| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Vinir í raun auðmjúk þjónusta við nýlenduveldin.Fyrst birt í Morgunblaðinu 13. janúar 2016.
Sveinn Guðjónsson.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er maður staðfastur og hvikar ekki frá þeirri sannfæringu sinni að okkur Íslendingum beri að standa fast á stuðningi okkar við viðskiptaþvinganir ESB og Bandaríkjanna gagnvart Rússum. Gildir einu þótt flestum sé ljóst, að hér er um »sýndaraðgerðir« Vesturveldanna að ræða, enda ber enginn skaða af þessum aðgerðum - nema við Íslendingar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Íslendska þjóðin fær að gjalda fyrir samskipti við »vini og bandamenn« í NATO. Ekki er hér tóm til að rekja alla þá sögu, en nægir að nefna viðskiptaþvinganir Breta í þorskastríðinu, hryðjuverkalögin, Icesave-deiluna, niðurlægjandi viðskilnað Bandaríkjamanna við herstöðina á Miðnesheiði og fjandsamlega framkomu þeirra í garð Íslendinga, þegar lokað var fyrir lánalínur í kjölfar bankahrunsins. Samt höldum við Íslendingar áfram að beygja okkur í duftið og kyssa vöndinn. Forræði yfir auðlindum. Rússneska þjóðin hefur aldrei sýnt okkur Íslendingum annað en velvild og vinsemd, jafnvel á tímum ráðstjórnarinnar, og þarf ekki að rekja þá sögu nánar. Gunnar Bragi Sveinsson, og raunar margir fleiri, hafa talið sér trú um að Úkraínudeilan sé sök Rússa, þeir hafi brotið alþjóðalög og fyrir það beri að refsa þeim. Gunnar Bragi orðaði þetta svo að »rússneski björninn hefði farið út fyrir girðinguna«, og átti þá væntanlega við »girðinguna« sem NATO reisti í kringum Rússland við fall Sovétríkjanna. Sjálfsagt hefur sú aðgerð verið í samræmi við »alþjóðalög«, að minnsta kosti þau lög sem Bandaríkjamenn og bandalagsríki þeirra fara eftir þegar þeim hentar. Þetta er líka sá boðskapur sem vestrænar fréttastofur, sem flestar eru undir stjórn alþjóðlegra stórfyrirtækja, boða með góðum árangri, enda eru Morgunblaðið og fréttastofa RÚV sammála um að átökin í Úkraínu séu runnin undan rifjum Rússa. Ég er ekki sammála þessari túlkun, enda má færa rök fyrir því að Úkraínudeilan snúist fyrst og fremst um forræði yfir auðlindum, sem auðhringar hafa barist um frá lokum kalda stríðsins. Í túlkun vestrænna fréttamiðla á atburðum í Úkraínu er hamrað á yfirgangi Rússa, en minna rætt um útþenslustefnu NATO til austurs allt frá falli Sovétríkjanna. Söguleg og menningarleg samskipti Rússa og Úkraínumanna eru ekki til umræðu eða tengsl Rússlands og Krímskaga aftur í aldir. Sögustund. Frá dögum Katrínar miklu hefur Krímskagi lengst af verið talinn Rússneskt landsvæði. Rússneska keisaradæmið og síðar Sovétríkin réðu Krím lengstum frá átjándu öldinni. Nikita Krjústsjov, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, var Úkraínumaður. Hann ákvað árið 1954 að færa Krímskaga undir Úkraínu í tilefni þess að þá voru þrjú hundruð ár frá því að Úkraína varð hluti af Rússneska keisaraveldinu. Þessi geðþóttaákvörðun sovétleiðtogans var tekin í mikilli andstöðu við vilja meirihluta íbúa á Krímskaga, sem flestir tala Rússnesku og líta raunar á sig sem Rússa frekar en Úkraínumenn. Og menn geta spurt sig hvort þessi aðgerð hafi verið í samræmi við »alþjóðalög« á sínum tíma? Krím hefur verið hluti af Úkraínu frá falli Sovétríkjanna, en notið mikillar sjálfstjórnar. Yfirgnæfandi meirihluti íbúanna vill tilheyra Rússlandi, eins og glöggt kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni um framtíð Krímskaga árið 2014. Vestrænir fréttamiðlar vilja sem minnst af þessari þjóðaratkvæðagreiðslu vita, heldur hamra á þeirri staðhæfingu að Rússar hafi »innlimað Krímskaga með hervaldi«. Skömmu eftir valdaránið, í ársbyrjun 2014, samþykkti þingið í Kænugarði ný lög þar sem Rússneska var aflögð sem ríkistungumál og Úkraínska varð eina tungumál ríkisins. Ýmis réttindi minnihlutahópa voru skert og hleyptu þessar aðfarir illu blóði í Rússneskumælandi íbúa Úkraínu, sem mótmæltu af krafti og margir kölluðu eftir stuðningi Rússlands. Rússar segjast hafa svarað því kalli með aðgerðum sínum á Krímskaga og í Austur-Úkraínu. Þetta kalla leiðtogar vesturveldanna »brot á alþjóðalögum«, en ekki er spurt hvort alþjóðalög hafi verið brotin með valdaráninu. Rök hafa verið færð fyrir því að valdarán þetta hafi verið framið að undirlagi ESB og Bandaríkjanna, og tengist það þá væntanlega baráttunni um yfirráð yfir Úkraínskum auðlindum, sem áður er getið. Fyrir þennan málstað telur Gunnar Bragi Sveinsson rétt að fórna hagsmunum Íslendinga upp á nokkra tugi milljarða og rjúfa áratuga vináttu og viðskiptasamband Íslands og Rússlands. Þáttur Íslendska utanríkisráðherrans. Það vakti athygli að nokkrum vikum eftir valdaránið í Kænugarði pakkaði utanríkisráðherra Íslands niður í ferðatöskur og hélt í austurveg. Fór hann til fundar við nýskipaða ríkisstjórn í Úkraínu til að lýsa yfir einhliða stuðningi sínum við valdaránið og er ekki vitað til að hann hafi haft umboð Íslendskra stjórnvalda eða þjóðarinnar, hvað þá kjósenda Framsóknarflokksins, til þessarar forkastanlegu framgöngu sinnar á alþjóðavettvangi. Og hann lét eina ferð ekki duga heldur lagði aftur land undir fót til að undirstrika hollustu sína við hin nýju stjórnvöld í Kænugarði. Og hún leyndi sér ekki lotningin, sem ráðherrann sýndi þessum nýju »vinum« sínum, með tilheyrandi bukti og beygingum og skjalfest er á ljósmyndum frá þessum viðburði. Auðvitað vöktu þessir tilburðir Íslendska utanríkisráðherrans athygli ráðamanna í Kreml og ekki ólíklegt að þeir hafi hugsað honum og Íslendsku þjóðinni þegjandi þörfina. Er þar ef til vill komin skýring á harkalegum viðbrögðum Rússa í garð Íslendinga vegna stuðnings við viðskiptaþvinganir ESB og Bandaríkjanna? Háværar raddir hafa verið uppi um að utanríkisráðherra víki úr embætti vegna afskipta sinna af málinu. Bent hefur verið á að Ísland eigi ekki aðild að Úkraínudeilunni og hafi engum skyldum að gegna gagnvart Bandaríkjamönnum og ESB. Hér sé um að ræða stórveldapólitík, sem á fölskum forsendum sé reynt að klæða í búning sjálfstæðisbaráttu Úkraínumanna. Utanríkisráðherra, sem láti erlend stórveldi draga Ísland inn í slík átök, beri að víkja. Eflaust finnst einhverjum þetta ósanngjarnt í garð Gunnars Braga, en hann virðist vera, eins og fjölmargir aðrir, gegnsýrður af stækri »Rússafóbíu«, sem viðgengst á Vesturlöndum fyrir tilverknað gegndarlauss áróðurs frá Pentagon og Brussel. Sá hroki og yfirgangur sem einkennir afstöðu vesturveldanna í garð Rússnesku þjóðarinnar er ógn við heimsfriðinn að mínu mati, því friður verður aldrei tryggður án þátttöku Rússa. Þrjóska og þráhyggja utanríkisráðherrans í málinu gerir það að verkum að ég get ekki annað en tekið undir þessi sjónarmið varðandi afsögn hans. |