Forsetinn er umboðsmaður almennings - ekki strengjabrúða höfðingjanna

 

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi

   og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 
 

  

   

Forsetinn er umboðsmaður almennings - ekki strengjabrúða höfðingjanna.

Birtist fyrst í Morgunblaðinu 02. júní 2012.


   
 

Loftur Altice Þorsteinsson.

Engu máli skiptir hvernig þingræðissinnar rembast við staurinn, stjórnarskrá Íslands er stjórnarskrá lýðveldis, en ekki höfðingjaveldis. Af því leiðir að forsetinn er ómissandi þáttur í stjórnkerfi landsins, sem umboðsmaður fullveldishafans – almennings. Lýðveldi er raunar ekki starfhæft án forseta. Þeir sem tala um að leggja niður embætti forsetans eru að hrópa eftir afnámi lýðveldis og þeir hrópa fyrir daufum eyrum þjóðarinnar.

Þegar almenningur fekk fullveldisréttindi í hendur 1944, var skýrt að þingræði var ekki til umræðu. Einungis þráseta höfðingjaætta hefur megnað að afskræma stjórnarfar landsins, þótt stjórnarformið sé fullkomlega ljóst. Þingræðissinnar reyna að efna til úlfúðar með þjóðinni og tala um forsetaræði út um annað munnvikið, en lýðræði út um hitt. Raunar eru hvorki þingræði né forsetaræði hugtök Stjórnarskrárinnar. Stjórnmálaflokkarnir eru ekki heldur nefndir þar á nafn, þótt þeir séu aðalstöðvar höfðingjaveldisins. Gaspur um óskrifaða stjórnarskrá er einkennandi fyrir þingræðissinna.

Nærstu Alþingiskosningar verða uppgjör við andstæðinga lýðveldisins.

Kosningarnar 30. júní 2012 standa um framangreind deiluefni. Mun þjóðin standast atlögu þingræðissinna ? Mun þjóðin verja sína stjórnarskrá, stjórnarform lýðveldis og stjórnarfar lýðræðis ? Mun takast að bægja frá kjölturökkum Evrópusambandsins, sem aðhyllast framandi hugmyndafræði og eiga enga ósk heitari en að Ísland lúti erlendu valdi ?

Ef þjóðin hefur eitthvað að óttast, þá er það ofurvald stjórnmálaflokkanna. Þess vegna verður forsetinn að hafa djörfung til að setja höfðingjunum nauðsynlegar skorður. Forsetinn hefur ekki bara vald til að vísa lagafrumvörpum í þjóðaratkvæði samkvæmt 26. greininni. Hann hefur einnig heimildir til að senda óhæfa ráðherra í endurhæfingu og að kalla til Alþingiskosninga þegar þolinmæði almennings er þrotin. Þegar öllu er á botninn hvolft, var Efnahagshrunið í boði Alþingis og langt er frá að Landsdómur hafi lokið nauðsynlegum störfum.

Byltingin í Franklandi 1789 var ekki bara valdauppgjör, heldur miklu fremur hugmyndafræðileg tímamót. Hugmyndir Aristóteles (384-322 fX) og Jean Bodin (1530-1596) um stjórnarform og stjórnarfar voru lifandi veruleiki fyrir öllum almenningi. Engu skipti að báðir þessir fornu fræðimenn voru stuðningsmenn einveldis, en ekki þess lýðveldis sem þeir lögðu fræðilegan grunn að. Höfðingjarnir í Franklandi voru gerðir höfðinu styttri, en á Íslandi árið 2012 er það ekki nauðsynlegt. Kosningaréttur okkar bítur jafn vel og fallöxin gerði á dögum Franknesku byltingarinnar.

Auka verður fullveldisréttindi almennings.

Meginmarkmið yfirstandandi umræðu um stjórnarskrá Íslands þarf að snúast um að færa aukin fullveldisréttindi í hendur almennings, fullveldishafans sjálfs. Mörg fullveldisréttindi eru þess eðlis að áður fyrr var auðveldara að fela þau í hendur kjörinna fulltrúa, en að þau væru í höndum fullveldishafans. Að fela einhverjum að fara með vald er auðvitað ekki sama og valdaafsal. Eftirfarandi fullveldisréttindi hefur fullveldishafinn í lýðveldum og er þó ekki tæmandi listi:

  1. Setur stjórnarskrá og breytir henni.

  2. Kýs forseta sem sérstakan umboðsmann fullveldishafans.

  3. Kýs löggjafarvaldið, Alþingi.

  4. Kýs æðstu embættismenn ríkisins.

  5. Hefur endanlegt vald um lagasetningu, í þjóðaratkvæði.

  6. Hefur endanlegt vald um aðild ríkisins að alþjóðlegum samtökum.

  7. Tekur ákvörðun um peningastefnu, með ákvæðum í stjórnarskrá.

  8. Setur skorður við óhóflega skattheimtu, með ákvæðum í stjórnarskrá.

  9. Kýs dómara í Hæstarétt.

  10. Kýs dómara í Stjórnarskrárdómstól.

  11. Kýs dómara í Landsdóm.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur traustan feril sem forseti lýðveldisins.

Skoðanakannanir hafa sýnt að einungis tveir frambjóðendur hafa verulegt fylgi meðal kjósenda. Val landsmanna er auðvelt, því að við vitum fyrir hvað sitjandi forseti stendur og við þekkjum of vel boðskapinn frá Brussel. Varla hefur nokkur þjóðhollur Íslendingur áhuga á að spila Rússneska-rúlettu með fullhlaðna byssu.

Uppruni og eðli fulltrúa Samfylkingarinnar er ekkert leyndarmál, þótt hjúpaður sé fjölmiðlaskrauti. Ríkisstjórnin hefur séð til þess að Icesave-kúgunin er ekki horfin. Ennþá er ástæða til að hafa áhyggjur af hótunum Samfylkingarinnar um innlimun Íslands í Evrópusambandið og ennþá er Stjórnarskráin ekki komin í skjól fyrir harðri árás þessara kjölturakka erlends valds.

Ólafur Ragnar hefur markað spor í sögu landsins, með því að vera fulltrúi almennings, eins og Stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Fyrri forsetar hafa allir brugðist trausti og reynst vera strengjabrúður höfðingjaveldisins. Frambjóðandi Samfylkingarinnar heldur fram þeirra fjarstæðu, að forseti sem samþykkir öll lagafrumvörp í andstöðu við almenning sé sameiningartákn. Að sjálfsögðu er pólitísk afstaða fólgin í samstöðu með höfðingjunum. Forsetar landsins hafa allir verið mjög pólitískir, en núna eigum við kost á forseta til nærstu fjögurra ára sem hefur sannað hollustu sína við Lýðveldið.

Forsetinn hefur heimildir til að senda óhæfa ráðherra í endurhæfingu og að kalla til Alþingiskosninga þegar þolinmæði almennings er þrotin.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband