21.12.2011 | 15:25
Yfirlýsing Samstöðu þjóðar um varnir í Icesave málinu
Ríkisstjórn Íslands hefur enn og aftur valið að lúta í gras fyrir Evrópu-sambandinu (ESB) og aðstoða það við að koma Icesave-klafanum á þjóðina. Þar sem samningaleiðinni var hrundið með andstöðu almennings, ætla nú kjölturakkar ESB að fara dómstólaleiðina að sama marki. Ætlunin er að Icesave-lögin sem í tvígang voru felld í þjóðaratkvæði skuli birtast þjóðinni aftur, en núna í formi dómsúrskurðar.
1. Samstaða þjóðar mótmælir harðlega, að utanríkisráðherra stjórni vörnum Íslands fyrir EFTA-dómstólnum, gegn Icesave-kröfum Bretlands og Hollands, sem bornar eru fram af ESA (Eftirlitsstofnun EFTA). Samstaða þjóðar krefst þess að Alþingi skipi varnarnefnd til að stjórna vörnum Íslands og nefndin verði eingöngu skipuð steinhörðum andstæðingum Icesave-kúgunarinnar. Mikilvægt er að nefndarmenn komi bæði úr hópi Alþingismanna og frá baráttusamtökum gegn Icesave-kröfunum, eins og Samstöðu þjóðar.
2. Samstaða þjóðar lýsir fullu vantrausti á Össuri Skarphéðinssyni til að gæta hagsmuna Íslands. Með margsannaðri undirgefni sinni gagnvart Evrópu-sambandinu og stuðningi við Icesave-kröfur Bretlands og Hollands, hefur hann fyrirgert öllu trausti þjóðarinnar. Össur Skarphéðinsson er versti verjandi Íslendskra hagsmuna, sem hægt er að finna innan lands jafnt sem utan.
3. Samstaða þjóðar hafnar tillögum um að Árni Páll Árnason fari með varnir Icesave-málsins. Þótt hann hafi í orði skipt um skoðun og gengið í lið með almenningi, var hann stuðningsmaður beggja Icesave-laganna og er hann því vanhæfur. Málið er afar mikilvægt og einungis fólk með hreinan skjöld og steinharða andstöðu gagnvart Icesave-kröfum Bretlands og Hollands mun njóta trúnaðar til verksins. Undirgefni Árna Páls Árnasonar við Evrópu-sambandið er öllum kunn og er honum ekki til framdráttar í þessu máli.
4. Samstaða þjóðar bendir á að þótt góðir kaflar finnist í andsvari efnahags-ráðherra til ESA frá 2. maí 2011, er fullt af sterkum rökum sem ekki koma þar fram. Mikilvægt er að þjóðholl samtök fái að koma af fullum krafti að málsvörninni og ekki svo takmarkað, sem raunin var með andsvarið. Þeir sem börðust fyrir hagsmunum Bretlands og Hollands í Icesave-deilunni, eiga ekki að koma að vörnum Íslands fyrir EFTA-dómstólnum.
5. Samstaða þjóðar minnir á að Ísland heldur ekki bara uppi vörnum í Icesave-málinu, heldur er þjóðin einnig í sókn vegna ólöglegra aðgerða Bretlands og Hollands gegn Íslandi haustið 2008. Rökræður eru í gangi á milli Framkvæmdastjórnar ESB og félaga í Samstöðu þjóðar. Tekist er á um hvort Framkvæmdastjórnin taki að sér að ákæra Bretland og Holland fyrir Evrópudómstólnum. Alþingi ætti að hafa metnað að veita þessu verki fullan stuðning.
6. Samstaða þjóðar hvetur til að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) verði tafarlaust sagt upp, en að styrktur verði Fríverzlunarsamningurinn sem Ísland hefur við ESB. Bezta lausn Íslands varðandi samskipti við Evrópusambandið er að Fríverzlunar-samningur Íslands og ESB verði þróaður áfram, með samning Svisslands sem fyrirmynd. Sá stóri kostur fylgir uppsögn EES-samningsins, að bæði ESA og EFTA-dómstóllinn missa alla merkingu - þessi kúgunartæki ESB verða fullkomlega gagnlaus.
_____________________________________________________________________ |
![]() |
Ósannfærandi fyrir dómstólum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt 22.12.2011 kl. 11:46 | Facebook