| Samstaða þjóðar NATIONAL UNITY COALITION Baráttusamtök fyrir fullveldisrétti almennings og sjálfstæði Íslands. Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. |
Y F I R L Ý S I N G !
Evrópusambandið stendur ekki við gerða samninga
Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) reyndist Íslandi dýrkeypt reynsla, sem varpa mun skugga á lífskjör þjóðarinnar um langa framtíð. Vitað var fyrirfram, að faðmlag Evrópusambandsins (ESB) yrði smáþjóð eins og Íslendingum bæði kæfandi og svikult. Þeir sem stóðu í forsvari fyrir þessum samningi bera mikla ábyrgð, sem fylgja mun þeim um ókomna tíma.
Þann 14. nóvember 2008 gerði ríkisstjórn Íslands svo nefndan Brussel samning við Evrópusambandið, ásamt nýlenduveldunum Bretlandi og Hollandi. Frumkvæði að samningnum hafði Christine Lagarde, þáverandi fjármálaráðherra Franklands og núverandi framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Á þeim tíma var Frankland í forsæti fyrir Evrópusambandinu. Efnisatriði samningsins eru svonefnd Brussel-viðmið og fjölluðu um aðkomu Evrópusambandsins að endurreisn Íslands eftir bankahrunið.
Með Brussel-viðmiðunum viðurkenndi Evrópusambandið að efnahagsaðstæður Íslands væru svo erfiðar að þær væru fordæmislausar. Evrópusambandið lofaði að hjálpa til við endurreisn efnahags og fjármálakerfis landsins. Bretland og Holland urðu aðilar að samkomulaginu, með undirskrift ráðamanna þessara landa. Blekið á samningnum var ekki fyrr þornað en nýlenduveldin hófu efnahagsstyrjöld gegn Íslandi. Vonir stóðu þó til að Evrópusambandið, sem samningsaðili að Evrópska efnahagssvæðinu, virti þann samning sem gerður hafði verið að þess frumkvæði.
Þótt lítið hafi farið fyrir aðstoð Evrópusambandsins og nýlenduveldunum hafi leyfst að viðhalda efnahagsstyrjöldinni gegn Íslandi, hafa Íslendingar talið að Brussel samningurinn hefði réttarfarslegt gildi. Raunar má fullyrða að hann er þjóðréttarlega bindandi. Á grundvelli samningsins samþykkti Alþingi 05. desember 2008 ályktun um pólitíska samningaleið í Icesave-deilunni og á Brussel samningnum byggðist afgreiðsla efnahagsáætlunar Íslands í stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins undir lok nóvember 2008.
In relation to the Agreement of the 14 November 2008 that you mention, we would like to point out that this agreement is purely of a political nature and has no legal effect. Therefore, the Commission cannot take it into account in the analysis of your complaint.
Löngu var orðið ljóst að Evrópusambandið ætlaði ekki að standa við Brussel samninginn, en núna í fyrsta skipti er það gert opinbert. Evrópusambandið afneitar samningi sem gerður var af ráðherrum landanna og sem var undirstaða ályktana Alþingis og samninga Íslands við Alþjóðlega gjaldeyrissjóðinn. Hafa Íslendingar eitthvað að ræða við ríkjasamband sem ekki virðir alþjóðlegar skuldbindingar sínar ?
Yfirlýsing gerð á Sjálfstæðisdeginum
01. desember 2011. Félagar í Samstöðu þjóðar Pétur Valdimarsson Borghildur Maack Loftur Altice Þorsteinsson
_____________________________________________________________________ Skrásett heimilisfang: Laugarásvegur 4, 104 Reykjavík - Netföng: hlutverk@simnet.is / thrastalundur@simnet.is
|
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:43 | Facebook
«
Síðasta færsla
|
Næsta færsla
»