Málflutningur evrópskra nýlenduvelda gegn Íslandi

  
 
null   Samstaða þjóðar
   
NATIONAL UNITY COALITION                                                           
   Baráttusamtök fyrir sjálfstæðu ríki á Íslandi og fullveldisréttindum almennings.
   Stöndum vörð um Stjórnarskrá Lýðveldisins.

 

 

Málflutningur evrópskra nýlenduvelda gegn Íslandi.

Fyrst birt í Morgunblaðinu 06. apríl 2011.



Loftur Altice Þorsteinsson.

Fréttablaðið birti 17. marz 2011 ritgerð eftir Margréti Einarsdóttur, undir fyrirsögninni »Icesave - lagalegar afleiðingar synjunar«. Þar sem Margrét er forstöðumaður Evrópuréttarstofnunar HR, sem kostuð er af ESB, verður að telja hana vera erindreka ESB og frá Brussel er ekki langt til London og Haag.

Ekki kemur því á óvart að Margrét býður lesendum upp á einhliða málflutning sem einkennist fremur af rangfærslum ríkisstjórnar Íslands en hófstilltu mati fræðimanns. Margrét virðist telja að landsmenn hafi ekki heyrt af Icesave-málinu og þekki ekki grunnröksemdir sem það varða. Ég leyfi mér að vera á öndverðum meiði við Margréti varðandi öll atriði Icesave-málsins.

1. Margrét byrjar ritgerð sína á upprifjun um hótunarbréf ESA frá 26. maí 2010. Ef Margrét hefði viljað koma á framfæri hlutlausum upplýsingum, hefði hún nefnt að ESA sendi frá sér úrskurð varðandi Icesave frá 15. desember 2010. Með þeim úrskurði ógilti ESA veigamestu hótanirnar frá 26. maí. Ólíkt hótunarbréfinu sem Margrét telur svo mikilvægt, er álit ESA frá 15. desember vel rökstutt og niðurstaðan ótvíræð.

2. ESA úrskurðaði að engir samningar, lög eða tilskipanir hefðu verið brotin, varðandi mikilvægustu atriði málsins: Fullkomlega var löglegt að veita innistæðueigendum forgang, eins og gert var með Neyðarlögunum. Einnig úrskurðaði ESA að framkvæmd FME á millifærslum úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju var fullkomlega eðlileg. Lagasetning og réttarframkvæmd Neyðarlaganna er því traust, svo framarlega sem lögsögu Íslands er ekki varpað fyrir borð með Icesave-III-samningunum.

3. Margrét tekur alvarlega hótanir Per Sanderud um að verði Icesave-lögin ekki samþykkt í þjóðaratkvæðinu 09. apríl 2011, muni hann sjá til þess að ESA sendi frá sér skaðlegan úrskurð fyrir Ísland. Sanderud hótar einnig að hann muni ákæra Ísland fyrir EFTA-dómstólnum. Ætli Margrét verði ekki hissa þegar í ljós kemur að ESA mun sýkna Ísland um öll brot á EES-samningnum? Sanderud til afsökunar má nefna að endurteknar hótanir hans eru bara endursýningar á gömlum myndböndum sem gerð voru fyrir úrskurðinn 15. desember.

4. Sannleikurinn er sá að örsmáar líkur eru fyrir ákæru frá ESA, enda tilefnið ekkert. Flestar stofnanir ESB og sérfræðingar á vegum Evrópuríkisins hafa gefið yfirlýsingar um afdráttarlaust bann við ríkisábyrgðum á innistæðutrygginga-kerfum Evrópska efnahagssvæðisins. Í þessu sambandi má nefna að yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, um að allar bankainnistæður á Íslandi séu ríkistryggðar, er fullkominn þvættingur. Einungis Alþingi með samþykki fullveldishafans - almennings getur veitt slíkar tryggingar.

5. Margrét virðist ekki vita að Landsbankinn var með fullar innistæðutryggingar í Bretlandi og Hollandi, sem voru mun hærri en lágmarkstrygging ESB. Þetta hefur fjármálaeftirlit Bretlands staðfest og þess má geta að Landsbankinn fékk starfsleyfi í Bretlandi í desember 2001 og hann fekk viðbótartryggingu hjá FSCS fyrir Icesave í júlí 2006 (FSA No. 207250).

6. Margrét virðist ekki heldur vita að Neyðarlögin frá 06. október 2008 fjölluðu ekkert um mismunun, heldur um eftirfarandi tvö atriði:

a) Heimild til ríkisins að stofna nýja banka og

b) Forgang krafna frá innistæðueigendum í þrotabú banka.

Úrskurður ESA frá 15. desember fjallaði einmitt um að Neyðarlögin standast alla skoðun. Þótt Per Sanderud léti verða af hótunum sínum mun EFTA-dómstóllinn einungis úrskurða um hugsanlegt brot á EES-samningnum en alls ekki um skaðabótaábyrgð.

7. Eina afleiðing Neyðarlaganna sem ESA notar ennþá til hótana er óbein mismunun, því að um beina mismunun var sannanlega ekki að ræða. Engin skilyrði eru fyrir sektardómi vegna óbeinnar mismununar, einfaldlega vegna þess að ekki verður sýnt fram á að neinn innistæðueigandi hafi orðið fyrir fjártjóni. Tryggingasjóðir Bretlands og Hollands greiddu þessar kröfur enda var það þeirra verkefni.

8. Margrét japlar á þeirri gömlu tuggu að stjórnvöld á Íslandi »hafi ekki séð til þess að hér á landi væri komið á fót innistæðutryggingakerfi sem virkaði«. Evrópusambandið sjálft hefur viðurkennt að tryggingakerfið á Íslandi var með sama hætti og í öðrum EES-ríkjum og í fullkomnu samræmi við Tilskipun 94/19/EB. Eftirlit með þessu hafði ESA í 15 ár, án athugasemda. Sérfræðingar ESB, eins og Tobias Fuchs hafa staðfest þetta í ritrýndum fræðigreinum, án nokkurra athugasemda.

Margrét og aðrir erindrekar ríkisstjórnarinnar reyna að hræða almenning til að samþykkja greiðslur á forsendulausum Icesave-kröfum. Allur málflutningur þessa fólks einkennist af rangfærslum og blekkingum. Gengið er svo langt að misnota opinberar stofnanir til að dreifa villandi fullyrðingum, sem oft er búið að hrekja með traustum rökum. Enginn væntir mikils af Evrópuréttarstofnun HR, en að aðilar eins og Lagastofnun Háskóla Íslands skuli taka þátt í þessum ljóta leik, veldur mörgum Íslendingum sárum vonbrigðum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband