Ábyrgð og úrræði í efnahagsmálum

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

  

Ábyrgð og úrræði í efnahagsmálum.

Fyrst birt á vef Evrópunefndar Sjálfstæðisflokks 11. janúar 2009.

Loftur Altice Þorsteinsson.

Þær efnahags-þrengingar sem Íslendsk þjóð gengur nú í gegnum, eru ekki náttúruhamfarir þótt sumir reyni að koma þeirri hugsum inn í huga fólks. Megin-orsökin er ekki "efnahags-bóla sem sprakk", "lausafjár-skortur bankanna", eða "mistök bankastjóra Seðlabankans". Þrátt fyrir að þessir þættir allir hafi komið við sögu, mega allir vita, að hagkerfi Íslands býr við kerfisvanda, sem var megin-orsök efnahags-hrunsins. Skiptigengi Krónunnar féll og þar með stöðugleiki alls hagkerfisins.

Öllum er frjálst að hafa sína skoðun á efnahagslegum stöðugleika. Ég þekki fólk sem telur að yfirstandandi kreppa sé nauðsynleg og geri sama gagn og hundahreinsun í baráttu við sullaveiki. Flestir eiga erfitt með að samþykkja þetta viðhorf og telja það ganga nærst hugleiðingum um sjálfsmorð.

Efnahagskreppur hafa gengið yfir öll samfélög og eru því alþjóðlegt fyrirbæri. Um þetta fyrirbæri hafa því margir hugsað og um það hafa verið ritaðar langar ritgerðir. Ekki er því úr vegi, að gefa gaum að nokkrum kjarnyrtum ummælum valinkunnra manna.

Karl August Fritz Schiller (1911 - 1994), sem var viðskiptaráðherra Þýðskalands 1966 til 1972 og jafnframt fjármálaráðherra 1971 til 1972, mun hafa sagt:

"Stöðugur gjaldmiðill er vissulega ekki allt, en án stöðugs gjaldmiðils er allt annað einskis virði."

Annar Þjóðverji að nafni Ludwig Wilhelm Erhard (1897 - 1977), sem 1963 til 1966 var forveri Schiller í embætti viðskiptaráðherra, hafði einnig skoðanir á efnahagsmálum, sem hugsanlega eiga erindi til okkar. Hann sagði:

"Við ættum ekki að láta eins og þekking á hagfræði sé einkaréttur einhverra sjálfskipaðra sérfræðinga, sem í valdi sértækrar vitneskju eða almennrar rökfimi þykjast allt vita. Nei, allir þegnar landsins verða að kunna skil á hagfræði-lögmálum og vera færir um að leggja mat á þau. Hér er um að ræða atriði sem varða stjórnarfar í landinu og stöðugleika efnahagslífsins. Þetta eru atriði sem skipta okkur öll miklu máli."

Skoðum einnig hvað Fritz Leutwiler (1924 - 1997), fyrrverandi bankastjóri seðlabankans í Svisslandi, hefur að segja um verðbólgu:

"Verðbólga hefur þá sérstöðu, að vera mikilvirkasta tæki hinna fáu ríku til að verða ríkari og hinna mörgu fátæku til að verða fátækari."

Þeir sem hafa sömu afstöðu til efnahagslegra kollsteypa og þeir erlendu menn sem að framan greinir, ættu að kynna sér hvaða möguleikar eru til að forðast slíkt. Lausnin er fólgin í að leggja niður Seðlabanka Íslands og taka upp þver-öfuga stefnu við peningastefnu hans. Slík stefna er útfærð undir stjórn Myntráðs og ef rétt er að málum staðið, er 100% öruggt að efnahagslegur stöðugleiki næst.

Þeir sem leggja trúnað á þessar fullyrðingar mínar, vilja eðlilega vita orsakir þess að seðlabanki og myntráð eru að flestu leyti andstæðir pólar. Eftirfarandi eru nokkrar þeirra spurninga sem koma við sögu.

  • Hver er munurinn á fljótandi gengi (floating exchange rate) og tylltu gengi (pegged exchange rate), sem eru aðferðir seðlabanka og hinsvegar föstu gengi (fixed exchange rate) sem er aðferð myntráðs ?

  • Hvers vegna skiptir máli, að gjaldmiðill lands hafi 100% bakstuðning af erlendum gjaldeyri ?

  • Hver er munurinn á torgreindri peningastefnu seðlabanka og reglu-bundinni peningastefnu myntráðs ?

Seðlabankar segjast hafa efnahagslegan stöðugleika að markmiði. Raunveruleikinn er sá, að oftar en ekki hella þeir olíu á eldinn. Úrræði þeirra eru verri en vandamálið. Til að halda gengi gjaldmiðilsins stöðugu, hefur Seðlabankinn tvær meginaðferðir. Annars vegar er genginu tyllt við myntkörfu eða sterkan gjaldmiðil og gefin fögur fyrirheit um að það sé nú fast. Hin leiðin er að láta gengið fljóta og trúa blint á, að gjaldeyris-markaður finni hið eina rétta gengi á hverjum tíma.

Báðar aðferðir seðlabankanna eru gagnslausar, þótt þær séu hættulausar þegar efnahagsumhverfið er rólegt. Um leið og eitthvað reynir á gjaldmiðilinn bregðast báðar aðferðir. Í raun eru báðar aðferðir flotgengi og eini munur þeirra er það útlit sem fall-ferill Krónunnar hefur. Á að láta fegurðarskyn ráða vali peningastefnunnar ?

Meginverkefni peningastefnu seðlabankanna er að þjóna pólitískum öflum en ekki efnahagslegum þörfum almennings. Enginn tekur mark á innistæðulausum yfirlýsingum seðlabanka um að gengið standi traustum fótum, enda vinna þeir sjálfir oftast einarðlega gegn yfirlýstum markmiðum. Með reglulegu millibili missa seðlabankar tökin á efnahagsmálunum og koma hagkerfunum á kaldan klakann. Óðaverðbólga tekur við af gengisfalli og almenningur fær að blæða fyrir mistökin.

Peningar í umferð eru ávísun á gjaldeyrisforða þess sem er útgefandi gjaldmiðilsins. Handhafar peninganna hafa veitt útgefandanum vaxtalaust lán. Gjaldeyrisforðinn er baktrygging gjaldmiðilsins og mikilvægt að sú baktrygging sé 100%, að öðrum kosti er gjaldmiðillinn of hátt skráður og hlýtur að lækka fljótlega. Með öðrum orðum, gengisfall stafar af eyðslu umfram tekjur, sem leiðir til neikvæðrar eignastöðu landsins. Gjaldeyrinn er hin raunverulega eign, ekki óljós loforð yfirvalda eða tilvísun í auðlindir í landinu.

Vilji menn í alvöru skapa stöðugleika í hagkerfi, er myntráð eina lausnin. Myntráð starfar eftir föstum ósveigjanlegum reglum, sem tryggja stöðugt og fast gengi gjaldmiðilsins. Viðfangsefni myntráðs er að gefa út gjaldmiðil landsins, til dæmis Íslendskan dollar (ISD) og varðveita stoð-mynt (anchor currency), sem í okkar tilfelli er eðlilegt að sé US-dollar (USD). Bezt er að hafa skiptihlutfallið 1 ISD = 1 USD, því að þannig verða öll viðskipti með báða gjaldmiðlana auðveld innanlands.

Heldsta ástæða þess að seðlabankar njóta ekki trausts, er sú að þeir fylgja svonefndri torgreindri peningastefnu (discretionary monetary policy). Í samræmi við þessa stefnu líta seðlabankar svo á, að það sé þeirra einkamál hvernig fjármálum þjóðarinnar er hagað. Öðrum kemur það hreinlega ekki við hvað seðlabankinn er að sýsla og það þykir kostur á þeim bæ, að koma almenningi á óvart.

Myntráð fylgja hins vegar stefnu sem nefnd er reglu-bundin peningastefna (rule-bound monetary policy). Einkenni þessarar stefnu er að allar reglur varðandi gjaldmiðilinn liggja fyrir og eru auðskiljanlegar. Viðskiptalífið ákveður til dæmis peningamagn í umferð og vaxtastigið ákveðst af vaxtastigi á myntsvæði stoðmyntarinnar. Við að halda genginu föstu, hættir gengisfall að bæta í verðbólguna og jafnframt stöðvast eignabruninn. Lánskjaravísitala verður óþörf, því að gjaldmiðillinn sjálfur tekur við af vísitölunni, sem verðmætatrygging.

Þeir sem vilja frekari upplýsingar um upptöku Íslendsks Dollars, með Myntráði og baktryggingu USD, geta fundið þær hér:

http://samstada-thjodar.blog.is/blog/samstada-thjodar/entry/1230005/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband