Skaðlegar hugmyndir um skipan bankamála eftir hrunið

 

 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir fullveldisrétti almennings og sjálfstæði Íslands.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins. 

  


Skaðlegar hugmyndir um skipan bankamála eftir hrunið
 

Fyrst birt í Morgunblaðinu 09. nóvember 2011.
  

Loftur Altice Þorsteinsson
 
 
Valdaaðallinn veit ekki sitt rjúkandi ráð, eftir að allur almenningur hefur öðlast skilning á skaðsemi »torgreindu peningastefnunnar«. Ekki gengur lengur að reyna að telja fólki trú um að »minniháttar ágallar« hafi valdið bankahruninu. Enginn hlustar lengur á fullyrðingar um að ef þessir ágallar verði lagfærðir muni efnahagslegur stöðugleiki hagkerfa og fjármálalegt öryggi einstaklinga verða tryggt til frambúðar. 
 
Varðandi »torgreindu peningastefnuna« er fólki bent á að lesa fyrri skrif mín um það efni (http://altice.blogcentral.is), en hér verður fjallað um lausnir á þeim »minniháttar ágöllum«, sem reynt er að telja fólki trú um að muni leysa aðsteðjandi efnahagsvanda. Þetta eru aðgerðir sem varða viðskiptabankana, en ekki seðlabankana sem þó eru hinn raunverulegi skaðvaldur. 
 
Valdaaðallinn hefur látið BIS (Bank for International Settlements) útbúa reglur um bankaviðskipti. BIS er alþjóðlegt skúmaskot seðlabanka heimsins, sem hefur aðsetur í Basel í Svisslandi. Nýjustu reglur BIS nefnast Basel III og sagan mun dæma þær jafn gagnslausar og Basel I og Basel II. Þessar reglur varða einkum eiginfjárhlutfall banka og hugmyndir um aðskilnað bankastarfsemi í viðskiptabanka og fjárfestingabanka. 
 

Vandamálin koma upp þegar bankar fara í þrot
Eins og vonandi öllum er ljóst, koma upp alvarleg vandamál þegar bankar lenda í gjaldþroti. Hvernig á samfélagið að bregðast við gjaldþroti banka? Hvaða hagsmuni ber að vernda? Er eðlilegt að almenningur beri ábyrgð á bankarekstri, með ríkistryggðu innistæðu-tryggingakerfi? Er eðlilegt að seðlabankar í eigu almennings séu bönkunum »lánveitendur til þrautavara« ? 
 
Þeir sem aðhyllast ríkisrekstur telja eðlilegt að almenningur beri ábyrgð á öllum mistökum sem ríkisvaldið gerist sekt um. Þetta kerfi gengur gjarnan undir nafninu kommúnismi. Þeir sem eru hins vegar þeirrar skoðunar að atvinnufrelsi sé æskilegt, tala gjarnan um að »frelsi fylgi ábyrgð«. Þeir telja fráleitt að almenningur beri ábyrgð á mistökum bankastofnana. Spurningin er þá hvernig hlutum verði þannig komið fyrir, að kostnaði af gjaldþrotum banka verði ekki velt yfir á herðar almennings? 
 
Stór kostur við að leggja af »torgreinda peningastefnu« og um leið seðlabanka er að þar með hverfur úr sögunni það fyrirkomulag, að seðlabanki sé notaður fyrir einkabankana sem »lánveitandi til þrautavara«. Bankarnir geta sjálfir keypt sér allar þær tryggingar sem þeir vilja og auðvitað er fráleit sú hugmynd að þeir megi ekki verða gjaldþrota. Að flestra mati er mikilvægast að innistæðueigendur fái sínar innistæður greiddar, þótt þeir þurfi að bíða þar til þrotabúið hefur verið gert upp. 
 
Hvernig er hægt að tryggja að banki sem kominn er í gjaldþrot, eigi fyrir innistæðum? Það verður ekki gert með því að banna bönkum að fjármagna sig með útgáfu skuldabréfa, heldur þvert á móti. Skylda ætti banka að taka ekki við meiri innlánum en sem nemur til dæmis helmingi heildarskulda hans. Meiri hluti fjármagns banka ætti því að koma frá fjárfestingafélögum, eða vera hlutafé hans. Eignir banka ættu að geta hrapað í verði, án þess að inneignir séu í hættu. 
 
Samtímis þarf löggjöfin að vera þannig að innistæður séu forgangskröfur í þrotabú banka. Þetta er sá réttur sem Neyðarlögin frá 2008 tryggðu eigendum Icesave-reikninganna í Bretlandi og Hollandi, gagnvart þrotabúi Landsbankans. Forgangur innistæðueigenda, ásamt takmörkun á heildarinnistæðum í bönkum, tryggja rétt þeirra til endurgreiðslna. 
 

Viðskiptabankar eða fjárfestingabankar
Til að beina athygli almennings frá sjálfum sér hrópa seðlabankar hátt um að skipta beri bönkum í viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Ekki er langt síðan seðlabankarnir töldu allra meina bót að hafa starfsemi bankanna frjálsa. Raunar er staðreyndin sú, að bankar nefnast þau fyrirtæki sem fjármagna sig að hluta með innlánum. Þau fyrirtæki sem fjármagna sig einungis með útgáfu skuldabréfa eru ekki bankar heldur fjárfestingafélög. Umræða seðlabankanna um viðskiptabanka og fjárfestingabanka er því mjög villandi. 
 
Önnur fjarstæðukennd hugmynd sem viðruð hefur verið um bankastarfsemi, er að viðskiptabankar séu að gefa út peninga á sama hátt og seðlabankar eða myntráð. Þá eru menn að rugla saman veltuhraða útlána hjá bönkum og hins vegar útgáfu peninga. Einungis myntsláttur gefa út peninga og hægt er að fullyrða að peningar verða ekki til með því að láta þá ganga nógu hratt á milli manna. 
 
Auðvelt er að sjá að Basel III reglur seðlabankanna eru ekki bara kjánalegar heldur stórhættulegar. Ef Seðlabanki Íslands hefði haft lánstraust haustið 2008, hefði tap hans í bankahruninu orðið þeim mun stærra. Seðlabankinn sem »lánveitandi til þrautavara« getur því á einni nóttu gert Ísland gjaldþrota. Ef Landsbankinn hefði einungis fjármagnað sig með innlánum hefði farið fjarri að þrotabúið ætti fyrir Icesave-reikningunum. Skaðlegum hugmyndum seðlabankanna verður því að hafna.
 
 


Almenningur má ekki bera ábyrgð á bankarekstri,

með ríkistryggðu innistæðu-tryggingakerfi

og seðlabankar mega ekki vera lánveitendur til þrautavara. 
 

 


mbl.is Gríðarlegur áhugi á framboðinu
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband