Krafist er þjóðaratkvæðis um aðild að ESB - þjóðarkönnun nægir ekki

 

  
  
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi

   og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 
 
  
   

    

Krafist er þjóðaratkvæðis um aðild að ESB - þjóðarkönnun nægir ekki.


Birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. apríl 2012.

 
 


Loftur Altice Þorsteinsson.

                                 
Þjóðaratkvæði, sem er bindandi og endanlegur úrskurður fullveldishafans, er eitt af mikilvægustu fullveldisréttindunum í lýðveldum. Þjóðarkönnun er hins vegar ekki fullveldisréttindi, heldur eitt af tækjum höfðingjaveldis til að blekkja almenning. Þjóðaratkvæði er ákvörðun, en þjóðarkönnun er bara álit.
  

Þingræðissinnar nefnast þeir sem aðhyllast höfðingjaveldi, ofurvald stjórnmálaflokkanna og afnám lýðveldis. Þeir hafa gjarnan uppi hótanir um að leggja niður embætti forseta Lýðveldisins, en forseti er ómissandi hluti þess stjórnarforms sem nefnist lýðveldi. Þingræðissinnarnir í ríkisstjórn Íslands hafa engin áform um að halda þjóðaratkvæði um innlimun landsins í Evrópusambandið. Ætlun þeirra er að þjóðarkönnun verði látin nægja, enda geta þeir þá hæglega sniðgengið niðurstöðuna.

  

Í núgildandi stjórnarskrá þjóðarinnar er getið þriggja tilvika sem leitt geta til þjóðaratkvæðis og varða þau: uppsögn forsetans (11. grein), staðfestingu lagafrumvarpa (26. grein) og breytta kirkjuskipan (79. grein). Engar almennar heimildir eru í Stjórnarskránni um þjóðaratkvæði og þá ekki frekar um þjóðarkannanir, enda teljast kannanir ekki til fullveldisréttinda.

  

Nú gæti einhver í barnaskap sínum álitið, að engu máli skipti hvort um ESB-málið verði haldið þjóðaratkvæði eða þjóðarkönnun. Getur Alþingi ekki farið eftir niðurstöðu þjóðarkönnunar, eins og því er skylt að gera með niðurstöðu þjóðaratkvæðis ? Staðreyndin er sú að Alþingi er ekki heimilt að fara eftir niðurstöðu þjóðarkönnunar og um það tekur Stjórnarskráin af allan vafa. Þetta kemur fram í 48. grein Stjórnarskrárinnar, en þar segir:

  

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.

  

Auðvitað getur það skeð að skoðanir fullveldishafans og Alþingis fari saman, en mismunandi afgreiðsla þings og þjóðar á Icesave-kröfum nýlenduveldanna markaði spor sem ennþá hræða. Hægt er að fullyrða að þingræðissinnarnir í ríkisstjórn munu ekki fara að vilja almennings, ef þjóðarkönnun verður gerð um afstöðu til ESB-aðildar og innlimun landsins hafnað.

  

Samningur ríkisstjórnarinnar við Evrópusambandið verður ekki afgreiddur af Alþingi sem lagafrumvarp, heldur sem þingsályktun. Þar með sneiðir samningurinn hjá þjóðaratkvæði, því að þingsályktanir þurfa ekki undirskrift forsetans til að taka gildi. Hugmyndasmiðir Samfylkingarinnar hafa fyrir löngu gert uppdrátt af þessari málsmeðferð. Liður í undirbúningi þingræðissinna var setning laga 91/2010 um framkvæmd þjóðaratkvæða og þjóðarkannana. Svo segir í 1. grein:

     

Álykti Alþingi að fram skuli fara almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni eða lagafrumvarp fer um framkvæmdina samkvæmt lögum þessum. Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu er ráðgefandi. Lögin gilda einnig um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu sem fer fram skv. 3. mgr. 11. gr., 26. gr. og 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar.

  

Þarna getur að líta verulega annmarka sem eru til þess fallnir að rugla skilning fólks. Hugtökunum þjóðaratkvæði og þjóðarkönnun er hvoru tveggja gefið heitið þjóðaratkvæðagreiðsla. Skýrt kemur þó fram að ályktun Alþingis getur einungis leitt til þjóðarkönnunar, sem nefnt er »ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla« til aðgreiningar frá þjóðaratkvæði sem nefnt er þjóðaratkvæðagreiðsla. Jafnframt er gefið í skyn að Alþingi geti ákveðið atkvæðagreiðslu sem hvorki er almenn né leynileg.

  

Alvarlegasti ágalli laga 91/2010 er þó, að þau beinlínis brjóta gegn hugsun Stjórnarskrárinnar. Fram kemur að Alþingi getur sett lagafrumvörp í þjóðarkönnun og »niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu er ráðgefandi«. Nú er það svo að lagafrumvörp sem hlotið hafa samþykki Alþingis halda áfram að vera frumvörp þar til forsetinn hefur undirritað þau eða hafnað undirskrift. Undir ákvæði laga 91/2010 geta því fallið frumvörp sem forseti myndi að öðru jöfnu vísa til þjóðaratkvæðis. Alþingi getur þannig tekið synjunarréttinn af forsetanum og gripið inn í stjórnarskrárbundinn feril.

  

Ef horft er til fyrirhugaðs samnings ríkisstjórnarinnar við Evrópusambandið, er ljóst að samningurinn sjálfur mun verða samþykktur sem ályktun Alþingis. Hins vegar verður nauðsynlegt að styðja samninginn með lagasetningu sem brjóta mun ákvæði Stjórnarskrárinnar. Ef vitað er að forsetinn mun virða rétt fullveldishafans til að staðfesta eða hafna lögunum, þá mun Alþingi nota lög 91/2010 til að hindra aðkomu forsetans. Lagafrumvarpið verður sent í þjóðarkönnun, sem verður endurtekin með breytingum ef frumvarpinu er hafnað.

  

Forsetinn mun þá ekki fá til undirskriftar umdeild lagafrumvörp, fyrr en þeim fylgir samþykkt úr þjóðarkönnun. Slík frumvörp mun forsetinn varla neita að undirrita og senda í þjóðaratkvæði. Lög 91/2010 eru því atlaga að því sérstaka sambandi sem í lýðveldum er á milli forseta og þjóðar. Sú nöturlega staðreynd liggur fyrir, að margir þingmenn stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði með lögunum. Alls greiðu 48 þingmenn lögunum samþykki og enginn á móti. Niðurlægingu Alþingis eru engin takmörk sett.

    

Þingræðissinnarnir í ríkisstjórn Íslands hafa engin áform

um að halda þjóðaratkvæði um innlimun landsins í Evrópusambandið.

    
>>><<<
     

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband