20.6.2012 | 14:10
Tryggjum að »Frankenstein IV« fari sneypuför til Bessastaða
Birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. júní 2012. Daníel Sigurðsson.Hrollvekjandi er til þess að vita að enn ein Icesave-afturgangan, »Frankenstein IV«, skuli vera komin á teikniborð stjórnarráðsins og það í þeim tilgangi einum að lappa uppá ásýnd ríkisstjórnarinnar en ekki afturgöngunnar. Til að sú andlitsförðun gangi eftir þarf ríkisstjórnin þó fyrst að sjá til þess að Íslendingar tapi málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Ráðning þeirra tveggja lögmanna - annar breskur! - sem halda eiga uppi vörnum Íslands, bendir til að ríkisstjórnin muni hreint ekki sýta það.Uggvekjandi furðuviðtal við hinn lögmanninn - en sá sat í samninganefndunum í Icesave-málinu - virðist staðfesta þetta (Spegill RÚV 14.12.sl.). Þar harmar hann sáran að Íslendingar skyldu ekki hafa borið »gæfu til« að samþykkja Icesave III við Breta og Hollendinga í fyrra. M.ö.o. lýsir þessi málpípa ríkisstjórnarinnar því yfir að ríkisstjórnin sé þegar búin að ákveða að málið tapist fyrir EFTA-dómstólnum auk þess að loka augunum fyrir því að með samþykki Icesave III væri þjóðarbúið nú þegar búið að tapa í óafturkræfar vaxtagreiðslur um 100% hærri fjárhæð en Já-kór ríkisstjórnarinnar skrökbásúnaði fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna að væri yfir höfuð mögulegt og það jafnvel allt til loka samningstímabilsins árið 2046!!!Í viðtalinu bítur svo lögmaðurinn höfuðið af skömminni er hann tjáir sig um það með eftirfarandi hætti hvernig beri að bregðast við eftir að EFTA-málið hefur tapast:
Það liggur sem sé fyrir að ríkisstjórnin ætlar sér í framhaldinu að grátbiðja brezk og hollendsk stjórnvöld að setjast enn á ný að samningaborði um nýja hrollvekju, Icesave IV, til að tryggja að málið fari ekki fyrir Hæstarétt Íslands og geri þar með uppreistaráform hennar að engu.Ríkisstjórnin grátbiður nýlenduveldin um Icesave-IV-samninga.Ekki síst í ljósi hinna stórmerku tíðinda sem bárust hér á dögunum um að hvorki Bretar né Hollendingar taki undir annan meginhlutann í stefnu ESA gegn Íslendingum í Icesave-málinu (en sá hluti snýr að meintri mismunun Íslendinga gagnvart innistæðueigendum utan Íslands), yrði það þvert á móti af Íslands hálfu að teljast óðs manns kolbrjálæði að biðja B&H enn á ný um samninga.Því er ljóst að þó svo ríkisstjórnin tapi málinu fyrir Íslands hönd fyrir EFTA-dómstólnum þá mun B&H ekki hafa nokkurn áhuga á því að hefja skaðabótamál á hendur Íslendingum fyrir meinta mismunun heldur einungis vegna brota á ímyndaðri meintri ríkisábyrgð sem engin lagastoð er fyrir.Æ fleiri málsmetandi lögfræðingar halda því fram að engin ríkisábyrgð sé fyrir hendi í lögunum (Tilskipun 94/19/EB) og þar með talinn hinn mikilsvirti þýski lögfræðingur í Evrópurétti Tobias Fuchs, sem rökstyður í stórmerkri grein, lið fyrir lið, sem hann skrifaði í þýska lögfræðitímaritið Europäischer Wirtschafts- und Steuerrecht (EWS, 8. tbl. 2011) að Íslendingum beri engin lagaleg skylda að greiða Icesave-kröfu B&H.Ríkisstjórnin hefur ekki áhuga á stuðningi við málstað Íslands.Vitaskuld hefur ekkert »Já við Icesave«-ráðuneytanna séð ástæðu til að fá þessa þýsku grein þýdda. Ég hef nú tekið af þeim ómakið og naut ég til þess aðstoðar sérfróðra manna ekki síst varðandi hin þýðsku lögfræðilegu hugtök og vísa ég hér með á greinina á bloggsíðu minni:http://dansig.blog.is/blog/dansig/entry/1245299Samfylkingin bindur nú örvæntingarfullar vonir við að vinsæl sjónvarpssnót úr hennar ranni, Þóra nokkur Arnórsdóttir, bróðurdóttir Jóns nokkurs Baldvins Hannibalssonar, verði í fyllingu tímans komin með heimilisfesti að Bessastöðum. Af yfirlýsingum Þóru er ljóst að hún mun sem forseti ekki beita málskotsréttinum gagnvart víðtækum meirihluta Alþingis né utanríkisstefnu ríkisstjórnar. Þar með er ljóst að ekki mun standa á henni sem forseta að þýðast hinn nýja uppvakning, »Frankenstein IV«, þegar hann ber þar að dyrum eftir að hafa riðið húsum á Alþingi og knúið þingheim til uppgjafar og fylgilags við sig.Ríkisstjórnin stefnir að þjóðarkönnun um ESB-innlimun.Því miður er einnig ljóst að þessi annars viðkunnanlega kona muni sem forseti tryggja að Samfylkingin muni í fyllingu tímans komast upp með að marglofuð þjóðaratkvæðagreiðsla um inngöngu í ESB verði aðeins ráðgefandi en ekki skuldbindandi fyrir ríkisstjórnina.Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra upplýsti á Alþingi þann 18. júní 2009 að stefna ríkisstjórnarinnar væri að halda einungis ráðgefandi þjóðaratkvæði um hugsanlegan samning um inngöngu í Evrópusambandið en ekki bindandi. Samfylkingin bætti svo um betur með því að véla fram meirihluta á Alþingi fyrir því að tillaga um að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði bindandi var felld.Núverandi forseti mun aldrei láta stjórnvöld komast upp með slíkt heldur þvert á móti tryggja með málskotsréttinum að þjóðin fái að eiga síðasta orðið, kjósi hún hann áfram sem forseta.Ríkisstjórnin ætlar að grátbiðja brezk og hollendsk stjórnvöld,að setjast enn á ný að samningaborði um nýja hrollvekju, Icesave IV,til að tryggja að málið fari ekki fyrir Hæstarétt Íslands. |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt 1.7.2012 kl. 09:16 | Facebook