| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Ísland ættland Íslendinga - þjóðargjöfin 17. júní er slit viðræðna við ESB.Fyrst birt í Morgunblaðinu 12. júní 2014.
Hafsteinn Hjaltason.
Fullveldis-prangarar, heittrúaðir ESB-trúboðar, hafa fundið aðalóvin Íslendsku þjóðarinnar. Hinn mikli og hættulegi þjóðaróvinur er nær aldar gamalt fullveldi Íslendskrar þjóðar.Prangarar hafa með sinni víðkunnu greind og vizku skilgreint óvininn sem »fullveldis-gildru« sem heftir þroska alþjóðahyggju þjóðarinnar og hamlar öllum framförum í menningar-, atvinnu- og efnahagslífi á Íslandi. Lausn prangara á vandamálinu er að fullveldinu verði skilað, ekki til kóngsins Köbenhavn, nei til Brussel verði farið með óvininn og honum eytt þar.Sambandslagasamningurinn (Lög) frá 1918 gilti til 1. des. 1943. Vegna styrjaldarinnar var ekki hægt að fara eftir ákvæðum samningsins um endurskoðun sambandslaga. Alþingi ákvað þá að Ísland yrði lýðveldi, konungssambandi við Danmörk væri lokið. Fámennur, hávær hópur spratt þá fram og krafðist þess að beðið væri með allar ákvarðanir í málinu þar til stríðinu væri lokið, hernámi Danmerkur aflétt og hægt væri að framfylgja endurskoðunarákvæðum samningsins - vildu víst að gömlu herraþjóðinni og kóngi yrði sýnd auðmýkt. Núna snýr auðmýktin að Brussel-bákninu, þar bíði ESB-alsæluríkið villuráfandi þjóðar, þjóðar sem ekki hafi pólitískan þroska til þess að vera fullvalda og þurfi hjálp, handleiðslu og leiðsögn gamalla nýlenduvelda til þess að taka á réttan hátt á móti framtíðinni. Krafa fámenna, háværa hópsins, var vegin og léttvæg fundin. Kjósendur samþykktu með yfirgæfandi meirihluta ákvörðun Alþingis um stofnun Íslendska lýðveldisins.Ólíklegt má telja að landhelgin væri 200 mílur, ef Danir væru með utanríkismál að endurnýjuðum sambandssamningi, líklega 10-12 mílur. Verði Ísland ESB-land verður fiskveiðilandhelgin á því bili hvað sem líður fölsku þrasta-tísti og svardögum ESB-agenta. Íslandsmið glötuð Íslendingum. Í samningum við Breta og Þjóðverja hefðu »egg og beikon« vísast haft meira vægi en þorskur á Íslandsmiðum.Kjósendur höfnuðu í Alþingiskosningunum 27. apríl 2013 blekkingarspuna ESB-agenta um lokalausn allra vandamála þjóðarinnar með innlimun Íslands í ESB. Þeir stjórnmálaflokkar sem kjósendur trúðu að mundu ógilda þingsályktun um ESB-aðildarumsókn unnu góðan kosningasigur. Núna virðist vera að koma í ljós að engin alvara fylgdi þeim orðum þingmanna í ræðustól Alþingis, að Íslandi væri betur borgið utan ESB. Ákvarðana- og aðgerðaleysi hefur tekið við af hástemmdum yfirlýsingum. Hefur fámennur, hávær hópur forustumanna ESB-aðildarsinna meiri áhrif á forustu stjórnarflokkanna en tugir þúsunda kjósenda þeirra? Getur verið að þúsundir kjósenda hafi verið að lýsa vantrausti á aðgerðaleysið, með því að nýta ekki atkvæðisréttinn í sveitarstjórnarkosningunum?Níuhundruð ár eru liðin sumarið 2018 frá þeirri tímamótaákvörðun Alþingis á Þingvöllum að samþykkja og löggilda fyrstu lögbók Íslendinga (Hafliðaskrá). Ákvörðun Alþingis 1117 að lög skuli skrifa á bók, ásamt ákvörðuninni um stofnun Alþingis og síðar um kristnitökuna eru mikilvægustu ákvarðanir þinga þeirrar fullvalda þjóðar, sem byggði Ísland á þjóðveldistímanum.Vegna aðgerðaleysis og/eða ákvarðanafælni og hiks þingflokka stjórnarflokkanna þokast ESB-agentar nær því markmiði þeirra, að afhenda Brussel-bákninu, ESB-valdhöfum, fullveldi Íslands, auðlindaforræði og lagasetningarvald Alþingis á fyrrnefndu afmælisári og aldarafmæli fullveldis Íslands.Höfnum öllum stjórnarskrárbreytingum sem eiga að auðvelda alþingismönnum að afsala fullveldi Íslands til ríkja eða ríkjasambanda. Fullvalda ríki nær á jafnréttisgrundvelli þeim samningum við önnur ríki fullvalda, sem vilji er til án þess að því fylgi afsal fullveldis.
Ekkert var því til fyrirstöðu að ESB-skýrsla Hagfræðistofnunar yrði gerð þó að meirihluti Alþingis hefði á sl. haustþingi slitið ESB-aðlögunarferli og ógilt þingsályktun þar um. Hagfræðistofnun hefði átt að fá lengri tíma til verksins, t.d. til hausts 2015, þá verður ár frá því að Lissabon-samningurinn komst í framkvæmd og áhrif hans að skýrast. Þjóðin hefði þá ítarlegri upplýsingar um áhrif ESB-aðildar Íslands á Íslendsk málefni, alþingismenn og frambjóðendur kæmust ekki upp með blekkingar og rangfærslur fyrir þingkosningarnar 2017. Rauðgræn sauðargæra verður tilgangslaus.Síbyljuáróður ESB-aðildarforingja um eitthvað sem þeir kalla ótta landsmanna við hið óþekkta er ekkert annað en froðusnakk fullyrðingar-vaðals-kjaftaska og lýð-skrumara, sem reyna að leika óttalausar, víðsýnar lýðræðishetjur og réttlætisriddara, en virðast í raun þjakaðir af fordómum og þröngsýni. Þeir þykjast vera útvaldir handhafar sannleikans í öllum þjóðmálum og einu sönnu túlkendur þjóðarviljans.Lýðveldið Ísland er 70 ára 17. júní. Slit ESB-viðræðna og ógilding þingsályktunar frá 2009 á sumarþingi núna í júní yrði verðug og verðskulduð þjóðargjöf, þakkargjörð til þeirra kynslóða sem um aldir byggðu landið við erfið kjör og endurheimtu að lokum fullveldi og frelsi íslenskrar þjóðar og Íslands. Við sem nú lifum fleytum rjómann af árangursríkri baráttuþrautseigju, framfara- og viðreisnarhug genginna kynslóða forfeðra okkar og -mæðra.
|