Hugleiðingar um stjórnarfar og stjórnarform

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.
 
 

  

   
Hugleiðingar um stjórnarfar og stjórnarform.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 14. desember 2012.

 

Ámundi Loftsson.

Minnkandi traust almennings á stjórnmálaflokkum verður sífellt sýnilegri veruleiki. Þeir eru fórnarlömb eigin valdagræðgi og spillingar. Ógæfa þeirra liggur að stærstum hluta í því að við upphaf lýðveldis náðu þeir til sín því hlutverki forsetans sem lýtur að skipun framkvæmdavaldsins. Í stað þess að forsetinn skipi framkvæmdavaldið eins og stjórnarskráin kveður á um hefur sú hefð komist á, að forsetinn framselji það hlutverk sitt til stjórnmálaflokka.

Með því hefur þrískipting valdsins verið rofin og í stað þess að ríkisstjórn heyri undir forsetann og sé þannig aðskilin frá löggjafarvaldinu hafa ráðamenn stjórnmálaflokkanna skipað ríkisstjórnir úr eigin röðum. Þingmenn viðkomandi flokka tryggja svo völd þeirra og stöðu.

Stjórnmálaflokkarnir hafa þannig náð undir sig framkvæmdavaldinu og löggjafarvaldinu að mestu líka þar eð sá meirihluti þingsins sem styður sitjandi stjórn hefur í hendi sér hvaða mál ná fram að ganga á Alþingi. Þetta fyrirkomulag er í daglegu tali nefnt flokksræði og á ekki neina stoð í stjórnarskrá okkar og í stað þess að þjóðin búi við þingbundna stjórn eins og Stjórnarskráin kveður á um situr hún uppi með stjórnbundið þing sem hefur litla möguleika á að sinna hlutverki sínu.

  

Þingræði er brot á stjórnarformi landsins.

Óttinn við að komast ekki í ríkisstjórn ræður oftar en ekki ferðinni þegar að myndun þeirra kemur. Samningamakk flokkanna um framgang stefnumála þeirra klýfur þá iðulega í andstæðar fylkingar og undirleggur af innbyrðis átökum. Um þetta hefur verið skrifaðar fjöldi bóka, nú síðast ein af Styrmi Gunnarssyni.

Í þessu fyrirkomulagi liggur stærsta mein stjórnmálanna og hvergi er neitt að finna í stjórnarskrá okkar um að afmarkaður meirihluti kjörinna fulltrúa á Alþingi myndi og verji ríkisstjórn, enda andstætt grundvallarhugmyndinni um aðskilnað valdsins.

Glöggt dæmi um pólitíska valdabaráttu er þegar Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi fyrir rúmum 30 árum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei orðið samur aftur og pólitískur ávinningur þjóðarinnar af þessu brölti var minni en ekki neinn, hvorki í bráð né lengd.

Dæmin eru líka nær í tíma, þar sem ráðamenn flokka hafa fært ótrúlegar fórnir af stefnumálum þeirra í þeim eina tilgangi að tryggja sér tímabundin völd.

 

Sjálfstæði þjóðarinnar fórnað fyrir veizluhöld VG-forustunnar.

Vinstri hreyfingin - grænt framboð ákvað að sækja um aðild Íslands að Evrópusambandinu þvert ofan í meginstefnu sína og gegn meirihluta-vilja þjóðarinnar til þess eins að tryggja sér aðild að ríkisstjórn. Með því reif flokkur sem hafði byggt upp stefnu sína af metnaði og eljusemi sjálfan sig á hol með afar fyrirsjáanlegum afleiðingum, enda hefur fjöldi rótgróinna félagsmanna yfirgefið hann.

Eftir situr svo fámennur hópur að hann getur ekki mannað þau ráðuneyti sem hann þó fékk í sinn hlut og situr formaðurinn einn í ráðuneyti atvinnuvega sem var í þremur ráðuneytum áður. Niðurstaðan er hruninn flokkur, rúinn trausti og fylgi og sjálfstæði þjóðarinnar er í stórhættu.

Engum ætti að dyljast hve þetta fyrirkomulag er afleitt og hvernig átökin innan stjórnmálaflokkanna og á milli þeirra hafa skaðað þá sjálfa, eitrað alla þjóðfélagsumræðu í landinu og gert stjórnmálalífið hatursfullt, spillt og máttvana.

 

Skal góðri stjórnarskrá fórnað á altari flokksræðisins ?

Okkur er sagt, að þessu vilji þjóðin breyta og nú hefur átt sér stað ferli sem lýtur að setningu nýrrar stjórnarskrár þar sem því hefur m.a. verið komið inn hjá hluta þjóðarinnar, að efnahagshrunið 2008 hafi orðið vegna þess að stjórnarskrá okkar sé óskýr og ófullkomin.

Reyndin er þó önnur. Texti stjórnarskrárinnar er eins skýr og heiður himinn og hrunið 2008 tengist henni á þann eina hátt að hún hefur ekki verið virt og í stað þess lýðveldis- og lýðræðisfyrirkomulags sem hún hefur að geyma sat þjóðin uppi með flokksræði sem hin hefðar-helgaða þingræðisregla leiddi af sér og endaði með hruni og búsáhaldabyltingu.

En byltingar éta börnin sín og enn er makk á Alþingi. Í fyrstu grein frumvarps Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá segir að á Íslandi skuli vera þingræðisstjórn. Samkvæmt því á Alþingi, hér eftir sem hingað til, að skipa framkvæmdavaldið og þar með verður flokksræðið endanlega innrammað. Nái það mál fram að ganga hefur byltingin enn einu sinni étið börnin sín og þjóðin verður áfram fjötruð í stjórnarháttum sem hún öðru fremur vill losna undan.

  
 

Stjórnmálaflokkarnir eru fórnarlömb eigin valdagræðgi og spillingar.

Í stað þess að forsetinn skipi framkvæmdavaldið eins og stjórnarskráin kveður á um,

hefur sú hefð komist á að forsetinn framselji það hlutverk sitt til stjórnmálaflokka. 


>>>><<<<


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband