| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Leyndarmálið um gjaldeyrishöftin.Fyrst birt í Morgunblaðinu 14. maí 2015.
Friðrik Daníelsson.
Maður gæti haldið að gjaldeyrishöft væru mesta böl heimsins, a.m.k. Íslands. Það er ekki hægt að opna dagblað eða sjónvarp svo ekki sé einhver að útmála skaðsemi gjaldeyrishafta. Hagspekingar segja að lífskjör versni. Braskarar segja að erlend fjárfesting komi ekki til Íslands. Og stjórnmálamenn japla á rétthugsuninni. En fjárfestar sem vilja byggja upp (iðnað) segja ekki neitt. Þeir vita að gjaldeyrishöftin skipta engu máli, þeir geta gert fjárfestingasamning við íslendsk stjórnvöld eins og áður og fengið að flytja fjárfestingafé og arðgreiðslur með eðlilegum hætti inn og út úr landinu.Einu sinni voru höftin afnumin..Afnám gjaldeyrishafta um árþúsundamótin var ein helsta ástæða þess að hrunið varð. »Frjálst flæði fjármagns« var viðurkennd kredda á þeim tíma (EES Samningurinn 1994). Afleiðingar haftaafnámsins komu fljótlega í ljós: Landið tók að fyllast af vondum (brask) peningum (ekkert af því fór í uppbyggingu) en góðu peningarnir (eignir Íslendinga) tóku að læðast í útlend skattaskjól. Ein af ástæðum Bretaránsins 08.10.2008 var að Bretastjórn hélt að »íslendskur« banki í Bretlandi ætlaði að flytja tug milljarða punda til Íslands. Bretar eins og margir aðrir skrifa upp á kredduna um »frjálst flæði fjármagns« en fylgja henni ekki nema þegar þeim hentar, ekki frekar en margar aðrar þjóðir. Ísland leysir heimsbyggðina úr álögum kreddunnar..Þegar stjórnvöld landsins áttuðu sig á því haustið 2008 að hætta var á að Bretastjórn mundi loka íslendsku bönkunum í Bretlandi (Bretastjórn átti eftir að fremja stærsta bankarán veraldarsögunnar á þeim) voru sett neyðarlög sem tóku kredduna um frjálst flæði fjármagns úr sambandi og komu stjórn gjaldeyrismála aftur heim (mikilvægustu lög sem sett hafa verið um fjármálastarfsemina í landinu síðan á miðjum 9. áratugnum). Neyðarlögin voru skýr yfirlýsing um að Íslendingar ætluðu ekki að láta »markaðinn« (einkabankana, fjárfestingafélögin, eignasjóðina, braskarana) stjórna gengi gjaldmiðilsins eða peningamálum landsins (gjaldeyrishöft voru svo lögfest sérstaklega í kjölfar neyðarlaganna). Neyðarlögin voru eftirtektarverð dirfska fámennrar þjóðar og reyndist verða hávært kall út yfir heimsbyggðina um að Ísland treysti sér til að stjórna eigin málum. Og það var eins og við manninn mælt: Önnur lönd fylgdu í kjölfar Íslands og settu á gjaldeyrishöft, m.a. stór iðnaðarlönd í Asíu (sem braskararnir höfðu rænt einum áratug áður): Suður-Kórea, Indónesía o.fl. Gjaldeyrishöftin bættu strax stöðu þeirra gegn hinu margþjóðlega bankaveldi.Höft á eignatilfærslur eru nauðsynleg..Lærir svo lengi sem lifir. Virðulegar stofnanir sem trúðu á »frjálsa fjármagnsflæðið« eru sumar búnar að átta sig á að gjaldeyrishöft geta verið góð. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn gaf nýlega út álit þar sem staðhæft er að gjaldeyrishöft geti verið nauðsynleg. Gjaldeyrishöft hafa verið við lýði á Íslandi mestallan uppbyggingartíma landsins (obbann af 20. öld) og fram að aðdraganda hrunsins. Nú orðið er reyndar óþarfi að hafa höft á venjuleg reikningsfærð vöruviðskipti við önnur lönd, þar eru oftast á ferðinni eðlileg skipti á verðmætum sem ekki valda ójafnvægi. En flutning fjáreigna inn og út úr landinu, t.d. í spákaup með gjaldeyri, verðbréf eða í sókn eftir háum vöxtum, er ekki hægt að gefa frjálsan. Ef Ísland væri opnað fyrir öllum fjáreignaflutningi gætu braskararnir orðið mjög fljótir að setja efnahagsmál landsins í uppnám. Það er nóg til af vondum peningum í heiminum, braskféð ferðast leifturhratt um heiminn; »heitu« peningarnir sem skilja eftir sig sviðna jörð þar sem þeir fara um og hver þjóð með sjálfstæða peningamálastjórn varast. Einn einasti stórbraskari (George Soros) gat komið sjálfu Bretaveldi í mikil peningavandræði (hann setur nú fé í stríðsæsingar gegn Rússum). Þessi staða blasir við öllum, samt eru margir hér ennþá fastir í kreddunni um frjálst flæði fjármagns þó gjaldeyrishöftin og neyðarlögin (sem mega vera áfram) hafi bjargað landinu frá öngþveiti og almenningi frá vonar völ. Kannske er það bara spéhræðsla, okkar ráðamenn vilja bera sig mannalega í hópi braskara (og lögfræðinga þeirra) og stórþjóða. Annars er sú stærsta, Kínverjar, ekkert feimin við að nota gjaldeyrishöft eftir þörfum.Flutningur fjáreigna inn og út úr landinu þarf að vera undir styrkri stjórn Seðlabankans. Þó að menn segi eitthvað annað við blöðin og sjónvarpið, gali fagurlega um blessun haftaleysis, vita bestu menn betur, ríkistjórnin veit betur og Seðlabankinn líka. En má ekki segja, þetta er leyndarmál !
|
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt 16.5.2015 kl. 17:45 | Facebook
«
Síðasta færsla
|
Næsta færsla
»