| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir fullveldisrétti almennings og sjálfstæði Íslands. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Hugmyndir Samfylkingar um eðli og afsal fullveldis
Fyrst birt í Morgunblaðinu 25. janúar 2011.
Loftur Altice Þorsteinsson Fulltrúar erlends valds og framandi hugmyndafræði eru þekktir fyrir að kunna lítil skil á stjórnskipun lýðveldisins Íslands. Frá Sossunum kemur stöðugur straumur fjarstæðukenndra staðhæfinga um fullveldi landsins. Einkennandi hjá þessu fólki er ruglingur á hugtökunum »fullveldi þjóðar« og »sjálfstæði lands«.
Eitt þeirra atriða sem Sossarnir reyna að rangtúlka er sú staðreynd, að hugtakið »fullveldi« er stjórnarfarslegt grundvallaratriði. Fullveldi (fullveldi = fullt vald) merkir endanlegt og ótakmarkað vald um málefni landsins. Endanlegt er fullveldið, vegna þess að ákvörðunum fullveldishafans verður ekki vísað til annars aðila. Ótakmarkað er fullveldið, vegna þess að það tekur til allra þátta sem fullveldishafinn ákveður.
Í þrákelkni sinni að innlima Ísland í Evrópuríkið hafa fulltrúar Samfylkingar tekið upp á því að villuleiða umræðuna og tala um »deilt fullveldi«. Þetta er fullveldi sem Sossarnir telja að hægt sé að deila með erlendum valdastofnunum. Einnig tala þeir um »fullveldi út á við« og »fullveldi inn á við«. Þessar hugmyndir eiga sér enga stoð í raunveruleikanum, en duga sjálfsagt vel í hugarheimi Samfylkingar.
Þröstur Ólafsson, 08. janúar 2011. Í Fréttablaðinu birtist grein eftir Þröst Ólafsson, þar sem fjarstæðan að »deila fullveldi« kemur fram. Þröstur segir:
Fullveldi er að móta eigin þróun, eigin örlög. Á tímum hnattvæðingar merkir það að geta haft áhrif á ákvarðanir annarra þjóða til að geta unnið eigin hagsmunum brautargengi. Það heitir að deila fullveldi. Þjóð lætur hluta af eigin fullveldi en fær hlutdeild í fullveldi annarra þjóða á móti.
Skilningsleysi Þrastar er algert á þeirri staðreynd, að hugtakið »fullveldi« felur í sér ódeilanleika. Það er bara einn aðili sem hverju sinni getur farið með stjórnarfarslegt fullveldi þjóðar. Í lýðveldi er það lýðurinn/þjóðin sem fer með þennan fullveldisrétt. Að auki getur varla nokkrum heilvita manni dottið í hug að innlimun Íslands í Evrópuríkið leiði til þess að Íslendingar hafi einhver áhrif á þróun mála innan þess.
Eins og verður útskýrt síðar er þessi rökvilla um »deilt fullveldi« ættuð frá Eiríki Bergmann Einarssyni. Hann er einnig höfundur hugtakanna »fullveldi út á við« og »fullveldi inn á við«.
Kristrún Heimisdóttir, 06. febrúar 2010. Annar fulltrúi erlends valds og alræmd málpípa Samfylkingar er Kristrún Heimisdóttir. Í ritgerð eftir hana, sem birtist í Fréttablaðinu, setti hún fram fáránlega skoðun um fullveldið. Kristrún segir:
Staðan er að fullveldishafinn út á við, sem er ríkisstjórnin, verður að leysa milliríkjadeiluna en getur ekki gert það án fulltingis fullveldishafans inn á við, sem er Alþingi, og undan þeim báðum verður sennilega stungið í þjóðar-atkvæðagreiðslu 6. mars.
Að skipta fullveldinu upp í »fullveldi út á við« og »fullveldi inn á við« er algjörlega fráleit hugmynd. Við sjáum að Kristrún telur að ríkisstjórnin fari með »fullveldið út á við« sem enginn fótur er fyrir. Að Alþingi fari með fullveldið allt hafa auðvitað þingræðissinnar predikað lengi, en þeirra hugmynd var varpað á haf út í þjóðaratkvæðinu 6. marz 2010.
Kristrúnu er samt ekki alls varnað, því að hún sá fyrir að í þjóðaratkvæðinu »yrði stungið undan« ríkisstjórn og Alþingi. Með þjóðaratkvæðinu fekkst glæsileg staðfesting á fullveldisrétti almennings. Á Íslandi stendur baráttan um fullveldið. Sossarnir, fulltrúar erlends valds og framandi hugmyndafræði, skulu ekki láta sér detta til hugar, að fullveldið verði falið þeim á hendur.
Eiríkur Bergmann Einarsson, 20. desember 2008. Furðulegar ranghugmyndir Þrastar og Kristrúnar má rekja til ritsmíðar eftir Eirík Bergman Einarsson sem birtist í Fréttablaðinu. Þar tekst Eiríki að rugla saman hugtökunum fullveldi og sjálfstæði, þannig að útkoman er í fullu samræmi við hugmyndir hans um afsal á sjálfstæði Íslands til Evrópuríkisins.
Það vekur efasemdir um fræðimennsku Eiríks og heiðarleika, að í upphafi ritgerðarinnar lýsir hann staðreyndum, en hverfur síðan algerlega í draumaheim ESB-sinnans. Hann vísar réttilega til Upplýsingarinnar og Frönsku byltingarinnar, sem upphafs lýðræðisins. Eiríkur víxlar síðan hugtökunum »sjálfstæði ríkis« og »fullveldi þjóðar«. Að lokum leiðist hann til þess að ræða um »deilt fullveldi« og hann endar með »innra fullveldi« og »ytra fullveldi«.
Stjórnarfar á Íslandi nefnist »lýðveldi« vegna þess að lýðurinn fer með hið endanlega og ótakmarkaða vald - »fullveldið«. Fullveldi Íslands var hjá konunginum fram að stofnun lýðveldisins 1944. Tímabilið 1918-1944 var stjórnarfarið »konungsveldi«, sem eðli máls samkvæmt gat ekki verið »lýðveldi«.
Ljóst má vera að Eiríkur er andlegur faðir þeirra vitlausu hugmynda um fullveldi sem Kristrún og Þröstur endurvarpa. Er ekki vítavert að fólk er á opinberu framfæri við að búa til svona rangsnúning? Auðvitað eiga þessir fulltrúar erlends valds og framandi hugmyndafræði skjól hjá ríkisstjórn Íslands. Þetta er liður í baráttu hennar gegn sjálfstæði Íslendinga.
Sossarnir, fulltrúar erlends valds og framandi hugmyndafræði,
skulu ekki láta sér detta til hugar, að fullveldið verði falið þeim á hendur.
|
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:22 | Facebook
«
Síðasta færsla
|
Næsta færsla
»