| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Móðir svarar rangfærslum Palestínuvina.Fyrst birt í Morgunblaðinu 13. ágúst 2011.
Ólöf Einarsdóttir.
Í maí 2010 sigldi svokallaður »friðarfloti« með 6 skipum áleiðis til Gazastrandarinnar undir því yfirskini að færa Palestínu-aröbum nauðsynjar. Ísraelar stoppuðu þá tilraun en skipuleggjendur leiðangursins voru m.a. tyrknesku samtökin IHH. IHH hafa verið gagnrýnd fyrir að vera islömsk öfgasamtök sem fela sig undir formerkjum mannúðasamtaka. Hermennirnir sem mættu vopnaðri árás á einum bátanna fengu auka-liðsstyrk í aðgerðina og felldu 9 hryðjuverkamenn. Íslenskir ráðamenn þremur skrefum á undan sér. Án þess að vita nokkuð af viti um málið þustu Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson í viðtöl á Íslendsku fjölmiðlunum nokkrum klukkustundum eftir að atburðirnir áttu sér stað og fordæmdu Ísraelsmenn harðlega fyrir atlögu þeirra að »friðarsinnunum«. Þeir gengu svo langt að kalla á aukafund í ríkisstjórn í hádeginu daginn eftir til að ræða framferði Ísraela og það mitt í efnahagshruninu á Íslandi þar sem vandamálin heima við voru óteljandi. Nú þegar öll kurl eru komin til grafar þá er ljóst að Ísraelar voru í fullum rétti til að stöðva bátalestina. Skipunum var siglt til Ashdod-hafnar í Ísrael, »friðarsinnar« og áhafnir sendar úr landi. Í skipunum var varningur sem fór á 20 trukkum yfir til Gaza-strandarinnar og þar á meðal lyf sem voru útrunnin og því einskis nýt. Tilgangur leiðangursins var að ögra Ísraelum og koma óorði á þá í alþjóðasamfélaginu. Eldflaugum rignir frá landinu sem var afhent fyrir frið. Á árunum 2000-2008 skutu hryðjuverkamenn á Gazaströndinni 12.000 eldflaugum yfir á Ísrael. Tæp milljón Ísraelar búa á því svæði þar sem eldflaugunum rignir yfir til dagsins í dag. Ógnina sem stafar af þessum árásum þarf vart að nefna og truflun á daglegu lífi fólks er mikil. 27. desember 2008 ákváðu Ísraelar að fara í aðgerðir til að stöðva þessar gegndarlausu árásir eftir að hafa margoft varað Hamas við. Ari Tryggvason gagnrýnir þessa aðgerð í grein í Morgunblaðinu hinn 29. júlí síðastliðinn. Hann segir Ísraela hafa fellt 1.400 íbúa og þar af 400 undir 18 ára aldri. Þessar tölur hefur hann frá norska lækninum Mads Gilbert. Gilbert láðist að nefna að Al-Shifa sjúkrahúsið á Gaza, þar sem hann starfaði, var notað í hernaðarlegum tilgangi af Hamas en forsætisráðherra Hamas og aðrir stjórnendur tóku undir sig heila deild á þessu sjúkrahúsinu í stríðinu. Tölur um fallna fékk Gilbert frá heilbrigðisráðuneyti Gaza sem er stjórnað af hryðjuverkasamtökum Hamas. Ísraelsmenn tóku saman nöfn fallinna og fengu þær tölur að 1.166 Palestínuarabar hefðu fallið, þar af 709 Hamasliðar, 89 manns undir 16 ára aldri, 49 konur og restin var karlmenn sem ekki voru skráðir í nein samtök. Hvað sem því líður er talan auðvitað alltof há en við skulum skoða hvað er á bakvið þessar tölur. Margur fellur fyrir hálfsannleikanum. Ari Tryggvason talar um að 1.400 íbúar hafi fallið. Við skulum ekki gleyma því að 709 manns af þessum svo kölluðu »íbúum« voru Hamas-hryðjuverkamenn. Í hryðjuverkum virða menn engar reglur. Hryðjuverkamenn planta sér og vopnabúrum sínum á meðal almennings, í íbúðahverfum, á leikvöllum, í skólum og moskum svo fátt eitt sé nefnt. Hamas-samtökin voru með útsendingar á sjónvarpsstöðinni sinni »Al-Aqsa« þar sem þeir hvöttu börn og almenna borgara til að fara út og standa á húsþökum bygginga sem þeir vissu að Ísraelsmenn ætluðu að sprengja. Þeir sendu börn út á »vígvöll« til að ná í vopn af líkum Hamasliða. Ísraelsmenn vöruðu almenning við. Ísraelsmenn sendu þúsundir bréfsnepla úr lofti á Gaza-ströndina þar sem þeir vöruðu við árásunum. Þeir hringdu þúsundir símtala til almennra borgara, þ.ám. í húseigendur, og vöruðu þá við áður en þeir sprengdu byggingar sem þeir sáu Hamasliða senda eldflaugar úr. Þannig reyndu þeir m.a. að koma í veg fyrir dauða saklausra borgara. Hamasliðar settu sprengjur í íbúðarhús og byggingar þar sem þeir áttu von á að Ísraelarnir færu um að ógleymdum jarðsprengjum sem þeir drituðu niður á þéttbýlum svæðum í von um að fella hermenn, sem svo þeirra eigin borgarar urðu fyrir barðinu á. Á meðan á stríðinu stóð gerðu Ísraelar hlé á hverjum degi til þess að m.a. að flytja lyf og aðrar nauðsynjar til Palestínu-araba og taka til sín særða á ísraelska spítala. Hamasmenn skutu 44 eldflaugum í þessum hléum og réðust að landamærastöðvum þar sem flutningar áttu sér stað. 1400 ára hatursboðskapur tekur á sig ógnvænlegar myndir. Ísraelar eru ekki öfundsverðir af ofstækisfullum nágrönnum sínum í arabalöndunum hér í kring. Megnið eru þó almennir borgarar sem eru fórnarlömbin mitt í þessum harmleik. Fleyg eru orð Goldu Meir: »Þegar arabar fara að elska börnin sín eins heitt og þeir hata okkur þá fyrst verður friður«. Ísraelar vita hvernig hryðjuverkamenn nota börn í fremstu víglínu. Hryðjuverkamönnum er ekkert heilagt og mannslífið einskis vert. Hér er fólk orðið þreytt og úttaugað á deilunni sem engan endi sér á. Ég vil benda fólki á gífurlega dreifingu ranghugmynda um Ísrael. Sannleikanum er yfirleitt snúið á hvolf. |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
«
Síðasta færsla
|
Næsta færsla
»