| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Landsbankinn var með tvöfalda tryggingu fyrir ESB-lágmarkið.Fyrst birt í Morgunblaðinu 08. apríl 2011.
Loftur Altice Þorsteinsson.
Margir vita að í 12 mánuði hef ég bent á að Landsbankinn var með fullar innistæðutryggingar í Bretlandi og Hollandi. Í Bretlandi var tryggingaupphæðin 50.000 Pund og í Hollandi 100.000 Evrur. Í báðum tilvikum eru upphæðirnar langt umfram þær 20.887 Evrur sem ESB hafði ákveðið sem lágmarkstryggingu og Tilskipun 94/19/EB var þannig uppfyllt með þessum tryggingum. Staðreyndin er sú að Landsbankinn var með tvöfalda tryggingu fyrir ESB-lágmarkið, því að hann var einnig með tryggingu hjá TIF. Hvers vegna hefur ríkisstjórnin ekki áhuga á að halda til haga svona grunnforsendum? Eiga Íslendingar ekki rétt á að vita að innistæðutryggingasjóðir Bretlands og Hollands báru ábyrgð á Icesave-reikningunum ekki síður en TIF? Hvers vegna er helsta viðfangsefni upplýsingafulltrúa þrotabús Landsbankans að halda upplýsingum leyndum? Reglan um tvöfalda innistæðutryggingu. Sú regla að útlendir bankar í Bretlandi og Hollandi séu með tvöfalda tryggingu fyrir það lágmark sem gildir í heimalandinu er eðlilega ekki sérsniðin fyrir Icesave-reikninga Landsbankans. Þetta er algild regla, öllum aðgengileg á Netinu og vonandi flestum auðskilin. Í handbók FSA (Fjármálaeftirlit) segir: »FEES6.1.17: Útlendir bankar frá EES-ríkjum sem veittur er réttur til aukatrygginga í samræmi við COMP14 eru fjármálafyrirtæki sem koma frá heimaríki þar sem tryggingakerfið veitir enga eða takmarkaða bótavernd, ef til þess kemur að þau lenda í greiðsluþroti. Í samræmi við FEES6.6 ber FSCS (Tryggingasjóður) að meta hvort þessir EES-bankar eigi að fá afslátt af því tryggingaiðgjaldi sem þeir ættu annars að greiða og þannig að fá metna tryggingaverndina sem þeir njóta í heimaríkinu. Allur afsláttur sem þannig er veittur af fullu iðgjaldi, er gjaldfærður á aðra banka í sama fyrirtækjaflokki og erlendi EES-bankinn.« Þegar Landsbankinn fékk rekstrarleyfi fyrir Icesave í júlí 2006 samkvæmt skírteini FSA No. 207250, var honum gert að kaupa viðbótartryggingu hjá FSCS. Bankanum var reiknað iðgjald með flókinni formúlu sem ekki hefur fengist gefin upp. Frá iðgjaldinu var veittur óþekktur afsláttur, sem átti að endurspegla þá tryggingavernd sem bankinn naut á Íslandi. Bankinn var nú kominn með sömu innistæðutryggingar og aðrir bankar í Bretlandi og greiddi svipuð tryggingaiðgjöld. Þar sem Landsbankinn var með fulla tryggingavernd í Bretlandi á iðgjaldi sem FSCS hafði veitt einhvern afslátt frá, væri hægt að halda að tryggingasjóðurinn hafi verið snuðaður. Svo var þó ekki því að afslátturinn var gjaldfærður á aðra banka í sama fyrirtækjaflokki og Landsbankinn. Höfum í huga að iðgjöld til FSCS eru að mestu greidd eftir á og því komu iðgjöld vegna afsláttarins ekki til greiðslu nema Landsbankinn færi í gjaldþrot. Yfirlýsing frá Fjármálaeftirliti Bretlands. Fyrri hluta ársins 2010, fékk ég margvíslegar upplýsingar frá FSA um innistæðutryggingar Landsbankans. FSA staðfesti það sem komið hefur fram hér að framan og gaf meðal annars eftirfarandi yfirlýsingu: »Landsbanki Íslands var með rekstrarheimild í Bretlandi frá desember 2001, sem FSA veitti. Bankinn hafði starfsstöð í London og sem rekstraraðila í Bretlandi bar honum skylda að taka aukatryggingu hjá FSCS í samræmi við kröfur sjóðsins. Þess vegna gátu viðskiptavinir bankans í Bretlandi verið vissir um hvaða innistæðutryggingar þeir nutu. Við getum staðfest að FSCS greiðir innistæðueigendum fullar bætur, óháð þeim iðgjöldum sem greidd hafa verið vegna þeirra.« Augljóst ætti að vera að FSCS ber fulla ábyrgð á innistæðutryggingum Landsbankans, eins og um Bretskan banka hefði verið að ræða og sama gildir um DNB í Hollandi. Aðkoma TIF að tryggingunum breytir ekki þessari staðreynd, enda gera tilskipanir ESB ráð fyrir að fleiri en eitt tryggingakerfi geti veitt bönkum tryggingavernd. Í samræmi við skuldbindingar sínar, greiddu tryggingasjóðir í Bretlandi og Hollandi út bætur til innistæðueigenda og þar með hefði Icesave-málinu átt að vera lokið. Þrælslunduð ríkisstjórn Íslands. Í ljósi staðreynda málsins verður að telja undarlegt að ríkisstjórnir Bretlands og Hollands gera kröfur á hendur almenningi á Íslandi vegna tryggingabóta sem tryggingasjóðir þessara landa eru ábyrgir fyrir. Er ekki glæpsamlegt að ríkisstjórn Íslands skuli hafa gengið til samninga um þessar kröfur? Hvers vegna leitaði ríkisstjórnin sér ekki ráðgjafar á sviði tryggingamála? Hvað er hægt að nefna Icesave-kröfur Bretlands og Hollands annað en villimannlega tilraun til að hneppa Íslendinga í þrældóm? Þessi ríki virða ekki eigin reglur um innistæðutryggingar, virða ekki tilskipanir ESB sem banna ríkisábyrgð á einkafyrirtækjum, vanvirtu lögsögu Íslands með beitingu hryðjuverkalaga og misnota aðstöðu sína hjá alþjóðlegum stofnunum. Ríkisstjórn Íslands nefnir þessi ríki vinaþjóðir og leggur allt kapp á að Ísland verði hérað í sameignarríki kúgaranna. Hvaða heiti er viðeigandi á ríkisstjórn sem leggur allt kapp á að niðurlægja Íslendska þjóð og aðstoðar við tilraunir til að hneppa hana í þrældóm?
|
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:45 | Facebook
«
Síðasta færsla
|
Næsta færsla
»