Þegar hatrið og fáfræðin taka völdin

  
 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

 

Þegar hatrið og fáfræðin taka völdin.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 29. september 2015.



Birgir Örn Steingrímsson.

Nú hefur meirihluti stjórnar Reykjavíkur ákveðið að sniðganga vörur framleiddar í Ísrael og ber fyrir sig umhyggju fyrir mannréttindum í heiminum og að þessi ákvörðun hafi ekkert með gyðinga að gera. Þegar staðreyndir eru skoðaðar kemur í ljós að þessi ástæða heldur ekki vatni. Af hverju ákvað Reykjavíkurborg að taka Ísrael eitt ríkja fyrir í heiminum? Vissi stjórnin ekki að um 75% íbúa Ísraels eru gyðingar? Vissi meirihlutinn ekki að Ísrael er eina lýðræðisríkið á þessu svæði?

Íbúar Ísraels njóta frelsis eins og t.d. trúfrelsis, ritfrelsis og skoðanafrelsis. Á sama tíma er Gaza, sem var hluti Egyptalands til 1967, en er nú kallað hluti af Palestínu, stjórnað af hryðjuverkasamtökunum Hamas síðan 2007. Samtökin halda íbúum svæðisins í greipum illsku og ofstækis. Engin mannréttindi eru til staðar og frelsi einstaklingsins ekkert. Öll andstaða við stjórnvöld er barin niður af mikilli grimmd.

Borgarstjórn til liðs við hryðjuverkasamtök.

Á Gaza býr enginn Ísraelsmaður síðan 2005. Fleiri ríki á þessu svæði eru heldur ekki beint fræg fyrir að virða mannréttindi og kemur upp í huga Sádi-Arabía, og Tyrkland fyrir meðferð á Kúrdum. Þrátt fyrir þessar staðreyndir velur meirihluti stjórnar í Reykjavík að ráðast að Ísrael. Auðvitað læðist að manni sá grunur að ástæðan sé hatur á gyðingum og/eða klár fáfræði, enda er Ísrael ríki gyðinga, þótt sumir eigi mjög erfitt með að sætta sig við það.

Flest öll ríki í Mið-Austurlöndum neita að viðurkenna Ísrael og sum hafa beinlínis lýst yfir að afmá beri Ísrael af yfirborði jarðar. Ríki eins og Sádi-Arabía, Íran og Norður-Kórea neita að eiga viðskipti við Ísrael og bera fyrir sig umhyggju fyrir mannréttindum í heiminum, ekki ósvipað og meirihluti stjórnar Reykjavíkur. Það er óneitanlega ekki fagur félagsskapur sem Reykjavíkurborg ákveður að fylgja með þessari ákvörðun sinni. Fjöldi íslamskra hryðjuverkasamtaka eins og Hamas, ISIS og Al Qaeda hafa það á stefnuskrá sinni að afmá Ísrael af yfirborði jarðar.

Gyðingahatur í þágu mannréttinda og friðar ?

Hatrið er í mörgum tilfellum yfirgengilegt og það brýst út í ofbeldi gegn gyðingum og gyðingahatri. Hryðjuverk gegn gyðingum eru framin um allan heim. Skipuleg útrýming á gyðingum í Mið-Austurlöndum hefur staðið yfir frá því fyrir síðari heimsstyrjöld og nú er svo komið að í löndum og borgum þar sem fjölmenn samfélög gyðinga voru eru engir gyðingar eftir. Útrýming gyðinga á þessu svæði er ekki ósvipuð þeirri útrýmingu sem á sér stað núna á hófsömum múslímum, Jasidum, kristnum og öðrum minnihlutahópum í Sýrlandi og Írak, enda sýna íslömsk hryðjuverkasamtök þeim enga miskunn sem vilja ekki ganga íslam á hönd og/eða samþykkja þeirra túlkun. Þessi samtök nota öll tækifæri til að réttlæta ofbeldisverk sín. Nú hefur meirihluti stjórnar Reykjavíkur afhent þessum öfgasamtökum ný vopn í hendurnar.

Það er ljóst af umræðunni að margir á Íslandi hatast út í Ísrael og gyðinga. Ummæli eins og »nasistaríki og »helvítis gyðingar« eru ekki óalgeng á netinu og ummæli eins og »Það þarf að leita allra leiða til að brjóta á bak aftur þetta kerfi«, sem er eins og beint úr munni samtaka eins og ISIS og Hamas. Þessi ummæli komu þó ekki þaðan, heldur á Íslendskum vefmiðli. Auðvitað eru síðan margir sem segja svona ummæli í þágu mannréttinda og friðar! Svo virðist sem sumir sem telja sig boðbera umburðarlyndis og frelsis séu í raun allt annað.

Borgarstjórn biðjist afsökunar á Gyðingahatri.

Ofstæki í umræðunni er sífellt að aukast og öfgaöfl til hægri og vinstri að festa rætur í Evrópu. Uppgangur öfga-íslams í Evrópu, sem kemur fram í þeirri staðreynd að þúsundir Evrópubúa berjast með íslömskum hryðjuverkasamtökum um allan heim, er mikið áhyggjuefni. Allir þessir hópar eiga það sammerkt að hatast út í gyðinga og hafa ekki mikið álit á mannréttindum og frelsi. Afleiðingarnar eru m.a. þær að ofbeldi gegn gyðingum hefur aukist mjög í Evrópu undanfarin ár.

Samþykkt meirihluta stjórnar Reykjavíkurborgar er vatn á myllu allra þessara öfgasamtaka. Um það þarf ekki að deila. Eflaust eru einhverjir í borgarstjórnarmeirihlutanum sem gera sér enga grein fyrir afleiðingum samþykkta borgarinnar, en sumir eru fullmeðvitaðir um það. Hatrið á ekki erfitt með að dulbúast undir merkjum friðar og mannúðar.

Nú þegar það er spurning hvort samþykkt stjórnar Reykjavíkurborgar sé yfirleitt lögleg og evrópska gyðingaþingið hefur mótmælt harðlega og kallar þetta aðför að gyðingum (þrátt fyrir að meirihluti stjórnar Reykjavíkur fullyrði að aðgerðirnar beinist ekki gegn gyðingum!) er það eina rétta í stöðunni að Reykjavíkurborg dragi yfirlýsingu sína til baka. Vonandi tekst skynseminni að bera hatrið og fáfræðina yfirliði, þótt sagan segi að skynsemin eigi ekki mikla von.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband