Snjóhengjan og þrotabúin

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

  

  

Snjóhengjan og þrotabúin.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 09. maí 2013.

 

      


Holberg Másson.

Nú er kominn tími til að fella niður forréttindi þrotabúa gömlu bankanna. Þau eru: að vera undanskilin sköttum og gjöldum til samfélagsins, að þurfa ekki að sæta skilaskyldu á gjaldeyri jafnt og aðrir, að mega eiga og reka viðskiptabanka án þess að teljast hæfir til þess.

En hvernig stendur á þessum forréttindum? Ástæðan er kannski sú að þegar neyðarlögin voru sett var ekki búið að hugsa nægjanlega vel hvað yrði um gömlu bankana, enda var meginmarkmið laganna að tryggja hagsmuni almennings með samheldni í bankaþjónustu og hagsmuni innistæðueiganda með forgangi þeirra í þrotabú gömlu bankanna.

Þetta hefur leitt til þess að staða gömlu bankanna hefur verið nokkuð óskýr þar sem þeir halda bæði utan um lán sem eru í skilum og ættu að vera hjá venjulegum bönkum og léleg lán. Betra hefði verið að taka til hliðar í »bad bank« ónýtu og lélegu lánin, bæði Íslendsk og erlend, til að skýr skil hefðu verið milli þess sem þyrfti að afskrifa og venjulegrar bankastarfsemi. Með því að svipta gömlu bankana forréttindum sínum verður auðveldara að skattleggja þá og láta þá greiða kostnað ríkissjóðs við bankahrunið.

Seðlabankinn, Landsbanki, Arion banki og aðrir hafa metið snjóhengjuna á milli 800 og 1.200 milljarða og í versta tilfelli 1.400 milljarða (hagnaður viðskiptabankanna og vextir eru að bætast við). Erlendar eignir og gjaldeyrir í eigu þrotabúanna eru nú metin á að minnsta kosti 2.000 milljarða, gæti farið í 2.500 milljarða ef heimtur halda áfram að aukast. Það er mjög óskynsamlegt að vera sífellt að vanmeta þessar upphæðir. Frekar ætti að horfast í augu við að þessar tölur fara hækkandi og hanna lausnir á úrlausnarefninu í samræmi við stærð þess.

Öll erlend starfsemi gömlu bankanna hefur verið rekin áfram í þrotabúum þeirra með góðum árangri enda hafa endurheimtur verið mjög háar. Vel virðist hafa verið staðið að rekstri gömlu bankanna í höndum slitastjórna en nú er komið að því að koma þessum rekstri fyrir til framtíðar. Eðlilegt væri að þessi rekstur erlendra lánasafna yrði fluttur/seldur til nýju bankanna. Áður en slíkt væri gert væri rétt að slitastjórnirnar seldu nýju bankana.

Þegar venjulegt fyrirtæki verður gjaldþrota þá er rekstri oftast hætt (reksturinn kannski seldur) og félagið slitið. Eignir þess, ef einhverjar eru, skiptast milli kröfuhafa. Þetta var ekki gert við gömlu bankana, það má segja að þeir hafi verið settir í greiðsluskjól Fjármálaeftirlitsins sem tók við stjórn þeirra. Þessu var breytt á síðari stigum og nú má segja að þeir séu í nauðasamningaferli en það er einungis nýlega sem þeir voru sviptir viðskiptabankaleyfi. Gömlu bankarnir eru þó enn í »business« enda með um 200 starfsmenn (þar af gamli Landsbankinn stærstur með um 100 manns í vinnu).

Hvaðan komu þessar Íslendsku krónur sem verið er að tala um, snjóhengjupeningarnir? Erlendir aðilar sem stunduðu vaxtamunaviðskipti keyptu um 400 milljarða sem komu til Íslands fyrir hrun bankanna. Þessir »gömlu snjóhengjupeningar« (jöklabréf) hafa ávaxtast vel og eru þessir aðilar flestir búnir að innleysa hagnað sinn (milli 50% til 100% af upphaflegum höfuðstól), það sem eftir situr af »gömlu snjóhengjupeningunum« er óskattlagður hagnaður þeirra. Þær krónur sem hafa bæst við síðan 2008 eru peningar Íslendsks almennings og lífeyrissjóða sem keyptu hlutabréf í bönkunum, lán Seðlabanka Íslands til viðskiptabankanna og ekki síst 500 milljarða hagnaður af rekstri og óinnleystar hækkanir á virði eignasafna bankanna (heimildir eru bæði ársreikningar bankanna auk mat bankastarfsmanna).

Forréttindi eiga ekki að gilda um uppgjör gömlu bankanna, þau þarf að afnema strax. Íslendskt þjóðfélag er í greiðsluvanda í gjaldeyri nú þegar og það er ekki á það bætandi að reyna að greiða snjóhengjuna. Sé ekkert að gert værum við að horfa á greiðslufall, gjaldþrot Íslendskrar þjóðar í gjaldeyri. Lausn á þessum vanda er í reynd neyðarráðstöfun.

Ríkissjóður hefur tapað um 1.200 milljörðum frá því 2007, auk þess átti ríkið smá óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð, skuldaði íslenska ríkið 282 milljarða 2007 en nú um 1600 milljarða. Eðlilegt væri að við uppgjör á gömlu bönkunum fengi ríkissjóður þetta að fullu bætt. Það má búast við að gömlu bankarnir hafi til ráðstöfunar um 3.700 milljarða í eignum og myndu 40% afföll gera 1.480 milljarða í greiðslu til Ríkissjóðs (ef miðað er við þær tölur sem eru notaðar af SÍ, 2.700 milljarðar, myndu 40% afföll gera 1080 milljarða).

Ef horft er til efnahagsreiknings nýju Íslendsku bankanna og til þeirra greiðslna sem hafa nú þegar verið greiddar m.a. inn á Icesave þá væru þessi afföll um 20%. Önnur leið væri að skattleggja nýju og gömlu bankana um 10% af höfuðstól eigna sem gæfi um 650 milljarða í skatt. Setja skilaskyldu á allar gjaldeyriseignir gömlu bankanna og selja síðan þennan gjaldeyri með 40% útgönguskatti, þetta gæfi milli 760 og 950 milljarða í útgönguskatt. Samtals gæfi þetta milli 1410 og 1600 milljarða í einskiptis tekjur til ríkisins.

Þessi kostnaður á að dragast frá uppgjöri gömlu bankanna áður en kröfuhafar fá sitt.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband