| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Flotkrónan er í öndvegi hjá ríkisstjórninni, með skaðlegum afleiðingum.
Fyrst birt 15. júní 2013.
Loftur Altice Þorsteinsson.
Margt gott er hægt að segja um stefnu nýrrar ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, en sú erki-vitlausa stefna að halda í Flotkrónuna vekur furðu og vonbrigði. Ef þessari stefnu verður haldið til streitu, mun koma í ljós að flest góðu áformin eru einskis virði, því að þau geta ekki verið grundvölluð á öðru en upptöku fastgengis. Lengi vel töldu menn að ákvæði stjórnarsáttmálans um Flotkrónu væri prentvilla, en varla er lengur hægt að halda í þá von. Í stjórnar-sáttmálanum frá 22. maí 2013 segir:
»Krónan verður gjaldmiðill Íslendinga um fyrirsjáanlega framtíð. Renna þarf styrkari stoðum undir peningastefnuna með traustri hagstjórn sem tekur mið af aðstæðum og hagsveiflum.«
Hvaðan kemur þeim Sigmundi og Bjarna sú vitrun, að Flotkrónan sé náttúru-lögmál, sem mannlegur máttur fái ekki haggað? Jafnframt er sagt, að »renna þurfi styrkari stoðum undir peningastefnuna«, þótt sannast hafi á síðustu 90 árum, að núverandi peningastefna er almenningi stór-skaðleg. Hvað ætli margar ríkisstjórnir á Íslandi hafi lofað traustri hagstjórn?
Ekki verður önnur ályktun dreginn af stjórnarsáttmálanum, en að fyrirætlun ríkisstjórnarinnar sé að Íslendingar búi áfram við »torgreinda peningastefnu« (discretionary monetary policy), en gengishrunið var einmitt afleiðing þeirrar peningastefnu. »Torgreind peningastefna« er einnig sígild orsök verðbólgu, eignabruna, Snjóhengju og gjaldeyrishafta. Stefnuræða forsætirráðherra frá 10. júní 2013 staðfestir hina illu fyrirboða:
»Íslendska krónan mun verða gjaldmiðill Íslands um fyrirsjáanlega framtíð. Þessa staðreynd voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnurekenda sammála um í skýrslu þverpólitískrar nefndar um gjaldmiðlamál sem út kom síðastliðið haust. Til þess að styrkja krónuna verðum við að auka framleiðslu, ná tökum á verðbólgunni, greiða niður skuldir og efla Íslendskt efnahagslíf.«
Það er neyðarlegt fyrir forsætisráðherra, að við öllum blasir, að hann hefur ekki lesið skýrslu þverpólitísku nefndarinnar um gengisstefnu. Fullyrðing hans er röng, að nefndin telji að Flotkrónan hljóti að verða gjaldmiðill landsins um fyrirsjáanlega framtíð. Í skýrslu nefndarinnar frá 04. október 2012 er veigamesta framlagið það sem Heiðar Már Guðjónsson hafði um gengismálin að segja:
»Heiðar Már Guðjónsson var gestur fimmta fundar nefndarinnar. Hann telur að Ísland muni ekki uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir EMU aðild fyrr en í fyrsta lagi 2022. Heiðar Már telur miklar líkur á ríkisgjaldþroti árið 2016 þar sem 800 ma.kr. séu á gjalddaga í erlendum myntum fram til ársloka það ár. Hann telur að eina leiðin til að fá innstreymi í kerfið sé með því að afnema gjaldeyrishöftin og einhliða upptaka annarrar myntar sé forsenda fyrir því að það sé gerlegt, að teknu tilliti til áhættu. Peningamagn í umferð muni ekki aukast og bankarnir muni áfram liggja á háum innistæðum.
Heiðar ræddi afleiðingar afnáms fjármagnshafta miðað við núverandi aðstæður (áhlaup, fjármagnsflutningar úr landi) og hvernig koma megi í veg fyrir það með einhliða upptöku nýrrar myntar. Fleirri rök sem fram komu fyrir einhliða upptöku nýrrar myntar eru m.a:
Vextir myndu lækka strax (úr 7,6% í 3,4%).Fjárfestingar myndu aukast (innlendar, en ekki síður erlendar) með auknum hagvexti.Lánveitandi til þrautavara yrði ekki lengur til staðar. Heiðar telur það kost þar sem þrautavaralánveitandi sé til þess fallinn að ýta undir freistnivanda. Fjármálamarkaðurinn eigi sjálfur að leggja fjármagn til hliðar og lánshæfi ríkissjóðs myndi hækka þar sem áhætta ríkisins af einkageiranum minnkaði.Fjármagnseigendur verði rólegir með eignir í Íslendskum bréfum, ef tekin yrði upp ný mynt, þar sem vextir á áður útgefnum bréfum verði ekki lækkaðir.Einkageirinn muni greiða upp verðtryggð lán og kerfið muni endurfjármagna sig hratt. Helmings vaxtalækkun hefði afar jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur heimila.Viðskiptakostnaður milli landa muni lækka verulega.Ekki felist í því fullveldisafsal (þ.e.a.s. sjálfstæðisafsal) þótt peningastefnan verði ekki lengur sjálfstæð (þ.e.a.s. upp væri tekin reglu-bundin peningastefna).Bankarnir séu með nokkuð sterka stöðu og mjög gott lánasafn og fái því gott lánshæfi.
Heiðar Már telur það ekki aðalatriði hvaða mynt verði tekin upp, en telur Kanadadollar fýsilegan. Aðstæður séu um margt líkar og bæði löndin (Ísland og Kanada) hafi mikla hagsmuni af því sem er að gerast á norðurslóðum. Í löndum sem tekið hafa upp mynt annars lands einhliða, hafi fjármálstofnanir lagst harðast gegn breytingum því þær hafi áður notið vaxtamunarins og einokunar á markaðnum. Hér á landi séu aðstæður öðruvísi; fjármálastofnanir muni að líkindum fagna svona ákvörðun (Seðlabankinn mun ekki fagna!), þar sem stór hluti eigenda þeirra séu skammtímafjárfestar.
Hann telur að með upptöku Kanadadollars fylgi kanadísk fjárfesting (þarlendir bankar, smásalar, bensínstöðvar). Heiðar telur einfalt að ákvarða skiptigengið þar sem hér sé einsleit framleiðsla og útflutningur. Skiptigengið gæti t.d. verið núverandi gengi eða jafnvel sterkara gengi. Gengið yrði eins fyrir alla, bæði fjármagnseigendur og lánþega. Hann sagði upptökuna vera ódýra, nefndi þann möguleika að Kanada gæti prentað seðla og afhent á kostnaðarverði það hefði engin áhrif á þeirra hagkerfi.«
Hægt er að slá því föstu, að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks verður ekki langlíf ef Flotkrónan verður áfram konungur í ríki sínu. Þau stóru mál sem þarfnast tafarlausrar úrlausnar, er einungis hægt að sigrast á, með fastgengi að vopni. Tómt mál er að tala um að leiðrétta forsendubrest heimilanna, afnema gjaldeyrishöft, eða bræða Snjóhengjuna. Verðtryggingunni mun verða viðhaldið, ef Flotkrónan á áfram að fá að dansa á bylgjutoppum hins alþjóðlega fjármála-hafs.
Raunar bendir meðhöndlun ríkisstjórnarinnar á ESB-viðræðunum til, að ekki sé tjaldað til nema svo sem hálfs kjörtímabils. Ætlunin virðist vera að allt verði til reiðu fyrir áframhaldandi aðlögunarferli, þegar ný ríkisstjórn Samfylkingar kemst að nýgju í ráðherrastólana. Núverandi ríkisstjórn verði látin falla í kjölfar óljósrar þjóðarkönnunar um vilja landsmanna. Aukinn áróður Evrópusambandsins bendir til að Brussel viti gjörla hvaða gjörninga-graut verið er að brugga af höfðingjaveldinu á Íslandi. Sagan frá 1262 er líklega að endurtaka sig. Eina góða við þessa atburðarás er, að hægt verður að endurnýta Gamla sáttmála og spara fáeinar Flotkrónur.
|