Þjóðarkönnun um Schengen og Evrópska efnahagssvæðið

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

Þjóðarkönnun um Schengen og Evrópska efnahagssvæðið.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 27. marz 2014.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson.

Undarfarnar vikur hafa landsmenn mátt hlusta á háværar raddir aðildarsinna, sem krefjast þjóðarkönnunar um sjálfsögð og óhjákvæmileg slit á viðræðum um innlimun Íslands í Evrópusambandið. Söngur aðildarsinna hefur falskan og holan hljóm, þar sem sama fólk og núna krefst þjóðarkönnunar neitaði algerlega að almenningur kæmi að upphafi viðræðna á árinu 2009.

Þessi nýlega tilkomni ákafi aðildarsinna í þjóðarkönnun, er þeim mun furðulegri í ljósi þess að upplýst hefur verið að framkvæmd umsóknarinnar um innlimun Íslands var brot á Stjórnarskránni. Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir gerðust sannanlega brotleg við 19. grein Stjórnarskrárinnar og Ríkissaksóknari er að undirbúa málssókn á hendur hinum brotlegu og til ógildingar á umsókninni. Getur verið að einhver sé svo skyni skorpinn, að vilja kostnaðarsama þjóðarkönnun um ógilda umsókn ?

Þjóðarkönnun til skemmtunar eða þjóðaratkvæði til gagns ?

Mörgum finnst skoðanakannar skemmtilegar og auðvitað er fróðlegt að vita hvaða skoðanir samborgararnir hafa. Í einstaka tilviki getur jafnvel verið skynsamlegt að gera þjóðarkönnun, til leiðbeiningar fyrir Alþingismenn og aðra. Hins vegar geta þjóðarkannanir ekki orðið bindandi fyrir Alþingi, því að Stjórnarskráin bannar að Alþingismenn láti utanaðkomandi viðhorf hafa áhrif á ákvarðanir á þingi. Þetta kemur skýrt fram í 48. grein sem segir:

»Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum

Það hefur auðvitað ekki farið fram hjá neinum, að Samfylkingin er ólm í að afnema þetta ákvæði, eins og önnur sem eru nauðsynleg fyrir alvöru lýðveldi. Minna má á, að það var Alþýðuflokkur -forveri Samfylkingarinnar- sem kom því til leiðar að tvískipting Alþingis var afnumin. Þetta skemmdarverk hefur haft þær alvarlegu afleiðingar, að lagasetningu hefur hrakað og vald verið fært frá Alþingi til höfðingjanna í ríkisstjórn. Engum í hinu forna lýðveldi Spörtu, sem varð fyrst lýðvelda í Evrópu, hefði dottið í hug að afnema tvískiptinguna.

Annað sem við getum lært af Spörtu varðar þjóðaratkvæði. Spartverjum datt ekki í hug að beita þjóðarkönnunum. Hins vegar var þjóðaratkvæði beitt um ÖLL lagafrumvörp, en til hagræðingar hjá okkur er forseta Lýðveldisins falið umboð til að velja úr þau lagafrumvörp sem til þjóðaratkvæðis skulu fara. Synjunarvald forsetans samkvæmt 26. grein Stjórnarskrárinnar er auðvitað bjálki í auga Samfylkingar. Þessir áróðursmenn fyrir upptöku höfðingjaveldis á Íslandi, hafa ítrekað sýnt illan hug sinn til Lýðveldisins og til þess sem leiðir af stjórnarformi lýðveldis –fullveldiréttinda almennings-.

Hvers vegna ekki þjóðarkönnun um Schengen og Evrópska efnahagssvæðið ?

Ef landsmenn vilja eyða fjármunum í þjóðarkannanir og ekki notast við úrtaks-kannanir sem eru kostnaðarminni og skila jafn áreiðanlegum niðurstöðum, þá eru mörg viðfangsefni nærtækari en hin ógilda umsókn um innlimun Íslands í Evrópusambandið. Hér skal stungið upp á, að gerð verði þjóðarkönnun um áhuga landsmanna á áframhaldandi aðild Íslands að Schengen og Evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Aðild Íslands að báðum þessum afurðum Evrópusambandsins hefur valdið landsmönnum ómældu tjóni og margir krefjast þess að Ísland losi sig við þetta skaðlega regluverk. Ísland er með gildan fríverzlunarsamning við Evrópusambandið og aðildarsinnar hafa ekki fært fram nein rök fyrir þeirri fullyrðingu, að Ísland sé ófært að þróa fríverslunarsamninginn á sama hátt og Svissland hefur gert. Schengen er sorglegur vitnisburður um botnlausa áfergju aðildarsinna, að þvinga Ísland til samlags við nýlenduveldi Evrópu. Aðildin að EES var bein og sannanleg orsök fyrir efnahagshruninu og Ísland mun um langa hríð verða að glíma við afleiðingar þess.

Þegar ákvarðanir voru teknar um Schengen og EES, gleymdist alveg að spyrja þjóðina álits í þjóðarkönnun. Er það einskær tilviljun að Alþýðuflokkur/Samfylking var ráðandi um aðild landsins að Schengen og EES ? Er ekki kominn tími til að landsmenn setji í skammakrókinn þessa aðdáendur miðstýrða þursans í austri ? Útþenslustefna Evrópusambandsins á eftir að valda tilsvarandi ófriðarbáli og hörmunum og gerðu fyrri tilraunir til að undiroka frjálshuga þjóðir Evrópu. Brussel-valdið hefur við öll tækifæri sýnt Íslandi yfirgang og óvináttu. Að hlaupa í faðm óvinarins ber engu vitni nema heimskunni.

Hér skal stungið upp á, að gerðar verði kannanir um áhuga landsmanna á áframhaldandi aðild Íslands að Schengen og Evrópska efnahagssvæðinu (EES).

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband