| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Hugtakið »fullveldi þjóðar« hefur ekki sömu merkingu og »sjálfstæði ríkis«.
Fyrst birt í Morgunblaðinu 02. ágúst 2013.
Loftur Altice Þorsteinsson.
Ótrúlega oft ruglast þeir sem taka þátt í opinberri umræðu á hugtökunum fullveldi og sjálfstæði. Fullveldi varðar stjórnarform ríkja og þá sérstaklega þá spurningu hver fari með fullveldisréttindi innan ríkis. Í lýðveldum fer þjóðin, það er að segja almenningur í heild, með fullveldisréttindin. Í einveldum eins og konungsríkjum er fullveldið hjá konunginum. Þar sem stjórnarform Íslands er lýðveldi, er fullveldið ávallt hjá þjóðinni og því er ekki hægt að tala um fullveldi á annan hátt en sem »fullveldi þjóðarinnar« það er að segja almennings í heild.
Hugtakið sjálfstæði ríkis ætti að vera auðvelt að skilja, því að hliðstæðan við sjálfstæði einstaklings er svo augljóst. Sjálfstæði hefur ekkert með innra skipulag ríkis að gera, einungis skilgreinir hvort ríki er undir yfirráðum annars ríkis, eða ekki. Sjálfstætt ríki getur haft þrenns konar stjórnarform, verið einveldi, höfðingjaveldi eða lýðveldi, sem áður fyrr var nefnt þjóðveldi. Maður veltir fyrir sér hvort það er viljandi eða af kjánaskap sem sumir rugla stöðugt saman hugtökunum »fullveldi þjóðar« og »sjálfstæði ríkis«.
Orðið »fullveldi« er þýðing á Danska orðinu »magtfuldkommenhet«.
Hugtakið fullveldi, má að minnsta kosti rekja aftur til 14. febrúar 1874. Þann dag sendi konungur Danmerkur Christian IX frá sér auglýsingu þess efnis, að hann ætlaði að »gefa« Íslendingum stjórarskrá. Konungur taldi sig geta þetta vegna þess að hann væri fullveldishafi á Íslandi, ekki síður en í Danmörku. Margir Íslendingar voru annarar skoðunar, meðal annars Jón Guðmundsson ritstjóri (1807-1875). Jón taldi að konungur færi ekki með fullveldi þjóðarinnar, heldur hefði það allt frá landnámi verið í höndum Íslendinga sjálfra. Fullveldið hefði aldreigi verið látið af hendi og konungur hefði því enga heimild til að »gefa« það.
Í nefndri auglýsingu er talað um að konungur hafi »af frjálsu fullveldi« gefið Íslandi stjórnarskrá. Með þessu orðalagi var lögð áherðsla á að fullveldi konungs væri fullkomið og ótakmarkað. Hann hefur talið að sér væri frjálst að fara með fullveldið eins og honum þóknaðist. Í auglýsingunni segir:
»Það er von Vor, að Vorir trúu Íslendingar taki á móti gjöf þeirri, sem Vér þannig »af frjálsu fullveldi« höfum veitt Íslandi, með inu sama hugarfari, er hún er sprottin af….«
og í Dönsku útgáfunni segir:
»Det er Vort Haab, at den Gave, Vi saaledes »af fri Magtfuldkommenhed« have skjænket Island, vil af Vore tro Islændere blive modtaget med det same Sindelag, hvoraf den har sit Udspring…«
Orðið »fullveldi« er því greinilega þýðing á orðinu »magtfuldkommenhed« sem að sínu leyti á ættir að rekja til þýðska orðsins »machtvollkommenheit«. Bæði þessi erlendu orð merkja »að hafa fullkomið og ótakmarkað vald«, eða ákvörðunarrétt. Við setningu stjórnarskrár Danmerkur 1849 er einmitt talað um »fri Kongelig Magtfuldkommenhed« sem réttindi konungs til að setja ríkinu sjórnarskrá. Í engu þessara tilvika hefur fullveldi eitthvað að gera með sjálfstæði ríkisins gagnvart öðrum ríkjum. Notkun orðsins »machtvollkommenheit« er skjalfest frá 1355 og um merkingu þess er ekki deilt.
Stjórnarskrárbundin fullveldisréttindi úreltast ekki.
Fullveldi fylgja fullveldisréttindi og þessi hugtök verða ekki aðskilin. Sá aðili sem fer með fullveldi ríkis hlýtur að vera handhafi þeirra fullveldisréttinda sem stjórnarskrá ríkisins felur fullveldishafanum. Á meðal algengra fullveldisréttinda í lýðveldum eru eftirfarandi: - setja stjórnarskrá og breyta henni,
- kjósa forseta sem fer með framkvæmdavaldið,
- kjósa til Alþingis sem fer með lagasetningarvaldið,
- kjósa til Hæstaréttar sem fer með dómsvaldið,
- kjósa æðstu embættirmenn ríkisins,
- fara með endanlegt vald um lagasetningu,
- taka ákvörðun um aðild ríkisins að alþjóðlegum samtökum,
- taka um ákvörðun um peningastefnu,
- setja takmörk við skattheimtu.
Sú hugmynd að hægt sé að »deila fullveldi« á milli aðgreindra aðila, stríðir gegn sjálfri skilgreiningu hugtaksins fullveldi. Jafn fráleit er hugmyndin um »innra fullveldi« og »ytra fullveldi«. Hins vegar þarf fullveldi ekki að vera í höndum eins manns, því að það getur sem hægast verið í höndum skilgreinds hóps manna. Þetta sjáum við í stjórnarformunum lýðveldi og höfðingjaveldi. Einkenni allra stjórnarforma er, að þeir einstaklingar sem hafa með höndum fullveldið gera það á grundvelli innbyrðis jafnræðis.
Þeir sem reyna að spilla stjórnarformi lýðveldisins, grípa gjarnan til þeirra raka að hefð hafi skapast um breytingar á Stjórnarskránni. Því er haldið fram að einstök ákvæði hennar haldi ekki gildi, ef þau eru ekki notuð í langan tíma. Þjóðaratkvæði um Icesave-lögin 06. marz 2010 og 09. apríl 2012, sannaði að þetta fær ekki staðist. Í dag viðurkenna flestir að 26.greinin er í fullu gildi. Sama gildir um önnur ákvæði Stjórnarskrárinnar, að þau úreldast ekki við notkunarleysi. Stjórnarform sem skilgreint er í stjórnarskrá heldur ávallt gildi sínu, þótt sjórnarfari kunni tímabundið að vera háttað á annan hátt.
|