| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Grein Biritu Gøtuskeggja Jennysdóttur er skyldulesning fyrir ráðherra.
Fyrst birt í Morgunblaðinu 10. ágúst 2013.
Styrmir Gunnarsson.
Síðast liðinn fimmtudag birtist grein hér í Morgunblaðinu, sem æskilegt er að sem flestir Íslendingar lesi en alveg nauðsynlegt að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands lesi. Hún er eftir konu að nafni Birita Gøtuskeggi Jennysdóttir í Færeyjum. Greinin hefst á þessum orðum:
»Ég heiti Birita Gøtuskeggi Jennysdóttir og ég er uppalin í Vestmannaeyjum, þar sem ég kom með foreldrum mínum 1956 og ólst upp þar í tæp níu ár. Við höfðum það mjög gott í Vestmannaeyjum. Pabbi minn fiskaði og móðir mín vann í frystihúsi (Fiskiðjunni) í mörg ár. Ég á marga góða vini í Vestmannaeyjum og stóra fjölskyldu á Íslandi. Pabbi minn, Alfred Gøtuskeggi kallaðist Skeggi í Vestmannaeyjum, var mikill ættjarðarvinur og var mjög hrifinn af ykkur Íslendingum og að þið fenguð sjálfstæði 1944.«
Síðan segir Birita:
»Nú vil ég skrifa um það, sem er mikil sorg fyrir mig. Eins og þið Íslendingar vitið, þá erum við búin að fá allan heiminn á móti okkur af því að við viljum fiska síld og makríl eins og þið Íslendingar gerið ... nú sitjum við, 48.000 manneskjur, hérna úti á Atlantshafinu, og eigum enga vini, jú auðvitað Grænlendingana. Þeir eru vinir okkar.
Svo í guðanna bænum verið þið ekki að vorkenna okkur núna. Við þurftum góða vini, þegar við vorum í samræðum í Brussel um síld og makríl. En þá fóruð þið einir á fund með ES og vilduð ekki hafa Færeyinga með. Ég skammast mín fyrir að ég hef alltaf talað svo fallega um Íslendinga ...
Steingrímur J. Sigfússon, Íslenzki fiskimálaráðherrann, komdu ekki með fréttir í færeyska útvarpið um að þú vorkennir okkur. Þú gast staðið með okkur á fundinum í Brussel.«
Þessi ádrepa frá Færeyjum er skyldulesning ráðherra, þingmanna og þeirra í Íslenzka stjórnkerfinu, sem hafa með þessi mál að gera. En jafnframt kallar grein Biritu á svör. Höfnuðu Íslendingar ósk Færeyinga um að standa sameiginlega að viðræðum í Brussel? Lýsti Steingrímur J. Sigfússon því yfir í Færeyjum að hann vorkenndi Færeyingum?
Og til viðbótar þetta:
Við Íslendingar deilum örlögum með Færeyingum og Grænlendingum. Þessar þrjár smáþjóðir búa á eyjum í Norður-Atlantshafi. Grænlendingar á þeirri stærstu og jafnframt þeirri eyju, sem erfiðast er að búa á.
Þessar þrjár þjóðir getur greint á um alls konar hagsmuni, sem tengjast fiskveiðum hér og þar en sameiginlegt baráttumál okkar er það að við sitjum sjálfir að auðlindum okkar en látum ekki gömlu nýlenduveldin í Evrópu halda áfram að hrifsa þær til sín eins og þær gerðu öldum saman uppi í landsteinum hér og eins og þær hafa gert um allan heim. Hvers vegna eru sumar Evrópuþjóðir svo ríkar sem raun ber vitni? Vegna þess að þær hafa farið rænandi og ruplandi öldum saman um auðlindir annarra þjóða og streitast enn við að gera það hvar sem þess er nokkur kostur.
Og vegna þess að þessir grundvallarhagsmunir okkar, Færeyinga og Grænlendinga fara saman, eigum við að standa saman og þá ekki sízt í deilum af því tagi, sem Færeyingar standa nú í. Gleymum því ekki að það voru Bretar, sem fundu upp á því að beita löndunarbanni á fiskveiðiþjóðir í Norður-Atlantshafi.
Svar Breta við fyrstu útfærslu Íslenzku fiskveiðilögsögunnar 1952 var að setja löndunarbann á Íslenzkan fisk í brezkum höfnum. Það löndunarbann stóð í um fjögur ár. Í næstu umferð sendu Bretar herskip inn í Íslenzka fiskveiðilögsögu eftir útfærsluna í 12 mílur 1958 og það gerðu þeir aftur eftir útfærsluna í 50 mílur 1972 og í 200 mílur 1975. Síðasti brezki togarinn sigldi á brott frá Íslandsmiðum 1. desember 1976.
Við þekkjum því það stríð, sem Færeyingar standa nú frammi fyrir. Og mikil verður skömm Dana ef þeir loka dönskum höfnum fyrir færeyskum fiskiskipum að kröfu Evrópusambandsins, skipum, sem koma frá ríki, sem er í ríkjasambandi við Dani! Um leið er það undirstrikun á því að Danir hafa engin áhrif innan Evrópusambandsins, jafnvel ekki í máli, sem er jafn viðkvæmt fyrir þá og þetta mál. Og þar með er hrunin til grunna sú fullyrðing aðildarsinna að Evrópusambandinu hér á Íslandi að smáríki eins og Ísland geti haft einhver áhrif innan þess.
Stóra spurning er þó þessi, sem grein Biritu Gøtuskeggja Jennysdóttur gerir enn áleitnari.
Hvernig stendur á því að ríkisstjórn Íslands hefur ekki þegar sent frá sér formleg mótmæli vegna framferðis Evrópusambandsins gagnvart Færeyingum? Hvernig stendur á því að utanríkisráðherra Íslands er ekki nú þegar farinn til Færeyja til þess að ráðgast um það við þarlenda ráðamenn hvernig Íslendingar geta bezt veitt Færeyingum stuðning í þessari deilu? Hvernig stendur á því að sendiráðum Íslands á Norðurlöndum hefur ekki þegar verið falið að mótmæla þeirri afstöðu, sem Svíar, Finnar og Norðmenn hafa tekið að lýsa yfir stuðningi við Evrópusambandið í smánarlegri framkomu þess við Færeyinga? Og hvers vegna hafa sendimenn okkar hjá öðrum ESB-þjóðum ekki verið sendir með sama boðskap? Hvernig stendur á því að forystumenn í Íslenzkum stjórnmálum hafa ekki hver á fætur öðrum úr bæði stjórnarflokkum og stjórnarandstöðuflokkum látið til sín heyra með stuðning við Færeyinga? Hvers vegna þegja þessir menn þunnu hljóði?
Kannski Birita Gøtuskeggi Jennysdóttir ætti að koma hingað í heimsókn frá Færeyjum til þess að kynna fyrir Íslenzku þjóðinni málstað Færeyinga í þessu máli? Ætli Íslenzkir ráðamenn mundu hafa tíma til að veita henni viðtal vegna anna?
|
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt 11.8.2013 kl. 00:30 | Facebook
«
Síðasta færsla
|
Næsta færsla
»