Fríverzlun við Bandaríkin fær óvæntan stuðning

 

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

  

Fríverzlun við Bandaríkin fær óvæntan stuðning.

Fyrst birt í Fréttablaðinu 23. marz 2013.

  

  

Birgir Þórarinsson.

Undirritaður flutti á Alþingi í október 2010 þingsályktun um fríverzlun við Bandaríkin.

Fríverzlun við Bandaríkin, stærsta hagkerfi heims, er mikið hagsmunamál fyrir Ísland. Í henni felast fjölmörg ný tækifæri fyrir neytendur, inn- og útflutning, fyrirtæki og fjárfestingar. 

Við undirbúning málsins átti ég meðal annars fund með ráðamönnum í Washington. Kom það vel í ljós að þeir voru áhugasamir um málið. Það var ekki síst þess vegna sem tillagan var flutt. Gat ég þess í umræðum á Alþingi að áhugi væri á málinu af hálfu Bandaríkjanna. Þrátt fyrir það náði tillagan ekki fram að ganga og skrifast það á áhugaleysi ríkisstjórnarflokkanna. Þeim hefur eflaust þótt það slæmt að draga athyglina frá ESB-umsókninni.

Nýverið kom fram í fjölmiðlum að utanríkisráðherra hefur skrifað hinum nýja utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, bréf þar sem hann óskar eftir aðkomu Íslands að væntanlegum fríverzlunarviðræðum Bandaríkjanna og ESB. Haft var eftir John Kerry að viðræðurnar yrðu ekki einskorðaðar við ríki ESB heldur einnig önnur ríki er tengjast Evrópsku samstarfi. Þetta verður ekki skilið á annan veg en að aðild að ESB skipti ekki höfuð máli í þessu sambandi. Þetta eru mikil tíðindi í ljósi fyrri orða um að gangi Ísland í ESB fáist fríverzlun við Bandaríkin í bónus. 

Utanríkisráðherra er þróttmikill og vaskur stjórnmálamaður og þá sérstaklega þegar kemur að málefnum ESB. Hann hefur ekki sleppt hendinni af ESB-umsókn Íslands þótt vaða hafi þurft eld og brennistein, heima og heiman.

Ég vil þakka utanríkisráðherra fyrir þann áhuga sem hann sýnir nú fríverzlunarsamningi við Bandaríkin. Það lítur hins vegar út fyrir að honum muni ekki endast pólitískt líf í ráðuneytinu til að ljúka málinu. Það hefur komið á daginn að Bandaríkin hafa áhuga á viðræðum við Ísland. Ráðherra hefði átt að styðja þingsályktun mína fyrir rúmum 2 árum, hefja tvíhliða viðræður við Bandaríkin og vera þar með á undan ESB. Það hefði komið honum á spjöld sögunnar. Ísland á fjölmörg sóknarfæri í alþjóðasamskiptum án Evrópusambandsins.

<<<>>><><<<>>>



Tillaga til þingsályktunar


um fríverzlun við Bandaríkin.

19.október 2010.

Flutningsmenn: Birgir Þórarinsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Jón Gunnarsson,
Ásmundur Einar Daðason, Árni Johnsen, Gunnar Bragi Sveinsson.


Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að óska eftir viðræðum við ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku um gerð tvíhliða fríverzlunar-samnings milli Íslands og Bandaríkjanna.

Greinargerð.

Það er lykilatriði í endurreisn Íslendsk efnahagslífs að tryggja Íslendskum fyrirtækjum bestu mögulegu viðskiptakjör. Tollfrjáls aðgangur að einum stærsta markaði heims, Bandaríkjamarkaði, er mjög mikilvægur í þessu sambandi. Með tilkomu fríverslunarsamnings við Bandaríkin mundu Bandarískar vörur lækka í verði til hagsbóta fyrir Íslendska neytendur og fyrirtæki. Sóknarhagsmunir Íslands liggja í því að tryggja greiðan aðgang að Bandaríkjamarkaði fyrir útflutningsvörur, sérstaklega fiskafurðir og iðnaðarvöru. Sú grundvallarbreyting hefur orðið undanfarin ár að hagsmunir Íslands liggja ekki einungis í verzlun með sjávarafurðir heldur hefur Ísland verulegra hagsmuna að gæta á nánast öllum sviðum og ekki síst hvað varðar hátækni, lyf og þjónustu.

Fríverzlunarsamningur við Bandaríkin felur í sér mikil tækifæri fyrir Íslendskar landbúnaðarvörur. Má þar helstar nefna lambakjöt, skyr og osta enda hafa téðar vörur verið á boðstólnum í Bandaríkjunum um nokkurra ára skeið og hafa fengið þar mjög góðar viðtökur. Lækkun smásöluverðs til Bandarískra neytenda, í gegnum tollaívilnanir, ætti að skila sér í aukinni sölu sem leiða mundi til aukinnar framleiðslu Íslendskra landbúnaðarvara.

Bandaríkin hafa gert fríverzlunarsamninga við 17 ríki og á meiri hluti þeirra það sammerkt að teljast smá. Ísland er lítið land í samfélagi þjóðanna og af þeim sökum ætti landið að falla vel að samningamódeli Bandaríkjanna og góðar líkur vera á að samningar takist.

Það er eðli fríverzlunarsamninga að þeir eru gagnkvæmir en í því felst m.a. að báðir aðilar telja sig hafa hag af því að gera slíka samninga. Hagur Bandaríkjamanna yrði ekki síst sá að þeir gætu nýtt Ísland sem umskipunarhöfn fyrir flutninga á Evrópumarkað. Lega landsins gæti þannig orðið til þess að Ísland yrði milliliður fyrir viðskipti milli Bandaríkjanna og meginlands Evrópu. Þá gæti einnig orðið hagkvæmt að flytja hálfunnar vörur frá Bandaríkjunum til Íslands, fullvinna þær hér á landi og selja í öðrum Evrópulöndum. Ef löndin ná samningum um sk. upprunareglur gætu fjölmörg störf skapast hér á landi í tengslum við samninginn. Á Suðurnesjum mundi til að mynda nálægð við alþjóðaflugvöll og höfnina í Helguvík gegna mikilvægu hlutverki.

Viðræður milli landa við gerð fríverzlunarsamninga taka oft langan tíma. Það er þó ekki algild regla en orð eru til alls fyrst. Ef pólitískur vilji er til staðar af beggja hálfu ættu viðræður og staðfesting samnings að taka tiltölulega skamman tíma. Í þessu samhengi þarf að hafa hraðan á við afgreiðslu þingsályktunartillögunnar á Alþingi. Hafa ber í huga að fari svo að Ísland gangi í Evrópusambandið(?), mun Ísland eitt og sér hafa skerta heimild til að gera tvíhliða fríverzlunarsamninga og yrðu slík samningagerð fyrir landsins hönd á könnu Evrópusambandsins.

Hugmyndin um fríverzlunarsamning við Bandaríkin er ekki ný af nálinni. Könnunarviðræður fóru fram á vettvangi EFTA fyrir nokkrum árum en þær skiluðu ekki tilætluðum árangri. Margt hefur hins vegar breyzt á þeim tíma sem liðið hefur og er ástæða til að ætla að viðhorf Bandaríkjamanna séu jákvæðari núna en þau voru þá. Teikn eru á lofti um að þeir vilji bæta samskipin milli landanna en þau hafa heldur minnkað frá því að varnarliðið hvarf af landi brott. Við þetta má einnig bæta að utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton, gat þess m.a. sérstaklega í sjónvarpsávarpi til Íslendinga 17. júní sl. að Íslendingar gætu reitt sig á trausta vináttu og stuðning Bandaríkjamanna í þeim efnahagserfiðleikum sem að steðja.

Að jafnaði hafa fulltrúar atvinnulífsins á Íslandi með atbeina utanríkisráðuneytisins haft frumkvæði að gerð fríverzlunarsamninga. Skýr viljayfirlýsing Alþingis í þessum efnum er mikilvæg og vegur þungt. Hana mætti túlka sem ósk um stuðning vegna mikilla efnahagserfiðleika. Stuðning sem grundvallast á áratuga vináttu og gagnkvæmum viðskiptum á sama tíma. Á slíkum forsendum mætti nálgast viðræður eða einstaka þætti samningsgerðar.

Leita ber allra leiða til þess að styrkja stoðir Íslendsk efnahagslífs á erfiðum tímum. Fríverzlunarsamningur við Bandaríkin ætti að skapa framtíðarmöguleika, ný og eftirsóknarverð tækifæri á fjölmörgum sviðum. Af þeim sökum fjallar þingsályktunartillagan um tækifæri sem Alþingi á að hafa frumkvæði að því að nýta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband