var að rjúfa Alþingi og boða til kosninga, heilu ári fyrr en Stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Af tómri »lýðræðisást« krafðist Samfylking þess að kosið yrði um innlimun Íslands í Evrópusambandið, þótt hvorki þjóð né Alþingi hafi áhuga á ESB-aðild. Enginn vitiborinn maður í Evrópu hefur áhuga, að lúta ólýðræðislega og yfirþjóðlega Brussel-valdinu. Af einhverri ástæðu hefur Samfylking ekki krafist þjóðaratkvæðis um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og Schengen. Skortir þó lýðræðislegt umboð til aðildar landsins að þeim samtökum. Icesave-stjórnin og »lýðræðisást« Samfylkingar. Sumum þótti vera merki um sigurgöngu lýðræðisins, að 2009 skipaði forsetinn landinu ríkisstjórn, sem jafnan er nefnd Icesave-stjórnin. Þessi ríkisstjórn braut allar siðareglur sem þekkst hafa. Heimssögulegar Icesave-kosningar fóru fram, fyrst 06.03.2010 og síðan 09.04.2011. Í ræðu á Alþingi 01.03.2010 sagði forsætisráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir um komandi þjóðaratkvæði: »Maður veltir fyrir sér: Er þetta ekki hálfgerður hráskinnsleikur? Er þessi þjóðaratkvæðagreiðsla ekki marklaus þegar fyrir liggur annað tilboð á borðinu sem við gætum fengið? Maður veltir líka fyrir sér, að ef svo færi að samningar tækjust í þessari viku og eru bæði stjórn og stjórnarandstaða að vinna í því, er þá ástæða til að halda þessari þjóðaratkvæðagreiðslu til streitu ef það liggur allt annar og betri samningur á borðinu?« Eru Íslendingar ekki lánsamir, að eiga svona »stjórnvitringa«, sem eru fullir réttlætiskenndar og sannir lýðræðissinnar? Í Alþingiskosningunum 2013 sýndi þjóðin Samfylkingunni »þakklæti« sitt, en skömmu fyrir kosningarnar varð Árni Páll Árnason formaður hins mikla lýðræðisflokks. Að sjálfsögðu er Árni Páll kyndilberi lýðræðisins, eins og fyrirrennari hans. Minnihluta-lýðræði er hugðarefni Samfylkingar. Margir hafa talið, að ekki fari saman orð og gerðir hjá Samfylkingu. Mikið sé talað um lýðræði og kosningar, en þegar flokkurinn er í aðstöðu til að virkja lýðræðið, þá skorist Samfylkingin undan merkjum. Þetta er sannleikanum samkvæmt, en spurningin er hvers vegna? Í færslu á Facebook 25.06.2016 leiðir Árni Páll Árnason okkur í allan sannleikann. Hann miðlar grein eftir Kenneth Rogoff, um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, en Rogoff er auðmjúkur þjónn alþjóða fjármagnsins. Greinina segir Árni vera sannkallað meistarastykki og birtir eigin hugleiðingar sem bergmál af Rogoff: »Lýðræði snýst ekki um að ná einu sinni meira en helmingi kjósenda, á óljósum forsendum. Þvert á móti er lýðræðiskerfi okkar og friður og velsæld Vesturlanda byggð á skuldbindingu um sameiginleg örlög og að lönd deili byrðum með þeim hætti að sum leggja stundum miklu mun meira af mörkum en önnur.« Þarna kemur skýrt fram hverja sýn Árni hefur á lýðræði. Flestir telja að lýðræði snúist um samfélagssáttmála, sem felur í sér að meirihluti manna fái ráðið ákvörðunum. Þetta fyrirkomulag gerir ráð fyrir að sérhver maður hafi eitt atkvæði. Til að gagnrýna þetta fyrirkomulag, hafa Rogoff og skoðanabræður hans fundið upp hugtökin »meirihluta-lýðræði« og »minnihluta-lýðræði«. Ég bið menn að halda ró sinni, þetta er hliðstætt því sem fræðimenn (ekki vísindamenn) á flestum sviðum dunda sér við. Minnihluta-lýðræði er ekkert lýðræði. Hugtakið »minnihluta-lýðræði« er bara svívirðileg brella, en vopnaður henni kemst Árni og Samfylking að þeirra niðurstöðu, að þeim beri réttur til að ráða öllum ákvörðunum samfélagsins. Með þessu hugarfari er Evrópusambandinu einnig stjórnað og þess vegna er hið ólýðræðislega og yfirþjóðlega Brussel-vald brjálað úr vonsku, vegna brotthvarfs Bretlands. Til frekari útskýringar á hugmyndum sínum um lýðræði, segir Árni: »Þjóðaratkvæðagreiðslur geta verið nauðsynlegar stundum, en þær brjóta niður þetta net lýðræðisins sem við höfum byggt upp í Vestur Evrópu, þar sem fjölbreyttir hagsmunir vegast á og fólk ræðir sig að niðurstöðu. Þær kljúfa ríki og þjóðir og brjóta niður samfélagslega samheldni. Auka átök og flokka okkur í okkur og hina. Gerðu það hjá okkur í Icesave, gerðu það í Skotlandi.« Eftir þessa mikilvægu afhjúpun hjá Árna, er deginum ljósara að þegar Samfylking ræðir um lýðræði, þá er átt við »minnihluta-lýðræði« sem er auðvitað ekkert lýðræði, heldur gamaldags höfðingaræði. Aðdáun á »minnihluta-lýðræði« fer gjarnan saman með hatri á Lýðveldinu okkar og pólitískri rétthugsun. Núna krefst pólitísk rétthugsun Samfylkingar, að upp verði tekinn Kristniréttur Árna Þorlákssonar frá 1275, sem innihélt kirkjugrið. |