Loftslagsmál eru alvörumál

  
 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

 

Loftslagsmál eru alvörumál.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 26. nóvember 2015.



Friðrik Daníelsson.

»Síðasta ár var það hlýjasta frá því mælingar hófust«…»hafísinn er að hverfa« …»ísbirnirnir eru í útrýmingarhættu«…

Almenningsfjölmiðlarnir hafa tönglast á þessu svo lengi að margir eru orðnir þreyttir, hlýnunin virðist bara vera hjá þeim, hún finnst ekki á Jörðinni sjálfri. Heitustu árin eru liðin (1941 og 2003 hér, 1934 og 1998 á hnattvísu). Ísþekjan á jörðinni vex stöðugt (í Norður-Íshafinu um milljón ferkílómetra síðan 2012 = tíföld stærð Íslands). Ísbjarnastofninn er orðinn stór og hættulegur íbúum norðurskautssvæðisins.

Þriggja áratuga hrakspá.

Herferðin gegn brennslu eldsneytis komst á flug sumarið 1986 þegar fulltrúi virðulegrar stofnunar (GISS) var kallaður fyrir nefnd Bandaríkjaþings til að vitna um loftslagsbreytingar. Hann (James Hansen) sagði að strax eftir aldamótin 2000 yrði hitinn á jörðinni líklega orðinn sá hæsti á síðustu 100.000 árum! Ástæðan væri „gróðurhúsaáhrif“ af vaxandi koltvísýringi frá brennslu manna á jarðefnaeldsneyti. Nú, nærri þremur áratugum síðar, hefur komið í ljós að spáin var röng.

Í mars á þessu ári gerðist það svo, að sá vísindamaður (John Christy) sem hefur haft það hlutverk fyrir Bandaríkjastjórn að fylgjast með hitanum sem mældur er með þróuðustu mælitækjunum (rafsegulbylgjumælum í gervihnöttum) síðustu áratugina var kallaður fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings til að vitna um loftslagsbreytingar. Hann sagði, að ekki hefði fundist vísindalegt orsakasamband milli koltvísýringslosunar og hegðunar loftslags á Jörðinni.

Lífseigar blekkingar.

Meginástæða þess að almenningur hefur látið blekkjast af tilgátunni um hlýnun loftslags af mannavöldum er að koltvísýringsstyrkurinn í loftinu hefur aukist úr 0,03% í 0,04% á einni öld og það er búið að koma því inn hjá almenningi að meiri koltvísýringur þýði hærri hita. Sannleikurinn er sá að áhrif hans á hitann eru hverfandi og þau eru þar að auki þegar mettuð. Hann tekur upp hitageislun af sérstökum bylgjulengdum (mest 15 míkrón) og það sem er í lofthjúpnum af honum nú þegar dugir til þess að taka upp mestalla þá geislun, lítið af geislum á þeim bylgjulengdum sleppur út úr lofthjúpnum. Að bæta meiri koltvísýringi í loftið hefur því álíka áhrif og að fá sér aðra regnhlíf fyrir ofan þá sem maður er með í rigningunni.

Önnur ástæða fyrir langlífi tilgátunnar er að fjöldi fólks hefur framfæri sitt af „rannsóknum“ á lofthjúpnum, þeirra hagsmunir eru að ógninni sé haldið lifandi (Bandaríkjastjórn eyðir yfir 20 milljörðum dollara á ári í „rannsóknir“ á loftslagi). Stórfyrirtækin vilja losunarkvóta til að hindra nýliðun og samkeppni. Og upphafnir stjórnmálamenn nýlenduveldanna vilja koma alheimshöftum á orkunotkun (til að geta stjórnað efnahagsmálum heimsins). Og nú hefur kaþólska kirkjan gengið í liðið og er tilgátan þar með komin á réttan stað með öðrum trúarsetningum.

Kólnunin er áfall fyrir Íslendinga.

Loftslagskólnun hefur reynst Íslendingum afdrifarík. Á 12. öld hófst kólnun sem leiddi til þess að upprunalegur atvinnuvegur landsins (landbúnaður) visnaði og landsmenn urðu fátækt að bráð. Borgarastyrjöld braust út og landsmenn misstu bæði kjarkinn og svo sjálfstæðið (1262). Hlýindin á 20. öldinni (1920-1960) gerðu landið aftur byggilegra, fjárafli og bjartsýni jókst og sjálfstæðið endurheimtist. En kólnunin í kjölfarið (1960-1990) rýrði afkomuna, svartsýni jókst og landflótti brast á, verðbólga fór úr böndum og kvótakerfi voru sett á atvinnuvegina. Nokkurra gráða kólnun veldur tuga prósenta samdrætti, bæði í fiskveiðum og landbúnaði (Páll Bergþórsson).

Landsins forni fjandi og fylgifiskar.

Með kólnun loftslags birtast gamalkunnir vágestir: Fjárdauði eykst. Kornrækt leggst af á Norðurlandi. Uppskerubrestur, kal í túnum, afréttarbeit versnar. Skógrækt á Norðurlandi lendir í vandræðum. Vetur á hálendinu fram yfir mitt sumar, ferðamenn hverfa frá. Hafnir á Norður- og Austurlandi lokaðar vikum og mánuðum saman. Framkvæmdir verða kostnaðarsamar og erfiðar. Minna vatn rennur úr jöklum og virkjanir skila minni orku og fylgir því mikil rýrnun þjóðartekna. Fiskigengdir minnka. Margir gefast upp og landflótti færist í aukana.

Íslendingar komi sér upp þekkingu á loftslagsfræðum.

Íslendingar, sem búa við kuldabeltisröndina, geta ekki treyst á erlendan hræðsluiðnað, umhverfistrúboða og erindreka nýlenduveldanna sem halda að þeir geti stjórnað loftslaginu. Fyrir okkur er svo mikið í húfi að við verðum að reyna á eigin forsendum að spá fyrir um loftslag á Íslandi. Það þarf að veita fé til háskólanna hér til að þeir geti byggt upp trausta þekkingu á vísindum loftslagsfræða og stundað alvöru rannsóknir og gert spár um þróunina. Það gerist ekki á einni nóttu og verður erfitt, ekki síst vegna þess að stór hluti stofnanasamfélagsins á alþjóðavísu, s.s. stofnanir Sameinuðu þjóðanna (við þekkjum hvalveiði- og fiskifræði-„vísindi“ þeirra) eru peningalega háðar því að ógninni um loftslagshlýnun af mannavöldum sé haldið lifandi. En ef við byrjum strax mun okkur fyrr takast. Við getum tekið á móti landsins forna fjanda þegar hann kemur aftur á næstu áratugum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband