| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Umsóknin að ESB var í trássi við stjórnarskrá Íslands.Fyrst birt í Morgunblaðinu 18. desember 2015.
Gústaf Adolf Skúlason.
Töluvert hefur verið rætt um, hvort aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu sé enn í gildi eða hvort afturköllun ríkisstjórnar Íslands á umsókninni sé nægjanlega skýr til að öllum sé ljóst, að umsóknin er ekki lengur í gildi. Samfylking og Vinstri-grænir samþykktu umsóknina á Alþingi 16. júli 2009 en felldu tillögu minnihluta utanríkisnefndar um að þjóðin fengi að greiða atkvæði um málið. Komu þessir flokkar í veg fyrir lýðræðislegan farveg málsins með tveggja atkvæða mun og var flokkssvipu ESB-flokkanna beitt til að ná fram þessum nauma meirihluta. Þjóðin fékk fyrst möguleika á að tjá hug sinn í Alþingiskosningunum 2013 eftir nokkur ár af sundrungu og stjórnmálaófriði og gerði það svo rækilega, að rasskellur ESB-flokkanna heyrist enn langt út fyrir landsteinana. Hrun ESB-flokkanna, Samfylkingar og Vinstri-grænna, varð samanlagt 27,7% og týndu þeir 18 þingmönnum. Meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna er sannfærandi með 38 þingmenn af 63 á Alþingi. Skýrari skilaboð hafa stjórnmálin sjaldan fengið, hvorki á Íslandi né í Vesturheimi. ESB-innganga er refilstígur, með enga útgönguleið. Núverandi ríkisstjórn hyggst ekki sækja um aðild eða halda áfram aðildarferlinu og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn munu ekki taka umsókn aftur upp nema þjóðin sjálf segi í atkvæðagreiðslu, að hún vilji afsala sér sjálfstæðinu og fiskimiðunum og gerast amt í ríki ESB. Ríkisstjórnin hefur á skýran hátt tilkynnt valdhöfum ESB, að Ísland sæki ekki um aðild að sambandinu. Þrátt fyrir skýr skilaboð til ESB eru svörin þaðan óljós um hvort aðildarumsókn Íslands sé enn í gildi eða »afturkölluð«. Er það í stíl þessa stórvelda-sambands, að öll samskipti við það eru einhliða. Eini tilgangur ESB er að mynda alríki og eini mögulegi samskiptavegurinn er fyrir þá sem vilja ganga í sambandið. Annaðhvort ert þú á leiðinni inn eða kominn inn. Engin leið er fyrir afturköllun umsóknar eða útgöngu úr sambandinu. Einungis er til verklagsferli fyrir samþykkt umsóknar en ekki fyrir afturköllun eða útgöngu úr sambandinu. Engum hefur nokkru sinni tekist að snúa við aðild að ESB og venjulega er talað um eina leið inn og enga leið út. Stjórnarskráin er Íslendingum líflína, sem ekki má trosna. Evrópusambandið er stjórnmálatilraun til myndunar stórveldis í Evrópu með samruna aðildarríkjanna í eitt ríki. Aðildarumsókn meirihluta Alþingis 2009 var stjórnmálatilraun Íslendskra ESB-flokka til að gera Ísland að þátttakanda í tilraunastarfsemi ESB. Þær tilraunir, sem ESB hefur framkvæmt t.d. með gjaldmiðlasambandi evrunnar og öðrum sneiðasamböndum eins og Schengen, bankasambandi, hernaðarsambandi o.s.frv., eru komnar á leiðarenda. ESB er í upplausn: ríkin fylgja ekki samþykktum sambandsins, evran er í ginnungargapi tortímingar og valdhafarnir hafa enga haldbæra stefnu aðra en að tryggja eigin flótta þegar skútan sekkur. Engin áætlun finnst ef tilraunin mistekst og verða íbúar aðildarríkjanna sjálfir að sitja uppi með skipbrotið, sem stjórnmálaleiðtogar þeirra hafa valdið. Áhugavert verður að fylgjast með komandi kosningum Breta um ESB og verður það fyrsti alvöru prófsteinninn á skipulagða útgöngu úr logandi rústum ESB. Raunveruleiki ESB er ekki Íslands. Ísland er lítil þjóð á eyju á miðju Atlantshafi og hér hefur fólk byggt lífsafkomu sína á kostum sjávar og sveita kynslóðum saman. Íslendskur veruleiki er ekki markmið valdhafanna í Brussel. Íslendska stjórnarskráin er haldreipi Íslendinga í baráttunni gegn afsali á yfirráðum eigin lífs til valdhafanna í Brussel. ESB-umsóknin var alfarið á ábyrgð Össurar og Jóhönnu. Umsókn meirihluta Alþingis 2009 var engin lög frá Alþingi og enginn stjórnarskrárbundinn samningur undirritaður af forseta Íslands við útlent ríki með samþykkt Alþingis. Íslendingar eru ekki frekar bundnir af ESB-umsókninni en tveggja aura hækkun virðisaukaskatts á neftóbaki eitt kjörtímabilið. Þjóðinni er hins vegar hollast að gleyma ekki fólskuverki Krata og Vinstri-grænna, sem gerðu tilraun til að ræna þjóðina sjálfstæði sínu á meðan þeirri blekkingu var haldið fram að verið væri að athuga, hvað aðild að ESB þýddi. Íslendska stjórnarskráin mælir um, að forseti Íslands geri samninga við erlend ríki og er sérstaklega tekið fram að hann hafi engan rétt að semja um kvaðir eða afsal á landi eða landhelgi né breyta stjórnarhögum ríkisins. Vinstristjórnin reyndi það allt á eigin spýtur. Skv. ESB hefur Ísland gert hlé á umsóknarferlinu. Umsóknin liggur óvirk þar til stjórnvöld á Íslandi velja að virkja hana aftur. Annað er ekki í boði af hálfu ESB. En margt getur breyst. Upplausn ESB í núverandi mynd og fækkun ríkja frá 28 í t.d. 10 ríki er ekki sama samband og Ísland sótti um aðild að. En við getum ekki verið viss, því réttindi vörumerkisins fylgja þeim sem taka við því. Með smáheppni þyrfti að endurnýja umboðið svo hléið myndi ekki sjálfkrafa hætta skv. nýrri mynd ESB. Ef ESB leggst niður fer umsóknin í gröfina með sambandinu. Hvað svo sem verður um ESB í þeim stórveldastormi sem nú skellur á heimsbyggðina er svar ESB um að umsóknin sé innanríkismál Íslendinga í fullu gildi. Það þarf bara að segja það beint út: Aðildarumsóknin að ESB fylgir ekki stjórnarskrá lýðveldisins og er því marklaus.
|
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:42 | Facebook
«
Síðasta færsla
|
Næsta færsla
»