Ólundarlegt gjammið í kjölturökkum ESB er til aukinna leiðinda

  

 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir fullveldisrétti almennings og sjálfstæði Íslands.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. 

  


Ólundarlegt gjammið í kjölturökkum ESB er til aukinna leiðinda 

Fyrst birt í Morgunblaðinu 20. september 2011.
  

Loftur Altice Þorsteinsson

  

 
Ólafur Ragnar Grímsson hefur sýnt meira hugrekki en hægt er að krefjast af honum sem forseta lýðveldisins. Á erlendum vettvangi jafnt sem innlendum hefur hann skipað sér afdráttarlaust í sveit með almenningi landsins gegn nýlenduveldum Evrópu. Þetta eru tíðindi og umbreyting frá fyrri forsetum Íslands, sem alla jafna sýndu hugleysi gagnvart erlendu valdi og tóku hagsmuni valda-aðalsins fram yfir hagsmuni þjóðarinnar. Í viðtali við RÚV 4. september 2011 sagði forsetinn:


»Menn (ríkisstjórnin) beygðu sig fyrir þessu ofbeldi (Icesave-kröfunum) af hálfu Evrópuþjóðanna og samþykktu fyrst samning sem var svo óheyrilegur að ekki aðeins hrópaði íslenska þjóðin hann af, heldur hlupu Bretar og Hollendingar frá honum strax nokkrum mánuðum eftir að ákveðið var að setja þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er rannsóknarefni fyrir Evrópusambandið að horfast í augu við það hvernig í ósköpunum stóð á því að ríki í Evrópusambandinu samþykktu að styðja þessar fáránlegu kröfur Breta og Hollendinga gagnvart Íslandi.«

 

Flestir Íslendingar eru sammála þeirri skoðun forsetans að ríkisstjórnin er ekki að gæta hagsmuna landsmanna, heldur beygir sig í auðmýkt fyrir ESB (Evrópusambandinu). Það er einnig merkilegt sem forsetinn bendir á, að nýlenduveldin hlupu sjálf frá Icesave-II samningunum, þegar athygli heimsins var beint að þeim. Þjóðaratkvæðin 6. marz 2010 og 9. apríl 2011 tóku af allan vafa um að þjóðin mun ekki fallast á ólöglegar og siðlausar kröfur nýlenduveldanna og skiptir þá engu máli hvað ESB kann að skipa EFTA-dómstólnum að samþykkja. 
 
Auðvitað skilja kjölturakkar ESB ekki þessar staðreyndir. Þeir halda áfram að gjamma ólundarlega, til að þóknast húsbændum sínum í Brussel. Á síðum Fréttablaðsins er dag eftir dag ausið hrakyrðum um forsetann og traðkað á stjórnarskránni. Þar gengur fremstur í flokki Jón Baldvin Hannibalsson. Rógburður hans mun lengi lifa, en er mismunandi metinn á Íslandi og innan höfuðstöðva ESB. 
 
Framganga Jóns Baldvins Hannibalssonar
Rætin og fullkomlega siðlaus ritgerð eftir Jón Baldvin Hannibalsson birtist í Fréttablaðinu 7. september 2011. Þar uppnefnir hann forseta landsins á ósmekklegri hátt en líklega hefur sézt áður. Forseta Íslands gefur Jón Baldvin heitið »Lady GaGa« og nefnir hann »veizlustjóra og viðskiptasmyril óreiðumanna útrásarinnar«. Það vex Jóni Baldvin í augum, að Ólafur Ragnar hefur brennandi áhuga á framgangi íslenzkra hagsmuna og leggur landsmönnum það lið sem hann getur. Jón Baldvin virðist ekki skilja, að Ólafur Ragnar var að gegna stjórnarskrár-bundinni skyldu sinni með að vísa lagafrumvörpunum um Icesave í þjóðaratkvæði. 
 
Forseti Íslands hefur skyldur gagnvart almenningi í landinu, sem meðal annars eru formfestar með 26. grein stjórnarskrárinnar. Forsetanum ber siðferðileg skylda til að hafna þeim lagafrumvörpum samþykkis, sem stór hluti almennings er andvígur, eða sem forsetinn telur geta skaðað hagsmuni landsmanna. Engin önnur afstaða birtist í synjun forsetans, en að hann telur að viðkomandi lagafrumvarp skuli borið undir úrskurð fullveldishafans. 

Vakin er athygli á, að lagafrumvarp verður ekki að lögum fyrr en forsetinn hefur undirritað það, eða forsetinn hefur hafnað undirritun. Alþingi hefur því ekki heimild til að senda ríkisstjórninni frumvörp »sem lög frá Alþingi«. Frumvarp er einungis frumvarp, þar til ákvörðun forsetans liggur fyrir, hvort sem það hefur verið samþykkt á Alþingi eða ekki. Því er rangt sem víða getur að lesa í gögnum Alþingis og ríkisstjórnar: »Frumvarp, sem þingið samþykkir, er sent ríkisstjórninni sem lög frá Alþingi.« 
 
Jón Baldvin gerir aumkunarverða tilraun til að etja saman forseta og ríkisstjórn. Hann vísar þar til fyrrnefndra orða Ólafs Ragnars, um að »ríkisstjórnin hafi beygt sig fyrir fáránlegum kröfum og ofbeldi Breta og Hollendinga«. Jón Baldvin vill meina að með þessum ásökunum sé forsetinn að brigsla ríkisstjórninni um landráð. Að beygja sig fyrir ofurefli er afsakanlegt, en fæstir landsmenn eru líklega þeirrar skoðunar að um enga aðra kosti hafi verið að ræða en samþykkja Icesave-kröfurnar. Þetta viðhorf almennings kom skýrt fram í tvennum þjóðaratkvæðum. 

Kjölturakkar ESB reyndu að hræða Íslendinga frá því að hafna Icesave-kröfunum í þjóðaratkvæðunum. Jón Baldvin heldur uppteknum hætti og leggur núna allt sitt traust á EFTA-dómstólinn. Honum hefur greinilega ekki borist til eyrna, að þrotabú Landsbankans mun eiga fyrir forgangskröfum. Ekki svo að skilja að það atriði skipti Íslendinga einhverju máli, því að kröfur á þrotabúið eru almenningi óviðkomandi. Tryggingasjóðir í Bretlandi og Hollandi, auk ríkissjóðs Bretlands, keyptu Icesave-kröfur innistæðueigenda á eigin ábyrgð. Tryggingasjóðirnir eru reknir fyrir reikning starfandi banka í þessum löndum og einungis helsjúkir Evrópusinnar geta fundið það út að almenningi á Íslandi beri skylda til að hlaupa undir bagga með þessum erlendu bönkum. Kjölturakkar ESB verða að leita annað en til almennings á Íslandi til að svala valdadraumum Þýskalands og Frakklands.



Flestir Íslendingar eru sammála þeirri skoðun forsetans
     að ríkisstjórnin er ekki að gæta hagsmuna landsmanna,
     heldur beygir sig í auðmýkt fyrir ESB.
 


mbl.is Forsetinn heldur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband