| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Schengen-helkenni Íslendskra embættismanna.
Fyrst birt í Morgunblaðinu 21. október 2013.
Helgi Helgason.
Það vakti athygli mína að í annars ágætri grein sem innanríkisráðherra skrifaði í Morgunblaðið 12. október minnist hún ekki einu orði á eina verstu vá sem riðið hefur yfir Íslendskt samfélag. Nefnilega Schengen. En eftir að hafa fylgst með þróun Schengen hér og annars staðar kemur mér það ekki sérlega mikið á óvart að yfirmaður þess ráðuneytis sem fylgdi því hvað harðast eftir að við gengjum í Schengen sé strax orðin samdauna því ásamt embættismönnum sínum.
Kenning Ögmundar Jónassonar.
Ögmundur Jónasson setti fram mjög trúverðuga kenningu sem hann kallaði ESB-heilkenni embættismanna. Þar útskýrði hann hvernig embættismenn fara ósjálfrátt að tala fyrir inngöngu í ESB vegna þess að málaflokkurinn býður upp á endalausar ferðir á ráðstefnur um alla Evrópu og verður að óbeinni launahækkun eða veitir ýmis fríðindi og lætur embættismanninum finnast að hann og skrifborðið séu gríðarlega mikilvægur hlekkur í framtíðarvelferð landsins.
Schengen-heilkennið.
Þannig virðist þetta líka vera með Schengen. Ef skoðað er hverjir innan stjórnsýslunnar mæla þessu misheppnaða og tilgangslausa samstarfi bót má sjá að það er yfirleitt efsta lag lögreglu og embættismanna í stjórnsýslunni. Þetta er einmitt fólkið sem Vilmundur Gylfason kallaði möppudýr. Oftar en einu sinni hafa óbreyttir lögreglumenn og félög þeirra ályktað um gagnsleysi Schengen.
Í hvert sinn sem umræðan um hætturnar sem leynast í Schengen verður hávær bregðast embættismenn við með skýrslum þar sem tíundað er hversu gott það er fyrir þjóðina að vera í Schengen og iðulega tínd til rök sem falla að því. Síðasta skýrslan sem embættismennirnir í innanríkisráðuneytinu gerðu um hversu þarft það er fyrir okkur að vera í Schengen, og gerð var í tíð Ögmundar Jónassonar, var með eindæmum. Eftir lestur hennar var ég sannfærður um að hún hlyti að hafa verið samin af menntaskólanema því hún minnti frekar á lélega ritgerð en skýrslu.
Schengen er Stjórnarskrárbrot.
Schengen líkt og EES er stjórnarskrárbrot. Þessi fullyrðing er ekki bara frá mér komin. Þetta er álit þáverandi forsætisráðherra þegar við gengum í Schengen og þetta er álit manna eins og Össurar Skarphéðinssonar. Það er skondið að í fréttum 11. október sagði innanríkisráðherra að hún ætlaði ekki að standa að því að brjóta stjórnarskrána með því að stöðva uppboð sýslumanna á húseignum fólks. Ef Hönnu Birnu er svona umhugað um stjórnarskrána er hún auðvitað ekki samkvæm sjálfri sér ef hún stöðvar ekki strax Schengen-samstarfið sem er stjórnarskrárbrot og hefur viðgengist í mörg ár.
Öll rök hníga að því að við eigum án tafar að segja upp Schengen. Þegar menn gera rannsókn í aðferðafræði leitast þeir við að bera saman atburði fyrir og eftir. Við vitum að fyrir Schengen þreifst ekki mansal á Íslandi, skipulögð glæpastarfsemi var nánast ekki til, fáir fangar voru útlendir glæpamenn, fíkniefni voru tæpast framleidd í stórum stíl í landinu. Og nú er það nýjasta nýtt, erlendir útigangsmenn eru orðnir svo ágengir að Íslendskir útigangsmenn fá ekki lengur pláss í gistiskýlum ætluðum þeim (DV. 28.8. 2013). Á maður að hlæja eða gráta?
Kampavíns- og Koníaksfundir.
Á sama tíma og innanríkisráðherra skrifar fallega grein um hvað henni er annt um öryggi okkar hinna er allt við það sama og öryggi borgaranna getur bara versnað með áframhaldandi veru í Schengen. Og á meðan sækir efsta lag embættismanna í lögreglunni og innanríkisráðuneytinu áfram kampavíns- og koníaksfundi í Brussel eða fer í vettvangsferðir til Estrasaltsríkjanna til að sjá með eigin augum rússneska glæpamenn kaupa sér aðgang að Schengen á landamærunum eins og Íslendska embættiskonan lýsti í fjölmiðlum fyrir stuttu.
Og hver voru viðbrögð hennar? Jú, þetta kom henni á óvart! Svo ekkert meira með það, því á eftir beið slökun á hótelinu, þægileg flugferð til Íslands og dagpeningar á eftir. Þjóðin vill úr Schengen. En duglausir embættismenn og stjórnmálamenn þora ekki. Þarf virkilega að fara að safna undirskriftum enn eina ferðina til að koma vitinu fyrir þetta fólk? |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
«
Síðasta færsla
|
Næsta færsla
»