| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir fullveldisrétti almennings og sjálfstæði Íslands. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Landsdómur er forsenda sátta með þjóðinni
Fyrst birt í Morgunblaðinu 18. september 2010. Loftur Altice Þorsteinsson
Í undirbúningi er ákæra á hendur ráðherrum sem sátu í Þingvallastjórninni, þeirri ríkisstjórn sem var við völd í aðdraganda efnahagshrunsins haustið 2008. Ákveðið hefur verið að ákæra einhverja ráðherra, en þegar þetta er ritað er ekki vitað hvor allir ráðherrarnir verða dregnir fyrir Landsdóm, eða einungis fáeinir. Ekki eru allir sáttir við slíkar ákærur og hafa jafnvel heyrst raddir um að dómar yfir ráðherrum geti skapað ríkinu skaðabótaábyrgð og jafnvel valdið þriðju efnahagskreppunni.
Þótt skaðabótaskylda ríkissjóðs vegna þjóðnýtingar bankanna liggi ljós fyrir, verður að telja fráleitt, að ríkissjóður verði skaðabótaskyldur þótt ráðherrar verði dæmdir af Landsrétti. Lög um ráðherraábyrgð (lög 4/1963) segja þetta skýrum orðum:
Lög um ráðherraábyrgð.
2. gr. Ráðherra má krefja ábyrgðar samkvæmt því, sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.
13. gr. Hafi ráðherra bakað almenningi eða einstaklingi fjártjón með framkvæmd eða vanrækslu, sem refsiverð er eftir lögum þessum, skal og þegar þess er krafist, jafnframt hegningunni dæma hann til að greiða skaðabætur, en um skaðabótaskyldu hans fer eftir almennum reglum.
Af þessu má ráða, að ráðherrar eru persónulega ábyrgir, samkvæmt almennum hegningarlögum, ef almenningi eða einstaklingi er bakað fjártjón. Ákærur fyrir Landsdómi snúast því ekki um bótaábyrgð ríkissjóðs, heldur einungis um ábyrgð ráðherranna. Að reynt verður að láta ráðherra Þingvallastjórnarinnar sæta ábyrgð er frumforsenda fyrir sátt í þjóðfélaginu. Fyrir alþingismenn er mikilvægt að skilja, að án opinna réttarhalda fyrir Landsdómi yfir öllum ráðherrum þessarar ríkisstjórnar, er tómt mál að tala um þjóðarsátt og siðferðilega endurreisn.
Ráðherrar ríkisstjórnar fara sameiginlega með framkvæmdavaldið og þótt sumir geri núna lítið úr sameiginlegri ábyrgð þá er það Landsdóms að fella dóma yfir ráðherrum og dómurinn verður að vera algerlega óháður utanaðkomandi mönnum. Óeðlilegt verður að telja, að fram komi spádómar um niðurstöðu dómsins og það veikir dómsferlið að fjallað sé opinberlega um efnisatriði málsins, eða að settar séu fram hrakspár um hugsanlegar afleiðingar dóma. Menn ættu einnig að hafa í huga, að ekki er síður mikilvægt að fá úrskurð um sýknu ráðherra en sekt.
Landsdómur má ekki fá þröngt umboð frá Alþingi, heldur verður það að vera til þess fallið að skapa trúverðugleika. Alþingi má alls ekki skilgreina viðfangsefni dómstólsins svo þröngt að niðurstaða hans sé gefin fyrirfram. Almenningur mun ekki sætta sig við hálfkák og því verður saksóknari Alþingis að hafa fullkomlega frjálsar hendur. Umboð hans er víðtækt eins og segir í Lögum um Landsdóm (lög 3/1963):
Lög um Landsdóm.
16. gr. Það er skylda saksóknara Alþingis að leita allra fáanlegra sannana fyrir kæruatriðum, hann undirbýr gagnasöfnun og rannsókn í málinu og gerir tillögur til landsdóms um viðeigandi ráðstafanir til að leiða hið sanna í ljós. Hann hefur um starf sitt samráð við saksóknarnefnd Alþingis.
Skipan Landsdóms, umboð hans og úrskurður er prófsteinn á vilja Alþingis til að upplýsa um orsakir efnahagshrunsins. Verkefni Landsdóms er ekki bara að fella dóma, heldur einnig að upplýsa málið og þá sérstaklega aðkomu stjórnmála-stéttarinnar. Kalla þarf fyrir alla þá sem sátu Alþingi í aðdraganda hrunsins. Nú er komið að því að velta við hverjum steini og setja allan ósómann upp á borð, eða hreinsa menn ella af ósönnum áburði.
Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis var gerð góð grein fyrir mistökunum sem gerð voru með inngöngu landsins í Evrópska efnahagssvæðið, en ástæður efnahagshrunsins voru fleirri. Vonandi dettur engum í hug að Rannsóknarnefnd Alþingis hafi tæmt málið með sínum skýrslum - því fer fjarri. Til dæmis er ekkert fjallað þar um sjálfa peningastefnuna, sem var meginorsök hrunsins. Við búum ennþá við torgreinda peningastefnu og því eru allar forsendur fyrir áframhaldandi verðbólgu og nærsta hruni. Nú er komið að útfærslu mikilvægra ákvæða Stjórnarskrárinnar um ábyrgð ráðherra. Um þetta segir þar:
Stjórnarskráin.
14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.
Þeir sem halda því fram að Stjórnarskráin sé gölluð og henni beri að gjörbreyta ættu að hugsa sitt ráð. Stjórnarskrá á að vera gagnorð og það er okkar stjórnarskrá um ráðherraábyrgð. Stjórnarskráin reyndist vel þegar kom að hinu sögulega þjóðaratkvæði 6. marz 2010, um Icesave-gjörning ríkisstjórnarinnar. Nú reynir á framkvæmd ákvæðis Stjórnarskrárinnar um ráðherraábyrgð. Vonandi bregðast þeir ekki, sem falið verður að sjá um framkvæmd málsins. Vonandi dettur engum í hug að Rannsóknarnefnd Alþingis hafi tæmt málið með sínum skýrslum - því fer fjarri. Til dæmis er ekkert fjallað þar um sjálfa peningastefnuna, sem var meginorsök hrunsins.
Hreyfingin krefst endurupptöku á landsdómsákærum !
|