| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Þorum að ræða viðkvæm mál - einnig ólöglega úthlutun lóðar undir mosku.Fyrst birt í Morgunblaðinu 14. október 2014.
Sveinbjörg B. Sveinbjörnsdóttir.Í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga lýsti ég því yfir að rétt væri að afturkalla ákvörðun Reykjavíkurborgar um að úthluta Félagi múslima á Íslandi lóð undir mosku. Afstaða mín sætti gagnrýni oddvita þeirra stjórnmálaflokka sem sóttust eftir því að halda meirihluta sínum í borgarstjórn. Viðbrögðin komu mér ekki á óvart enda þótt áhugi og pólitísk hagsmunagæsla sumra fjölmiðla kæmi mér í opna skjöldu. Oddvitarnir sögðust vera boðberar »umburðarlyndisins« en markmiðið var að halda meirihlutanum.Boðberar »umburðarlyndisins«.Hvað svo sem leið raunverulegum skoðunum oddvitanna er augljóst að mestu máli skipti fyrir þá að »misstíga sig ekki« svo skömmu fyrir kosningar. S. Björn Blöndal kvað ummælin dæma sig sjálf á meðan Sóley Tómasdóttir taldi ummælin undarleg. Dagur B. Eggertsson og Halldór Auðar Svansson virtust líta svo á að lóðarúthlutunin tengdist trúfrelsi. Fylgismenn þeirra voru síðan sendir út af örkinni til að láta þau boð berast að afstaða mín fæli í sér fordóma. Þannig féllu margir í þá gryfju að »fordæma« skoðanir mínar án þess að nokkur málefnaleg umræða færi fram. Á þennan hátt var reynt að gera mig tortryggilega í hugum kjósenda. Viðbrögðin báru vott um upphafna sjálfsmynd þeirra sem telja sig vera frjálslynda, upplýsta og víðsýna þegar raunveruleikinn er allt annar. Kjörnir fulltrúar almennings verða að þora að ræða viðkvæm mál og mega ekki láta hagsmuni einstakra aðila koma í veg fyrir að þeir fari að lögum í störfum sínum.Viðbrögð oddvita þeirra stjórnmálaflokka sem sátu í meirihluta borgarstjórnar voru hins vegar skiljanleg í ljósi þess að lóðarúthlutunin var viðkvæm fyrir þá. Innan Samfylkingarinnar hafði lengi verið þrýst á að Félagi múslima á Íslandi yrði úthlutað lóð undir mosku. Besti flokkurinn var hins vegar ekki jafn hallur undir trúfélagið auk þess sem hann hafði það að markmiði að gera Reykjavík að leiðandi borg í réttindum samkynhneigðra. Í samræmi við þessa stefnu hafði Besti flokkurinn staðið að því að synja Kristskirkjunni um styrk úr borgarsjóði vegna afstöðu trúfélagsins til samkynhneigðra. Það samræmdist því illa slíkri stefnu að úthluta ókeypis lóð úr borgarsjóði til trúarsafnaðar þar sem litið er á samkynhneigð sem synd.Ólögmæt lóðarúthlutun.Samkvæmt lögum um Kristnisjóð er sveitarfélögum aðeins skylt að láta kirkjum þjóðkirkjunnar í té lóðir án endurgjalds. Skyldan nær ekki til lóða undir kirkjur eða bænahús annarra trúfélaga. Á þetta hafa fjölmargir valinkunnir lögfræðingar bent, meðal annars þeir Davíð Þór Björgvinsson, prófessor og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, og Brynjar Níelsson, hrl. og fyrrverandi formaður Lögmannafélags Íslands.Til að leysa þann vanda sem Samfylkingin og Besti flokkurinn voru komin í ákváðu þáverandi borgarstjóri og formaður borgarráðs að grípa til þess ráðs að bera undirmenn sína fyrir því að borginni væri skylt að úthluta öllum trúfélögum ókeypis lóðum. Af óútskýrðum ástæðum var lögfræðingum borgarinnar ekki kunnugt um að í máli Ásatrúarfélagsins höfðu hvort tveggja Hæstiréttur og Mannréttindadómstóll Evópu staðfest að heimilt væri að gera þjóðkirkjunni hærra undir höfði en öðrum trúfélögum. Eins og hendi væri veifað var »kirkja« orðin að »mosku«. Þetta heimatilbúna leikrit meirihlutans fékk síðan trúverðugra yfirbragð er hann samþykkti að skora skyldi á Alþingi að breyta lögunum. Reykjavíkurborg hefur hins vegar ekki enn sent Alþingi slíka áskorun. Í borgarstjórn virtust sofandi sjálfstæðismenn ekki átta sig á því að verið var að leika á þá.Lóðarúthlutunin hafði því ekkert með skyldu sveitarfélaga að gera. Saman hafa Samfylkingin og Besti flokkurinn (Björt framtíð) nú staðið fyrir því að fjölmargar lóðir hafa verið gefnar úr borgarsjóði án þess að gert sé ráð fyrir því í lögum. Ákvarðanir sem eru ekki reistar á lögum eru ógildanlegar og því heimilt að afturkalla þær.Borgarstjóra ber að fara að lögum.Í ljósi þess að lóðarúthlutun til Félags múslima á Íslandi er ekki reist á lögum er ljóst að vilji er allt sem þarf svo afturkalla megi ákvörðunina sem og ákvarðanir um aðrar sambærilegar lóðarúthlutanir.Samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR eru 73,7% þeirra sem svara andvígir eða mjög andvígir því að sveitarfélög úthluti trúfélögum ókeypis lóðum. Áberandi stærsti hópur þeirra sem er fylgjandi slíkum lóðarúthlutunum kemur úr röðum Samfylkingarinnar. Ég spyr því hvort borgarstjóri ætli að fara að lögum eða hvort hann ætli að halda áfram á »ætluðum« atkvæðaveiðum? Ekki kæmi á óvart þótt ákveðnir fjölmiðlar láti borgarstjóra komast upp með að fara með sömu þuluna um trúfrelsi og skyldu sveitarfélaga til að úthluta trúfélögum ókeypis lóðum án þess að spyrja hann hvort afstaða hans samræmist lögum svo sem þau hafa verið skýrð í úrlausnum dómstóla og af hálfu lögmanna og dómara. |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
«
Síðasta færsla
|
Næsta færsla
»