Stríð, ekki friður - í boði NATO

  
 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

 

Stríð, ekki friður - í boði NATO.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 04. júní 2016.



Ólafur Þ. Jónsson.

Árið 1991 leystust Sovétríkin upp og Varsjárbandalagið. Þar með var horfinn grunnurinn sem Nató hvíldi á, en því bandalagi var ætlað annað hlutverk og meira. Strax á tíunda áratugnum var ljóst að endalok kalda stríðsins boðuðu ekki frið og einnig varð ljós sú staðreynd að mesta stríðshættan stafaði frá Nató-blokkinni. Árið 1999 afnam Nató sín landfræðilegu mörk og breytti sér í hnattrænt hernaðarbandalag Vesturveldanna með allan heiminn undir og þéttriðið net herstöðva utan Bandaríkjanna. Nató er komið upp að landamærum Rússlands í Eystrasaltsríkjunum þremur, í Póllandi, Rúmeníu, Kákasus og Mið-Asíu, og handan Beringssunds er Nató-Kanada.

Frá 1991 hefur það verið stefna Bandaríkjanna að hreinsa upp það sem þau kalla hin gömlu skjólstæðingaríki Sovétríkjanna. M.ö.o. einstök ríki sem vilja varðveita sjálfstæði sitt og sjálfsákvörðunarrétt, þýðast ekki hnattvæðingu Vestrænna auðhringa og eru í röngu liði, þ.e. eiga vingott við Rússland og Kína. Og ekki var látið sitja við orðin tóm. Fyrri innrásina í Írak gerði Bandaríkjaher 1991 og réttlætti hana með því að Írak hefði ráðist á fullvalda ríki. Þriggja mánaða loftárásir Nató á Júgóslavíu 1999 voru réttlættar með mannréttindabrotum innan Júgóslavíu.

Svo kom 11. september 2001 og turnarnir tveir hrundu. Eftir það heita allar hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna og aftaníossa þeirra »stríð gegn hryðjuverkum«. Ráðist var inn í Afganistan árið 2001 þegar Talíbanar, sem náðu völdum í landinu 1996, reyndust heppilegur blóraböggull vegna hryðjuverkanna 11. september. Stríðið þar hefur reynst endalaust og æ fleiri telja það óvinnandi. Seinni innrásin í Írak, innrás Bandaríkjanna, Bretlands og hinna viljugu, hófst 2003. Og enn er barist í Írak, sem klofnaði í þrjú áhrifasvæði þjóðarbrota.

ÍSIS-hreyfingin illræmda á upptök sín í Írak og hefur náð undir sig miklu landi þar og í Sýrlandi. Árið 2011 braust út uppreisn í Austur-Líbíu. Vesturlönd lýstu yfir að þjóðarmorð væri í aðsigi og Nató hóf stórfelldar loftárásir á landið til stuðnings uppreisnarmönnum. Afleiðingin var sú að mismunandi hópar vígamanna tóku völdin og Líbía klofnaði í það minnsta í þrjá hluta og við tók borgarastyrjöld sem hvergi nærri sér fyrir endann á og eyðilagði Líbíu sem ríki. Vopnabúnaður sem streymdi frá Nató-ríkjunum til uppreisnarmanna endaði í mörgum tilfellum í Sýrlandi og Írak hjá Ísis-hreyfingunni. Hinn 11. apríl sl. lýsti Obama Bandaríkjaforseti því yfir að mestu mistök í stjórnartíð hans hefðu verið árásirnar á Líbíu.

Í meira en átta mánuði hafa Sádar, ásamt fleiri Persaflóaríkjum, látið sprengjum rigna yfir borgir og bæi í Jemen sem svar við byltingu sem bæði Bandaríkin og Sádi-Arabía voru ósátt við. Olíufurstarnir tóku að sér að sprengja landið í tætlur til að koma á stöðugleika í landinu. Sádar hafa ásamt fleiri Persaflóa-ríkjum og Tyrklandi verið helsti bakhjarl hryðjuverkaherja í Sýrlandi, Líbíu og víða í Afríku. Þeir eru helstu kostunaraðilar og líka hið hugmyndafræðilega bakland Ísis, al-Kaída, al-Nusra og Boko Haram í Afríku. Þessi samtök öll eru málaliðar, verkfæri í heimsvaldastríði.

Nú hafa Tyrkir kastað fyrir róða áralangri friðarstefnu gagnvart Kúrdum, sem eru um fimmtungur þjóðarinnar. Og frá 2015 notið fulls stuðnings Nató til að herja á Kúrda, þar á meðal í Norður-Sýrlandi. Þetta er framlag þeirra til baráttunnar gegn hryðjuverkum. Hálfgildings sjálfstæði Kúrdahéraðanna í Írak og Sýrlandi vekur einfaldlega ótta tyrknesku stjórnarinnar.

Um miðjan febrúar lýsti utanríkisráðherra Tyrklands yfir að Sádar ætluðu að senda bæði herþotur og herlið til Tyrklands, þannig að Tyrkir og Sádar gætu hafið sameiginlegan landhernað í Sýrlandi, en bætti við að það yrði ekki gert án samþykkis Bandaríkjamanna. Stríðið í Sýrlandi hófst í mars 2011 og hefur því staðið í meira en fimm ár. Þrátt fyrir vopnahlé sem hófst 27. febrúar síðastliðinn heldur það áfram, því ekki var reynt að semja við Ísis né heldur al-Nusra, hreyfingu sem tengist al-Kaída, og fleiri hópa sama eðlis. Samkvæmt nýjustu fréttum virðist það hanga á bláþræði. Þegar stríðið hófst hafði ríkt friður í Sýrlandi í 38 ár, eða frá því 1973 í fjórða stríði Ísraelsmanna við Araba. Fyrir stríðið var Sýrland velmegunarríki, miðað við nágrannaríkin. Menntunarstig hátt, heilbrigðiskerfið allgott og nær öll börn gengu í skóla. Og Sýrland tók á móti meira en tveimur milljónum flóttamanna sem leituðu skjóls frá stríðinu í Írak.

Innrásirnar í Afganistan og Írak gengu illa. Þá tóku Bandaríkin og strengjabrúður þeirra í Evrópu ásamt óvinum Sýrlands við Persaflóann að dæla fé og vopnum í al-Kaída í Sýrlandi og Írak, sem síðar stökkbreyttist í Ísis. Ef um raunverulega uppreisn fólksins í Sýrlandi væri að ræða hefði stjórnarherinn fyrir löngu snúist gegn Assad forseta og hans mönnum. Ef Assad er harðstjóri er hann tiltölulega mildur í samanburði við skíthælana í Sádi-Arabíu og Katar, vini Bandaríkjanna. Lofthernaður Rússa í nokkra mánuði til aðstoðar stjórnarhernum hefur gert miklu meira í því að brjóta Ísis á bak aftur en lofthernaður Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í eitt og hálft ár, enda um gervi-stríð að ræða í trássi við vilja réttkjörinnar stjórnar.

Það segir sig sjálft að öll þessi stríð sem ég hefi hér nefnt hafa valdið gríðarmiklu tjóni og hörmungum. Tölur um mannfall er erfitt að meta, enda mjög misvísandi. Eitt er þó víst að mannfallið er gífurlegt, ekki síst í Sýrlandi, auk særðra og örkumlaðra. Mestmegnis óbreyttir borgarar, karlar, konur og börn. Hvað skyldu þau vera mörg börnin sem látið hafa lífið í þeim stríðum sem ég hefi hér nefnt? Litlir Gyðingar geta orðið stórir Gyðingar, sagði gasklefafólkið Þýðska. Við bætast svo milljónirnar sem stríðsátökin hafa hrakið á flótta. Allir vita að Bandaríkin valda þeim straumi og þjóðirnar sem styðja stríð þeirra.

Höfuðsökudólgurinn er samt laus allra mála. Hann er ábyrgðarlaus. Allir eru þeir, ásamt nánustu samstarfsmönnum sínum, sekir um stríðsglæpi og hryðjuverk Bandaríkjaforsetarnir frá 1991 að telja. Bush eldri, Clinton, Bush yngri og Obama. Og nú hafa Bandaríkin staðið málstola það sem af er ári vegna sinna arfhelgu forsetakosninga. Bandaríska auðvaldið þarf að skipta um verkfæri, velja nýjan stríðsherra. Og nú eru þeir komnir aftur til Íslands með þrjá flugvelli undir, til að tryggja öryggi okkar gagnvart Rússum. Og þessu er trúað. Ekki bylur í einni einustu tunnu á Austurvelli. Lygin er aldrei góð, en þó er hún illkynjuðust þegar menn ljúga sig í sátt við eigið auðnuleysi.

 


Bloggfærslur 4. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband