Sjálfstæðisflokkur vill koma á alvöru fastgengi með Kanadadal og myntráði

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.
 
 

Sjálfstæðisflokkur vill koma á alvöru fastgengi með Kanadadal og myntráði.

Birt í Morgunblaðinu 28. febrúar 2013.

 

 

  

Loftur Altice Þorsteinsson.

Telja verður til mikilla tíðinda, að Sjálfstæðisflokkur er að taka forustu um mótun þjóðhollrar peningastefnu fyrir Ísland. Í nær 100 ár hefur »torgreinda peningastefnan« (discretionary monetary policy) valdið öllum almenningi ómældum skaða. Flotgengi hefur verið notað kerfisbundið til að færa fjármuni frá almenningi til höfðingjastéttarinnar. Aukaafurðir þessarar stefnu eru reglubundnar gengisfellingar, viðvarandi verðbólga, eignabruni og hækkanir húsnæðisskulda. Að auki býr þjóðin núna við gjaldeyrishöft og yfirvofandi snjóhengju erlendra hrægamma-sjóða, sem rekja má beint til peningastefnunnar.

Til undirbúnings Landsfundar Sjálfstæðisflokks í lok febrúar 2013, var sett á fót Efnahags- og viðskiptanefnd sem nú hefur skilað tillögum sínum um peningastefnu, sem nefndin vill að Sjálfstæðisflokkur berjist fyrir að tekin verði upp á Íslandi. Nefndin færir sterk rök fyrir upptöku fastgengis, sem hagkvæmast er að innleiða með tafarlausri upptöku Kanadadals sem lögeyri og taka upp innlendan Ríkisdal undir stjórn myntráðs, til dæmis 12 mánuðum síðar.

Heldstu tillögur Efnahags- og viðskiptanefndar:

  1. Íslendska krónan í höftum getur ekki verið framatíðargjaldmiðill þjóðarinnar ef stefnt er að því að Íslendingar eigi kost á því að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni og afla þjóðinni tekna á alheimsmarkaði. Nú, fimm árum eftir að gjaldeyrishöft voru sett á „til bráðabirgða“ og engin trúverðug lausn hefur verið sett fram um afnám þeirra, er nauðsynlegt að Sjálfstæðisflokkurinn taki forystu um að kannaðir verði til þrautar allir möguleikar fyrir Ísland í gjaldeyrismálum.

  2. Landsfundur telur að Sjálfstæðisflokknum beri skylda til þess að setja afnám gjaldeyrishafta efst á forgangslista komist hann í ríkisstjórn. Til þess að svo megi vera telur landsfundur rétt að hafist verði handa við undirbúning um að taka í notkun alþjóðlega mynt á Íslandi í stað Íslendsku krónunnar. Alþjóðlegar myntir sem til greina gætu komið fyrir Ísland eru meðal annars Bandaríkjadalur, evra, Sterlingspund, norsk króna og Kanadadollar.

  3. Landsfundur telur eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn kanni sérstaklega þau kjör og valkosti sem bjóðast við upptöku Kanadadollars og Bandaríkjadals. Mjög ólíklegt er að útgáfulönd þessara mynta setji sig upp á móti því að Íslendingar notist við þeirra mynt. Sérstaklega ber að kanna möguleikann á vilja Kanadamanna til samstarfs og stuðnings við slíka gjaldmiðlabreytingu.

  4. Landsfundur leggur áherslu á að með því að skipta út Íslendsku krónunni gefst Íslendskum fyrirtækjum í raun algjört frelsi um hvaða gjaldmiðill henti best miðað við rekstur þeirra. Þar með væri gríðarlega kostnaðarsamri óvissu í Íslendsku viðskiptalífi eytt.

  5. Landsfundur telur að stöðugleiki í efnahagsmálum sé nauðsynleg forsenda kraftmikillar uppbyggingar í atvinnulífinu og verðmætasköpunar. Viðvarandi hallarekstur ríkissjóðs, háir vextir og óstöðugur gjaldmiðill í höftum hefur í för með sér mikinn kostnað fyrir atvinnulíf og bitnar sérstaklega á nýsköpun og nýfjárfestingu.

  6. Landsfundurinn áréttar að verðtryggingin er afsprengi slakrar peningastefnu á Íslandi í marga undanfarna áratugi. Til þess að unnt sé að draga úr vægi hennar, án þess að vaxtastig hækki umtalsvert, þarf að vera til staðar traust á gjaldmiðlinum. Ekki verður framhjá því litið að upptaka alþjóðlegrar myntar myndi gera verðtrygginguna óþarfa og um leið lækka vaxtabyrði og óvissu lánþega á Íslandi.

Um þessar tillögur var algjör samstaða nefndarmanna í Efnahags- og viðskiptanefnd. Formaður Sjálfstæðisflokks, sá sem lagði »ískalda matið« á síðasta Icesave-samning ríkisstjórnarinnar, sá samstundis ástæðu til að mótmæla upptöku alvöru fastgengis. Þessum manni þykir fátt skemmtilegra en að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar. Væri ekki ráð, að hann og aðrir þeir sem vildu að þjóðin beygði sig fyrir Icesave-kröfunum, létu af setu á Alþingi? Landsfundur Sjálfstæðisflokks mun fella harðan dóm yfir því fólki sem gekk til liðs við núverandi ríkisstjórn við að koma Icesave-klafanum á Íslendinga.

Bjartari tímar eru framundan ef landsmönnum ber gæfa til að taka rökrétta ákvörðun um peningastefnu til framtíðar. Alvöru gjaldmiðill er nauðsynleg undirstaða alvöru efnahagskerfis. Blekkingariðja í skjóli »torgreindrar peningastefnu« er á góðri leið með að eyðileggja hagkerfi Vesturlanda. Á sama hátt og Íslendingar afhjúpuðu Icesave-lygarnar, stendur okkur nærri að afhjúpa núgildandi peningastefnu, sem ekki verður betur lýst en sem lygum og blekkingum. Sjálfstæðisflokkur getur leyst þetta verkefni með sóma og Ísland orðið fyrirmynd annara ríkja.

<<>>



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband